Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • nwt 1. Pétursbréf 1:1-5:14
  • 1. Pétursbréf

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • 1. Pétursbréf
  • Biblían – Nýheimsþýðingin
Biblían – Nýheimsþýðingin
1. Pétursbréf

FYRRA BRÉF PÉTURS

1 Frá Pétri, postula+ Jesú Krists, til þeirra sem búa tímabundið í þessum heimi og eru dreifðir um Pontus, Galatíu, Kappadókíu,+ Asíu og Biþýníu, þeirra sem eru útvaldir 2 samkvæmt því sem Guð faðirinn hafði í huga.+ Hann helgaði ykkur með andanum+ til að þið yrðuð honum hlýðin og hreinsuðust með blóði Jesú Krists.+

Megið þið njóta einstakrar góðvildar Guðs og friðar í enn ríkari mæli.

3 Lofaður sé Guð og faðir Drottins okkar Jesú Krists því að hann lét okkur endurfæðast+ til lifandi vonar+ í mikilli miskunn sinni með því að reisa Jesú Krist upp frá dauðum.+ 4 Hann gaf okkur þar með arfleifð sem hvorki eyðist, spillist né fölnar.+ Hún er geymd á himnum handa ykkur+ 5 sem kraftur Guðs verndar af því að þið trúið. Hann verndar ykkur til að þið hljótið frelsun sem opinberast á síðustu tímum. 6 Þess vegna gleðjist þið mjög þó að þið þurfið að þola ýmsar prófraunir núna um stuttan tíma.+ 7 Það er til þess að trú ykkar, sem hefur verið reynd,+ verði ykkur til lofs og dýrðar og heiðurs þegar Jesús Kristur opinberast.+ Hún er miklu verðmætari en gull sem er reynt* í eldi en getur þó eyðst. 8 Þið hafið aldrei séð Jesú en elskið hann þó. Þið sjáið hann ekki núna en trúið samt á hann og fyllist dýrlegri og ólýsanlegri gleði 9 þegar þið náið markmiði trúar ykkar og frelsist.+

10 Spámennirnir spáðu um þá einstöku góðvild sem var ætluð ykkur og spurðust nákvæmlega fyrir um þessa frelsun og rannsökuðu hana vandlega.+ 11 Þeir könnuðu vel til hvaða tíma eða tíðar andinn innra með þeim benti varðandi Krist+ þegar hann vitnaði fyrir fram um þjáningar hans+ og dýrðina sem kæmi á eftir. 12 Þeim var opinberað að þeir þjónuðu ekki í eigin þágu heldur ykkar. Þeir veittu ykkur það sem þið hafið nú heyrt frá þeim sem boðuðu ykkur fagnaðarboðskapinn með heilögum anda frá himni.+ Inn í þetta þrá jafnvel englarnir að skyggnast.

13 Styrkið því hugi ykkar til verka+ og hugsið skýrt.+ Bindið von ykkar við þá einstöku góðvild sem ykkur verður sýnd við opinberun Jesú Krists. 14 Verið eins og hlýðin börn og látið ekki lengur mótast af þeim löngunum sem þið höfðuð áður vegna vanþekkingar ykkar. 15 Verðið heldur heilög í allri hegðun+ eins og hinn heilagi sem kallaði ykkur 16 því að skrifað er: „Þið skuluð vera heilög því að ég er heilagur.“+

17 Gangið fram í guðsótta+ meðan þið dveljið í þessum heimi fyrst þið ákallið föðurinn sem dæmir án hlutdrægni+ eftir verkum hvers og eins. 18 Þið vitið að þið voruð ekki frelsuð* með forgengilegum hlutum,+ með silfri eða gulli, frá innantómu líferni sem þið tókuð í arf frá forfeðrum* ykkar, 19 heldur með dýrmætu blóði+ Krists sem er eins og blóð lýtalauss og óflekkaðs lambs.+ 20 Vissulega var hann útvalinn fyrir grundvöllun heims+ en hann var opinberaður við lok tímanna ykkar vegna.+ 21 Fyrir atbeina hans trúið þið á Guð+ sem reisti hann upp frá dauðum+ og veitti honum dýrð+ svo að trú ykkar og von beinist að Guði.

22 Með því að hlýða sannleikanum hafið þið hreinsað ykkur og sýnið þess vegna hræsnislausa bróðurást.+ Elskið hvert annað af öllu hjarta+ 23 því að þið eruð endurfædd+ vegna orðs hins lifandi og eilífa Guðs,+ ekki með forgengilegu sáðkorni heldur óforgengilegu.*+ 24 Skrifað stendur: „Allir menn eru eins og gras og allur ljómi þeirra eins og blóm á engi. Grasið visnar og blómið fellur 25 en orð Jehóva* varir að eilífu.“+ Og þetta „orð“ er fagnaðarboðskapurinn sem ykkur var boðaður.+

2 Losið ykkur því við alla illsku+ og blekkingar, hræsni, öfund og allt baktal. 2 Glæðið með ykkur löngun, eins og nýfædd börn,+ í ómengaða* mjólk frá orði Guðs til að þið getið dafnað af henni og frelsast.+ 3 Þið getið það þar sem þið hafið smakkað* að Drottinn er góður.

4 Menn höfnuðu honum,+ lifandi steini sem Guð útvaldi og er honum dýrmætur.+ Þegar þið komið til hans 5 verðið þið sjálf eins og lifandi steinar og gerð að andlegu húsi.+ Þið verðið heilög prestastétt sem færir andlegar fórnir,+ þóknanlegar Guði, fyrir milligöngu Jesú Krists.+ 6 Í Ritningunni segir: „Sjáið! Ég legg útvalinn stein í Síon, dýrmætan undirstöðuhornstein, og enginn sem trúir á hann verður nokkurn tíma fyrir vonbrigðum.“*+

7 Hann er sem sagt dýrmætur ykkur því að þið trúið, en þeim sem trúa ekki er „steinninn sem smiðirnir höfnuðu+ orðinn að aðalhornsteini“*+ 8 og að „ásteytingarsteini og hneykslunarhellu“.+ Þeir hrasa af því að þeir óhlýðnast orðinu. Þetta er endirinn sem bíður þeirra. 9 En þið eruð „útvalinn kynstofn, konungleg prestastétt, heilög þjóð,+ fólk sem tilheyrir Guði+ til að boða vítt og breitt hve stórfenglegur hann er“*+ sem kallaði ykkur út úr myrkrinu til síns unaðslega ljóss.+ 10 Einu sinni voruð þið ekki fólk Guðs en nú eruð þið fólk hans.+ Einu sinni nutuð þið ekki miskunnar en nú hefur ykkur verið miskunnað.+

11 Þið elskuðu, ég hvet ykkur sem útlendinga og dvalargesti í þessum heimi+ til að halda ykkur frá holdlegum girndum+ sem heyja stríð gegn ykkur.+ 12 Hegðið ykkur vel meðal þjóðanna+ þannig að þeir sem saka ykkur um vond verk sjái góð verk ykkar+ og lofi Guð á skoðunardegi hans.

13 Verið undirgefin allri mannlegri skipan*+ vegna Drottins, hvort heldur konungi,+ sem er yfir öðrum, 14 eða landstjórum sem hann sendir til að refsa afbrotamönnum og hrósa þeim sem gera gott.+ 15 Það er vilji Guðs að þið gerið gott og þaggið þannig niður í* óskynsömum mönnum sem tala af fávisku sinni.+ 16 Verið eins og frjálst fólk+ en notið ekki frelsi ykkar til að breiða yfir* ranga breytni+ heldur til að þjóna Guði.+ 17 Virðið alls konar menn,+ elskið allt bræðralagið,+ óttist Guð,+ virðið konunginn.+

18 Þjónar skulu vera undirgefnir húsbændum sínum með tilhlýðilegri virðingu,+ ekki aðeins hinum góðu og sanngjörnu heldur einnig þeim sem er erfitt að gera til geðs. 19 Það er Guði þóknanlegt þegar einhver þolir erfiðleika* og þjáist saklaus vegna þess að hann vill hafa hreina samvisku gagnvart honum.+ 20 Hvað er hrósvert við að halda út ef þið eruð barin fyrir að syndga?+ En sé það vegna góðra verka sem þið þjáist með þolgæði þá er það Guði þóknanlegt.+

21 Til þessa voruð þið reyndar kölluð því að Kristur þjáðist fyrir ykkur+ og lét ykkur eftir fyrirmynd til að þið skylduð feta náið í fótspor hans.+ 22 Hann syndgaði aldrei+ og svik var ekki að finna í munni hans.+ 23 Hann svaraði ekki með fúkyrðum+ þegar hann var smánaður.*+ Hann hótaði ekki þegar hann þjáðist+ heldur fól sjálfan sig á hendur honum sem dæmir+ með réttlæti. 24 Hann bar sjálfur syndir okkar+ á líkama sínum þegar hann var negldur á staurinn*+ til að við gætum dáið gagnvart* syndunum og lifað í réttlæti. Og „vegna sára hans læknuðust þið“.+ 25 Þið voruð eins og villuráfandi sauðir+ en nú hafið þið snúið aftur til hirðis+ og umsjónarmanns sálna* ykkar.

3 Þið eiginkonur, verið sömuleiðis undirgefnar eiginmönnum ykkar+ til að þeir sem hlýða ekki orðinu geti unnist orðalaust vegna hegðunar ykkar+ 2 þegar þeir sjá hreint líferni ykkar+ og djúpa virðingu. 3 Leggið ekki áherslu á ytra skart – fléttur og skartgripi úr gulli+ eða fín föt – 4 heldur hinn hulda mann hjartans búinn skarti kyrrðar og hógværðar+ sem eyðist ekki og er mikils virði í augum Guðs. 5 Hinar heilögu konur til forna sem vonuðu á Guð fegruðu sig þannig og voru undirgefnar eiginmönnum sínum 6 eins og Sara sem hlýddi Abraham og kallaði hann herra.+ Þið eruð orðnar börn hennar ef þið haldið áfram að gera gott og látið ekki óttann ná tökum á ykkur.+

7 Þið eiginmenn skuluð vera skynsamir* í sambúðinni við konur ykkar. Virðið þær+ sem veikara ker, hið kvenlega, þar sem þær erfa með ykkur+ lífið sem er óverðskulduð gjöf Guðs. Þá hindrast bænir ykkar ekki.

8 Að lokum, verið öll samhuga,*+ sýnið samkennd, bróðurást, innilega umhyggju+ og auðmýkt.+ 9 Gjaldið ekki illt fyrir illt+ eða móðgun fyrir móðgun.+ Endurgjaldið heldur með blessun+ því að til þessarar lífsbrautar voruð þið kölluð svo að þið gætuð hlotið blessun.

10 Skrifað stendur: „Sá sem elskar lífið og vill sjá góða daga haldi tungu sinni frá illu+ og vörum sínum frá lygi. 11 Hann snúi baki við hinu illa+ og geri gott,+ þrái frið og keppi eftir honum+ 12 því að augu Jehóva* hvíla á hinum réttlátu og eyru hans hlusta á bænir þeirra,+ en Jehóva* stendur gegn þeim sem gera illt.“+

13 Já, hver getur gert ykkur illt ef þið hafið brennandi áhuga á hinu góða?+ 14 En þótt þið þjáist fyrir að gera rétt eruð þið hamingjusöm.+ Óttist ekki það sem aðrir óttast* og verið ekki kvíðin.+ 15 Helgið Krist sem Drottin í hjörtum ykkar. Verið alltaf tilbúin að verja von ykkar fyrir hverjum þeim sem krefst þess að þið rökstyðjið hana, en gerið það með hógværð+ og djúpri virðingu.+

16 Varðveitið góða samvisku+ til að þeir sem finna að ykkur, hvað sem það nú er, verði sér til skammar+ af því að þið hegðið ykkur vel sem fylgjendur Krists.+ 17 Það er betra að þjást fyrir að gera gott,+ ef Guð leyfir það, en að þjást fyrir að gera það sem er illt.+ 18 Kristur dó fyrir syndir í eitt skipti fyrir öll,+ réttlátur maður fyrir rangláta,+ til að leiða ykkur til Guðs.+ Hann var tekinn af lífi að holdinu til+ en lífgaður sem andi.+ 19 Þannig fór hann og prédikaði fyrir öndunum í fangelsi.+ 20 Þeir höfðu óhlýðnast á sínum tíma þegar Guð beið þolinmóður á dögum Nóa+ og örkin var í smíðum+ en í henni björguðust fáeinir, það er að segja átta sálir,* í vatninu.+

21 Skírnin samsvarar þessu og hún bjargar einnig ykkur núna vegna upprisu Jesú Krists, ekki með því að þvo óhreinindi af líkamanum heldur er hún bæn til Guðs um góða samvisku.+ 22 Kristur er nú við hægri hönd Guðs+ því að hann fór til himna og englar, valdhafar og máttarvöld voru sett undir hann.+

4 Þar sem Kristur þjáðist líkamlega+ skuluð þið herklæðast sama hugarfari* því að sá sem hefur þjáðst líkamlega er hættur að syndga.+ 2 Hann lifir þá ekki tímann sem hann á ólifaðan fyrir mannlegar girndir+ heldur til að gera vilja Guðs.+ 3 Það er nóg að þið hafið hingað til gert vilja þjóðanna+ meðan líferni ykkar einkenndist af blygðunarlausri hegðun,* taumlausum losta, ofdrykkju, svallveislum, drykkjutúrum og fyrirlitlegri* skurðgoðadýrkun.+ 4 Fólk furðar sig á að þið hlaupið ekki með því í sama ólifnaði og siðspillingu og áður, og talar því illa um ykkur.+ 5 En þetta fólk á eftir að gera honum reikningsskil sem er tilbúinn að dæma lifandi og dauða.+ 6 Þess vegna var hinum dauðu+ einnig boðaður fagnaðarboðskapurinn til að þeir gætu lifað andlegu lífi í augum Guðs þó að menn dæmi þá eftir ytra útliti.

7 En endir allra hluta er í nánd. Verið því skynsöm+ og vakandi* fyrir því að biðja.+ 8 Berið umfram allt brennandi kærleika hvert til annars+ því að kærleikur hylur fjölda synda.+ 9 Verið gestrisin hvert við annað án þess að kvarta.+ 10 Notið þá hæfileika* sem þið hafið fengið til að þjóna hvert öðru og verið góðir ráðsmenn einstakrar góðvildar Guðs sem birtist með ýmsum hætti.+ 11 Ef einhver talar þá flytji hann boðskap frá Guði. Ef einhver þjónar þá reiði hann sig á máttinn sem Guð gefur,+ til að Guð sé upphafinn í öllu+ fyrir milligöngu Jesú Krists. Dýrðin og mátturinn sé Guðs um alla eilífð. Amen.

12 Þið elskuðu, furðið ykkur ekki á þeim eldraunum sem þið verðið fyrir+ eins og eitthvað undarlegt hendi ykkur. 13 Gleðjist+ heldur yfir því að eiga þátt í þjáningum Krists.+ Þá getið þið einnig glaðst og fagnað ákaflega þegar dýrð hans opinberast.+ 14 Þið eruð hamingjusöm ef þið eruð smánuð+ vegna nafns Krists því að andi dýrðarinnar, já, andi Guðs, hvílir yfir ykkur.

15 En ekkert ykkar ætti að þjást sem morðingi eða þjófur eða afbrotamaður eða fyrir að blanda sér í annarra manna mál.+ 16 En ef einhver þjáist fyrir að vera kristinn ætti hann ekki að skammast sín fyrir það+ heldur ætti hann að lofa Guð með því að lifa eins og kristinn maður. 17 Tími dómsins er kominn og hann hefst á húsi Guðs.+ En fyrst hann hefst á okkur,+ hvernig fer þá fyrir þeim sem hlýða ekki fagnaðarboðskap Guðs?+ 18 „Og fyrst réttlátur maður bjargast með erfiðismunum, hvað verður þá um hinn óguðlega og syndarann?“+ 19 Þeir sem þjást fyrir að gera vilja Guðs ættu því að fela sjálfa sig á hendur* trúum skapara og halda áfram að gera það sem er gott.+

5 Sem samöldungur ykkar, vottur að þjáningum Krists og þátttakandi í þeirri dýrð sem á eftir að opinberast,+ bið ég því* öldungana á meðal ykkar: 2 Gætið hjarðar Guðs+ sem hann hefur falið ykkur. Verið umsjónarmenn hennar,* ekki tilneyddir heldur af fúsu geði frammi fyrir Guði,+ ekki af gróðafíkn+ heldur af áhuga. 3 Drottnið ekki yfir þeim sem eru arfleifð Guðs+ heldur verið fyrirmynd hjarðarinnar.+ 4 Þegar yfirhirðirinn+ birtist hljótið þið dýrðarsveiginn sem aldrei fölnar.+

5 Á sama hátt skuluð þið ungu menn vera eldri mönnunum* undirgefnir.+ En íklæðist* allir auðmýkt* hver gagnvart öðrum því að Guð stendur gegn hrokafullum en sýnir auðmjúkum einstaka góðvild.+

6 Auðmýkið ykkur því undir máttuga hönd Guðs til að hann upphefji ykkur þegar þar að kemur+ 7 og varpið öllum áhyggjum* ykkar á hann+ því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.+ 8 Hugsið skýrt, verið á verði.+ Andstæðingur ykkar, Djöfullinn, gengur um eins og öskrandi ljón í leit að bráð til að gleypa.+ 9 Standið gegn honum+ staðföst í trúnni og vitið að trúsystkini* ykkar um allan heim verða fyrir sömu þjáningum.+ 10 En eftir að þið hafið þjáðst um stutta stund mun Guð, sem sýnir einstaka góðvild í ríkum mæli, ljúka þjálfun ykkar, hann sem kallaði ykkur til eilífrar dýrðar sinnar+ vegna þess að þið eruð sameinuð Kristi. Hann mun efla ykkur,+ styrkja+ og gera óhagganleg. 11 Hans sé mátturinn að eilífu. Amen.

12 Með hjálp Silvanusar,*+ sem ég álít trúfastan bróður, hef ég skrifað ykkur í fáum orðum til að hvetja ykkur og til að vitna einlæglega um að Guð hafi sannarlega sýnt ykkur einstaka góðvild sína. Verið staðföst í henni. 13 Hún* sem er í Babýlon, og er útvalin eins og þið, biður að heilsa ykkur, og sömuleiðis Markús+ sonur minn. 14 Heilsið hvert öðru með kærleikskossi.

Megið þið öll sem eruð sameinuð Kristi eiga frið.

Eða „hreinsað“.

Orðrétt „endurleyst; keypt laus“.

Eða „tókuð í arf samkvæmt erfðavenjum“.

Það er, sáðkorni sem getur tímgast eða borið ávöxt.

Sjá viðauka A5.

Eða „hreina“.

Eða „reynt“.

Orðrétt „til skammar“.

Orðrétt „efsta hluta hornsins“.

Orðrétt „dyggðir hans“, það er, lofsverða eiginleika hans og verk.

Eða „öllum mannlegum stofnunum“.

Orðrétt „múlbindið þannig“.

Eða „afsaka“.

Eða „sorgir; sársauka“.

Eða „honum var formælt“.

Eða „tréð“.

Eða „sagt skilið við“.

Eða „lífs“.

Eða „sýna tillitssemi; sýna skilning“.

Eða „sammála“.

Sjá viðauka A5.

Eða „andlit Jehóva“. Sjá viðauka A5.

Eða hugsanl. „Óttist ekki hótanir annarra“.

Eða „manns“.

Eða „sama ásetningi; sömu einbeitni“.

Eða „ósvífinni hegðun“. Fleirtala gríska orðsins asel′geia. Sjá orðaskýringar.

Orðrétt „óleyfilegri“.

Eða „árvökur“.

Orðrétt „gjöf“.

Eða „í umsjá“.

Eða „hvet ég því eindregið“.

Eða „Fylgist náið með henni“.

Eða „öldungunum“.

Eða „gyrðist“.

Eða „lítillæti“.

Eða „kvíða“.

Orðrétt „bræðralag“.

Einnig nefndur Sílas.

Fornafnið „hún“ virðist eiga við söfnuð.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila