Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • nwt Hebreabréfið 1:1-13:25
  • Hebreabréfið

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hebreabréfið
  • Biblían – Nýheimsþýðingin
Biblían – Nýheimsþýðingin
Hebreabréfið

BRÉFIÐ TIL HEBREA

1 Áður fyrr talaði Guð oft og á marga vegu við forfeður okkar fyrir milligöngu spámannanna.+ 2 Núna, í lok þessara daga, hefur hann talað til okkar fyrir milligöngu sonar+ sem hann hefur skipað erfingja alls+ og hann notaði til að gera allt á himni og jörð.*+ 3 Hann er endurskin dýrðar Guðs+ og nákvæm eftirmynd hans,+ og hann viðheldur öllu með máttugu orði hans.* Og eftir að hafa hreinsað okkur af syndum okkar+ settist hann við hægri hönd hátignarinnar í hæðum.+ 4 Hann er því orðinn englunum æðri+ þar sem hann hefur fengið* háleitara nafn en þeir.+

5 Við hvern af englunum hefur Guð nokkurn tíma sagt: „Þú ert sonur minn, í dag varð ég faðir þinn“?+ Eða: „Ég verð faðir hans og hann verður sonur minn“?+ 6 En þegar hann sendir frumburð sinn+ aftur til heimsbyggðarinnar segir hann: „Allir englar Guðs veiti honum lotningu.“*

7 Um englana segir hann: „Hann gerir engla sína að voldugum öndum og þjóna sína+ að eldslogum.“+ 8 En um soninn segir hann: „Guð er hásæti þitt+ um alla eilífð og veldissproti ríkis þíns er veldissproti réttlætisins. 9 Þú elskaðir réttlæti og hataðir lögleysi. Þess vegna hefur Guð, Guð þinn, smurt þig+ gleðinnar olíu umfram félaga þína.“+ 10 Og: „Í upphafi, Drottinn, lagðir þú grundvöll jarðar og himnarnir eru verk handa þinna. 11 Himinn og jörð farast en þú munt standa. Þau slitna eins og flík 12 og þú vefur þau saman eins og skikkju, eins og flík, og þeim verður skipt út. En þú ert hinn sami og ár þín taka aldrei enda.“+

13 En við hvern af englunum hefur hann nokkurn tíma sagt: „Sittu mér til hægri handar þar til ég legg óvini þína eins og skemil undir fætur þína“?+ 14 Eru þeir ekki allir andar sem veita heilaga þjónustu,+ sendir út til að þjóna þeim sem eiga að bjargast?

2 Þess vegna þurfum við að gefa sérstakan gaum að því sem við höfum heyrt+ svo að við berumst aldrei af leið.+ 2 Fyrst orðið sem englar fluttu+ reyndist áreiðanlegt og refsað var fyrir hvert afbrot og óhlýðni í samræmi við réttlætið,+ 3 hvernig getum við þá komist undan ef við erum kærulaus um svo stórkostlega björgun?+ Drottinn okkar boðaði hana fyrst+ og við fengum hana staðfesta hjá þeim sem hlustuðu á hann. 4 Og Guð vitnaði sjálfur með þeim með táknum, undrum* og ýmsum máttarverkum+ og með því að útbýta heilögum anda að vild sinni.+

5 Hann fól ekki englum að ráða yfir hinum komandi heimi*+ sem við tölum um. 6 En á einum stað segir vottur nokkur: „Hvað er maður að þú minnist hans eða mannssonur að þú takir hann að þér?+ 7 Þú gerðir hann ögn lægri englunum. Þú krýndir hann dýrð og heiðri og settir hann yfir verk handa þinna. 8 Þú lagðir allt undir fætur hans.“+ Með því að leggja allt undir hann+ er ekkert undanskilið sem Guð lagði ekki undir hann.+ Við sjáum þó ekki enn að allt sé lagt undir hann.+ 9 En við sjáum að Jesús, sem var gerður ögn lægri englunum,+ er nú krýndur dýrð og heiðri vegna þess að hann þjáðist og dó.+ Svo er einstakri góðvild Guðs fyrir að þakka að hann dó fyrir alla.+

10 Allt sem er til er Guði til dýrðar og er honum að þakka. Þegar hann ákvað að leiða marga syni til dýrðar+ var viðeigandi að hann fullkomnaði með þjáningum+ höfðingjann sem frelsar þá.+ 11 Sá sem helgar og þeir sem eru helgaðir+ eiga allir sama föður+ og þess vegna skammast hann sín ekki fyrir að kalla þá bræður+ 12 heldur segir: „Ég kunngeri bræðrum mínum nafn þitt, ég syng þér lof í söfnuðinum.“+ 13 Annars staðar segir: „Ég legg traust mitt á hann.“+ Og: „Sjáið! Ég og börnin sem Jehóva* gaf mér.“+

14 Fyrst „börnin“ eru af holdi og blóði varð hann líka hold og blóð+ svo að hann gæti með dauða sínum gert að engu þann sem hefur mátt til að valda dauða,+ það er að segja Djöfulinn,+ 15 og frelsað alla sem hafa verið í þrælkun alla sína ævi af því að þeir óttuðust dauðann.+ 16 Hann kom ekki til að aðstoða engla heldur afkomendur Abrahams.+ 17 Þar af leiðandi þurfti hann að verða eins og „bræður“ sínir að öllu leyti+ til að geta orðið miskunnsamur og trúr æðstiprestur í þjónustu Guðs og fært friðþægingarfórn*+ fyrir syndir fólksins.+ 18 Fyrst hann þjáðist sjálfur þegar hann var reyndur+ er hann fær um að hjálpa þeim sem verða fyrir prófraunum.+

3 Heilögu bræður og systur, þið sem hafið fengið himneska köllun,*+ hugsið því um Jesú – postulann og æðstaprestinn sem við viðurkennum.*+ 2 Hann var trúr þeim sem skipaði hann,+ rétt eins og Móse var trúr í öllu húsi Guðs.+ 3 En Jesús verðskuldar meiri dýrð+ en Móse eins og sá sem byggir hús hlýtur meiri heiður en húsið sjálft. 4 Öll hús eru auðvitað byggð af einhverjum en Guð er sá sem hefur gert allt. 5 Nú var Móse trúr sem þjónn í öllu húsi Guðs og þjónusta hans vitnaði um það sem átti að opinbera síðar, 6 en Kristur var trúr sem sonur+ með umsjón yfir húsi Guðs. Við erum hús hans+ ef við höldum áfram að tala óhikað og varðveitum allt til enda vonina sem við erum svo stolt af.

7 Þess vegna segir heilagur andi:+ „Ef þið heyrið rödd mína í dag 8 þá forherðið ekki hjörtu ykkar eins og þegar þið reittuð mig til reiði, eins og daginn þegar þið ögruðuð mér í óbyggðunum+ 9 þar sem forfeður ykkar reyndu mig þótt þeir fengju að sjá allt sem ég gerði í 40 ár.+ 10 Þess vegna fékk ég óbeit á þeirri kynslóð og sagði: ‚Þeir fara alltaf afvega í hjörtum sínum og hafa ekki kynnst vegum mínum.‘ 11 Ég sór því í reiði minni: ‚Þeir fá ekki að ganga inn til hvíldar minnar.‘“+

12 Gætið þess, bræður og systur, að ekkert ykkar fjarlægist hinn lifandi Guð+ og ali með sér illt og vantrúað hjarta. 13 Uppörvið heldur hvert annað á hverjum degi meðan enn heitir „í dag“+ til að ekkert ykkar forherðist af táli syndarinnar. 14 Við fáum því aðeins sama hlutskipti og Kristur* ef við varðveitum allt til enda sannfæringuna sem við höfðum í upphafi.+ 15 Sagt er: „Ef þið heyrið rödd mína í dag þá forherðið ekki hjörtu ykkar eins og þegar þið reittuð mig til reiði.“+

16 Hverjir heyrðu en reittu hann samt til reiði? Voru það ekki allir þeir sem Móse leiddi út úr Egyptalandi?+ 17 Á hverjum hafði Guð óbeit í 40 ár?+ Var það ekki á þeim sem syndguðu og dóu í óbyggðunum?+ 18 Og hverjum sór hann að þeir fengju ekki að ganga inn til hvíldar hans? Var það ekki þeim sem óhlýðnuðust? 19 Við sjáum að þeir fengu ekki að ganga inn vegna þess að þá skorti trú.+

4 Þar sem loforðið um að ganga inn til hvíldar hans stendur enn skulum við vera á varðbergi* svo að ekkert okkar fari á mis við það.+ 2 Fagnaðarboðskapurinn var boðaður okkur+ eins og forfeðrum okkar en orðið sem þeir heyrðu kom þeim ekki að gagni því að þeir höfðu ekki sömu trú og þeir sem hlýddu. 3 Við sem trúum göngum inn til hvíldarinnar en um hina á við það sem Guð sagði: „Ég sór því í reiði minni: ‚Þeir fá ekki að ganga inn til hvíldar minnar.‘“+ Þó hafði hann lokið verkum sínum og hvílst frá grundvöllun heims.+ 4 Á einum stað sagði hann um sjöunda daginn: „Og Guð hvíldist sjöunda daginn frá öllum verkum sínum,“+ 5 en hér segir hann sem sagt: „Þeir fá ekki að ganga inn til hvíldar minnar.“+

6 Þeir sem fengu fyrst að heyra fagnaðarboðskapinn gengu ekki inn vegna óhlýðni sinnar.+ Fólki stendur þó enn til boða að ganga inn til hvíldarinnar. 7 Þess vegna tiltekur hann aftur ákveðinn dag löngu síðar þegar hann segir í sálmi Davíðs: „Í dag,“ eins og segir fyrr í þessu bréfi: „Ef þið heyrið rödd mína í dag þá forherðið ekki hjörtu ykkar.“+ 8 Ef Jósúa+ hefði leitt þá til hvíldarstaðar hefði Guð ekki síðar meir talað um annan dag. 9 Fólki Guðs stendur því enn til boða að hvílast eins og gert er á hvíldardegi.+ 10 Sá sem hefur gengið inn til hvíldar Guðs hvílist frá verkum sínum eins og Guð hefur hvílst frá verkum sínum.+

11 Þess vegna skulum við gera okkar ýtrasta til að ganga inn til þessarar hvíldar svo að enginn falli og óhlýðnist á sama hátt og þeir.+ 12 Orð Guðs er lifandi og kraftmikið+ og beittara en nokkurt tvíeggjað sverð.+ Það smýgur svo langt inn að það skilur á milli sálar* og anda,* liðamóta og mergjar og getur dæmt hugsanir og áform hjartans. 13 Ekkert skapað er hulið augum hans+ heldur er allt bert og blasir við honum, en honum þurfum við að standa reikningsskap.+

14 Við höfum mikinn æðstaprest sem hefur farið til himna, Jesú, son Guðs.+ Þess vegna skulum við halda áfram að játa opinberlega að við trúum á hann.+ 15 Æðstiprestur okkar er ekki þannig að hann geti ekki haft samúð með okkur í veikleika okkar+ heldur hefur hann verið reyndur á allan hátt eins og við, en þó án syndar.+ 16 Við skulum því ganga fram fyrir hásæti Guðs sem sýnir einstaka góðvild* og tala óhikað+ svo að við getum notið miskunnar hans og góðvildar þegar við erum hjálparþurfi.

5 Sérhver æðstiprestur sem er valinn úr hópi manna er skipaður til að þjóna Guði+ í þeirra þágu og færa fórnargjafir og sláturfórnir fyrir syndir.+ 2 Hann getur haft meðaumkun með* þeim sem eru fáfróðir og verður eitthvað á* því að hann þarf sjálfur að glíma við* veikleika 3 og þarf þess vegna að færa fórnir fyrir sínar eigin syndir rétt eins og hann færir fórnir fyrir syndir fólksins.+

4 Enginn tekur sér þennan heiður að eigin frumkvæði. Hann fær hann aðeins ef Guð kallar hann eins og hann kallaði Aron.+ 5 Eins er um Krist. Hann tók sér ekki sjálfur þann heiður+ að gerast æðstiprestur heldur hlaut upphefð af hendi hans sem sagði við hann: „Þú ert sonur minn, í dag varð ég faðir þinn.“+ 6 Hann segir líka á öðrum stað: „Þú ert prestur að eilífu á sama hátt og Melkísedek.“+

7 Meðan Kristur var á jörð bar hann fram innilegar bænir og beiðnir með áköllum og tárum+ fyrir hann sem var fær um að bjarga honum frá dauða og hann var bænheyrður vegna guðsótta síns. 8 Þótt hann væri sonur hans lærði hann hlýðni af þeim þjáningum sem hann gekk í gegnum.+ 9 Og eftir að hann var fullkomnaður+ varð hann ábyrgur fyrir eilífri frelsun allra sem hlýða honum+ 10 vegna þess að Guð útnefndi hann til að vera æðstiprestur á sama hátt og Melkísedek.+

11 Við höfum margt um hann að segja en það er erfitt að útskýra það fyrir ykkur þar sem þið eruð orðin skilningssljó. 12 Þó að þið ættuð að vera orðin* kennarar hafið þið aftur þörf á að einhver kenni ykkur grundvallaratriði+ hins heilaga boðskapar Guðs. Ykkur hefur farið aftur svo að þið þurfið enn á ný að fá mjólk en ekki fasta fæðu. 13 Sá sem heldur áfram að nærast á mjólk er smábarn+ og þekkir ekki orð réttlætisins. 14 En fasta fæðan er fyrir þroskað fólk, fyrir þá sem hafa notað skilningsgáfuna* og þjálfað hana til að greina rétt frá röngu.

6 Nú höfum við sagt skilið við byrjendafræðsluna+ um Krist. Við skulum því sækja fram til þroska+ en ekki fara að leggja grunninn að nýju með því að ræða um iðrun vegna dauðra verka og trú á Guð, 2 eða þá kenningar um skírnir, handayfirlagningar,+ upprisu dauðra+ og eilífan dóm. 3 Já, þetta gerum við ef Guð leyfir.

4 Ef menn hafa einu sinni verið upplýstir,+ smakkað hina himnesku gjöf og fengið hlutdeild í heilögum anda, 5 og hafa reynt hið góða orð Guðs og krafta komandi heimsskipanar* 6 en síðan fallið frá+ er ekki hægt að fá þá til að snúa við og iðrast. Þeir staurfesta son Guðs að nýju svo að hann er smánaður opinberlega.+ 7 Jörðin hlýtur blessun frá Guði þegar hún drekkur í sig regnið sem fellur ríkulega á hana og ber gróður til gagns fyrir þá sem yrkja hana. 8 En ef hún ber þyrna og þistla er hún yfirgefin. Bölvun vofir yfir henni og að lokum verður hún brennd.

9 En þótt við segjum þetta erum við sannfærðir um að þið, elskuðu bræður og systur, séuð betur á vegi stödd og séuð á leið til frelsunar. 10 Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki ykkar og kærleikanum sem þið sýnduð nafni hans+ með því að þjóna hinum heilögu eins og þið gerið enn. 11 Það er ósk okkar að þið séuð öll jafn kappsöm og þið voruð í byrjun svo að þið getið verið algerlega örugg allt til enda+ um að vonin rætist.+ 12 Við viljum ekki að þið verðið sljó+ heldur að þið líkið eftir þeim sem vegna trúar og þolinmæði erfa það sem lofað hefur verið.

13 Þegar Guð gaf Abraham loforðið sór hann við sjálfan sig+ því að hann hafði engan æðri til að sverja við. 14 Hann sagði: „Ég mun vissulega blessa þig og margfalda afkomendur þína.“+ 15 Það var eftir að Abraham hafði beðið þolinmóður sem hann fékk þetta loforð. 16 Menn sverja við þann sem er þeim æðri og eiðurinn bindur enda á allar deilur þar sem hann veitir þeim lagalega tryggingu.+ 17 Guð fór eins að. Þegar hann ákvað að sýna erfingjum loforðsins+ enn skýrar fram á að fyrirætlun* sín væri óbreytanleg ábyrgðist hann loforðið* með eiði. 18 Þetta tvennt er óbreytanlegt því að Guð getur ekki logið.+ Það er okkur sem höfum leitað athvarfs hjá honum mikil hvatning til að halda fast í vonina sem okkur er gefin. 19 Þessi von okkar+ er eins og akkeri fyrir sálina,* bæði traust og örugg. Hún nær inn fyrir fortjaldið+ 20 þangað sem Jesús gekk inn á undan okkur+ og opnaði okkur leið, en hann er orðinn eilífur æðstiprestur á sama hátt og Melkísedek.+

7 Þessi Melkísedek var konungur í Salem og prestur hins hæsta Guðs. Hann tók á móti Abraham og blessaði hann þegar Abraham sneri heimleiðis eftir að hafa sigrað konungana+ 2 og Abraham gaf honum tíund af öllu. Í fyrsta lagi þýðir nafnið Melkísedek ‚réttlætiskonungur‘ og auk þess er hann konungur í Salem, það er að segja ‚friðarkonungur‘. 3 Hann er föðurlaus og móðurlaus og ekki er getið um ættartölu hans. Ævi hans á sér hvorki upphaf né endi. Þannig líkist hann syni Guðs og er prestur um alla tíð.*+

4 Sjáið hve mikill maður það var sem Abraham, ættfaðirinn, gaf tíund af besta herfanginu.+ 5 Lögin segja að vísu til um að synir Leví+ sem eru skipaðir prestar eigi að taka tíund af fólkinu,+ það er að segja bræðrum sínum, þótt þeir séu afkomendur* Abrahams. 6 En þessi maður, sem átti ekki ætt sína að rekja til þeirra, tók tíund af Abraham og blessaði þann sem hafði fengið loforðin.+ 7 Nú verður því ekki mótmælt að sá sem er meiri blessar þann sem er minni. 8 Í öðru tilvikinu eru það dauðlegir menn sem fá tíund en í hinu tilvikinu sá sem lifir áfram+ eins og Ritningin vitnar um. 9 Og segja má að Leví, sem fær tíund, hafi sjálfur greitt tíund þar sem Abraham forfaðir hans gerði það, 10 því að hann var enn ófæddur afkomandi* Abrahams þegar þeir Melkísedek hittust.+

11 Ef hægt hefði verið að ná fullkomleika með levíska prestdóminum+ (en hann var þáttur í lögunum sem fólkið fékk) hvaða þörf var þá fyrir annan prest sem skyldi vera prestur á sama hátt og Melkísedek+ en ekki eins og Aron? 12 En fyrst prestdómurinn breytist þarf líka að breyta lögunum.+ 13 Sá sem þetta er sagt um var af annarri ættkvísl, en af henni hefur enginn þjónað við altarið.+ 14 Það er greinilegt að Drottinn okkar er kominn af Júda+ en samt hefur Móse ekki talað neitt um að prestar komi af þeirri ættkvísl.

15 Þetta er enn greinilegra núna þegar annar prestur+ er kominn fram sem líkist Melkísedek.+ 16 Hann varð ekki prestur samkvæmt lagaboði sem krefst ákveðins ætternis heldur vegna kraftar sem veitir honum óforgengilegt* líf.+ 17 Á einum stað er sagt um hann: „Þú ert prestur að eilífu á sama hátt og Melkísedek.“+

18 Fyrri lagaboð voru felld úr gildi því að þau voru vanmáttug og gagnslaus.+ 19 Lögin gerðu ekkert fullkomið+ en tilkoma betri vonar+ gerði það og með henni nálgumst við Guð.+ 20 Og þetta var ekki gert án þess að eiður væri svarinn. 21 (Sumir hafa orðið prestar án eiðs en þessi varð prestur með eiði sem Guð sór þegar hann sagði við hann: „Jehóva* hefur svarið og hann skiptir ekki um skoðun:* ‚Þú ert prestur að eilífu.‘“)+ 22 Í samræmi við það er Jesús orðinn trygging* fyrir betri sáttmála.+ 23 Auk þess þurftu margir að vera prestar hver á fætur öðrum+ því að dauðinn kom í veg fyrir að þeir sætu áfram 24 en þar sem Jesús lifir að eilífu+ tekur enginn við prestdómi af honum. 25 Hann getur því líka frelsað að fullu þá sem nálgast Guð fyrir milligöngu hans vegna þess að hann lifir alltaf til að tala máli þeirra.+

26 Við höfum þörf fyrir slíkan æðstaprest sem er trúr, saklaus, flekklaus,+ aðgreindur frá syndurum og hafinn yfir himnana.+ 27 Ólíkt hinum æðstuprestunum þarf hann ekki að færa fórnir daglega,+ fyrst fyrir sínar eigin syndir og síðan fyrir syndir fólksins.+ Hann gerði það í eitt skipti fyrir öll þegar hann fórnaði sjálfum sér.+ 28 Þeir sem eru skipaðir æðstuprestar samkvæmt lögunum eru menn með veikleika+ en með eiðnum,+ sem kom á eftir lögunum, var skipaður sonur sem var fullkomnaður+ til eilífðar.

8 Kjarni málsins er þessi: Við höfum þess konar æðstaprest+ og hann hefur sest hægra megin við hásæti hátignarinnar á himnum.+ 2 Hann þjónar í hinu allra helgasta+ í hinni sönnu tjaldbúð* sem Jehóva* reisti en ekki maður. 3 Allir æðstuprestar eru skipaðir til að bera fram bæði fórnargjafir og sláturfórnir, og það var því líka nauðsynlegt að þessi æðstiprestur hefði eitthvað til að bera fram.+ 4 Ef hann væri á jörðinni væri hann ekki prestur+ því að þar eru nú þegar menn sem bera fram fórnargjafir samkvæmt lögunum. 5 Þessir menn veita heilaga þjónustu sem er eftirmynd og skuggi+ þess sem er á himnum.+ Þetta má líka sjá af þeim fyrirmælum sem Guð gaf Móse þegar hann átti að reisa tjaldbúðina.* Hann sagði: „Gættu þess að gera allt eftir þeirri fyrirmynd sem þér var sýnd á fjallinu.“+ 6 En nú hefur Jesús fengið enn háleitara þjónustustarf því að hann er auk þess milligöngumaður+ betri sáttmála+ sem er löggiltur með betri loforðum.+

7 Ef fyrri sáttmálinn hefði verið óaðfinnanlegur hefði ekki verið þörf fyrir annan.+ 8 En Guð finnur að fólkinu þegar hann segir: „‚Þeir dagar koma,‘ segir Jehóva,* ‚þegar ég geri nýjan sáttmála við Ísraelsmenn og Júdamenn. 9 Hann verður ekki eins og sáttmálinn sem ég gerði við forfeður þeirra daginn sem ég tók í hönd þeirra og leiddi þá út úr Egyptalandi.+ Þeir héldu ekki sáttmála minn og ég hætti því að annast þá,‘ segir Jehóva.*

10 ‚Þetta er sáttmálinn sem ég geri við Ísraelsmenn þegar þessir dagar eru liðnir,‘ segir Jehóva.* ‚Ég legg lög mín í huga þeirra og skrifa þau á hjörtu þeirra.+ Ég verð Guð þeirra og þeir verða fólk mitt.+

11 Enginn þeirra mun þá lengur kenna samlanda sínum eða bróður og segja: „Kynnstu Jehóva,“* því að þeir munu allir þekkja mig, jafnt háir sem lágir. 12 Ég mun fyrirgefa þeim það ranga sem þeir hafa gert og ekki minnast synda þeirra framar.‘“+

13 Með því að tala um „nýjan sáttmála“ gefur hann til kynna að sá fyrri sé úreltur.+ Það sem er að úreldast og fyrnast er við það að hverfa.+

9 Í fyrri sáttmálanum voru ákvæði um heilaga þjónustu og heilagan tilbeiðslustað+ á jörð. 2 Gerð var tjaldbúð* og í fremri hluta hennar, sem var kallaður hið heilaga,+ var ljósastikan,+ borðið og skoðunarbrauðin.+ 3 En bak við annað fortjaldið+ var sá hluti hennar sem kallaðist hið allra helgasta.+ 4 Þar var reykelsisker úr gulli+ og sáttmálsörkin+ sem var öll gulli lögð.+ Í henni var gullkerið með manna í,+ stafur Arons sem brumaði+ og sáttmálstöflurnar,+ 5 og ofan á henni voru hinir dýrlegu kerúbar sem skyggðu á lok friðþægingarinnar.*+ En nú er ekki rétti tíminn til að ræða um þetta í smáatriðum.

6 Eftir að þessu hafði verið komið þannig fyrir gengu prestarnir reglubundið inn í fremri hluta tjaldsins til að inna heilaga þjónustu sína af hendi.+ 7 En æðstipresturinn gengur einn inn í innri hlutann einu sinni á ári+ og þá ekki án þess að vera með blóð+ sem hann ber fram vegna sjálfs sín+ og fyrir syndir fólksins+ sem það hefur drýgt sökum vanþekkingar. 8 Þannig sýnir heilagur andi að leiðin inn í hið allra helgasta hafði enn ekki verið opinberuð á meðan fyrri tjaldbúðin* stóð.+ 9 Þessi tjaldbúð* er táknmynd fyrir okkar tíma+ og samkvæmt þessu fyrirkomulagi eru færðar bæði fórnargjafir og sláturfórnir.+ Þær geta þó ekki gefið þeim sem veitir heilaga þjónustu fullkomlega hreina samvisku.+ 10 Þær varða aðeins mat og drykk og ýmiss konar trúarlega hreinsun.*+ Þetta voru lagaákvæði varðandi líkamann+ og þau áttu að gilda þangað til tíminn kæmi að öllu yrði komið í lag.

11 En þegar Kristur kom sem æðstiprestur þeirra gæða sem við upplifum nú þegar gekk hann gegnum hina meiri og fullkomnari tjaldbúð* sem er ekki gerð með höndum manna, það er að segja er ekki af þessari sköpun.* 12 Hann gekk inn í hið allra helgasta, ekki með blóð geita og ungnauta heldur með sitt eigið blóð+ í eitt skipti fyrir öll og sá okkur fyrir eilífri lausn.*+ 13 Blóð geita og nauta+ og askan af kvígu,* stráð á þá sem hafa orðið óhreinir, helgar þá og hreinsar líkamlega.+ 14 Hve miklu fremur hreinsar þá ekki blóð Krists+ samvisku okkar af dauðum verkum+ svo að við getum veitt hinum lifandi Guði heilaga þjónustu.+ En vegna handleiðslu hins eilífa anda færði Kristur Guði sjálfan sig að lýtalausri fórn.

15 Þess vegna er hann milligöngumaður nýs sáttmála.+ Hann dó til að hinir kölluðu yrðu leystir með lausnargjaldi+ undan afbrotunum sem þeir frömdu undir fyrri sáttmálanum og hlytu hinn eilífa arf sem þeim var lofað.+ 16 Þegar sáttmáli við Guð er annars vegar þarf sá sem kemur honum á að deyja 17 því að sáttmálinn tekur gildi við dauða hans en er ekki í gildi meðan hann lifir. 18 Fyrri sáttmálinn tók ekki heldur gildi* án blóðs. 19 Þegar Móse hafði flutt fólkinu öll boðorð laganna tók hann blóð ungnautanna og geitanna ásamt vatni, sletti því með skarlatsrauðri ull og ísóp á bókina* og allt fólkið 20 og sagði: „Þetta er blóð sáttmálans sem Guð hefur sagt ykkur að halda.“+ 21 Hann sletti líka blóðinu+ á tjaldið og öll áhöldin sem voru notuð við helgiþjónustuna. 22 Já, samkvæmt lögunum er nánast allt hreinsað með blóði+ og engin fyrirgefning fæst nema blóði sé úthellt.+

23 Þess vegna var nauðsynlegt að eftirmyndir+ þess sem er á himnum væru hreinsaðar á þennan hátt+ en hið himneska krefst mun betri fórna. 24 Kristur gekk ekki inn í hið allra helgasta sem gert var með höndum manna+ og er eftirlíking veruleikans+ heldur inn í sjálfan himininn+ til að ganga fram fyrir Guð* í okkar þágu.+ 25 Hann gerði það ekki til að fórna sjálfum sér margsinnis eins og þegar æðstipresturinn gengur inn í hið allra helgasta á hverju ári+ með blóð sem er ekki hans eigið. 26 Annars hefði hann þurft að þjást margsinnis frá grundvöllun heims. En nú hefur hann birst í eitt skipti fyrir öll á lokaskeiði þessarar heimsskipanar* til að afmá syndina með því að fórna sjálfum sér.+ 27 Og eins og það er hlutskipti manna að deyja í eitt skipti fyrir öll og hljóta síðan dóm, 28 þannig var Kristi líka fórnað í eitt skipti fyrir öll til að bera syndir margra.+ Þegar hann kemur í annað sinn verður það ekki vegna syndarinnar* heldur birtist hann þeim sem bíða þess með eftirvæntingu að hann frelsi þá.+

10 Lögin eru aðeins skuggi+ hins góða sem átti að koma+ en ekki sjálfur veruleikinn. Þess vegna geta þau* aldrei með fórnunum sem eru bornar fram ár eftir ár gert þá fullkomna sem nálgast Guð.+ 2 Hefði ekki annars verið hætt að færa fórnirnar? Þeir sem veita heilaga þjónustu væru þá orðnir hreinir í eitt skipti fyrir öll og væru ekki lengur meðvitaðir um synd.* 3 Með þessum fórnum er hins vegar minnt á syndirnar ár eftir ár+ 4 því að blóð nauta og geita getur með engu móti afmáð þær.

5 Þegar Kristur kemur í heiminn segir hann því: „‚Þú vildir ekki sláturfórn og fórnargjöf heldur gerðir líkama handa mér. 6 Þú viðurkenndir ekki brennifórnir og syndafórnir.‘+ 7 Þá sagði ég: ‚Ég er kominn (í bókrollunni er skrifað um mig) til að gera vilja þinn, Guð minn.‘“+ 8 Fyrst segir hann: „Þú hvorki vildir né viðurkenndir sláturfórnir, fórnargjafir, brennifórnir og syndafórnir“ – en þær eru færðar samkvæmt lögunum. 9 Síðan segir hann: „Ég er kominn til að gera vilja þinn.“+ Hann afnemur hið fyrra til að koma á hinu síðara. 10 Samkvæmt þessum „vilja“+ vorum við helguð þegar Jesús Kristur fórnaði líkama sínum í eitt skipti fyrir öll.+

11 Sérhver prestur tekur sér stöðu hvern dag til að veita heilaga þjónustu+ og bera fram sömu fórnirnar aftur og aftur+ þó að þær geti aldrei afmáð syndir að fullu.+ 12 En þessi maður færði eina fórn fyrir syndir í eitt skipti fyrir öll og settist svo við hægri hönd Guðs.+ 13 Hann bíður þess síðan að óvinir hans verði lagðir eins og skemill undir fætur hans.+ 14 Með einni fórn hefur hann fullkomnað+ um alla framtíð þá sem eru helgaðir. 15 Heilagur andi staðfestir þetta einnig fyrir okkur þegar hann segir: 16 „‚Þetta er sáttmálinn sem ég geri við þá þegar þessir dagar eru liðnir,‘ segir Jehóva.* ‚Ég legg lög mín í hjörtu þeirra og skrifa þau í huga þeirra.‘“+ 17 Síðan segir hann: „Ég mun ekki framar minnast synda þeirra og afbrota.“+ 18 Þar sem þetta er fyrirgefið er ekki lengur þörf fyrir syndafórn.

19 Bræður og systur, við getum því gengið hugrökk* inn í hið allra helgasta+ vegna blóðs Jesú 20 en hann opnaði* okkur leið þangað, nýja og lifandi leið gegnum fortjaldið,+ það er að segja líkama sinn. 21 Við höfum mikinn prest yfir húsi Guðs.+ 22 Þess vegna skulum við ganga fram fyrir Guð með einlægum hjörtum og í fullkomnu trausti, núna þegar hjörtu okkar hafa verið hreinsuð, við höfum fengið hreina samvisku+ og líkami okkar hefur verið baðaður í hreinu vatni.+ 23 Höldum áfram að boða opinberlega það sem við vonum, án þess að hvika,+ því að sá sem gaf loforðið er trúr. 24 Og berum umhyggju hvert fyrir öðru* svo að við hvetjum hvert annað til kærleika og góðra verka.+ 25 Vanrækjum ekki samkomur okkar+ eins og sumir eru vanir að gera heldur hvetjum hvert annað+ og það því meir sem við sjáum að dagurinn nálgast.+

26 Ef við syndgum vísvitandi eftir að hafa fengið nákvæma þekkingu á sannleikanum+ er enga fórn lengur að fá fyrir syndirnar.+ 27 Þá er ekkert annað eftir en óttaleg bið eftir dómi og brennandi reiði sem mun eyða öllum andstæðingum.+ 28 Sá sem virðir lög Móse að vettugi er líflátinn án miskunnar ef tveir eða þrír bera vitni.+ 29 Haldið þið þá ekki að sá maður verðskuldi mun þyngri refsingu sem hefur traðkað á syni Guðs og álítur blóð sáttmálans+ lítils virði, blóðið sem helgaði hann? Hann er maður sem hefur svívirt anda einstakrar góðvildar Guðs.+ 30 Við þekkjum þann sem sagði: „Mín er hefndin, ég mun endurgjalda,“ og: „Jehóva* mun dæma fólk sitt.“+ 31 Það er skelfilegt að falla í hendur hins lifandi Guðs.

32 En hugsið til baka. Eftir að þið voruð upplýst+ urðuð þið að heyja harða baráttu og þola miklar þjáningar. 33 Stundum voruð þið smánuð og ykkur misþyrmt fyrir opnum tjöldum* og stundum þolduð þið illt með þeim* sem urðu fyrir slíkum raunum. 34 Þið sýnduð þeim samúð sem sátu í fangelsi og tókuð því með gleði þegar þið voruð rænd eigum ykkar+ því að þið vissuð að þið áttuð betri og varanlega eign.+

35 Kastið ekki frá ykkur hugrekkinu* því að hugrekki hefur ríkuleg laun í för með sér.+ 36 Þið þurfið að vera þolgóð+ til að gera vilja Guðs og fá að sjá loforðið rætast. 37 Eftir „stutta stund“+ þá „kemur sá sem á að koma og honum seinkar ekki“.+ 38 „En minn réttláti mun lifa vegna trúar,“+ og „ef hann skýtur sér undan hef ég* ekki velþóknun á honum“.+ 39 Við erum ekki þannig að við skjótum okkur undan og förumst+ heldur þess konar fólk sem trúir og heldur lífi.

11 Trú er fullvissa um það sem menn vona,+ sannfæring um* þann veruleika sem ekki er hægt að sjá. 2 Hennar vegna fengu menn til forna* þann vitnisburð að þeir hefðu velþóknun Guðs.

3 Vegna trúar skiljum við að allt á himni og jörð* varð til með orði Guðs og að hið sýnilega varð til af hinu ósýnilega.

4 Vegna trúar færði Abel Guði verðmætari fórn en Kain,+ og vegna trúar sinnar fékk hann staðfest* að hann væri réttlátur því að Guð var ánægður með* fórnargjafir hans.+ Þótt hann sé dáinn talar hann enn+ með trú sinni.

5 Vegna trúar var Enok+ tekinn burt til að hann skyldi ekki deyja með venjulegum hætti, og hann var hvergi að finna því að Guð hafði tekið hann.+ Áður en hann var tekinn burt hafði hann fengið staðfest* að hann hefði velþóknun Guðs. 6 En án trúar er ekki hægt að þóknast Guði því að sá sem gengur fram fyrir Guð verður að trúa að hann sé til og að hann launi þeim sem leita hans í einlægni.+

7 Vegna trúar sýndi Nói+ að hann óttaðist Guð og smíðaði örk+ til að bjarga fjölskyldu sinni eftir að Guð hafði varað hann við því sem ekki var enn hægt að sjá.+ Með trú sinni dæmdi hann heiminn+ og erfði réttlætið sem kemur af trú.

8 Vegna trúar hlýddi Abraham+ þegar Guð kallaði hann og fór burt til staðar sem hann átti að fá í arf. Hann fór burt þótt hann vissi ekki hvert leiðin lá.+ 9 Vegna trúar bjó hann sem útlendingur í fyrirheitna landinu eins og það væri framandi land.+ Hann bjó í tjöldum+ ásamt Ísak og Jakobi en Guð hafði lofað að gefa þeim það sama og honum.+ 10 Hann vænti þeirrar borgar sem hefur traustan grunn, þeirrar sem Guð hannaði og byggði.+

11 Vegna trúar fékk Sara mátt til að verða barnshafandi og eignast afkomanda þó að hún væri orðin of gömul,+ því að hún var viss um að sá sem gaf loforðið væri trúr. 12 Þar af leiðandi gat einn maður, sem var sama sem dáinn,+ eignast eins marga afkomendur+ og stjörnur eru á himni og jafn óteljandi og sandkorn á sjávarströnd.+

13 Allir þessir þjónar Guðs dóu í trú þó að þeir hefðu ekki séð loforðin rætast.+ Þeir sáu þau í fjarska,+ fögnuðu þeim og játuðu opinberlega að þeir væru aðkomufólk og byggju tímabundið í landinu. 14 Þeir sem tala þannig láta í ljós að þeir þrái að eignast sitt eigið aðsetur. 15 Ef þeir hefðu látið hugann dvelja við staðinn sem þeir fóru frá+ hefðu þeir fundið sér tilefni til að snúa þangað aftur. 16 En nú þráðu þeir betra aðsetur, stað sem tilheyrir himnum. Þess vegna skammast Guð sín ekki fyrir þá, fyrir að kallast Guð þeirra.+ Hann hefur jafnvel búið þeim borg.+

17 Vegna trúar var Abraham að því kominn að fórna Ísak þegar hann var reyndur.+ Hann sem hafði tekið loforðunum fagnandi ætlaði að fórna einkasyni sínum+ 18 þó að honum hefði verið sagt: „Þeir sem verða kallaðir afkomendur þínir koma af Ísak.“+ 19 En hann hugsaði sem svo að Guð væri jafnvel fær um að reisa hann upp frá dauðum og hann endurheimti hann þaðan, en það hefur táknræna merkingu.+

20 Vegna trúar blessaði Ísak þá Jakob+ og Esaú+ og sagði þeim hvað framtíðin bæri í skauti sér.

21 Vegna trúar blessaði Jakob báða syni Jósefs+ þegar hann var að dauða kominn.+ Hann hallaði sér fram á staf sinn og tilbað Guð.+

22 Vegna trúar talaði Jósef um brottför Ísraelsmanna skömmu áður en hann dó og gaf fyrirmæli um* hvað gert skyldi við bein sín.*+

23 Vegna trúar földu foreldrar Móse hann í þrjá mánuði eftir að hann fæddist+ því að þeir sáu að barnið var fallegt+ og óttuðust ekki skipun konungs.+ 24 Vegna trúar neitaði Móse, þegar hann var orðinn fullorðinn,+ að láta kalla sig dótturson faraós+ 25 og kaus frekar að þola illa meðferð með fólki Guðs en að njóta unaðar af syndinni um skamman tíma. 26 Hann áleit smánina sem fylgdi því að vera smurður* verðmætari en fjársjóði Egyptalands því að hann hafði launin stöðugt fyrir augum sér. 27 Vegna trúar yfirgaf hann Egyptaland+ og óttaðist ekki reiði konungsins.+ Hann var staðfastur eins og hann sæi hinn ósýnilega.+ 28 Vegna trúar hélt hann páska og sletti blóðinu á dyrastafina svo að eyðandinn myndi ekki gera frumburðum fólksins mein.*+

29 Vegna trúar gengu Ísraelsmenn gegnum Rauðahafið eins og á þurru landi+ en þegar Egyptar reyndu það gleypti hafið þá.+

30 Vegna trúar hrundu múrar Jeríkó eftir að fólkið hafði gengið í kringum þá í sjö daga.+ 31 Vegna trúar fórst vændiskonan Rahab ekki ásamt hinum óhlýðnu því að hún tók vinsamlega á móti njósnurunum.+

32 Og hvað fleira get ég sagt? Ég hefði ekki nægan tíma ef ég færi að segja frá Gídeon,+ Barak,+ Samson,+ Jefta+ og Davíð+ og frá Samúel+ og hinum spámönnunum. 33 Vegna trúar sigruðu þeir konungsríki,+ komu á réttlæti, fengu loforð,+ lokuðu gini ljóna,+ 34 stóðust mátt eldsins+ og komust undan sverðinu.+ Þeir voru veikburða en urðu sterkir,+ gerðust öflugir í stríði+ og hröktu innrásarheri á flótta.+ 35 Konur endurheimtu látna ástvini þegar þeir voru reistir upp.+ Sumir voru pyntaðir vegna þess að þeir þáðu ekki lausn gegn gjaldi. Þeir vildu heldur hljóta betri upprisu. 36 Aðrir voru hæddir og húðstrýktir og voru jafnvel fjötraðir+ og hnepptir í fangelsi.+ 37 Þeir þoldu prófraunir og voru grýttir,+ sagaðir í sundur* og drepnir með sverði.+ Þeir gengu um í sauðargærum og geitarskinnum,+ liðu skort, voru aðþrengdir+ og þeim var misþyrmt.+ 38 Heimurinn átti þá ekki skilið. Þeir reikuðu um óbyggðir og fjöll og héldu til í hellum+ og gjótum jarðar.

39 Þó að þeir hafi allir fengið staðfest* að Guð hefði velþóknun á þeim vegna trúar þeirra fengu þeir ekki að sjá loforðið rætast 40 því að Guð hafði eitthvað betra í huga fyrir okkur:+ Þeir yrðu ekki fullkomnir án okkar.

12 Þar sem við erum umkringd slíkum fjölda votta* skulum við líkja eftir þeim og losa okkur við allar byrðar og syndina sem er auðvelt að flækja sig í.+ Hlaupum þolgóð í hlaupinu sem við eigum fram undan+ 2 og horfum einbeitt til Jesú, höfðingja trúar okkar sem fullkomnar hana.+ Vegna gleðinnar sem hann átti í vændum þraukaði hann á kvalastaur,* lét smánina ekki á sig fá og er nú sestur hægra megin við hásæti Guðs.+ 3 Já, virðið hann vandlega fyrir ykkur sem hefur þolað slíkan fjandskap* syndara,+ manna sem gera sjálfum sér ógagn. Þá þreytist þið ekki og gefist ekki upp.+

4 Enn hefur barátta ykkar við syndina ekki komist á það stig að hún hafi kostað ykkur lífið. 5 Þið hafið steingleymt hvatningunni sem þið fáið sem synir: „Sonur minn, gerðu ekki lítið úr öguninni frá Jehóva* og gefstu ekki upp þegar hann leiðréttir þig, 6 því að Jehóva* agar þá sem hann elskar og refsar* öllum sem hann tekur að sér sem syni.“+

7 Þið þurfið að halda út til að njóta góðs af öguninni.* Guð fer með ykkur eins og syni.+ Hvaða sonur hlýtur ekki ögun frá föður sínum?+ 8 Ef þið hafið ekki fengið ögun eins og hinir eruð þið óskilgetin börn en ekki synir. 9 Mennskir feður* okkar öguðu okkur og við bárum virðingu fyrir þeim. Ættum við þá ekki enn frekar að vera undirgefin andlegum föður okkar* og lifa?+ 10 Þeir öguðu okkur um stuttan tíma eins og þeir töldu best en hann gerir það okkur til góðs þannig að við getum átt hlutdeild í heilagleika hans.+ 11 Reyndar virðist enginn agi vera gleðiefni í byrjun heldur er hann sársaukafullur* en eftir á færir hann þeim sem hafa þegið hann ávöxt sem leiðir til friðar, það er að segja réttlæti.

12 Styrkið því máttlausar hendur og veikburða hné+ 13 og látið fætur ykkar alltaf ganga beinar brautir+ til að hið veikburða fari ekki úr lið heldur verði heilbrigt. 14 Leggið ykkur fram um að eiga frið við alla+ og vera heilög*+ en án þess getur enginn séð Drottin. 15 Gætið þess vandlega að enginn fari á mis við einstaka góðvild Guðs svo að engin eiturrót spretti sem veldur usla og eitrar* marga.+ 16 Og gætið þess að enginn sé meðal ykkar sem stundar kynferðislegt siðleysi* eða kann ekki að meta það sem er heilagt, líkt og Esaú sem lét frumburðarrétt sinn af hendi í skiptum fyrir eina máltíð.+ 17 Eins og þið vitið var honum síðar hafnað þegar hann vildi hljóta blessunina. Hann reyndi ákaft og með tárum að fá föður sinn til að skipta um skoðun+ en allt kom fyrir ekki.*

18 Þið eruð ekki komin til fjalls sem hægt er að þreifa á+ og stendur í ljósum logum,+ né að dimmu skýi, svartamyrkri og stormi,+ 19 lúðrablæstri+ og rödd sem talar.+ Þegar fólkið heyrði hana baðst það undan því að meira væri talað til sín.+ 20 Það hræddist skipunina: „Þó að það sé ekki nema skepna sem snertir fjallið skal grýta hana.“+ 21 Það sem fólkið sá var svo ógnvekjandi að Móse sagði: „Ég skelf af hræðslu.“+ 22 En þið eruð komin til Síonarfjalls+ og borgar hins lifandi Guðs, hinnar himnesku Jerúsalem,+ og til óteljandi* engla 23 á fjöldasamkomu,+ til safnaðar frumgetinna sem eru skráðir á himnum, til Guðs sem er dómari allra,+ til andlegs lífs+ hinna réttlátu sem hafa fullkomnast,+ 24 til Jesú, milligöngumanns+ nýs sáttmála,+ og til blóðsins sem slett var og talar með betri hætti en blóð Abels.+

25 Gætið þess að hafna ekki* þeim sem talar. Þeir sem vildu ekki hlusta á þann sem flutti viðvörun Guðs á jörð komust ekki undan. Hve miklu síður komumst við þá undan ef við snúum baki við honum sem talar af himnum.+ 26 Jörðin skalf undan rödd hans+ á þeim tíma en nú hefur hann lofað: „Ég mun enn einu sinni láta jörðina skjálfa og sömuleiðis himininn.“+ 27 Þegar sagt er „enn einu sinni“ gefur það til kynna að það sem skelfur verði fjarlægt, það er að segja það sem myndað hefur verið, til að það sem skelfur ekki skuli standa. 28 Þar sem við eigum að fá ríki sem getur ekki bifast biðjum við að við megum halda áfram að njóta einstakrar góðvildar, en hennar vegna getum við veitt Guði heilaga þjónustu á velþóknanlegan hátt með lotningu og guðsótta 29 því að Guð okkar er eyðandi eldur.+

13 Látið bróðurkærleikann haldast.+ 2 Gleymið ekki að vera gestrisin*+ því að þannig hafa sumir tekið á móti englum án þess að vita það.+ 3 Hugsið til þeirra sem sitja í fangelsi*+ eins og þið væruð í fangelsi með þeim,+ og eins til þeirra sem þola illt því að þið eruð einnig með líkama.* 4 Allir eiga að hafa hjónabandið í heiðri og halda því óflekkuðu+ því að Guð mun dæma þá sem fremja kynferðislegt siðleysi* og þá sem halda fram hjá.+ 5 Látið ekki ást á peningum stjórna lífi ykkar+ heldur látið ykkur nægja það sem þið hafið.+ Hann hefur sagt: „Ég mun aldrei snúa baki við þér og aldrei yfirgefa þig.“+ 6 Við getum því verið hugrökk og sagt: „Jehóva* hjálpar mér, ég óttast ekki neitt. Hvað geta mennirnir gert mér?“+

7 Hafið þá í huga sem fara með forystuna á meðal ykkar,+ sem hafa flutt ykkur orð Guðs. Veltið fyrir ykkur líferni þeirra og hvernig þeim farnast og líkið eftir trú þeirra.+

8 Jesús Kristur er hinn sami í dag og í gær og verður það að eilífu.

9 Látið engan leiða ykkur afvega með ýmsum framandi kenningum. Það er betra að láta hjartað styrkjast af einstakri góðvild Guðs en af ákveðnu mataræði* sem gagnast ekki þeim sem eru uppteknir af því.+

10 Við höfum altari og þeir sem veita heilaga þjónustu við tjaldbúðina* hafa ekki leyfi til að borða af því.+ 11 Æðstipresturinn fer með blóð dýranna inn í hið allra helgasta sem syndafórn en hræin eru brennd fyrir utan búðirnar.+ 12 Þess vegna þjáðist Jesús líka fyrir utan borgarhliðið+ til að helga fólkið með sínu eigin blóði.+ 13 Förum því til hans út fyrir búðirnar og berum sömu smán og hann.+ 14 Við vitum að hér höfum við ekki borg sem er varanleg heldur þráum við þá borg sem á eftir að koma.+ 15 Fyrir milligöngu Jesú skulum við alltaf færa Guði lofgjörðarfórn,+ það er ávöxt vara okkar+ sem boða nafn hans+ opinberlega. 16 Og gleymið ekki að gera gott og gefa öðrum af því sem þið eigið+ því að Guð er ánægður með slíkar fórnir.+

17 Hlýðið þeim sem fara með forystuna á meðal ykkar+ og verið þeim undirgefin+ því að þeir gæta ykkar og þurfa að standa reikningsskap fyrir það.+ Þá geta þeir gert það með gleði en ekki andvarpandi en það væri skaðlegt fyrir ykkur.

18 Haldið áfram að biðja fyrir okkur því að við erum sannfærðir um að við höfum góða samvisku og viljum vera heiðarlegir í öllu sem við gerum.+ 19 En ég hvet ykkur sérstaklega til að biðja þess að ég komist sem fyrst til ykkar aftur.

20 Guð friðarins leiddi Drottin okkar Jesú, hinn mikla hirði+ sauðanna, upp frá dauðum og hann hafði með sér blóð eilífs sáttmála. 21 Megi hann búa ykkur öllu sem þið þurfið til að gera vilja hans. Megi hann fyrir milligöngu Jesú Krists koma því til leiðar í okkur sem er honum þóknanlegt. Honum sé dýrðin um alla eilífð. Amen.

22 Nú hvet ég ykkur, bræður og systur, til að hlusta þolinmóð á þessi hvatningarorð en það er stutt bréf sem ég hef skrifað ykkur. 23 Ég vil að þið vitið að Tímóteus bróðir okkar hefur verið látinn laus. Ef hann kemur fljótlega heimsækjum við ykkur saman.

24 Ég bið að heilsa öllum sem fara með forystuna á meðal ykkar og öllum hinum heilögu. Bræður og systur hér á Ítalíu+ biðja að heilsa.

25 Einstök góðvild Guðs sé með ykkur öllum.

Eða „mynda aldirnar“. Sjá orðaskýringar, „heimsskipan“.

Eða „sínu“.

Orðrétt „erft“.

Eða „krjúpi fyrir honum“.

Það er, fyrirboðum.

Eða „hinni komandi heimsbyggð“.

Sjá viðauka A5.

Eða „fært sáttarfórn; friðþægt“.

Eða „boð til himna“.

Eða „játum“.

Eða „aðeins hlutdeild í Kristi“.

Orðrétt „óttast“.

Sjá orðaskýringar.

Sjá orðaskýringar.

Orðrétt „hásæti hinnar einstöku góðvildar“.

Eða „verið mildur við; verið sanngjarn við“.

Eða „villuráfandi“.

Eða „er sjálfur á valdi eigin“.

Orðrétt „ættuð tímans vegna að vera“.

Eða „dómgreindina“.

Eða „aldar“. Sjá orðaskýringar.

Eða „ákvörðun“.

Eða „skarst hann í leikinn“.

Eða „líf okkar“.

Eða „að eilífu“.

Orðrétt „komnir af lend“.

Orðrétt „enn í lend“.

Sjá orðaskýringar.

Sjá viðauka A5.

Eða „iðrast þess ekki“.

Eða „settur sem veð“.

Orðrétt „hinu sanna tjaldi“.

Sjá viðauka A5.

Orðrétt „tjaldið“.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Orðrétt „Gert var tjald“.

Eða „á friðþægingarstaðinn“.

Orðrétt „fyrra tjaldið“.

Orðrétt „Þetta tjald“.

Orðrétt „ýmiss konar skírnir“.

Orðrétt „hið meira og fullkomnara tjald“.

Eða „ekki jarðnesk“.

Orðrétt „endurlausn“.

Eða „ungri kú“.

Orðrétt „var ekki heldur innleiddur“.

Eða „bókrolluna“.

Orðrétt „auglit Guðs“.

Eða „aldanna“. Sjá orðaskýringar.

Eða „til að fjarlægja syndina“.

Eða hugsanl. „menn“.

Eða „fyndu ekki lengur til sektarkenndar vegna syndar“.

Sjá viðauka A5.

Eða „örugg“.

Orðrétt „vígði“.

Eða „látum okkur annt hvert um annað; gefum gætur hvert að öðru“.

Sjá viðauka A5.

Orðrétt „eins og þið væruð til sýnis í leikhúsi“.

Eða „stóðuð þið við hlið þeirra“.

Orðrétt „hugrekkinu til að tala“.

Eða „hefur sál mín“.

Eða „sannfærandi rök fyrir“.

Eða „forfeður okkar“.

Eða „að aldirnar“. Sjá orðaskýringar, „heimsskipan“.

Orðrétt „fékk hann þann vitnisburð“.

Eða „vitnaði um að hann hefði tekið við“.

Orðrétt „þann vitnisburð“.

Eða „fyrirskipaði“.

Eða „um greftrun sína“.

Orðrétt „Kristur“.

Orðrétt „snerta frumburði þeirra“.

Eða „tvennt“.

Orðrétt „þann vitnisburð“.

Orðrétt „svo stóru skýi af vottum“.

Sjá orðaskýringar.

Eða „þolað svo mörg fjandsamleg orð“.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Orðrétt „hýðir“.

Eða „uppeldinu“.

Orðrétt „Feður holds“.

Eða „undirgefin föður okkar andlega lífs“.

Eða „til hryggðar“.

Eða „helguð“.

Eða „óhreinkar“.

Sjá orðaskýringar.

Orðrétt „en fann ekkert rúm fyrir það“.

Eða „tugþúsunda“.

Eða „afsaka ykkur ekki frammi fyrir; hunsa ekki“.

Eða „góð við ókunnuga“.

Orðrétt „hinna fjötruðu; þeirra sem eru í fjötrum“.

Eða hugsanl. „þola illt eins og þið þjáist með þeim“.

Sjá orðaskýringar.

Sjá viðauka A5.

Það er, reglum um mataræði.

Eða „musterið“.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila