Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • nwt 1. Jóhannesarbréf 1:1-5:21
  • 1. Jóhannesarbréf

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • 1. Jóhannesarbréf
  • Biblían – Nýheimsþýðingin
Biblían – Nýheimsþýðingin
1. Jóhannesarbréf

FYRSTA BRÉF JÓHANNESAR

1 Við segjum frá því sem var frá upphafi, því sem við höfum heyrt og séð með eigin augum, því sem við höfum virt fyrir okkur og snert með höndum okkar, það er að segja frá orði lífsins.+ 2 (Já, lífið var opinberað og við höfum séð og berum vitni+ og segjum ykkur frá eilífa lífinu+ sem var hjá föðurnum og var opinberað okkur.) 3 Við segjum ykkur frá því sem við höfum séð og heyrt+ til að þið getið átt samneyti* við okkur eins og við eigum samneyti við föðurinn og son hans, Jesú Krist.+ 4 Við skrifum þetta til að gleði okkar verði fullkomin.

5 Þetta er boðskapurinn sem við höfum heyrt frá honum og flytjum ykkur: Guð er ljós+ og í honum er alls ekkert myrkur. 6 Ef við segjum: „Við eigum samneyti við hann,“ en göngum samt áfram í myrkrinu ljúgum við og lifum ekki í samræmi við sannleikann.+ 7 En ef við göngum í ljósinu eins og hann er sjálfur í ljósinu eigum við samneyti hvert við annað, og blóð Jesú sonar hans hreinsar okkur af allri synd.+

8 Ef við segjum: „Við erum syndlaus,“ blekkjum við sjálf okkur+ og sannleikurinn býr ekki í okkur. 9 Ef við játum syndir okkar er hann trúr og réttlátur og fyrirgefur okkur syndirnar og hreinsar okkur af öllu ranglæti.+ 10 Ef við segjum: „Við höfum ekki syndgað,“ gerum við hann að lygara og orð hans býr ekki í okkur.

2 Börnin mín, ég skrifa ykkur þetta til að þið syndgið* ekki. En ef einhver drýgir synd höfum við hjálpara* hjá föðurnum, Jesú Krist+ sem er réttlátur.+ 2 Hann er friðþægingarfórn*+ fyrir syndir okkar+ en ekki aðeins fyrir syndir okkar heldur einnig syndir alls heimsins.+ 3 Og okkur er ljóst að við höfum kynnst honum ef við höldum áfram að fylgja boðorðum hans. 4 Sá sem segir: „Ég hef kynnst honum,“ en heldur samt ekki boðorð hans er lygari og sannleikurinn býr ekki í honum. 5 En hjá þeim sem heldur orð hans hefur kærleikurinn til Guðs fullkomnast.+ Þannig vitum við að við erum sameinuð honum.+ 6 Sá sem segist vera sameinaður honum verður sjálfur að lifa eins og hann lifði.*+

7 Þið elskuðu, það er ekki nýtt boðorð sem ég skrifa ykkur heldur er það gamalt boðorð sem þið hafið haft frá upphafi.+ Þetta gamla boðorð er orðið sem þið heyrðuð. 8 Engu að síður er það nýtt boðorð sem ég skrifa ykkur og það birtist bæði hjá honum og ykkur því að myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína.+

9 Sá sem segist vera í ljósinu en hatar+ bróður sinn er enn í myrkrinu.+ 10 Sá sem elskar bróður sinn er stöðugur í ljósinu+ og í honum er ekkert sem getur leitt hann* til falls. 11 En sá sem hatar bróður sinn er í myrkrinu og gengur í myrkrinu.+ Hann veit ekki hvert hann fer+ því að myrkrið hefur blindað hann.

12 Ég skrifa ykkur, börnin mín, þar sem þið hafið fengið syndir ykkar fyrirgefnar vegna nafns hans.+ 13 Ég skrifa ykkur, feður, því að þið hafið kynnst honum sem hefur verið til frá upphafi. Ég skrifa ykkur, ungu menn, því að þið hafið sigrað hinn vonda.+ Ég skrifa ykkur, börn, því að þið hafið kynnst föðurnum.+ 14 Ég skrifa ykkur, feður, því að þið hafið kynnst honum sem hefur verið til frá upphafi. Ég skrifa ykkur, ungu menn, því að þið eruð sterkir,+ orð Guðs er stöðugt í ykkur+ og þið hafið sigrað hinn vonda.+

15 Elskið hvorki heiminn né það sem er í heiminum.+ Sá sem elskar heiminn elskar ekki föðurinn+ 16 því að allt sem er í heiminum – það sem maðurinn* girnist,+ það sem augun girnast+ og það að flíka* eigum sínum – kemur frá heiminum en ekki frá föðurnum. 17 Og heimurinn líður undir lok ásamt girndum sínum+ en sá sem gerir vilja Guðs lifir að eilífu.+

18 Börnin mín, þetta er síðasta stund. Þið hafið heyrt að andkristur eigi að koma+ og nú eru margir andkristar komnir fram.+ Þess vegna vitum við að það er hin síðasta stund. 19 Þeir voru með okkur en yfirgáfu okkur þar sem þeir áttu ekki samleið með okkur.*+ Ef þeir hefðu átt samleið með okkur hefðu þeir verið hjá okkur áfram. En þeir yfirgáfu okkur svo að augljóst yrði að það eiga ekki allir samleið með okkur.+ 20 Hinn heilagi hefur smurt ykkur+ og þið búið öll yfir þekkingu. 21 Ég skrifa ykkur, ekki af því að þið þekkið ekki sannleikann+ heldur af því að þið þekkið hann og engin lygi kemur frá sannleikanum.+

22 Hver er lygari ef ekki sá sem neitar að Jesús sé Kristur?+ Sá er andkristur+ sem afneitar föðurnum og syninum. 23 Enginn sem afneitar syninum hefur velþóknun föðurins.+ En sá sem viðurkennir soninn+ hefur velþóknun föðurins.+ 24 Þið skuluð halda ykkur við það sem þið hafið heyrt frá upphafi.+ Ef þið haldið ykkur við það sem þið heyrðuð frá upphafi verðið þið líka sameinuð syninum og föðurnum áfram. 25 Og það sem hann hefur lofað okkur er eilíft líf.+

26 Ég skrifa ykkur þetta um þá sem reyna að afvegaleiða ykkur. 27 Þið hafið fengið andasmurningu frá honum.+ Hún er stöðug í ykkur og þið hafið ekki þörf á að neinn kenni ykkur. Smurningin frá honum kennir ykkur allt.+ Hún er sannleikur og engin lygi. Verið sameinuð honum+ eins og hún hefur kennt ykkur. 28 Og nú, börnin mín, verið sameinuð honum svo að við getum talað djarfmannlega+ þegar hann opinberast og hörfum ekki frá honum með skömm við nærveru hans. 29 Þar sem þið vitið að hann er réttlátur vitið þið líka að allir sem gera hið rétta eru fæddir af honum.+

3 Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur sýnt okkur+ – við erum kölluð börn Guðs!+ Og það erum við. En heimurinn þekkir okkur ekki+ vegna þess að hann hefur ekki kynnst honum.+ 2 Þið elskuðu, nú erum við börn Guðs+ en það hefur enn ekki verið opinberað hvað við verðum.+ Við vitum að þegar hann opinberast verðum við eins og hann því að við munum sjá hann eins og hann er. 3 Og allir sem hafa þessa von til hans hreinsa sjálfa sig+ eins og hann er hreinn.

4 Þeir sem halda áfram að syndga brjóta lög því að syndin er lögbrot. 5 Þið vitið líka að Jesús birtist til að taka burt syndir okkar+ og í honum er engin synd. 6 Enginn sem er sameinaður honum heldur áfram að syndga.+ Sá sem heldur áfram að syndga hefur hvorki séð hann né kynnst honum. 7 Börnin mín, látið engan afvegaleiða ykkur. Sá sem gerir það sem er rétt er réttlátur eins og Jesús er réttlátur. 8 Sá sem heldur áfram að syndga er undir áhrifum Djöfulsins þar sem Djöfullinn hefur syndgað frá upphafi.*+ Sonur Guðs birtist til að brjóta niður* verk Djöfulsins.+

9 Enginn sem er fæddur af Guði heldur áfram að syndga+ því að það sem Guð hefur sáð* varir í honum. Hann getur ekki haldið áfram að syndga þar sem hann er fæddur af Guði.+ 10 Börn Guðs og börn Djöfulsins þekkjast á þessu: Sá sem gerir ekki hið rétta er ekki Guðs megin og hið sama er að segja um þann sem elskar ekki bróður sinn.+ 11 Þetta er boðskapurinn sem þið hafið heyrt frá upphafi: Við eigum að elska hvert annað+ 12 en ekki vera eins og Kain sem var undir áhrifum hins vonda og myrti bróður sinn.+ Og hvers vegna myrti hann hann? Vegna þess að hans eigin verk voru vond+ en verk bróður hans réttlát.+

13 Látið það ekki koma ykkur á óvart, bræður og systur, að heimurinn skuli hata ykkur.+ 14 Við vitum að við höfum stigið yfir frá dauðanum til lífsins+ því að við elskum trúsystkini okkar.+ Sá sem elskar ekki er áfram í dauðanum.+ 15 Sá sem hatar bróður sinn er morðingi*+ og þið vitið að enginn morðingi hefur í sér eilíft líf.+ 16 Við þekkjum kærleikann af því að hann gaf líf sitt* fyrir okkur,+ og okkur er skylt að gefa líf* okkar fyrir bræður okkar og systur.+ 17 En ef einhver hefur nóg af efnislegum gæðum og sér bróður sinn líða skort en vill ekki sýna honum umhyggju, hvernig getur hann þá sagst elska Guð?+ 18 Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum+ heldur í verki+ og sannleika.+

19 Þannig vitum við að við erum sannleikans megin og getum róað* hjörtu okkar frammi fyrir Guði, 20 hvað sem hjartað kann að dæma okkur fyrir, því að Guð er meiri en hjarta okkar og veit allt.+ 21 Þið elskuðu, ef hjartað dæmir okkur ekki getum við talað óhikað við Guð+ 22 og við fáum allt sem við biðjum hann um+ því að við höldum boðorð hans og gerum það sem honum líkar. 23 Og boðorð hans er að við eigum að trúa á nafn sonar hans, Jesú Krists,+ og elska hvert annað+ eins og hann gaf okkur fyrirmæli um. 24 Sá sem heldur boðorð Guðs er auk þess sameinaður Guði og Guð sameinaður honum.+ Og vegna andans sem hann gaf okkur vitum við að hann er sameinaður okkur.+

4 Þið elskuðu, trúið ekki hverju innblásnu orði*+ heldur prófið orðin* til að kanna hvort þau séu frá Guði+ því að margir falsspámenn hafa komið fram í heiminum.+

2 Þannig vitið þið að innblásin orð eru frá Guði: Öll innblásin orð sem viðurkenna að Jesús Kristur hafi komið fram sem maður* eru frá Guði.+ 3 En engin innblásin orð eru frá Guði ef þau viðurkenna ekki Jesú+ heldur eru þau innblásin orð andkrists. Þið heyrðuð að þau ættu að koma+ og þau eru nú þegar komin fram í heiminum.+

4 Þið eruð Guðs megin, börnin mín, og þið hafið sigrað falsspámennina+ því að sá sem er sameinaður ykkur+ er meiri en sá sem er sameinaður heiminum.+ 5 Þeir eru undir áhrifum heimsins.+ Þess vegna tala þeir um það sem kemur frá heiminum og heimurinn hlustar á þá.+ 6 Við erum Guðs megin. Sá sem kynnist Guði hlustar á okkur+ en sá sem er ekki Guðs megin hlustar ekki á okkur.+ Þannig þekkjum við í sundur sönn innblásin orð og fölsk.+

7 Þið elskuðu, höldum áfram að elska hvert annað+ því að kærleikurinn er frá Guði og allir sem elska eru fæddir af Guði og þekkja Guð.+ 8 Sá sem elskar ekki hefur ekki kynnst Guði því að Guð er kærleikur.+ 9 Kærleikur Guðs til okkar birtist í því að hann sendi einkason sinn+ í heiminn til að við fengjum líf fyrir atbeina hans.+ 10 Kærleikurinn er ekki fólginn í því að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn sem friðþægingarfórn*+ fyrir syndir okkar.+

11 Þið elskuðu, fyrst Guð elskaði okkur þannig þá er okkur skylt að elska hvert annað.+ 12 Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð.+ Ef við höldum áfram að elska hvert annað er Guð í okkur og kærleikur hans fullkomnast í okkur.+ 13 Við vitum að við erum sameinuð honum og hann okkur þar sem hann hefur gefið okkur anda sinn. 14 Auk þess höfum við séð með eigin augum að faðirinn hefur sent son sinn sem frelsara heimsins+ og við vitnum um það. 15 Sá sem viðurkennir að Jesús sé sonur Guðs+ er sameinaður Guði og Guð sameinaður honum.+ 16 Við höfum kynnst kærleikanum sem Guð ber til okkar og trúum að hann elski okkur.+

Guð er kærleikur+ og sá sem er staðfastur í kærleikanum er sameinaður Guði og Guð sameinaður honum.+ 17 Þannig hefur kærleikurinn fullkomnast í okkur til að við getum talað óhikað*+ á dómsdeginum því að í þessum heimi erum við eins og Kristur er. 18 Í kærleikanum er enginn ótti.+ Fullkominn kærleikur rekur út óttann því að óttinn hamlar okkur. Sá sem óttast hefur ekki fullkomnast í kærleikanum.+ 19 Við elskum því að hann elskaði okkur að fyrra bragði.+

20 Ef einhver segir: „Ég elska Guð,“ en hatar samt bróður sinn er hann lygari.+ Sá sem elskar ekki bróður sinn,+ sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð sem hann hefur ekki séð.+ 21 Hann hefur gefið okkur þetta boðorð: Sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn.+

5 Allir sem trúa að Jesús sé Kristur eru fæddir af Guði+ og allir sem elska föðurinn elska þann sem er fæddur af honum. 2 Við vitum að við elskum börn Guðs+ ef við elskum Guð og förum eftir boðorðum hans. 3 Að elska Guð felur í sér að halda boðorð hans+ og boðorð hans eru ekki þung+ 4 því að allir* sem eru fæddir af Guði sigra heiminn.+ Og það er trú okkar sem hefur gert okkur kleift að sigra heiminn.+

5 Hver getur sigrað heiminn?+ Er það ekki sá sem trúir að Jesús sé sonur Guðs?+ 6 Jesús Kristur er sá sem kom með vatni og blóði, ekki aðeins með vatninu+ heldur með vatninu og blóðinu.+ Andinn vitnar+ um það því að andinn er sannleikurinn. 7 Þeir eru sem sagt þrír sem vitna: 8 andinn,+ vatnið+ og blóðið,+ og þeim þrem ber saman.

9 Við tökum vitnisburð manna gildan en vitnisburður Guðs vegur þyngra. Og Guð hefur sjálfur vitnað um son sinn. 10 Sá sem trúir á son Guðs hefur vitnisburðinn innra með sér. Sá sem trúir ekki á Guð hefur gert hann að lygara+ því að hann trúir ekki þeim vitnisburði sem Guð hefur gefið um son sinn. 11 Vitnisburðurinn er sá að Guð gaf okkur eilíft líf+ og þetta líf er í syni hans.+ 12 Sá sem viðurkennir soninn hlýtur eilíft líf. Sá sem viðurkennir ekki son Guðs hlýtur ekki eilíft líf.+

13 Ég skrifa ykkur þetta til að þið vitið að þið hljótið eilíft líf,+ þið sem trúið á nafn sonar Guðs.+ 14 Og við berum það traust til Guðs+ að hann heyri* okkur, hvað sem við biðjum um samkvæmt vilja hans.+ 15 Fyrst við vitum að hann heyrir okkur, sama hvað við biðjum um, vitum við líka að við fáum það sem við höfum beðið hann um.+

16 Ef einhver sér bróður sinn drýgja synd sem leiðir ekki til dauða skal hann biðja og Guð veitir bróðurnum líf,+ það er að segja þeim sem drýgir ekki synd sem leiðir til dauða. En til er synd sem leiðir til dauða.+ Ég er ekki að segja honum að biðja fyrir þess konar synd. 17 Allt ranglæti er synd+ en til er synd sem leiðir ekki til dauða.

18 Við vitum að enginn sem er fæddur af Guði heldur áfram að syndga. Sonur Guðs* gætir hans og hinn vondi getur ekki gert honum neitt.*+ 19 Við vitum að við erum Guðs megin en allur heimurinn er á valdi hins vonda.+ 20 Við vitum að sonur Guðs kom+ og veitti okkur skilning* til að við gætum kynnst hinum sanna Guði. Við erum sameinuð honum vegna sonar hans, Jesú Krists.+ Þetta er hinn sanni Guð og uppspretta eilífs lífs.+ 21 Börnin mín, varið ykkur á skurðgoðum.+

Eða „haft samfélag“.

Gríska sögnin lýsir stökum atburði eða verknaði.

Eða „málsvara“.

Eða „sáttarfórn; leið til friðþægingar“.

Orðrétt „ganga eins og hann gekk“.

Eða hugsanl. „aðra“.

Orðrétt „holdið“.

Eða „monta sig af“.

Eða „tilheyrðu okkur ekki“.

Eða „síðan hann hófst handa“.

Eða „afmá“.

Það er, sáðkorn sem getur borið ávöxt.

Eða „manndrápari“.

Eða „sál sína“.

Eða „sál“.

Eða „sannfært“.

Orðrétt „hverjum anda“.

Orðrétt „andana“.

Orðrétt „í holdi“.

Eða „sáttarfórn; leið til friðþægingar“.

Eða „verið örugg; verið hughraust“.

Orðrétt „allt“.

Eða „við getum talað óhikað við hann þar sem hann heyrir“.

Orðrétt „Sá sem er fæddur af Guði“.

Eða „nær ekki taki á honum“.

Orðrétt „greind; vitsmuni“.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila