Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • nwt 1. Tímóteusarbréf 1:1-6:21
  • 1. Tímóteusarbréf

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • 1. Tímóteusarbréf
  • Biblían – Nýheimsþýðingin
Biblían – Nýheimsþýðingin
1. Tímóteusarbréf

FYRRA BRÉFIÐ TIL TÍMÓTEUSAR

1 Frá Páli, postula Krists Jesú að skipun Guðs, frelsara okkar, og Krists Jesú, vonar okkar,+ 2 til Tímóteusar*+ sem er sannur sonur minn+ í trúnni.

Megi Guð faðirinn og Kristur Jesús Drottinn okkar veita þér einstaka góðvild, miskunn og frið.

3 Áður en ég lagði af stað til Makedóníu hvatti ég þig til að vera um kyrrt í Efesus. Eins geri ég núna því að ég vil að þú skipir vissum mönnum að kenna ekki falskenningar 4 og vera ekki uppteknir af lygasögum+ og ættartölum. Slíkt leiðir ekkert gott af sér+ heldur ýtir aðeins undir tilgangslausar vangaveltur og miðlar engu frá Guði sem styrkir trúna. 5 Markmiðið með þessum leiðbeiningum* er að vekja kærleika+ af hreinu hjarta, góðri samvisku og hræsnislausri trú.+ 6 Sumir hafa vikið frá þessu og snúið sér að innantómu þvaðri.+ 7 Þeir vilja vera lagakennarar+ en skilja hvorki það sem þeir segja né það sem þeir standa á fastar en fótunum.

8 Nú vitum við að lögin eru góð ef þeim er rétt* beitt 9 og við skiljum að lög eru ekki sett vegna réttlátra heldur fyrir afbrotamenn+ og uppreisnarseggi, óguðlega og syndara, ótrúa* og guðlastara, föðurmorðingja, móðurmorðingja og manndrápara, 10 þá sem lifa kynferðislega siðlausu lífi,* karla sem stunda kynlíf með körlum,* mannræningja, lygara, ljúgvitni* og þá sem brjóta á einhvern annan hátt gegn hinni heilnæmu* kenningu.+ 11 Þessi kenning samræmist hinum dýrlega fagnaðarboðskap sem hinn hamingjusami Guð hefur trúað mér fyrir.+

12 Ég er þakklátur fyrir að Kristur Jesús Drottinn okkar, sem veitti mér kraft, treysti mér og fól mér þjónustu+ 13 þó að ég hafi áður verið guðlastari, ósvífinn og ofsótt fólk Guðs.+ Mér var miskunnað vegna þess að ég vissi ekki betur og trúði ekki. 14 Einstök góðvild Drottins okkar var mjög ríkuleg og ég fékk trú og naut kærleikans sem býr í Kristi Jesú. 15 Það sem ég segi ykkur nú er áreiðanlegt og það má treysta því fullkomlega: Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa syndara.+ Ég er þeirra verstur.+ 16 En mér var miskunnað til að Kristur Jesús gæti notað mig sem skýrasta dæmið um hve þolinmóður hann er. Ég varð dæmi handa þeim sem taka trú á hann og hljóta eilíft líf.+

17 Konungi eilífðarinnar,+ hinum óforgengilega,*+ ósýnilega+ og eina Guði,+ sé heiður og dýrð um alla eilífð. Amen.

18 Ég gef þér þessar leiðbeiningar,* barnið mitt, Tímóteus, í samræmi við þá spádóma sem voru bornir fram um þig. Þeir hjálpa þér að halda áfram að berjast hinni góðu baráttu.+ 19 Varðveittu líka trúna og góða samvisku+ en henni hafa sumir varpað frá sér og beðið skipbrot á trú sinni. 20 Þeirra á meðal eru Hýmeneus+ og Alexander sem ég hef gefið Satan á vald+ til að ögunin kenni þeim að hætta að guðlasta.

2 Fyrst og fremst hvet ég til að beðið sé fyrir alls konar fólki með því að bera fram áköll, fyrirbænir og þakkarbænir, 2 þar á meðal fyrir konungum og öllum sem eru háttsettir*+ svo að við getum haldið áfram að lifa friðsamlegu og rólegu lífi í hreinni guðrækni og einlægni.+ 3 Þetta er gott í augum Guðs, frelsara okkar,+ og gleður hann, 4 en hann vill að alls konar fólk bjargist+ og fái nákvæma þekkingu á sannleikanum. 5 Til er einn Guð+ og einn milligöngumaður+ milli Guðs og manna,+ maðurinn Kristur Jesús+ 6 en hann gaf sjálfan sig sem samsvarandi lausnargjald fyrir alla*+ – um þetta verður vitnað þegar þar að kemur. 7 Ég var útnefndur boðberi og postuli+ til að vitna um þetta+ – ég segi sannleikann og lýg ekki – og til að fræða þjóðir+ um trú og sannleika.

8 Ég vil að á hverjum stað biðjist karlmenn fyrir í trúfesti með upplyftum höndum,+ án reiði+ og þrætu.+ 9 Og konurnar eiga að prýða sig viðeigandi* klæðnaði, með hógværð og skynsemi,* ekki með íburðarmiklum hárgreiðslum,* gulli, perlum eða rándýrum fötum+ 10 heldur með góðum verkum eins og sæmir konum sem segjast elska Guð.+

11 Kona á að þiggja fræðslu* í hljóði* með fullri undirgefni.+ 12 Ég leyfi ekki að kona kenni eða fari með vald yfir karlmanni heldur á hún að vera hljóð.*+ 13 Adam var myndaður fyrst og síðan Eva.+ 14 Auk þess lét Adam ekki blekkjast en konan lét algerlega blekkjast+ og braut boðorð Guðs. 15 En það er konunni til verndar að eignast börn,+ svo framarlega sem hún* lifir áfram í trú, kærleika og hreinleika og er skynsöm.*+

3 Þessi orð eru sönn: Ef maður sækist eftir að verða umsjónarmaður+ þráir hann göfugt starf. 2 Umsjónarmaður má ekki liggja undir ámæli, hann á að vera einnar konu eiginmaður, hófsamur, skynsamur,*+ reglusamur, gestrisinn,+ hæfur kennari,+ 3 ekki drykkfelldur,+ ekki ofbeldismaður heldur sanngjarn,+ ekki þrætugjarn+ og ekki fégjarn.*+ 4 Hann á að veita heimili sínu góða forystu* og börn hans eiga að vera hlýðin og sýna virðingu.+ 5 (Hvernig getur sá sem kann ekki að veita sínu eigin heimili forystu* annast söfnuð Guðs?) 6 Hann á ekki að vera nýr í trúnni+ svo að hann ofmetnist ekki og hljóti sama dóm og Djöfullinn. 7 Hann á líka að hafa góðan orðstír hjá þeim sem eru fyrir utan+ svo að hann verði ekki fyrir lasti* og lendi í snöru Djöfulsins.

8 Safnaðarþjónar eiga sömuleiðis að vera ábyrgðarfullir, ekki falskir,* ekki drekka of mikið vín og ekki vera sólgnir í efnislegan ávinning.+ 9 Þeir eiga að halda sig við heilagan leyndardóm trúarinnar með hreinni samvisku.+

10 Látið fyrst reyna þá, hvort þeir séu hæfir, og síðan geta þeir verið safnaðarþjónar ef þeir eru ekki bornir neinum sökum.+

11 Konur eiga sömuleiðis að vera ábyrgðarfullar og ekki fara með róg.+ Þær eiga að vera hófsamar og trúar í öllu.+

12 Safnaðarþjónn á að vera einnar konu eiginmaður og veita börnum sínum og heimili góða forystu. 13 Þeir sem inna þjónustu sína vel af hendi ávinna sér gott mannorð og geta talað óhikað um trúna á Krist Jesú.

14 Ég skrifa þér þetta þó að ég vonist til að geta komið til þín fljótlega. 15 En ef mér seinkar vil ég að þú vitir hvernig þú átt að hegða þér meðal heimilismanna Guðs,+ í söfnuði hins lifandi Guðs sem er stoð og stólpi sannleikans. 16 Heilagur leyndardómur guðrækninnar er vissulega mikill: ‚Hann kom fram sem maður,+ var lýstur réttlátur sem andi,+ birtist englum,+ var boðaður meðal þjóða,+ var trúað í heiminum+ og var hrifinn upp í dýrð.‘

4 En hið innblásna orð* segir greinilega að þeir tímar komi að sumir falli frá trúnni því að þeir hlusti á villandi innblásin orð*+ og kenningar illra anda, 2 á hræsnisfulla lygara+ sem eru brennimerktir á samvisku sinni. 3 Þeir banna fólki að giftast+ og skipa því að halda sig frá mat+ sem Guð skapaði til að þeir sem trúa og þekkja sannleikann til hlítar geti neytt hans+ og þakkað Guði. 4 Allt sem Guð hefur skapað er gott+ og engu ætti að hafna+ ef tekið er við því með þakklæti 5 því að það helgast með orði Guðs og bæn.

6 Með því að gefa bræðrum og systrum þessar leiðbeiningar sýnirðu að þú ert góður þjónn Krists Jesú, nærður af orði trúarinnar og góðu kenningunni sem þú hefur fylgt gaumgæfilega.+ 7 En hafnaðu skammarlegum skröksögum+ eins og þeim sem gamlar konur eiga til að segja. Æfðu þig heldur markvisst í að vera guðrækinn. 8 Líkamleg æfing er gagnleg að vissu marki en guðræknin er gagnleg á allan hátt því að hún gefur loforð bæði fyrir þetta líf og lífið sem er fram undan.+ 9 Þessi orð eru sönn og það má treysta þeim fullkomlega. 10 Þess vegna stritum við og leggjum hart að okkur+ því að við höfum bundið von okkar við lifandi Guð sem er frelsari+ alls konar fólks,+ sér í lagi þeirra sem eru trúfastir.

11 Haltu áfram að gefa þessi fyrirmæli og kenna þau. 12 Láttu engan líta niður á þig þótt þú sért ungur. Vertu heldur fyrirmynd hinna trúföstu í tali, hegðun, kærleika, trú og hreinleika. 13 Leggðu þig fram við upplestur+ og við að hvetja* og kenna þar til ég kem. 14 Vanræktu ekki gjöfina sem þér var gefin þegar spáð var um þig og öldungaráðið lagði hendur yfir þig.+ 15 Hugleiddu þetta vel, vertu upptekinn af því svo að framför þín sé öllum augljós. 16 Gættu stöðugt að sjálfum þér og kennslunni.+ Haltu ótrauður áfram að sinna þessu því að þá bjargarðu bæði sjálfum þér og þeim sem hlusta á þig.+

5 Vertu ekki harðorður við roskinn mann+ heldur áminntu hann hlýlega sem föður, yngri menn sem bræður, 2 rosknar konur sem mæður og yngri konur sem systur í öllum hreinleika.

3 Láttu þér annt um* ekkjur sem eru það* í raun.+ 4 En ef ekkja á börn eða barnabörn þá læri þau fyrst og fremst að sýna guðrækni í sinni eigin fjölskyldu+ og endurgjalda foreldrum sínum og öfum og ömmum það sem þeim ber+ því að það er þóknanlegt í augum Guðs.+ 5 Kona sem er ekkja í raun og veru og er allslaus hefur sett von sína á Guð+ og ákallar hann og biður til hans nótt og dag.+ 6 En sú sem hugsar bara um að fullnægja löngunum sínum er dauð þótt hún sé lifandi. 7 Haltu áfram að gefa þessar leiðbeiningar* til að ekki sé hægt að finna að neinum. 8 Ef einhver sér ekki fyrir sínum nánustu, sérstaklega fjölskyldu sinni, hefur hann afneitað trúnni og er verri en vantrúaður.+

9 Ekki ætti að setja ekkju á skrá nema hún sé orðin sextug, hafi verið manni sínum trú* 10 og sé þekkt fyrir góð verk+ eins og að ala upp börn,+ vera gestrisin,+ þvo fætur heilagra+ og hjálpa bágstöddum.+ Hún á að hafa lagt sig fram um að gera gott á öllum sviðum.

11 En settu ekki ungar ekkjur á skrá því að þegar kynferðislegar langanir þeirra komast upp á milli þeirra og Krists vilja þær giftast. 12 Og þær kalla yfir sig dóm því að þær hafa brotið sitt fyrra loforð.* 13 Þær temja sér jafnframt iðjuleysi og rápa hús úr húsi, ekki aðeins iðjulausar heldur slúðra þær, blanda sér í málefni annarra+ og tala um það sem þær ættu ekki að tala um. 14 Þess vegna finnst mér æskilegt að ungar ekkjur giftist,+ eignist börn+ og annist heimili svo að andstæðingurinn fái ekkert tækifæri til að setja út á þær. 15 Sumar eru nú þegar farnar af réttri braut og fylgja Satan. 16 Ef trúuð kona á skyldmenni sem eru ekkjur á hún að hjálpa þeim, til að íþyngja ekki söfnuðinum. Þá getur söfnuðurinn hjálpað þeim sem eru ekkjur* í raun og veru.+

17 Öldungar sem veita góða forstöðu+ ættu að vera í tvöföldum metum,+ sérstaklega þeir sem leggja hart að sér við að fræða og kenna+ 18 því að ritningarstaðurinn segir: „Þú skalt ekki múlbinda naut þegar það þreskir korn,“+ og: „Verkamaðurinn er verður launa sinna.“+ 19 Taktu ekki ásökun á hendur öldungi gilda nema tvö eða þrjú vitni staðfesti hana.+ 20 Áminntu+ í viðurvist allra þá sem syndga,+ hinum til viðvörunar.* 21 Ég legg ríkt á við þig, frammi fyrir Guði og Kristi Jesú og hinum útvöldu englum, að fylgja þessum fyrirmælum án allra fordóma og hlutdrægni.+

22 Flýttu þér ekki um of að leggja hendur yfir nokkurn mann*+ og eigðu ekki þátt í syndum annarra. Varðveittu sjálfan þig hreinan.

23 Drekktu ekki lengur vatn* heldur svolítið af víni vegna magans og tíðra veikinda þinna.

24 Syndir sumra eru á allra vitorði og leiða til dóms þegar í stað, en hjá öðrum koma þær í ljós síðar.+ 25 Eins eru góðu verkin á allra vitorði+ og þau sem eru það ekki verða ekki falin.+

6 Þeir sem eru þrælar* skulu sýna eigendum sínum fulla virðingu+ til að nafni Guðs og kenningu verði aldrei lastmælt.+ 2 Og þrælar sem eiga trúaða húsbændur eiga ekki að sýna þeim virðingarleysi bara vegna þess að þeir eru bræður. Þeir ættu að vera enn fúsari að þjóna þeim því að það eru elskaðir trúbræður sem njóta góðs af þjónustu þeirra.

Haltu áfram að kenna þetta og áminna um það. 3 Ef einhver kennir eitthvað annað og er ekki sammála hinum heilnæmu* leiðbeiningum+ sem koma frá Drottni okkar Jesú Kristi né þeirri kenningu sem sýnir hvernig við eigum að þjóna Guði+ 4 þá hefur hann ofmetnast og skilur ekki neitt.+ Hann er heltekinn af* þrætum og deilum um orð.+ Þetta ýtir undir öfund, erjur, róg,* tortryggni 5 og stöðugar deilur um smámuni, deilur manna sem hafa spillt hugarfar+ og skilja ekki lengur sannleikann. Þeir líta á guðræknina sem leið til að hagnast.+ 6 Og auðvitað er mikill ávinningur að því að vera guðrækinn+ ef maður er líka nægjusamur. 7 Við tókum ekki neitt með okkur inn í heiminn og getum ekki heldur tekið neitt með okkur þaðan.+ 8 Ef við höfum mat og fatnað* skulum við því láta okkur það nægja.+

9 En þeir sem ætla sér að verða ríkir falla fyrir freistingum, lenda í snöru+ og láta undan alls kyns heimskulegum og skaðlegum girndum sem steypa mönnum í tortímingu og glötun.+ 10 Ást á peningum er rót alls konar ógæfu. Sökum hennar hafa sumir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér* miklum þjáningum.+

11 En þú, þjónn Guðs, forðastu þetta. Leggðu heldur rækt við réttlæti, guðrækni, trú, kærleika, þolgæði og mildi.+ 12 Berstu hinni góðu baráttu trúarinnar. Haltu fast í vonina um eilífa lífið sem þú varst kallaður til og þú vitnaðir um opinberlega í viðurvist margra votta.

13 Ég segi þér frammi fyrir Guði, sem viðheldur öllu lífi, og Kristi Jesú, sem vitnaði með prýði frammi fyrir Pontíusi Pílatusi,+ 14 að halda boðorðið lýtalaust og óaðfinnanlega þar til Drottinn okkar Jesús Kristur birtist.+ 15 Hann, hinn hamingjusami og eini valdhafi, birtist þegar tíminn er kominn. Hann er konungur konunga og Drottinn drottna.+ 16 Hann einn er ódauðlegur+ og býr í ljósi sem enginn getur nálgast,+ og enginn maður hefur séð hann né getur séð hann.+ Honum sé heiður og eilífur máttur. Amen.

17 Segðu* þeim sem eru ríkir í núverandi heimsskipan* að vera ekki hrokafullir* og binda ekki von sína við hverfulan auð+ heldur við Guð sem sér okkur ríkulega fyrir öllu sem við njótum.+ 18 Segðu þeim að gera gott, vera ríkir að góðum verkum, vera örlátir og fúsir til að gefa öðrum af því sem þeir eiga.+ 19 Þannig safna þeir sér öruggum sjóði sem er góð undirstaða fyrir framtíðina+ svo að þeir geti haldið fast í vonina um hið sanna líf.+

20 Tímóteus, gættu þess sem þér var trúað fyrir.+ Hlustaðu ekki á innantómar orðræður sem gera lítið úr því sem er heilagt né á mótsagnir hinnar rangnefndu „þekkingar“.+ 21 Sumir hafa farið að flíka slíkri þekkingu og snúið baki við trúnni.

Megi einstök góðvild Guðs vera með ykkur.

Sem þýðir ‚sá sem heiðrar Guð‘.

Eða „þessari fyrirskipun“.

Orðrétt „löglega“.

Eða „þá sem sýna ekki tryggan kærleika“.

Sjá orðaskýringar, „kynferðislegt siðleysi“.

Orðrétt „karla sem liggja með körlum“.

Eða „þá sem sverja rangan eið“.

Eða „gagnlegu“.

Sjá orðaskýringar.

Eða „þessa fyrirskipun“.

Eða „í valdastöðu“.

Eða „alls konar fólk“.

Eða „sómasamlegum“.

Eða „góðri dómgreind“.

Eða „hárfléttum“.

Það er, í söfnuðinum.

Eða „með kyrrð“.

Eða „kyrrlát“.

Orðrétt „þær“.

Eða „sýnir góða dómgreind“.

Eða „hafa góða dómgreind“.

Orðrétt „ekki elska peninga“.

Eða „hafa góða umsjón með heimili sínu“.

Eða „hafa umsjón með sínu eigin heimili“.

Eða „til skammar“.

Eða „ekki tala tveim tungum“.

Orðrétt „En andinn“.

Orðrétt „villandi anda“.

Eða „áminna“.

Orðrétt „Heiðraðu“.

Eða „eru hjálparþurfi“, það er, eiga engan að til að sjá fyrir sér.

Eða „þessi fyrirmæli“.

Orðrétt „verið eins manns kona“.

Orðrétt „yfirgefið sína fyrri trú“.

Eða „eru hjálparþurfi“, það er, eiga engan að til að sjá fyrir sér.

Orðrétt „til að hinir óttist“.

Það er, útnefndu engan mann í fljótræði.

Eða „ekki bara vatn“.

Orðrétt „þrælar undir oki“.

Eða „gagnlegu“.

Eða „hefur sjúklegan áhuga á“.

Eða „lastmæli“.

Eða hugsanl. „húsaskjól“. Orðrétt „það sem skýlir“.

Eða „stungið sjálfa sig út um allt með“.

Eða „Skipaðu“.

Eða „á núverandi öld“. Sjá orðaskýringar.

Eða „miklir með sig“.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila