MARKÚS SEGIR FRÁ
1 Upphaf fagnaðarboðskaparins um Jesú Krist, son Guðs. 2 Í bók Jesaja spámanns stendur: „(Ég sendi sendiboða minn á undan þér sem greiðir veg þinn.)+ 3 Rödd manns hrópar í óbyggðunum: ‚Greiðið veg Jehóva!* Gerið brautir hans beinar.‘“+ 4 Jóhannes skírari var í óbyggðunum og boðaði að fólk ætti að skírast til tákns um iðrun svo að það gæti fengið syndir sínar fyrirgefnar.+ 5 Fólk frá allri Júdeu og allir Jerúsalembúar komu til hans. Fólk játaði syndir sínar opinberlega og hann skírði það* í ánni Jórdan.+ 6 Jóhannes klæddist fötum úr úlfaldahári og var með leðurbelti um mittið.+ Hann át engisprettur og villihunang.+ 7 Hann boðaði: „Á eftir mér kemur sá sem er máttugri en ég, og ég er ekki þess verðugur að krjúpa niður til að leysa ólarnar á sandölum hans.+ 8 Ég skírði ykkur með vatni en hann mun skíra ykkur með heilögum anda.“+
9 Um þessar mundir kom Jesús frá Nasaret í Galíleu og Jóhannes skírði hann í Jórdan.+ 10 Um leið og hann kom upp úr vatninu sá hann himnana opnast og andann koma niður yfir sig eins og dúfu,+ 11 og rödd heyrðist af himni: „Þú ert sonur minn sem ég elska. Ég hef velþóknun á þér.“+
12 Andinn knúði hann þegar í stað út í óbyggðirnar. 13 Hann dvaldist þar í 40 daga og Satan freistaði hans.+ Hann var meðal villidýranna en englar þjónuðu honum.+
14 Eftir að Jóhannes var handtekinn fór Jesús til Galíleu,+ boðaði fagnaðarboðskap Guðs+ 15 og sagði: „Tíminn er kominn og ríki Guðs er í nánd. Iðrist+ og trúið fagnaðarboðskapnum.“
16 Jesús gekk meðfram Galíleuvatni og sá Símon og Andrés bróður hans+ kasta netum sínum í vatnið+ en þeir voru fiskimenn.+ 17 Hann sagði við þá: „Komið og fylgið mér og ég skal láta ykkur veiða menn.“+ 18 Þeir yfirgáfu netin samstundis og fylgdu honum.+ 19 Hann gekk spölkorn lengra og sá þá Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróður hans þar sem þeir voru í báti sínum að bæta netin.+ 20 Hann kallaði strax á þá og þeir skildu Sebedeus föður sinn eftir í bátnum ásamt daglaunamönnunum og fylgdu honum. 21 Þeir komu nú til Kapernaúm.
Um leið og hvíldardagurinn hófst fór hann í samkunduhúsið og byrjaði að kenna.+ 22 Fólk var agndofa yfir kennslu hans því að hann kenndi eins og sá sem hefur vald en ekki eins og fræðimennirnir.+ 23 Á sama tíma var í samkunduhúsinu maður sem óhreinn andi hafði á valdi sínu. Hann hrópaði: 24 „Hvað viltu okkur, Jesús frá Nasaret?+ Ertu kominn til að tortíma okkur? Ég veit vel hver þú ert, hinn heilagi Guðs.“+ 25 En Jesús ávítaði andann og sagði: „Þegiðu og farðu úr honum!“ 26 Maðurinn fékk þá krampaflog af völdum óhreina andans sem æpti hástöfum og fór úr honum. 27 Allt fólkið var furðu lostið, fór að ræða þetta sín á milli og sagði: „Hvað er þetta? Hann kennir með nýjum hætti! Hann skipar jafnvel óhreinu öndunum fyrir og þeir hlýða honum.“ 28 Og fréttirnar af honum bárust hratt út um allt Galíleuhérað.
29 Þeir yfirgáfu nú samkunduhúsið og héldu heim til Símonar og Andrésar ásamt Jakobi og Jóhannesi.+ 30 Tengdamóðir Símonar+ lá veik með hita og þeir sögðu Jesú strax frá því. 31 Hann fór til hennar, tók í hönd hennar og reisti hana á fætur. Hitinn hvarf og hún fór að matbúa handa þeim.
32 Þegar komið var kvöld og sólin sest kom fólk til hans með alla sem voru veikir og andsetnir.+ 33 Allir borgarbúar voru samankomnir við dyrnar. 34 Hann læknaði marga sem þjáðust af ýmsum sjúkdómum+ og rak út marga illa anda en hann leyfði illu öndunum ekki að tala því að þeir vissu að hann var Kristur.*
35 Snemma morguns, meðan enn var myrkur, fór hann á fætur, gekk út og hélt á óbyggðan stað þar sem hann baðst fyrir.+ 36 En Símon og þeir sem voru með honum leituðu að honum 37 og fundu hann. Þeir sögðu við hann: „Allir eru að leita að þér.“ 38 En hann sagði við þá: „Förum annað, í bæina í grenndinni, til að ég geti líka boðað fagnaðarboðskapinn þar, því að til þess er ég kominn.“+ 39 Hann fór síðan og boðaði fagnaðarboðskapinn í samkunduhúsum um alla Galíleu og rak út illu andana.+
40 Holdsveikur maður kom einnig til Jesú, féll á kné og sárbændi hann: „Þú getur hreinsað mig ef þú bara vilt!“+ 41 Hann kenndi í brjósti um manninn, rétti út höndina, snerti hann og sagði við hann: „Ég vil! Vertu hreinn.“+ 42 Samstundis hvarf holdsveikin af honum og hann varð hreinn. 43 Síðan sendi hann manninn burt án tafar og gaf honum þessi ströngu fyrirmæli: 44 „Gættu þess að segja engum neitt, en farðu og sýndu þig prestinum og færðu fórn fyrir hreinsun þína eins og Móselögin kveða á um+ til að sanna að þú sért læknaður.“+ 45 Maðurinn fór en talaði mikið um þetta og sagði frá því úti um allt svo að Jesús gat ekki lengur sýnt sig opinberlega í borgum heldur hélt sig á óbyggðum slóðum. Fólk streymdi samt til hans úr öllum áttum.+
2 Nokkrum dögum síðar kom hann aftur til Kapernaúm og það fréttist að hann væri heima.+ 2 Svo margir flykktust þangað að ekki var pláss fyrir fleiri, ekki einu sinni við dyrnar, og hann fór að flytja þeim orðið.+ 3 Þá var komið til hans með lamaðan mann sem fjórir báru.+ 4 En þeir komust ekki með hann að Jesú vegna mannfjöldans. Þeir rifu því þakið fyrir ofan Jesú og þegar þeir höfðu grafið gegnum það létu þeir börurnar sem lamaði maðurinn lá á síga niður. 5 Þegar Jesús sá trú þeirra+ sagði hann við lamaða manninn: „Barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“+ 6 Þarna sátu nokkrir fræðimenn og hugsuðu í hjörtum sínum:+ 7 „Hvers vegna segir maðurinn þetta? Hann guðlastar. Hver getur fyrirgefið syndir nema Guð einn?“+ 8 Jesús skynjaði þegar í stað að þeir ræddu þannig sín á milli og sagði við þá: „Hvers vegna hugsið þið þannig í hjörtum ykkar?+ 9 Hvort er auðveldara að segja við lamaða manninn: ‚Syndir þínar eru fyrirgefnar,‘ eða: ‚Stattu upp, taktu börurnar og gakktu‘? 10 En til að þið vitið að Mannssonurinn+ hefur vald til að fyrirgefa syndir á jörð …“+ og nú talar hann við lamaða manninn: 11 „þá segi ég þér: Stattu upp, taktu börurnar og farðu heim.“ 12 Hann stóð þá upp, tók börurnar undireins og gekk út í allra augsýn. Allir voru furðu lostnir, lofuðu Guð og sögðu: „Við höfum aldrei séð neitt þessu líkt.“+
13 Jesús fór aftur út og gekk meðfram vatninu. Allur mannfjöldinn streymdi til hans og hann fór að kenna fólkinu. 14 Þegar hann hélt för sinni áfram kom hann auga á Leví Alfeusson þar sem hann sat á skattheimtustofunni. Jesús sagði við hann: „Fylgdu mér.“ Hann stóð þá upp og fylgdi honum.+ 15 Síðar borðaði Jesús* heima hjá honum og margir skattheimtumenn og syndarar borðuðu* með honum og lærisveinum hans en margir þeirra fylgdu honum.+ 16 En þegar fræðimenn úr hópi farísea sáu að hann borðaði með syndurum og skattheimtumönnum sögðu þeir við lærisveina hans: „Borðar hann með skattheimtumönnum og syndurum?“ 17 Jesús heyrði þetta og sagði við þá: „Heilbrigðir þurfa ekki á lækni að halda heldur þeir sem eru veikir. Ég kom ekki til að kalla réttláta heldur syndara.“+
18 Nú voru lærisveinar Jóhannesar og farísear vanir að fasta. Þeir komu því til Jesú og sögðu: „Hvers vegna hafa lærisveinar Jóhannesar og lærisveinar farísea fyrir sið að fasta en lærisveinar þínir ekki?“+ 19 Jesús svaraði: „Varla hafa vinir brúðgumans+ ástæðu til að fasta meðan brúðguminn er hjá þeim. Þeir geta ekki fastað meðan hann er hjá þeim. 20 En sá dagur kemur að brúðguminn verður tekinn frá þeim+ og á þeim degi fasta þeir. 21 Enginn saumar bót af óþæfðu efni á gamla flík. Ef það er gert hleypur nýja bótin og rifan á gömlu flíkinni verður enn stærri.+ 22 Og enginn lætur nýtt vín á gamla vínbelgi. Ef það er gert sprengir vínið belgina, vínið tapast og belgirnir skemmast. Nýtt vín er látið á nýja belgi.“
23 Hvíldardag nokkurn fór hann um kornakra og lærisveinar hans tóku að tína kornöx á leiðinni.+ 24 Farísearnir sögðu þá við hann: „Sjáðu nú! Hvers vegna gera þeir það sem er bannað á hvíldardegi?“ 25 En hann sagði við þá: „Hafið þið aldrei lesið hvað Davíð gerði þegar hann var matarlaus og hann og menn hans voru svangir?+ 26 Samkvæmt frásögunni af Abjatar+ yfirpresti gekk hann inn í hús Guðs og át skoðunarbrauðin sem enginn má borða nema prestarnir,+ og gaf einnig mönnum sínum af þeim.“ 27 Síðan sagði hann við þá: „Hvíldardagurinn varð til vegna mannsins+ en ekki maðurinn vegna hvíldardagsins. 28 Mannssonurinn er því líka drottinn hvíldardagsins.“+
3 Jesús gekk aftur inn í samkunduhús. Þar var maður með visna* hönd.+ 2 Farísear fylgdust vandlega með honum til að sjá hvort hann myndi lækna manninn á hvíldardegi því að þeir vildu ákæra hann. 3 Hann sagði við manninn með visnu* höndina: „Stattu upp og komdu fram í miðjan salinn.“ 4 Síðan spurði hann þá: „Er leyfilegt að gera gott eða illt á hvíldardegi, að bjarga lífi eða deyða?“+ En þeir þögðu. 5 Hann leit á þá sem voru í kringum hann, reiður og miður sín yfir kaldlyndi þeirra,+ og sagði við manninn: „Réttu fram höndina.“ Hann rétti fram höndina og hún varð heilbrigð. 6 Þá gengu farísearnir út og tóku þegar í stað að leggja á ráðin með fylgismönnum Heródesar+ um að drepa hann.
7 En Jesús hélt niður að vatninu með lærisveinum sínum og mikill mannfjöldi frá Galíleu og Júdeu fylgdi honum.+ 8 Þegar fólk heyrði um allt sem hann gerði flykktist það til hans, jafnvel frá Jerúsalem og Ídúmeu, frá svæðinu handan Jórdanar og nágrenni Týrusar og Sídonar. 9 Jesús sagði lærisveinunum að hafa lítinn bát til reiðu handa sér svo að mannfjöldinn þrengdi ekki að honum. 10 Þar sem hann læknaði marga þyrptust að honum allir sem voru haldnir alvarlegum sjúkdómum til að snerta hann.+ 11 Jafnvel þeir sem voru haldnir óhreinum öndum+ féllu fram fyrir honum þegar þeir sáu hann og hrópuðu: „Þú ert sonur Guðs!“+ 12 En hann harðbannaði þeim margsinnis að segja frá hver hann væri.+
13 Hann fór upp á fjall, kallaði saman þá sem hann hafði í huga+ og þeir komu til hans.+ 14 Hann valdi* 12 manna hóp og nefndi þá postula. Þeir áttu að fylgja honum og hann ætlaði að senda þá út til að boða fagnaðarboðskapinn 15 og gefa þeim vald til að reka út illa anda.+
16 Í þessum 12 manna hópi+ sem hann valdi* voru Símon, sem hann nefndi einnig Pétur,+ 17 Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróðir Jakobs (hann nefndi þá einnig Boanerges sem þýðir ‚þrumusynir‘),+ 18 Andrés, Filippus, Bartólómeus, Matteus, Tómas, Jakob Alfeusson, Taddeus, Símon Kananeus* 19 og Júdas Ískaríot sem síðar sveik hann.
Síðan fór hann inn í hús 20 og mannfjöldinn þyrptist að á nýjan leik svo að þeir gátu ekki einu sinni fengið sér að borða. 21 En þegar ættingjar hans fréttu það fóru þeir til að sækja hann því að þeir sögðu: „Hann er genginn af vitinu.“+ 22 Og fræðimennirnir sem komu ofan frá Jerúsalem sögðu: „Beelsebúl* er í honum og hann rekur út illu andana með hjálp höfðingja illu andanna.“+ 23 Þess vegna kallaði Jesús þá til sín og talaði til þeirra í líkingum: „Hvernig getur Satan rekið Satan út? 24 Ef sundrung verður í ríki fær ríkið ekki staðist+ 25 og ef sundrung verður í fjölskyldu fær fjölskyldan ekki staðist. 26 Hið sama er að segja um Satan. Ef hann hefur snúist gegn sjálfum sér og er orðinn sundraður fær hann ekki staðist heldur er úti um hann. 27 Reyndar getur enginn sem fer inn í hús hjá sterkum manni stolið eigum hans nema hann bindi fyrst manninn. Þá fyrst getur hann rænt hús hans. 28 Trúið mér, mönnunum verður fyrirgefið allt, hvaða syndir sem þeir drýgja og hvernig sem þeir lastmæla. 29 En þeim sem lastmælir gegn heilögum anda verður aldrei fyrirgefið,+ hann er sekur um eilífa synd.“+ 30 Hann sagði þetta vegna þess að þeir sögðu: „Hann er haldinn óhreinum anda.“+
31 Nú komu móðir hans og bræður.+ Þau stóðu fyrir utan og sendu eftir honum.+ 32 Fjöldi fólks sat í kringum hann og honum var sagt: „Móðir þín og bræður eru fyrir utan og spyrja eftir þér.“+ 33 Hann svaraði: „Hver eru móðir mín og bræður?“ 34 Síðan leit hann á þá sem sátu í kringum hann og sagði: „Sjáið, hér eru móðir mín og bræður.+ 35 Hver sem gerir vilja Guðs, sá er bróðir minn og systir og móðir.“+
4 Aftur fór hann að kenna við vatnið og mjög mikill mannfjöldi safnaðist að honum. Hann steig því um borð í bát og sat í honum skammt frá landi en allur mannfjöldinn var á ströndinni við vatnið.+ 2 Hann fór að kenna fólkinu margt með dæmisögum+ og sagði við það:+ 3 „Heyrið. Akuryrkjumaður gekk út að sá.+ 4 Þegar hann sáði féll sumt af korninu meðfram veginum og fuglar komu og átu það. 5 Annað féll í grýtta jörð þar sem var lítill jarðvegur og það spratt fljótt því að jarðvegurinn var grunnur.+ 6 En þegar sólin hækkaði á lofti skrælnaði það og dó vegna þess að það hafði litlar sem engar rætur. 7 Annað féll meðal þyrna og þyrnarnir uxu og kæfðu það og það bar engan ávöxt.+ 8 En sumt féll í góðan jarðveg. Það óx og stækkaði og bar ávöxt – þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan.“+ 9 Síðan bætti hann við: „Sá sem hefur eyru hann hlusti.“+
10 Þegar Jesús var orðinn einn með þeim tólf og hinum lærisveinunum spurðu þeir hann út í dæmisögurnar.+ 11 Hann svaraði þeim: „Ykkur er gefið að skilja heilaga leyndardóma+ Guðsríkis en þeir sem eru fyrir utan fá allt í dæmisögum+ 12 til að þeir skynji ekki þó að þeir sjái og skilji ekki þó að þeir heyri. Þeir snúa ekki aftur til Guðs né hljóta fyrirgefningu.“+ 13 Hann sagði einnig við þá: „Fyrst þið skiljið ekki þessa dæmisögu hvernig getið þið þá skilið allar hinar dæmisögurnar?
14 Akuryrkjumaðurinn sáir orðinu.+ 15 Sumir eru eins og sáðkornið sem féll meðfram veginum. Um leið og þeir heyra orðið kemur Satan+ og tekur burt orðið sem var sáð í þá.+ 16 Eins er með það sem var sáð í grýtta jörð. Það eru þeir sem taka við orðinu með fögnuði um leið og þeir heyra það+ 17 en orðið nær ekki rótfestu í þeim. Þeir standa um tíma en falla um leið og erfiðleikar eða ofsóknir verða vegna orðsins. 18 Og sumu er sáð meðal þyrna. Þetta eru þeir sem heyra orðið+ 19 en áhyggjur+ daglegs lífs,* tál auðæfanna+ og löngunin í allt mögulegt annað+ þrengir að þeim og kæfir orðið svo að það ber ekki ávöxt. 20 En það sem var sáð í góðan jarðveg eru þeir sem hlusta á orðið, taka við því og bera ávöxt – þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan.“+
21 Hann sagði líka við þá: „Lampi er ekki tekinn fram og settur undir körfu* eða undir rúm. Er hann ekki tekinn fram til að setja hann á ljósastand?+ 22 Ekkert er hulið sem verður ekki afhjúpað og ekkert er vandlega falið sem kemur ekki í ljós.+ 23 Hver sem hefur eyru hann hlusti.“+
24 Hann sagði enn fremur við þá: „Takið eftir því sem þið heyrið.+ Ykkur verður mælt í sama mæli og þið mælið öðrum, já, og þið fáið meira en það 25 því að þeim sem hefur verður gefið meira,+ en frá þeim sem hefur ekki verður tekið jafnvel það litla sem hann hefur.“+
26 Hann sagði einnig: „Ríki Guðs er eins og þegar maður sáir korni í jörð. 27 Hann sefur um nætur og fer á fætur á morgnana. Á meðan spírar kornið og plantan vex og stækkar en hann veit ekki hvernig. 28 Jörðin ber sjálfkrafa ávöxt stig af stigi, fyrst stilkinn, síðan axið og að lokum fullþroskað kornið í axinu. 29 En um leið og kornið er þroskað beitir hann sigðinni því að uppskerutíminn er hafinn.“
30 Hann hélt áfram: „Við hvað getum við líkt ríki Guðs og með hvaða dæmisögu getum við lýst því? 31 Það er eins og sinnepsfræ sem er smæsta fræið á jörð þegar því er sáð í mold.+ 32 En eftir að því er sáð vex það og verður stærra en allar aðrar plöntur og greinarnar svo stórar að fuglar himins geta fundið sér samastað í skugganum.“
33 Hann boðaði þeim orðið með mörgum dæmisögum+ af þessu tagi, allt eftir því sem þeir gátu skilið. 34 Hann talaði reyndar ekki til þeirra án dæmisagna en útskýrði allt fyrir lærisveinunum þegar þeir voru einir með honum.+
35 Að kvöldi sama dags sagði Jesús við þá: „Förum yfir á ströndina hinum megin.“+ 36 Eftir að þeir höfðu sent mannfjöldann frá sér fóru þeir með Jesú á bátnum og aðrir bátar fylgdu honum.+ 37 Nú brast á mikill stormur og öldurnar gengu yfir bátinn svo að við lá að hann fyllti.+ 38 En Jesús lá í skutnum og svaf á koddanum.* Þeir vöktu hann og sögðu við hann: „Kennari, er þér sama um að við erum að farast?“ 39 Hann reis þá upp, hastaði á vindinn og sagði við vatnið: „Þegiðu! Stilltu þig!“+ Þá lægði vindinn og allt datt í dúnalogn. 40 Hann sagði við þá: „Af hverju eruð þið svona hræddir? Hafið þið enn enga trú?“ 41 En þeir voru logandi hræddir og sögðu hver við annan: „Hver er hann eiginlega? Jafnvel vindurinn og vatnið hlýða honum.“+
5 Þeir komu nú í Gerasenahérað hinum megin við vatnið.+ 2 Um leið og Jesús steig úr bátnum kom til hans maður frá gröfunum. Hann var haldinn óhreinum anda. 3 Hann hélt til hjá gröfunum og fram til þessa hafði enginn getað bundið hann tryggilega, ekki einu sinni með keðju. 4 Hann hafði oft verið fjötraður á höndum og fótum en hann sleit af sér hlekkina og braut fjötrana og enginn var nógu sterkur til að ráða við hann. 5 Dag og nótt æpti hann stanslaust hjá gröfunum og á fjöllunum og lamdi sig með grjóti. 6 Þegar hann kom auga á Jesú álengdar hljóp hann til hans, féll fram fyrir honum+ 7 og hrópaði hárri röddu: „Hvað viltu mér, Jesús, sonur hins hæsta Guðs? Sverðu við Guð að kvelja mig ekki.“+ 8 En Jesús hafði sagt við andann: „Óhreini andi, farðu úr manninum.“+ 9 Jesús spurði hann: „Hvað heitirðu?“ Hann svaraði: „Ég heiti Hersing því að við erum margir.“ 10 Og hann þrábað Jesú að senda andana ekki úr héraðinu.+
11 Þar á fjallinu var stór svínahjörð+ á beit.+ 12 Andarnir báðu hann: „Sendu okkur í svínin svo að við getum farið í þau.“ 13 Hann leyfði þeim það og óhreinu andarnir fóru þá úr manninum og í svínin. Hjörðin, um 2.000 dýr, æddi fram af þverhnípinu* og drukknaði í vatninu. 14 En svínahirðarnir flúðu og sögðu fréttirnar í borginni og sveitinni og fólk kom til að sjá hvað hafði gerst.+ 15 Það kom til Jesú og sá andsetna manninn sem hersingin hafði verið í sitja klæddan og með réttu ráði. Og fólkið varð hrætt. 16 En þeir sem höfðu séð þetta sögðu fólkinu frá því sem hafði gerst með andsetna manninn og svínin. 17 Þeir báðu þá Jesú að yfirgefa héraðið.+
18 Jesús steig nú um borð í bátinn og maðurinn sem hafði verið andsetinn bað um að fá að fara með honum.+ 19 En hann leyfði honum það ekki heldur sagði við hann: „Farðu heim til ættingja þinna og segðu þeim frá öllu sem Jehóva* hefur gert fyrir þig og hvernig hann miskunnaði þér.“ 20 Maðurinn fór burt og sagði frá í Dekapólis* hvað Jesús hafði gert fyrir hann og allir voru furðu lostnir.
21 Þegar Jesús var kominn aftur á bátnum yfir á ströndina hinum megin safnaðist að honum mikill mannfjöldi þar sem hann var við vatnið.+ 22 Einn af samkundustjórunum, Jaírus að nafni, kom nú þangað. Þegar hann sá Jesú féll hann til fóta honum.+ 23 Hann margbað hann og sagði: „Litla dóttir mín er fárveik.* Viltu koma og leggja hendur yfir hana+ svo að henni batni og hún fái að lifa.“ 24 Jesús fór þá með honum og mikill mannfjöldi elti hann og þrengdi að honum.
25 Meðal fólksins var kona sem hafði haft stöðugar blæðingar+ í 12 ár.+ 26 Hún hafði þjáðst mikið hjá mörgum læknum og eytt aleigu sinni en henni hafði ekki batnað heldur bara versnað. 27 Hún hafði heyrt um Jesú og kom nú að honum aftan frá í mannþrönginni og snerti yfirhöfn hans+ 28 því að hún sagði við sjálfa sig: „Ef ég snerti bara yfirhöfn hans læknast ég.“+ 29 Og blæðingarnar stöðvuðust samstundis, og hún fann að hún hafði læknast af þjakandi sjúkdómi sínum.
30 Jesús skynjaði um leið að kraftur+ hafði farið út frá honum. Hann sneri sér við í mannþrönginni og spurði: „Hver snerti yfirhöfn mína?“+ 31 Lærisveinarnir sögðu við hann: „Þú sérð að mannfjöldinn þrengir að þér og samt spyrðu: ‚Hver snerti mig?‘“ 32 En hann leit í kringum sig til að sjá hver hefði gert þetta. 33 Konan kom þá hrædd og skjálfandi því að hún vissi hvað hafði gerst hjá sér. Hún féll til fóta honum og sagði honum allan sannleikann. 34 Hann sagði við hana: „Dóttir, trú þín hefur læknað þig. Farðu í friði,+ þú ert laus við þennan þjakandi sjúkdóm.“+
35 Meðan hann var enn að tala komu menn heiman frá samkundustjóranum og sögðu: „Dóttir þín er dáin. Er nokkur ástæða til að ónáða kennarann lengur?“+ 36 En Jesús heyrði þetta og sagði við samkundustjórann: „Vertu óhræddur, trúðu bara.“+ 37 Nú leyfði hann engum að fylgja sér nema Pétri, Jakobi og Jóhannesi bróður Jakobs.+
38 Þeir komu að húsi samkundustjórans og hann sá að fólk var í uppnámi og grét og kveinaði hástöfum.+ 39 Hann fór inn og sagði við fólkið: „Hvers vegna grátið þið og eruð í uppnámi? Barnið er ekki dáið, það sefur.“+ 40 Þá hló fólkið að honum. En hann lét alla fara út og fór inn til stúlkunnar ásamt föður hennar og móður og þeim sem voru með honum. 41 Síðan tók hann í hönd hennar og sagði við hana: „Talíþa kúm,“ sem þýðir: ‚Stúlka litla, ég segi þér: Rístu upp!‘+ 42 Stúlkan reis strax á fætur og fór að ganga um. (Hún var 12 ára.) Þau voru frá sér numin af gleði. 43 En hann bannaði þeim ítrekað að segja nokkrum frá þessu+ og sagði þeim að gefa henni eitthvað að borða.
6 Hann fór þaðan og kom í heimabyggð sína+ og lærisveinarnir fylgdu honum. 2 Á hvíldardeginum kenndi hann í samkunduhúsinu og flestir sem hlustuðu á hann voru agndofa og sögðu: „Hvar hefur maðurinn lært þetta?+ Hvernig skyldi hann hafa fengið þessa visku og af hverju getur hann unnið slík máttarverk?+ 3 Er þetta ekki smiðurinn,+ sonur Maríu+ og bróðir Jakobs,+ Jósefs, Júdasar og Símonar?+ Og eru ekki systur hans hérna hjá okkur?“ Og þeir höfnuðu honum. 4 En Jesús sagði við þá: „Spámaður er alls staðar mikils metinn nema í heimabyggð sinni, meðal ættingja sinna og á eigin heimili.“+ 5 Hann gat því ekki gert nein máttarverk þar nema að leggja hendur yfir fáeina veika og lækna þá. 6 Hann furðaði sig á vantrú þeirra. Og hann fór um þorpin þar í kring og kenndi.+
7 Hann kallaði nú til sín þá tólf, sendi þá út tvo og tvo+ og gaf þeim vald yfir óhreinu öndunum.+ 8 Hann sagði þeim líka að taka ekkert með til ferðarinnar nema staf – hvorki brauð, nestispoka né peninga* í beltum sínum.+ 9 Þeir áttu að vera í sandölum en ekki hafa með sér föt til skiptanna.* 10 Hann sagði líka við þá: „Þegar þið komið inn á heimili skuluð þið dvelja þar þangað til þið leggið af stað aftur.+ 11 Ef ekki er tekið á móti ykkur einhvers staðar eða hlustað á ykkur skuluð þið hrista rykið af fótum ykkar þegar þið farið, fólkinu til viðvörunar.“+ 12 Síðan lögðu þeir af stað og boðuðu að fólk ætti að iðrast.+ 13 Þeir ráku út marga illa anda+ og báru olíu á marga sem voru veikir og læknuðu þá.
14 Heródes konungur frétti þetta enda var nafn Jesú orðið þekkt. Fólk sagði: „Jóhannes skírari er risinn upp frá dauðum og þess vegna getur hann unnið máttarverk.“+ 15 Aðrir sögðu: „Þetta er Elía.“ Og enn aðrir sögðu: „Hann er spámaður eins og spámennirnir til forna.“+ 16 En þegar Heródes heyrði þetta sagði hann: „Þessi Jóhannes sem ég lét hálshöggva, hann er risinn upp.“ 17 Heródes hafði sjálfur sent menn til að handtaka Jóhannes, fjötra hann og varpa í fangelsi vegna Heródíasar, eiginkonu Filippusar bróður síns. Heródes hafði gifst henni+ 18 en Jóhannes hafði margsinnis sagt við hann: „Þú hefur ekki leyfi til að eiga konu bróður þíns.“+ 19 Þess vegna hataði Heródías hann og vildi drepa hann. En hún gat það ekki 20 því að Heródes óttaðist Jóhannes og verndaði hann þar sem hann vissi að hann var réttlátur og heilagur maður.+ Eftir að hafa hlustað á hann var hann mjög ráðvilltur en samt hlustaði hann gjarnan á hann aftur.
21 En nú rann upp hentugur dagur þegar Heródes bauð háttsettum embættismönnum sínum, herforingjum og merkismönnum Galíleu til kvöldverðar á afmælisdegi sínum.+ 22 Dóttir Heródíasar kom inn og dansaði, Heródesi og gestum hans til mikillar ánægju. Konungur sagði við stúlkuna: „Þú mátt biðja mig um hvað sem þú vilt og ég skal gefa þér það.“ 23 Já, hann sór henni eið: „Ég skal gefa þér hvað sem þú biður mig um, allt að helming ríkis míns.“ 24 Hún fór út og spurði móður sína: „Um hvað ætti ég að biðja?“ Hún svaraði: „Höfuð Jóhannesar skírara.“ 25 Stúlkan flýtti sér inn til konungs og bar fram bón sína: „Ég vil að þú gefir mér þegar í stað höfuð Jóhannesar skírara á fati.“+ 26 Konungur varð mjög hryggur en vildi ekki neita henni um þetta vegna eiðsins og gesta sinna. 27 Konungur sendi því lífvörð án tafar og skipaði honum að koma með höfuð Jóhannesar. Hann fór og hjó höfuðið af Jóhannesi í fangelsinu 28 og kom með það á fati. Hann færði stúlkunni það og hún móður sinni. 29 Þegar lærisveinar hans fréttu þetta komu þeir, tóku lík hans og lögðu það í gröf.
30 Postularnir komu aftur til Jesú og sögðu honum frá öllu sem þeir höfðu gert og kennt.+ 31 Hann sagði við þá: „Komið með mér á óbyggðan stað þar sem við getum verið einir og þið getið hvílt ykkur aðeins.“+ Fjöldi fólks var að koma og fara svo að þeir höfðu ekki einu sinni næði til að borða. 32 Þeir fóru þá á bátnum á óbyggðan stað til að vera einir.+ 33 En fólk sá þá fara og margir fréttu það og fólk úr öllum borgunum hljóp þangað og var komið á undan þeim. 34 Þegar hann steig á land sá hann mikinn mannfjölda. Hann kenndi í brjósti um fólkið+ því að það var eins og sauðir án hirðis+ og hann fór að kenna því margt.+
35 Nú var langt liðið á daginn og lærisveinarnir komu til hans og sögðu: „Þetta er afskekktur staður og það er orðið áliðið.+ 36 Sendu fólkið burt svo að það geti komist í sveitina og þorpin í kring og keypt sér eitthvað að borða.“+ 37 Hann svaraði þeim: „Þið getið gefið því að borða.“ Þeir sögðu þá við hann: „Eigum við að fara og kaupa brauð fyrir 200 denara* og gefa fólkinu að borða?“+ 38 Hann spurði þá: „Hvað eruð þið með mörg brauð? Kannið málið.“ Þeir gerðu það og sögðu: „Fimm brauð og tvo fiska.“+ 39 Hann sagði þá öllu fólkinu að skipta sér í hópa og setjast í grængresið.+ 40 Fólkið settist þá í 100 manna og 50 manna hópum. 41 Hann tók nú brauðin fimm og fiskana tvo, leit til himins og fór með bæn.+ Síðan braut hann brauðin og rétti lærisveinunum til að gefa fólkinu og hann skipti fiskunum tveim milli allra. 42 Allir borðuðu og urðu saddir. 43 Þeir tóku saman brauðbitana sem voru eftir og fylltu 12 körfur, auk leifanna af fiskinum.+ 44 Það voru 5.000 karlmenn sem borðuðu brauðið.
45 Síðan sagði hann lærisveinum sínum að fara tafarlaust um borð í bátinn og fara á undan yfir vatnið í átt að Betsaídu á meðan hann sendi mannfjöldann burt.+ 46 Eftir að hafa kvatt fór hann upp á fjall til að biðjast fyrir.+ 47 Þegar komið var kvöld var báturinn á miðju vatninu en Jesús var einn í landi.+ 48 Hann sá að róðurinn var þeim þungur því að þeir höfðu mótvind. Hann kom þá í átt til þeirra um fjórðu næturvöku,* gangandi á vatninu, en virtist ætla* fram hjá þeim. 49 Þegar þeir sáu hann ganga á vatninu hugsuðu þeir: „Þetta er andi!“ Og þeir æptu upp yfir sig. 50 Þeir sáu hann allir og urðu skelkaðir. En hann sagði strax við þá: „Verið rólegir. Þetta er ég, verið ekki hræddir.“+ 51 Síðan steig hann upp í bátinn til þeirra og vindinn lægði. Þeir urðu agndofa 52 því að þeir höfðu ekki skilið hvað það merkti sem gerðist með brauðin og hjörtu þeirra voru enn skilningssljó.
53 Þegar þeir voru komnir yfir vatnið lögðu þeir bátnum við akkeri í grennd við Genesaret.+ 54 En fólk þekkti hann um leið og þeir stigu úr bátnum. 55 Það hljóp um allt héraðið og sótti sjúka og kom með þá á börum þangað sem það hafði heyrt að hann væri. 56 Hvar sem hann kom í þorp, borgir eða sveitir lögðu menn sjúka á markaðstorgin og þeir sárbændu hann að fá rétt að snerta kögrið á yfirhöfn hans.+ Og allir sem snertu það læknuðust.
7 Farísearnir og nokkrir af fræðimönnunum sem höfðu komið frá Jerúsalem söfnuðust nú í kringum Jesú.+ 2 Þeir sáu suma lærisveina hans borða með óhreinum höndum, það er að segja óþvegnum.* 3 (En farísear og Gyðingar almennt borða ekki án þess að þvo sér um hendur upp að olnboga. Þeir halda fast við erfðavenjur manna frá fyrri tíð 4 og þegar þeir koma af markaðinum borða þeir ekki án þess að þvo sér fyrst. Þeir halda fast við margar aðrar erfðavenjur sem þeir hafa tekið við, svo sem að dýfa bikurum, könnum og koparílátum í vatn.)+ 5 Farísearnir og fræðimennirnir spurðu hann þess vegna: „Af hverju halda lærisveinar þínir ekki erfðavenjur manna frá fyrri tíð heldur borða með óhreinum höndum?“+ 6 Hann svaraði þeim: „Jesaja hafði rétt fyrir sér þegar hann spáði um ykkur hræsnarana. Hann skrifaði: ‚Þetta fólk heiðrar mig með vörunum en hjörtu þess eru fjarlæg mér.+ 7 Það tilbiður mig til einskis því að það kennir mannaboð eins og trúarsetningar.‘+ 8 Þið sleppið boðorðum Guðs og haldið fast við erfðavenjur manna.“+
9 Hann sagði líka við þá: „Þið sniðgangið boðorð Guðs listilega til að halda erfikenningar ykkar.+ 10 Móse sagði til dæmis: ‚Sýndu föður þínum og móður virðingu,‘+ og: ‚Sá sem formælir föður sínum eða móður skal tekinn af lífi.‘+ 11 En þið segið: ‚Maður getur sagt við föður sinn eða móður: „Það sem ég á og getur gagnast þér er korban (það er gjöf helguð Guði).“‘ 12 Þá þarf hann ekki lengur að gera nokkuð fyrir föður sinn eða móður.+ 13 Þannig ógildið þið orð Guðs með erfikenningum ykkar sem þið hafið látið ganga mann fram af manni.+ Og þið gerið margt annað þessu líkt.“+ 14 Hann kallaði nú mannfjöldann aftur til sín og sagði: „Hlustið öll á mig og reynið að skilja það sem ég segi.+ 15 Ekkert sem kemur inn í manninn getur óhreinkað hann en það sem kemur út af manninum óhreinkar hann.“+ 16* ——
17 Þegar hann hafði yfirgefið mannfjöldann og var kominn inn í hús fóru lærisveinarnir að spyrja hann um líkinguna.+ 18 Hann svaraði þeim: „Skiljið þið þetta ekki heldur? Vitið þið ekki að ekkert getur óhreinkað manninn sem kemur inn í hann? 19 Það fer ekki inn í hjartað heldur í magann og síðan út í skólpræsið.“ Þannig lýsti hann yfir að allur matur væri hreinn. 20 Hann hélt áfram: „Það sem kemur út af manninum er það sem óhreinkar hann,+ 21 því að innan frá, úr hjörtum manna,+ koma skaðlegar hugsanir sem hafa í för með sér kynferðislegt siðleysi,* þjófnað, morð, 22 hjúskaparbrot, græðgi, ill verk, svik, blygðunarlausa hegðun,* öfund, lastmæli, hroka og óskynsemi. 23 Allt þetta illa kemur innan frá og óhreinkar manninn.“
24 Jesús fór þaðan og hélt til héraðs Týrusar og Sídonar.+ Hann gekk þar inn í hús og vildi ekki að neinn vissi af því en fólk tók samt eftir honum. 25 Kona nokkur, sem átti litla dóttur haldna óhreinum anda, frétti strax af honum og kom og féll til fóta honum.+ 26 Konan var frá* Sýrlensku-Fönikíu, grísk að ætterni, og hún þrábað hann að reka illa andann úr dóttur sinni. 27 En hann sagði við hana: „Fyrst eiga börnin að borða nægju sína því að það er ekki rétt að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hvolpana.“+ 28 Hún svaraði honum: „Það er satt, herra, en hvolparnir undir borðinu éta samt brauðmolana sem börnin missa.“ 29 Þá sagði hann við hana: „Fyrst þú sagðir þetta skaltu fara heim, illi andinn er farinn úr dóttur þinni.“+ 30 Hún fór þá heim og fann barnið liggjandi á rúminu en illi andinn var farinn.+
31 Þegar Jesús sneri aftur frá Týrushéraði fór hann um Sídon og Dekapólishérað* til Galíleuvatns.+ 32 Þar komu menn til hans með heyrnarlausan og málhaltan mann+ og báðu hann að leggja hendur yfir hann. 33 Hann fór með manninn afsíðis, frá mannfjöldanum, og stakk fingrunum í eyru hans. Síðan spýtti hann á fingur sér og snerti tungu hans.+ 34 Hann leit upp til himins, andvarpaði þungt og sagði við hann: „Effaþa,“ sem þýðir: ‚Opnist þú.‘ 35 Þá opnuðust eyru mannsins,+ málheltin hvarf og hann fór að tala eðlilega. 36 Jesús bannaði fólkinu að segja nokkrum frá þessu+ en því meira sem hann bannaði það því meira talaði fólkið um það.+ 37 Fólkið var gjörsamlega agndofa+ og sagði: „Allt sem hann gerir er gott. Hann gefur jafnvel heyrnarlausum heyrn og mállausum mál.“+
8 Um þessar mundir var aftur kominn saman mikill mannfjöldi. Fólkið hafði ekkert að borða svo að Jesús kallaði lærisveinana til sín og sagði við þá: 2 „Ég kenni í brjósti um fólkið+ því að það er búið að vera hjá mér í þrjá daga og hefur ekkert að borða.+ 3 Ef ég læt það fara svangt* heim örmagnast það á leiðinni en sumir eru komnir langt að.“ 4 En lærisveinarnir svöruðu honum: „Hvar er hægt að fá nóg brauð á þessum afskekkta stað til að metta allt fólkið?“ 5 Þá spurði hann: „Hvað eruð þið með mörg brauð?“ Þeir svöruðu: „Sjö.“+ 6 Hann sagði þá fólkinu að setjast á jörðina. Síðan tók hann brauðin sjö, fór með þakkarbæn, braut þau og gaf lærisveinunum og þeir færðu fólkinu.+ 7 Þeir voru líka með fáeina litla fiska, og eftir að hafa þakkað Guði sagði hann lærisveinunum að bera þá líka fram. 8 Allir átu og urðu saddir. Þeir tóku saman leifarnar og þær fylltu sjö stórar körfur.+ 9 Þarna voru um 4.000 karlmenn. Eftir það lét hann fólkið fara.
10 Hann fór nú tafarlaust um borð í bátinn ásamt lærisveinunum og kom til Dalmanútabyggða.+ 11 Farísearnir komu þangað og fóru að þræta við hann. Þeir vildu reyna hann og kröfðu hann um tákn af himni.+ 12 Þá andvarpaði hann þungt og sagði: „Hvers vegna vill þessi kynslóð fá tákn?+ Trúið mér, þessi kynslóð fær ekkert tákn.“+ 13 Síðan yfirgaf hann þá, fór aftur um borð og sigldi yfir á ströndina hinum megin.
14 En lærisveinarnir gleymdu að taka með sér brauð og höfðu ekkert meðferðis í bátnum nema eitt brauð.+ 15 Jesús sagði þeim umbúðalaust að gæta sín: „Hafið augun opin og varið ykkur á súrdeigi faríseanna og súrdeigi Heródesar.“+ 16 Þeir fóru þá að þræta vegna þess að þeir höfðu ekki tekið með sér brauð. 17 Hann tók eftir því og sagði við þá: „Af hverju þrætið þið um að þið hafið ekki brauð? Skynjið þið ekki enn né skiljið? Eru hjörtu ykkar enn skilningssljó? 18 ‚Sjáið þið ekki þótt þið hafið augu? Heyrið þið ekki þótt þið hafið eyru?‘ Munið þið ekki 19 hvað þið tókuð saman margar körfur af brauðbitum þegar ég braut brauðin fimm+ handa 5.000 mönnum?“ „Tólf,“+ svöruðu þeir. 20 „Hvað tókuð þið saman margar stórar körfur af brauðbitum þegar ég braut brauðin sjö handa 4.000 mönnum?“ „Sjö,“+ svöruðu þeir. 21 Þá sagði hann við þá: „Skiljið þið þetta ekki enn þá?“
22 Nú lögðu þeir að landi við Betsaídu. Þar kom fólk til Jesú með blindan mann og sárbændi hann um að snerta hann.+ 23 Hann tók í hönd blinda mannsins og leiddi hann út fyrir þorpið. Eftir að hafa spýtt í augu hans+ lagði hann hendur yfir hann og spurði: „Sérðu eitthvað?“ 24 Maðurinn leit upp og sagði: „Mér finnst ég sjá fólk. Það lítur út eins og tré en það gengur um.“ 25 Jesús lagði hendurnar aftur á augu mannsins og nú sá hann skýrt. Hann fékk sjónina aftur og gat séð allt greinilega. 26 Þá sendi hann manninn heim og sagði: „Farðu ekki inn í þorpið.“
27 Jesús og lærisveinarnir fóru nú til þorpanna í kringum Sesareu Filippí. Á leiðinni spurði hann þá: „Hver heldur fólk að ég sé?“+ 28 Þeir svöruðu honum: „Jóhannes skírari+ en sumir segja Elía+ og aðrir einn af spámönnunum.“ 29 Þá spurði hann: „En þið, hver segið þið að ég sé?“ Pétur svaraði honum: „Þú ert Kristur.“+ 30 En hann bannaði þeim stranglega að segja nokkrum frá sér.+ 31 Hann fór líka að skýra fyrir þeim að Mannssonurinn þyrfti að þola miklar þjáningar og að öldungarnir, yfirprestarnir og fræðimennirnir myndu hafna honum. Hann yrði líflátinn+ og risi upp þrem dögum síðar.+ 32 Hann sagði þetta berum orðum. En Pétur fór með hann afsíðis og ávítaði hann.+ 33 Jesús sneri sér þá við, leit á lærisveinana, ávítaði Pétur og sagði: „Farðu burt frá mér,* Satan! Þú hugsar ekki eins og Guð heldur eins og menn.“+
34 Hann kallaði nú til sín mannfjöldann og lærisveina sína og sagði: „Sá sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kvalastaur* sinn og fylgi mér.+ 35 Hver sem vill bjarga lífi sínu týnir því en hver sem týnir lífi sínu vegna mín og fagnaðarboðskaparins bjargar því.+ 36 Hvaða gagn hefur maðurinn af því að eignast allan heiminn en týna lífi sínu?+ 37 Hvað gæfi maðurinn eiginlega í skiptum fyrir líf sitt?+ 38 Hvern þann sem skammast sín fyrir mig og orð mín meðal þessarar ótrúu og syndugu kynslóðar mun Mannssonurinn skammast sín fyrir+ þegar hann kemur í dýrð föður síns ásamt hinum heilögu englum.“+
9 Hann hélt áfram og sagði: „Trúið mér, sumir þeirra sem standa hér munu ekki deyja fyrr en þeir sjá ríki Guðs komið og við völd.“+ 2 Sex dögum síðar tók Jesús þá Pétur, Jakob og Jóhannes með sér upp á hátt fjall þar sem þeir voru einir. Þar ummyndaðist hann frammi fyrir þeim.+ 3 Föt hans ljómuðu og urðu langtum hvítari en nokkur þvottamaður á jörð hefði getað gert þau. 4 Og Elía birtist þeim ásamt Móse og þeir töluðu við Jesú. 5 Pétur sagði þá við Jesú: „Rabbí,* það er gott að vera hér. Reisum þrjú tjöld, eitt handa þér, eitt handa Móse og eitt handa Elía.“ 6 Hann vissi í rauninni ekki hvernig hann átti að bregðast við enda voru þeir mjög hræddir. 7 Ský myndaðist og huldi þá og rödd+ heyrðist úr skýinu: „Þetta er sonur minn sem ég elska.+ Hlustið á hann.“+ 8 Síðan litu þeir í kringum sig og sáu að enginn var með þeim lengur nema Jesús.
9 Á leiðinni ofan af fjallinu bannaði Jesús þeim að segja nokkrum frá því sem þeir höfðu séð+ fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum.+ 10 Þeir tóku orð hans alvarlega* en ræddu sín á milli hvað hann ætti við með því að hann risi upp frá dauðum. 11 Þeir spurðu hann: „Hvers vegna segja fræðimennirnir að Elía+ eigi að koma fyrst?“+ 12 Hann svaraði þeim: „Það er rétt að Elía kemur fyrst og færir allt í samt lag.+ En hvers vegna stendur skrifað um Mannssoninn að hann þurfi að ganga gegnum miklar þjáningar+ og vera fyrirlitinn?+ 13 Ég segi ykkur að Elía+ er reyndar kominn og þeir fóru með hann eins og þeim sýndist, rétt eins og skrifað er um hann.“+
14 Þegar þeir komu til hinna lærisveinanna sáu þeir mikinn mannfjölda kringum þá og fræðimenn voru að þræta við þá.+ 15 En um leið og allt fólkið kom auga á Jesú varð það steinhissa og hljóp til hans til að heilsa honum. 16 Þá spurði hann: „Um hvað eruð þið að þræta við þá?“ 17 Einn úr mannfjöldanum svaraði honum: „Kennari, ég kom með son minn til þín því að hann er haldinn anda sem gerir hann mállausan.+ 18 Hvar sem andinn grípur hann kastar hann honum til jarðar og hann froðufellir, gnístir tönnum og missir máttinn. Ég bað lærisveina þína að reka hann út en þeir gátu það ekki.“ 19 Jesús sagði þá við fólkið: „Þú trúlausa kynslóð,+ hve lengi þarf ég að vera hjá ykkur? Hve lengi þarf ég að umbera ykkur? Komið með hann til mín.“+ 20 Þeir komu þá með drenginn til Jesú. En um leið og andinn sá hann olli hann krampaflogi hjá drengnum og hann féll til jarðar, veltist um og froðufelldi. 21 Jesús spurði þá föður hans: „Hve lengi hefur þetta hrjáð hann?“ Hann svaraði: „Frá barnæsku, 22 og oft hefur andinn kastað honum bæði í eld og vatn til að fyrirfara honum. En ef þú getur gert eitthvað hafðu þá samúð með okkur og hjálpaðu okkur.“ 23 Jesús sagði við hann: „‚Ef þú getur,‘ segirðu. Sá sem trúir er fær um allt.“+ 24 Faðir barnsins hrópaði samstundis: „Ég trúi! Hjálpaðu mér að eignast sterkari trú!“*+
25 Jesús tók nú eftir að mannfjöldi streymdi til þeirra. Hann ávítaði þá óhreina andann og sagði við hann: „Þú mállausi og heyrnarlausi andi, ég skipa þér að fara úr honum og komdu aldrei í hann aftur!“+ 26 Andinn æpti og olli miklum krampaflogum og fór síðan úr honum. Drengurinn virtist vera dáinn þannig að flestir sögðu: „Hann er dáinn!“ 27 En Jesús tók í hönd hans, reisti hann upp og hann stóð á fætur. 28 Þegar Jesús var kominn inn í hús og var einn með lærisveinunum spurðu þeir hann: „Hvers vegna gátum við ekki rekið hann út?“+ 29 Hann svaraði: „Þessa tegund er ekki hægt að reka út nema með bæn.“
30 Þeir lögðu af stað þaðan og fóru um Galíleu en hann vildi ekki að neinn fengi að vita það 31 því að hann var að kenna lærisveinunum. Hann sagði við þá: „Mannssonurinn verður svikinn í hendur manna og þeir munu taka hann af lífi+ en þrem dögum síðar rís hann upp frá dauðum.“+ 32 En þeir skildu ekki það sem hann sagði og þorðu ekki að spyrja hann.
33 Þeir komu nú til Kapernaúm og þegar hann var kominn inn í húsið spurði hann þá: „Um hvað voruð þið að deila á leiðinni?“+ 34 Þeir þögðu því að þeir höfðu verið að deila um það sín á milli hver þeirra væri mestur. 35 Hann settist niður, kallaði til sín þá tólf og sagði: „Sá sem vill vera fremstur þarf að vera síðastur allra og þjónn allra.“+ 36 Síðan tók hann barn, lét það standa meðal þeirra, tók utan um það og sagði við þá: 37 „Hver sem tekur við einu slíku barni+ vegna nafns míns tekur einnig við mér og hver sem tekur við mér tekur ekki aðeins við mér heldur einnig þeim sem sendi mig.“+
38 Jóhannes sagði við hann: „Kennari, við sáum mann reka út illa anda í þínu nafni og við reyndum að aftra honum frá því þar sem hann fylgdi okkur ekki.“+ 39 En Jesús sagði: „Reynið ekki að aftra honum því að enginn sem vinnur máttarverk í mínu nafni getur talað illa um mig strax á eftir. 40 Sá sem er ekki á móti okkur er með okkur.+ 41 Ég fullvissa ykkur um að hver sem gefur ykkur bolla af vatni að drekka af því að þið tilheyrið Kristi+ fer alls ekki á mis við laun sín.+ 42 En ef einhver veldur því að einn af þessum minnstu sem trúa fellur væri betra fyrir hann að vera kastað í hafið með stóran myllustein* um hálsinn.+
43 Ef hönd þín verður þér að falli skaltu höggva hana af. Það er betra fyrir þig að ganga limlestur inn til lífsins en að hafa báðar hendur og lenda í Gehenna,* í hinum óslökkvandi eldi.+ 44* —— 45 Ef fótur þinn verður þér að falli skaltu höggva hann af. Það er betra fyrir þig að ganga einfættur inn til lífsins en að hafa báða fætur og vera kastað í Gehenna.*+ 46* —— 47 Og ef auga þitt verður þér að falli skaltu kasta því burt.+ Það er betra fyrir þig að ganga eineygður inn í ríki Guðs en að hafa bæði augun og vera kastað í Gehenna*+ 48 þar sem maðkurinn deyr ekki og eldurinn slokknar ekki.+
49 Allir verða að saltast með eldi.+ 50 Salt er gott en ef saltið missir seltuna með hverju ætlið þið þá að krydda það?+ Hafið salt í sjálfum ykkur+ og haldið frið hver við annan.“+
10 Hann lagði af stað þaðan og kom að útjaðri* Júdeu handan við Jórdan. Enn á ný safnaðist að honum fjöldi fólks og hann fór að kenna eins og hann var vanur.+ 2 Farísear komu til hans, ákveðnir í að reyna hann, og þeir spurðu hann hvort maður mætti skilja við konu sína.+ 3 Hann svaraði þeim: „Hvaða fyrirmæli gaf Móse ykkur?“ 4 Þeir svöruðu: „Móse sagði að það mætti skrifa skilnaðarbréf og skilja við hana.“+ 5 Jesús sagði við þá: „Hann gaf ykkur þetta boðorð+ vegna þess hve harðbrjósta þið eruð.+ 6 En í upphafi sköpunar ‚gerði Guð þau karl og konu.+ 7 Af þeirri ástæðu yfirgefur maður föður sinn og móður+ 8 og þau tvö verða eitt‘*+ þannig að þau eru ekki lengur tvö heldur eitt.* 9 Það sem Guð hefur tengt saman má enginn maður aðskilja.“+ 10 Þegar þeir voru komnir aftur inn í húsið spurðu lærisveinarnir hann út í þetta. 11 Hann sagði við þá: „Sá sem skilur við konu sína og giftist annarri fremur hjúskaparbrot+ 12 og ef kona skilur nokkurn tíma við mann sinn og giftist öðrum fremur hún hjúskaparbrot.“+
13 Fólk kom nú til hans með börn til að hann snerti þau en lærisveinarnir ávítuðu fólkið.+ 14 Þegar Jesús sá það gramdist honum og hann sagði við þá: „Leyfið börnunum að koma til mín. Reynið ekki að hindra þau því að ríki Guðs tilheyrir þeim sem eru eins og þau.+ 15 Trúið mér, sá sem tekur ekki við ríki Guðs eins og lítið barn kemst alls ekki inn í það.“+ 16 Og hann tók börnin í faðm sér, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.+
17 Hann hélt nú leiðar sinnar og kom þá maður hlaupandi, féll á kné frammi fyrir honum og spurði: „Góði kennari, hvað þarf ég að gera til að hljóta eilíft líf?“+ 18 Jesús svaraði: „Hvers vegna kallarðu mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn.+ 19 Þú þekkir boðorðin: ‚Þú skalt ekki myrða,+ þú skalt ekki fremja hjúskaparbrot,+ þú skalt ekki stela,+ þú skalt ekki bera ljúgvitni,+ þú skalt ekki pretta,+ sýndu föður þínum og móður virðingu.‘“+ 20 Þá sagði maðurinn: „Kennari, ég hef haldið allt þetta frá unga aldri.“ 21 Jesús horfði á hann með ástúð og sagði: „Þú þarft að gera eitt í viðbót: Farðu og seldu eigur þínar og gefðu fátækum og þá áttu fjársjóð á himni. Komdu síðan og fylgdu mér.“+ 22 En hann varð dapur við þetta svar og fór hryggur burt því að hann átti miklar eignir.+
23 Jesús leit í kringum sig og sagði við lærisveinana: „Mikið verður erfitt fyrir hina ríku að ganga inn í ríki Guðs.“+ 24 Lærisveinarnir voru hissa að heyra þetta. Jesús sagði þá: „Börn, það er virkilega erfitt að komast inn í ríki Guðs. 25 Það er auðveldara fyrir úlfalda að komast gegnum nálarauga en fyrir ríkan mann að ganga inn í ríki Guðs.“+ 26 Þeir urðu steini lostnir og sögðu við hann:* „Hver getur þá bjargast?“+ 27 Jesús horfði á þá og sagði: „Mönnum er það ógerlegt en ekki Guði því að Guð getur allt.“+ 28 Þá sagði Pétur við hann: „Við höfum yfirgefið allt og fylgt þér.“+ 29 Jesús sagði: „Trúið mér, enginn hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, móður eða föður, börn eða akra vegna mín og vegna fagnaðarboðskaparins+ 30 án þess að hann fái hundraðfalt aftur nú á þessum tíma – heimili, bræður, systur, mæður, börn og akra, ásamt ofsóknum+ – og í hinum komandi heimi* eilíft líf. 31 En margir hinna fyrstu verða síðastir og hinna síðustu fyrstir.“+
32 Þeir voru nú á leið upp til Jerúsalem og Jesús gekk á undan þeim. Þeir voru undrandi en hinir sem fylgdu á eftir urðu óttaslegnir. Enn á ný tók hann þá tólf afsíðis og fór að segja þeim frá því sem myndi bráðum koma fyrir hann:+ 33 „Nú erum við á leið upp til Jerúsalem og Mannssonurinn verður látinn í hendur yfirpresta og fræðimanna. Þeir munu dæma hann til dauða og láta hann í hendur manna af þjóðunum 34 sem munu hæðast að honum, hrækja á hann, húðstrýkja og taka af lífi, en þrem dögum síðar rís hann upp.“+
35 Jakob og Jóhannes Sebedeussynir+ komu að máli við hann og sögðu: „Kennari, við viljum að þú gerir fyrir okkur það sem við ætlum að biðja þig um.“+ 36 Hann sagði við þá: „Hvað viljið þið að ég geri fyrir ykkur?“ 37 Þeir svöruðu: „Leyfðu okkur að sitja við hlið þér í dýrð þinni, öðrum til hægri handar og hinum til vinstri.“+ 38 En Jesús sagði við þá: „Þið vitið ekki um hvað þið biðjið. Getið þið drukkið bikarinn sem ég drekk eða skírst þeirri skírn sem ég skírist?“+ 39 „Við getum það,“ svöruðu þeir. Þá sagði Jesús: „Þið skuluð drekka bikarinn sem ég drekk og skírast skírninni sem ég skírist.+ 40 En það er ekki mitt að ákveða hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Þessi sæti eru tekin frá handa þeim sem eiga að sitja þar.“
41 Þegar hinir tíu heyrðu af þessu urðu þeir gramir út í Jakob og Jóhannes.+ 42 En Jesús kallaði þá til sín og sagði: „Þið vitið að þeir sem teljast ráða yfir þjóðunum drottna yfir þeim og þeir sem eru háttsettir beita valdi sínu.+ 43 Þannig má það ekki vera hjá ykkur. Sá sem vill verða mikill á meðal ykkar á að vera þjónn ykkar+ 44 og sá sem vill vera fremstur á meðal ykkar á að vera þræll allra. 45 Jafnvel Mannssonurinn kom ekki til að láta þjóna sér heldur til að þjóna+ og gefa líf sitt sem lausnargjald fyrir marga.“+
46 Þeir komu nú til Jeríkó. En þegar hann var á leið út úr borginni ásamt lærisveinunum og töluverðum mannfjölda sat Bartímeus (sonur Tímeusar) við veginn, en hann var blindur betlari.+ 47 Þegar hann heyrði að það var Jesús frá Nasaret sem átti leið hjá fór hann að hrópa: „Sonur Davíðs,+ Jesús, miskunnaðu mér!“+ 48 Margir höstuðu á hann og sögðu honum að þegja en hann hrópaði bara enn ákafar: „Sonur Davíðs, miskunnaðu mér!“ 49 Jesús nam staðar og sagði: „Kallið á hann.“ Þeir kölluðu þá á blinda manninn og sögðu við hann: „Hertu upp hugann. Stattu upp, hann kallar á þig.“ 50 Hann henti frá sér yfirhöfninni, spratt á fætur og fór til Jesú. 51 Þá sagði Jesús við hann: „Hvað viltu að ég geri fyrir þig?“ Blindi maðurinn svaraði: „Rabbúní,* gefðu mér sjónina aftur.“ 52 Jesús sagði þá: „Farðu í friði, trú þín hefur læknað þig.“+ Og hann endurheimti sjónina samstundis+ og fylgdi honum.
11 Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu að Betfage og Betaníu+ við Olíufjallið sendi hann tvo lærisveina sína+ 2 og sagði við þá: „Farið inn í þorpið hér fram undan og um leið og þið komið þangað finnið þið fola sem er bundinn og enginn hefur enn komið á bak. Leysið hann og komið með hann hingað. 3 Ef einhver segir við ykkur: ‚Hvers vegna gerið þið þetta?‘ segið þá: ‚Drottinn þarf á honum að halda en hann sendir hann fljótt aftur til baka.‘“ 4 Þeir fóru og fundu folann bundinn við dyr úti á hliðargötu og leystu hann.+ 5 En nokkrir þeirra sem stóðu þarna sögðu við þá: „Hvað eruð þið að gera? Eruð þið að leysa folann?“ 6 Þeir svöruðu alveg eins og Jesús hafði sagt og þeir leyfðu þeim að fara.
7 Þeir færðu Jesú folann,+ lögðu yfirhafnir sínar á hann og hann settist á bak.+ 8 Margir breiddu auk þess yfirhafnir sínar á veginn en aðrir skáru laufgaðar greinar af trjánum meðfram veginum.+ 9 Þeir sem gengu á undan og þeir sem eltu hrópuðu: „Verndaðu hann!*+ Blessaður sé sá sem kemur í nafni Jehóva!*+ 10 Blessað sé hið komandi ríki Davíðs föður okkar!+ Verndaðu hann, þú sem ert í hæstu hæðum.“ 11 Hann kom nú til Jerúsalem og gekk inn í musterið. Hann horfði í kringum sig á allt sem var þar en hélt svo til Betaníu með þeim tólf því að það var orðið áliðið.+
12 Daginn eftir, þegar þeir voru á leið frá Betaníu, var Jesús svangur.+ 13 Hann kom auga á laufgað fíkjutré álengdar og gekk þangað til að sjá hvort hann fyndi nokkuð á því. En þegar hann kom að trénu fann hann ekkert nema laufblöðin enda var ekki fíkjutími. 14 Hann sagði þá við tréð: „Enginn skal nokkurn tíma framar borða ávöxt af þér.“+ Og lærisveinarnir heyrðu þetta.
15 Þeir komu nú til Jerúsalem. Jesús gekk inn í musterið og fór að reka út þá sem seldu þar og keyptu. Hann velti um koll bekkjum dúfnasalanna og borðum þeirra sem skiptu peningum+ 16 og leyfði engum að bera nokkurt áhald gegnum musterið. 17 Hann kenndi þeim og sagði: „Stendur ekki skrifað: ‚Hús mitt verður kallað bænahús fyrir allar þjóðir‘?+ En þið hafið gert það að ræningjabæli.“+ 18 Yfirprestarnir og fræðimennirnir heyrðu þetta og fóru að leita leiða til að drepa hann.+ Þeir óttuðust hann því að allur mannfjöldinn heillaðist af kennslu hans.+
19 Undir kvöld fóru þeir út úr borginni. 20 En þegar þeir fóru fram hjá fíkjutrénu snemma morguninn eftir sáu þeir að það var visnað frá rótum.+ 21 Pétur mundi hvað hafði gerst og sagði við Jesú: „Rabbí, sjáðu! Fíkjutréð sem þú formæltir er visnað.“+ 22 Jesús svaraði þeim: „Trúið á Guð. 23 Það megið þið vita að ef einhver segir við þetta fjall: ‚Lyftu þér upp og kastaðu þér í hafið,‘ og efast ekki í hjarta sínu heldur trúir að það sem hann segir gerist, þá gerist það.+ 24 Þess vegna segi ég ykkur: Trúið að þið fáið allt sem þið biðjið um í bænum ykkar og þið munuð fá það.+ 25 Og þegar þið standið og biðjið skuluð þið fyrirgefa öðrum allt sem þið hafið á móti þeim til þess að faðir ykkar á himnum fyrirgefi líka syndir ykkar.“+ 26* ——
27 Þeir komu aftur til Jerúsalem. Þegar hann var á gangi í musterinu komu yfirprestarnir, fræðimennirnir og öldungarnir 28 og sögðu við hann: „Hvaða vald hefurðu til að gera þetta? Eða hver gaf þér vald til þess?“+ 29 Jesús sagði við þá: „Ég ætla að spyrja ykkur einnar spurningar. Svarið henni og þá skal ég segja ykkur hvaða vald ég hef til að gera þetta. 30 Var skírn Jóhannesar+ frá himni eða frá mönnum? Svarið mér.“+ 31 Þeir fóru þá að ræða sín á milli og sögðu: „Ef við segjum: ‚Frá himni,‘ segir hann: ‚Hvers vegna trúðuð þið honum þá ekki?‘ 32 En þorum við að segja: ‚Frá mönnum‘?“ Þeir óttuðust mannfjöldann vegna þess að allir töldu að Jóhannes hefði verið sannur spámaður.+ 33 Þeir svöruðu því Jesú: „Við vitum það ekki.“ Jesús sagði: „Þá segi ég ykkur ekki heldur hvaða vald ég hef til að gera þetta.“
12 Nú fór hann að segja þeim dæmisögur: „Maður plantaði víngarð,+ girti hann af, gróf fyrir vínpressu og reisti turn.+ Hann leigði hann síðan vínyrkjum og fór úr landi.+ 2 Þegar kom að uppskerunni sendi hann þræl til vínyrkjanna til að fá hjá þeim hluta af uppskeru víngarðsins. 3 En þeir tóku hann, börðu og sendu tómhentan burt. 4 Hann sendi annan þræl til þeirra og þeir börðu hann í höfuðið og smánuðu.+ 5 Hann sendi enn einn og þeir drápu hann, og hann sendi marga aðra sem þeir ýmist börðu eða drápu. 6 Nú átti hann einn eftir, elskaðan son sinn.+ Hann sendi hann síðastan til þeirra. ‚Þeir eiga eftir að virða son minn,‘ hugsaði hann með sér. 7 En vínyrkjarnir sögðu hver við annan: ‚Þetta er erfinginn.+ Komum, drepum hann og þá fáum við arfinn.‘ 8 Síðan tóku þeir hann og drápu og köstuðu honum út fyrir víngarðinn.+ 9 Hvað gerir þá eigandi víngarðsins? Hann kemur og drepur vínyrkjana og fær öðrum víngarðinn.+ 10 Hafið þið aldrei lesið þennan ritningarstað: ‚Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að aðalhornsteini.*+ 11 Hann er frá Jehóva* og hann er stórfenglegur í augum okkar‘?“+
12 Þeir vildu nú handtaka Jesú því að þeir skildu að dæmisagan átti við þá. En þeir óttuðust mannfjöldann og gengu því burt frá honum.+
13 Eftir það sendu þeir til hans nokkra farísea og fylgismenn Heródesar til að hanka hann á orðum hans.+ 14 Þegar þeir komu sögðu þeir við hann: „Kennari, við vitum að þú ert sannsögull og allir eru jafnir fyrir þér. Þú horfir ekki á útlit fólks heldur kennir veg Guðs sannleikanum samkvæmt. Er leyfilegt* að greiða keisaranum skatt* eða ekki? 15 Eigum við að borga eða eigum við ekki að borga?“ Jesús skynjaði hræsni þeirra og sagði við þá: „Hvers vegna leggið þið gildru fyrir mig? Færið mér denar* og leyfið mér að sjá hann.“ 16 Þeir færðu honum denar* og hann sagði við þá: „Mynd hvers og áletrun er þetta?“ „Keisarans,“ svöruðu þeir. 17 Jesús sagði þá: „Gjaldið keisaranum það sem tilheyrir keisaranum+ en Guði það sem tilheyrir Guði.“+ Og þeir undruðust orð hans.
18 Nú komu saddúkear til hans en þeir segja að upprisa sé ekki til.+ Þeir spurðu hann:+ 19 „Kennari, Móse skrifaði að ef maður deyr og lætur eftir sig konu en engin börn skuli bróðir hans giftast henni til að hún ali fyrri eiginmanni sínum afkomendur.+ 20 Nú voru sjö bræður. Sá fyrsti gifti sig en dó barnlaus. 21 Annar bróðirinn giftist ekkjunni en dó líka barnlaus og sá þriðji sömuleiðis. 22 Allir sjö dóu barnlausir. Að síðustu dó svo konan. 23 Kona hvers verður hún í upprisunni? Allir sjö höfðu átt hana.“ 24 Jesús svaraði þeim: „Er ekki ástæðan fyrir að ykkur skjátlast sú að þið þekkið hvorki Ritningarnar né mátt Guðs?+ 25 Þegar fólk rís upp frá dauðum kvænist það hvorki né giftist heldur er það eins og englar á himnum.+ 26 En varðandi það að dauðir rísi upp, hafið þið ekki lesið í frásögunni af þyrnirunnanum í bók Móse að Guð sagði við hann: ‚Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs‘?+ 27 Hann er ekki Guð dauðra heldur þeirra sem lifa. Þið hafið alrangt fyrir ykkur.“+
28 Fræðimaður nokkur var kominn þangað og hafði heyrt hvað þeim fór á milli. Hann vissi að Jesús hafði svarað þeim vel og spurði hann: „Hvert er æðsta* boðorðið af öllum?“+ 29 Jesús svaraði: „Það æðsta er þetta: ‚Heyrið Ísraelsmenn, Jehóva* er Guð okkar og það er aðeins einn Jehóva.* 30 Þú skalt elska Jehóva* Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sál* þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.‘+ 31 Annað er þetta: ‚Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘+ Ekkert boðorð er æðra en þessi tvö.“ 32 Fræðimaðurinn sagði við hann: „Kennari, þetta var vel mælt, sannleikanum samkvæmt. ‚Hann er einn og enginn er Guð nema hann,‘+ 33 og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og að elska náungann eins og sjálfan sig er miklu meira virði en allar brennifórnir og sláturfórnir.“+ 34 Jesús heyrði að hann svaraði skynsamlega og sagði: „Þú ert ekki fjarri ríki Guðs.“ Enginn þorði að spyrja hann nokkurs framar.+
35 En Jesús hélt áfram að kenna í musterinu og sagði: „Hvernig stendur á því að fræðimennirnir segja að Kristur sé sonur Davíðs?+ 36 Davíð sagði sjálfur innblásinn af heilögum anda:+ ‚Jehóva* sagði við Drottin minn: „Sittu mér til hægri handar þar til ég legg óvini þína undir fætur þína.“‘+ 37 Davíð sjálfur kallar hann Drottin. Hvernig getur hann þá verið sonur hans?“+
Allur mannfjöldinn hlustaði á hann með ánægju. 38 Meðan hann var að kenna sagði hann: „Varið ykkur á fræðimönnunum sem vilja ganga um í síðskikkjum og láta heilsa sér á torgunum,+ 39 sitja í fremstu* sætunum í samkunduhúsum og virðingarsætum í veislum.+ 40 Þeir mergsjúga heimili* ekkna og flytja langar bænir til að sýnast. Þeir munu fá þyngri dóm.“
41 Hann settist þar sem hann gat séð söfnunarbaukana*+ og horfði á fólkið láta peninga í þá. Margt efnafólk gaf mikið.+ 42 Nú kom fátæk ekkja og lét þar tvo smápeninga sem voru varla nokkurs virði.*+ 43 Hann kallaði þá lærisveinana til sín og sagði við þá: „Trúið mér, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir sem létu peninga í baukana.+ 44 Þeir gáfu allir af allsnægtum sínum en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla lífsbjörg sína.“+
13 Þegar hann var á leið út úr musterinu sagði einn af lærisveinunum við hann: „Kennari, sjáðu! Hvílíkir steinar og hvílíkar byggingar!“+ 2 En Jesús sagði við hann: „Sérðu þessar miklu byggingar? Hér mun ekki standa steinn yfir steini heldur verður allt rifið niður.“+
3 Þegar hann sat á Olíufjallinu með musterið í augsýn og Pétur, Jakob, Jóhannes og Andrés voru einir með honum spurðu þeir hann: 4 „Segðu okkur, hvenær gerist þetta og hvert verður táknið um að allt þetta sé að líða undir lok?“+ 5 Jesús sagði þeim þá: „Gætið þess að láta engan blekkja ykkur.+ 6 Margir munu koma í mínu nafni og segja: ‚Ég er hann,‘ og blekkja marga. 7 Og þegar þið fréttið af stríðsátökum í grennd og í fjarska skuluð þið ekki skelfast. Þetta þarf að gerast en endirinn er samt ekki kominn.+
8 Þjóð mun ráðast gegn þjóð og ríki gegn ríki.+ Það verða jarðskjálftar á einum stað eftir annan og einnig hungursneyðir.+ Þetta er upphaf fæðingarhríðanna.*+
9 En þið skuluð gæta ykkar. Menn munu draga ykkur fyrir dómstóla,+ ykkur verður misþyrmt í samkunduhúsum+ og þið verðið leiddir fyrir landstjóra og konunga vegna mín til að bera vitni fyrir þeim.+ 10 Auk þess þarf fyrst að boða öllum þjóðum fagnaðarboðskapinn.+ 11 Þegar þeir taka ykkur og draga fyrir rétt hafið þá ekki áhyggjur af því hvað þið eigið að segja. Segið það sem ykkur verður gefið á þeirri stundu því að það eruð ekki þið sem talið heldur heilagur andi.+ 12 Bróðir mun framselja bróður til dauða og faðir barn sitt, og börn rísa gegn foreldrum sínum og fá þá líflátna.+ 13 Allir munu hata ykkur vegna nafns míns.+ En sá sem er þolgóður allt til enda+ mun bjargast.+
14 En þegar þið sjáið viðurstyggðina sem veldur eyðingu+ standa þar sem hún á ekki að vera (sá sem les þetta sýni dómgreind) þá flýi þeir sem eru í Júdeu til fjalla.+ 15 Sá sem er uppi á þaki fari ekki niður og inn í hús sitt til að sækja neitt 16 og sá sem er úti á akri snúi ekki aftur til að ná í yfirhöfn sína. 17 Þetta verða skelfilegir dagar fyrir barnshafandi konur og þær sem eru með barn á brjósti.+ 18 Biðjið að þetta gerist ekki að vetri til 19 því að þetta verða slíkir þrengingardagar+ að annað eins hefur ekki gerst frá upphafi sköpunar Guðs allt til þessa og gerist aldrei framar.+ 20 Ef Jehóva* hefði ekki stytt þessa daga myndi enginn bjargast. En hann hefur stytt þá vegna þeirra sem hann hefur útvalið.+
21 Og ef einhver segir við ykkur: ‚Sjáið! Hér er Kristur,‘ eða: ‚Sjáið! Þarna er hann,‘ þá skuluð þið ekki trúa því.+ 22 Falskristar og falsspámenn munu koma fram+ og gera tákn og undur til að leiða hina útvöldu afvega ef hægt er. 23 Gætið ykkar+ því. Ég hef sagt ykkur allt fyrir fram.
24 En á þessum dögum, eftir þessa þrengingu, mun sólin myrkvast og tunglið hætta að skína,+ 25 stjörnurnar falla af himni og kraftarnir á himnum nötra. 26 Þá mun fólk sjá Mannssoninn+ koma í skýjum með miklum mætti og dýrð.+ 27 Hann sendir út englana og safnar saman sínum útvöldu úr áttunum* fjórum, frá endimörkum jarðar til endimarka himins.+
28 Lærið af þessari líkingu um fíkjutréð: Um leið og ungu greinarnar mýkjast og laufið springur út vitið þið að sumar er í nánd.+ 29 Eins skuluð þið vita þegar þið sjáið þetta gerast að hann er í nánd, við dyrnar.+ 30 Trúið mér, þessi kynslóð líður alls ekki undir lok fyrr en allt þetta gerist.+ 31 Himinn og jörð líða undir lok+ en orð mín líða alls ekki undir lok.+
32 Enginn veit þann dag eða stund, hvorki englarnir á himnum né sonurinn heldur aðeins faðirinn.+ 33 Hafið augun opin, verið vakandi,+ því að þið vitið ekki hvenær tíminn er kominn.+ 34 Það er eins og þegar maður fer úr landi. Hann yfirgefur hús sitt og felur þjónum sínum umsjón yfir því,+ gefur hverjum sitt verkefni og segir dyraverðinum að halda vörð.+ 35 Haldið því vöku ykkar þar sem þið vitið ekki hvenær húsbóndinn kemur,+ hvort það verður að kvöldi til, um miðnætti, fyrir dögun* eða snemma morguns.+ 36 Hann má ekki finna ykkur sofandi+ þegar hann kemur allt í einu. 37 En það sem ég segi ykkur segi ég öllum: Haldið vöku ykkar.“+
14 Nú voru tveir dagar+ til páska+ og hátíðar ósýrðu brauðanna.+ Yfirprestarnir og fræðimennirnir leituðu leiða til að ná Jesú með brögðum og taka hann af lífi.+ 2 En þeir sögðu: „Ekki á hátíðinni, það gæti orðið uppþot meðal fólksins.“
3 Meðan hann var í Betaníu að borða* heima hjá Símoni holdsveika kom kona með ilmolíu í alabastursflösku. Þetta var hrein nardusolía og mjög dýr. Hún braut hálsinn af flöskunni og hellti olíunni á höfuð hans.+ 4 Sumir sögðu þá hneykslaðir hver við annan: „Hvers vegna er verið að sóa þessari ilmolíu? 5 Það hefði mátt selja hana fyrir meira en 300 denara* og gefa fátækum peningana.“ Þeir voru sárgramir út í* hana 6 en Jesús sagði: „Látið hana í friði. Hvers vegna eruð þið að angra hana? Það var fallegt af henni að gera þetta fyrir mig.+ 7 Þið hafið fátæka alltaf hjá ykkur+ og getið gert þeim gott hvenær sem þið viljið en mig hafið þið ekki alltaf.+ 8 Hún gerði það sem hún gat. Hún smurði líkama minn með ilmolíu til að búa hann fyrir fram til greftrunar.+ 9 Trúið mér, um allan heim þar sem fagnaðarboðskapurinn verður boðaður+ verður einnig sagt frá því sem þessi kona gerði, til minningar um hana.“+
10 Júdas Ískaríot, einn þeirra tólf, fór nú til yfirprestanna til að svíkja Jesú í hendur þeirra.+ 11 Þeir glöddust að heyra það og lofuðu að greiða honum silfurpeninga fyrir.+ Upp frá því leitaði hann færis að svíkja hann.
12 Á fyrsta degi hátíðar ósýrðu brauðanna,+ þegar venja var að færa páskafórnina,+ spurðu lærisveinarnir Jesú: „Hvert viltu að við förum og undirbúum páskamáltíðina handa þér?“+ 13 Hann sendi þá tvo af lærisveinum sínum og sagði við þá: „Farið inn í borgina. Þar mætir ykkur maður sem ber vatnsker. Fylgið honum+ 14 og þar sem hann fer inn skuluð þið segja við húsráðandann: ‚Kennarinn spyr: „Hvar er gestaherbergið þar sem ég get borðað páskamáltíðina með lærisveinum mínum?“‘ 15 Hann sýnir ykkur þá stórt herbergi á efri hæð, búið húsgögnum og tilbúið handa okkur. Útbúið máltíðina þar.“ 16 Lærisveinarnir fóru þá og gengu inn í borgina. Þeir fundu allt eins og hann hafði sagt þeim og undirbjuggu páskamáltíðina.
17 Um kvöldið kom hann með þeim tólf.+ 18 Meðan þeir lágu til borðs og átu sagði Jesús: „Trúið mér, einn ykkar sem borðið með mér mun svíkja mig.“+ 19 Þeir urðu hryggir og sögðu við hann hver á fætur öðrum: „Er það nokkuð ég?“ 20 Hann sagði við þá: „Það er einn ykkar tólf, sá sem dýfir brauðinu í skálina með mér.+ 21 Mannssonurinn fer reyndar burt eins og skrifað er um hann en illa fer fyrir þeim sem svíkur hann.+ Það hefði verið betra fyrir þann mann að hafa aldrei fæðst.“+
22 Þeir héldu áfram að borða. Hann tók brauð, fór með bæn, braut það og gaf þeim og sagði: „Takið þetta, það táknar líkama minn.“+ 23 Hann tók síðan bikar, fór með þakkarbæn, rétti þeim hann og þeir drukku allir af honum.+ 24 Hann sagði við þá: „Þetta táknar blóð mitt,+ ‚blóð sáttmálans‘,+ sem verður úthellt í þágu margra.+ 25 Trúið mér, ég mun alls ekki drekka aftur af ávexti vínviðarins fyrr en daginn sem ég drekk nýtt vín í ríki Guðs.“ 26 Að lokum, eftir að hafa sungið lofsöngva,* fóru þeir til Olíufjallsins.+
27 Jesús sagði við þá: „Þið munuð allir hrasa og falla því að skrifað er: ‚Ég slæ hirðinn+ og sauðirnir tvístrast.‘+ 28 En eftir að ég hef verið reistur upp fer ég á undan ykkur til Galíleu.“+ 29 Pétur sagði þá við hann: „Þó að allir hinir hrasi og falli geri ég það ekki.“+ 30 Jesús svaraði honum: „Trúðu mér, í dag, já, strax í nótt, áður en hani galar tvisvar, muntu afneita mér þrisvar.“+ 31 En Pétur var enn ákveðnari og sagði: „Þó að ég þyrfti að deyja með þér myndi ég aldrei afneita þér.“ Allir hinir sögðu það sama.+
32 Þeir komu nú til staðar sem heitir Getsemane og hann sagði við lærisveinana: „Setjist hérna meðan ég biðst fyrir.“+ 33 Hann tók Pétur, Jakob og Jóhannes með sér.+ Hann varð örvinglaður og angistarfullur 34 og sagði við þá: „Ég er yfirkominn af harmi.*+ Bíðið hér og vakið.“+ 35 Hann fór spölkorn frá þeim, féll til jarðar og bað þess að verða hlíft við þessari stund ef hægt væri. 36 Hann sagði: „Abba,* faðir,+ þú getur allt. Taktu þennan bikar frá mér. En gerðu þó ekki eins og ég vil heldur eins og þú vilt.“+ 37 Hann kom til þeirra aftur og fann þá sofandi. Hann sagði við Pétur: „Símon, ertu sofandi? Gastu ekki haldið þér vakandi eina stund?+ 38 Vakið og biðjið stöðugt svo að þið fallið ekki í freistni.+ Andinn er ákafur* en holdið er veikt.“+ 39 Hann fór aftur frá þeim og baðst fyrir með sömu orðum.+ 40 Þegar hann kom til baka fann hann þá sofandi því að þeir gátu ekki haldið augunum opnum. Þeir vissu ekki hvað þeir áttu að segja við hann. 41 Hann kom aftur í þriðja sinn og sagði við þá: „Þið sofið og hvílið ykkur á stund sem þessari. Þetta er nóg! Stundin er komin.+ Mannssonurinn verður svikinn í hendur syndara. 42 Standið upp, förum. Sá sem svíkur mig er að koma.“+
43 Í sömu andrá, meðan hann var enn að tala, kom Júdas, einn þeirra tólf, og með honum fjöldi manna með sverð og barefli en yfirprestarnir, fræðimennirnir og öldungarnir höfðu sent þá.+ 44 Svikarinn hafði samið um að gefa þeim merki og sagt: „Sá sem ég kyssi er maðurinn. Handtakið hann og farið með hann í fylgd varða.“ 45 Hann gekk rakleiðis til Jesú og sagði: „Rabbí!“ og kyssti hann blíðlega. 46 Þá gripu þeir hann og tóku hann höndum. 47 En einn viðstaddra dró sverð úr slíðrum, hjó til þjóns æðstaprestsins og sneið af honum eyrað.+ 48 Jesús sagði þá: „Komuð þið til að handtaka mig með sverðum og bareflum eins og ég væri ræningi?+ 49 Ég var hjá ykkur í musterinu að kenna dag eftir dag+ og samt handtókuð þið mig ekki. En þetta gerist til að Ritningarnar rætist.“+
50 Allir lærisveinarnir yfirgáfu hann nú og flúðu.+ 51 En ungur maður fylgdi honum skammt frá. Hann var aðeins klæddur flík úr fínu líni. Þeir reyndu að handsama hann 52 en hann skildi flíkina eftir og komst undan nakinn.*
53 Þeir fóru nú með Jesú til æðstaprestsins+ og allir yfirprestarnir, öldungarnir og fræðimennirnir söfnuðust saman.+ 54 Pétur fylgdi honum í nokkurri fjarlægð alla leið inn í húsagarð æðstaprestsins. Þar settist hann hjá þjónustufólkinu og yljaði sér við eld.+ 55 Yfirprestarnir og allt Æðstaráðið leituðu nú að mönnum til að vitna gegn Jesú og fá hann líflátinn en fundu enga.+ 56 Margir báru reyndar ljúgvitni gegn honum+ en framburði þeirra bar ekki saman. 57 Nokkrir stóðu líka upp, báru ljúgvitni gegn honum og sögðu: 58 „Við heyrðum hann segja: ‚Ég ríf þetta musteri sem var gert með höndum og á þrem dögum reisi ég annað sem er ekki gert með höndum.‘“+ 59 En framburði þeirra bar ekki heldur saman um þetta.
60 Þá stóð æðstipresturinn upp mitt á meðal þeirra og spurði Jesú: „Svararðu engu? Heyrirðu ekki hvernig þessir menn vitna gegn þér?“+ 61 En hann þagði og svaraði ekki einu orði.+ Æðstipresturinn hélt áfram og spurði: „Ertu Kristur, sonur hins blessaða?“ 62 Þá sagði Jesús: „Ég er hann, og þið munuð sjá Mannssoninn+ sitja við hægri hönd+ máttarins* og koma í skýjum himins.“+ 63 Æðstipresturinn reif þá föt sín og sagði: „Þurfum við nokkuð fleiri vitni?+ 64 Þið heyrðuð guðlastið. Hver er niðurstaða ykkar?“* Þeir dæmdu hann allir dauðasekan.+ 65 Þá fóru sumir að hrækja á hann.+ Þeir huldu andlit hans, slógu hann með hnefunum og sögðu: „Sýndu að þú sért spámaður!“ Réttarþjónarnir slógu hann utan undir og fóru með hann.+
66 Meðan Pétur var niðri í húsagarðinum kom ein af þjónustustúlkum æðstaprestsins þar að.+ 67 Hún sá Pétur ylja sér, horfði stíft á hann og sagði: „Þú varst líka með manninum frá Nasaret, þessum Jesú.“ 68 En hann neitaði því og sagði: „Ég þekki hann ekki né skil hvað þú ert að tala um.“ Hann gekk síðan út að fordyri garðsins. 69 Þjónustustúlkan kom auga á hann þar og endurtók við þá sem stóðu nærri: „Hann er einn af þeim.“ 70 Hann neitaði því sem fyrr. Þeir sem stóðu nærri sögðu líka við Pétur skömmu seinna: „Víst ertu einn af þeim enda ertu Galíleumaður.“ 71 En hann formælti sjálfum sér* og sór: „Ég þekki ekki þennan mann sem þið talið um!“ 72 Um leið galaði hani í annað sinn+ og Pétur mundi eftir því sem Jesús hafði sagt við hann: „Áður en hani galar tvisvar muntu afneita mér þrisvar.“+ Hann brotnaði saman og brast í grát.
15 Strax í dögun báru yfirprestarnir, öldungarnir og fræðimennirnir saman ráð sín, já, allt Æðstaráðið. Þeir bundu Jesú, leiddu hann burt og afhentu hann Pílatusi.+ 2 Pílatus spurði hann: „Ertu konungur Gyðinga?“+ Hann svaraði: „Þú segir það sjálfur.“+ 3 En yfirprestarnir báru á hann margar sakir. 4 Pílatus hélt áfram og spurði: „Svararðu engu?+ Þú heyrir hve margt þeir ásaka þig um.“+ 5 En Jesús svaraði engu framar og Pílatus furðaði sig á því.+
6 Á hverri hátíð var hann vanur að láta lausan einn fanga sem fólkið bað um.+ 7 Maður að nafni Barabbas var í fangelsi um þetta leyti með uppreisnarmönnum sem höfðu gert uppþot og framið morð. 8 Mannfjöldinn kom nú og bað Pílatus að gera eins og hann var vanur. 9 Hann svaraði og sagði: „Viljið þið að ég láti konung Gyðinga lausan?“+ 10 Pílatusi var ljóst að það var vegna öfundar sem yfirprestarnir höfðu framselt Jesú.+ 11 En yfirprestarnir æstu mannfjöldann til að heimta að hann léti Barabbas lausan í staðinn.+ 12 Pílatus svaraði aftur og sagði: „Hvað á ég þá að gera við þann sem þið kallið konung Gyðinga?“+ 13 Fólkið æpti á ný: „Staurfestu hann!“+ 14 Pílatus hélt áfram og spurði: „Af hverju? Hvað hefur hann brotið af sér?“ En fólkið æpti bara enn hærra: „Staurfestu hann!“+ 15 Pílatus vildi þóknast fólkinu og lét því Barabbas lausan. Hann lét húðstrýkja Jesú+ og framseldi hann síðan til staurfestingar.+
16 Hermennirnir leiddu hann nú inn í hallargarð landstjórans og kölluðu saman alla hersveitina.+ 17 Þeir klæddu hann í purpuraskikkju og fléttuðu þyrnikórónu og settu á höfuð hans. 18 Og þeir fóru að kalla til hans: „Lengi lifi* konungur Gyðinga!“+ 19 Þeir slógu hann líka í höfuðið með reyrstaf og hræktu á hann, féllu á kné og hneigðu sig fyrir honum.* 20 Að lokum, eftir að hafa hæðst að honum, klæddu þeir hann úr purpuraskikkjunni og í hans eigin föt. Síðan leiddu þeir hann út til að staurfesta hann.+ 21 Þeir þvinguðu til þjónustu mann nokkurn sem var að koma utan úr sveit og átti leið hjá. Þeir létu hann bera kvalastaurinn.* Þetta var Símon frá Kýrene,+ faðir Alexanders og Rúfusar.
22 Þeir fóru nú með hann á stað sem heitir Golgata en það þýðir ‚hauskúpustaður‘.+ 23 Þar reyndu þeir að gefa honum vín blandað myrru*+ en hann þáði það ekki. 24 Þeir staurfestu hann og skiptu fötum hans á milli sín með því að varpa hlutkesti um hver fengi hvað.+ 25 Það var um þriðju stund* sem þeir staurfestu hann. 26 Sakargiftin stóð skrifuð fyrir ofan hann: „Konungur Gyðinga.“+ 27 Þeir staurfestu einnig tvo ræningja með honum, annan til hægri og hinn til vinstri.+ 28* —— 29 Þeir sem áttu leið hjá gerðu gys að honum, hristu höfuðið+ og sögðu: „Huh! Þú sem ætlaðir að rífa musterið og endurreisa það á þrem dögum,+ 30 bjargaðu nú sjálfum þér og komdu niður af kvalastaurnum.“* 31 Yfirprestarnir og fræðimennirnir hæddu hann á sama hátt og sögðu hver við annan: „Öðrum bjargaði hann en sjálfum sér getur hann ekki bjargað!+ 32 Nú ætti Kristur, konungur Ísraels, að koma niður af kvalastaurnum* svo að við sjáum það og trúum.“+ Meira að segja þeir sem voru staurfestir með honum smánuðu hann.+
33 Um sjöttu stund* skall á myrkur í öllu landinu og það stóð fram á níundu stund.*+ 34 Og um níundu stund hrópaði Jesús hárri röddu: „Elí, Elí, lama sabaktaní?“ sem þýðir: ‚Guð minn, Guð minn, hvers vegna hefurðu yfirgefið mig?‘+ 35 Sumir nærstaddir sögðu þegar þeir heyrðu það: „Heyrið, hann kallar á Elía.“ 36 Þá hljóp til maður, dýfði svampi í súrt vín, stakk honum á reyrstaf og gaf honum að drekka.+ Hann sagði: „Látum hann vera. Sjáum hvort Elía kemur og tekur hann niður.“ 37 En Jesús hrópaði hátt og gaf upp andann.+ 38 Og fortjald musterisins+ rifnaði í tvennt, ofan frá og niður úr.+ 39 Þegar liðsforinginn, sem stóð andspænis honum, sá hvað gerðist við dauða hans sagði hann: „Þessi maður var sannarlega sonur Guðs.“+
40 Þarna voru einnig konur sem horfðu á úr fjarlægð, þeirra á meðal María Magdalena og María, móðir Jakobs yngri* og Jóse, og Salóme.+ 41 Þær höfðu fylgt honum og þjónað honum+ þegar hann var í Galíleu. Þarna voru líka margar aðrar konur sem höfðu komið með honum upp til Jerúsalem.
42 Nú var áliðið dags og það var undirbúningsdagur, það er að segja dagurinn fyrir hvíldardag. 43 Jósef frá Arímaþeu, virtur maður í Ráðinu sem sjálfur vænti ríkis Guðs, tók þess vegna í sig kjark, gekk fyrir Pílatus og bað um lík Jesú.+ 44 En Pílatus undraðist að Jesús væri þegar dáinn. Hann kallaði á liðsforingjann og spurði hvort svo væri. 45 Eftir að hafa fengið það staðfest hjá honum leyfði hann að Jósef fengi líkið. 46 Jósef keypti dúk úr fínu líni, tók lík hans niður og vafði það í líndúkinn. Hann lagði það í gröf+ sem var höggvin í klett og velti síðan steini fyrir grafarmunnann.+ 47 En María Magdalena og María móðir Jóse stöldruðu við og horfðu á staðinn þar sem hann hafði verið lagður.+
16 Þegar hvíldardagurinn+ var liðinn keyptu María Magdalena, María+ móðir Jakobs og Salóme ilmjurtir til að bera á líkama Jesú.+ 2 Eldsnemma á fyrsta degi vikunnar, eftir sólarupprás, komu þær að gröfinni.+ 3 Þær sögðu hver við aðra: „Hver á að velta steininum frá grafarmunnanum fyrir okkur?“ 4 En þegar þær litu upp sáu þær að steininum hafði verið velt frá þó að hann væri mjög stór.+ 5 Þær stigu inn í gröfina og sáu þá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítum kyrtli. Þeim snarbrá 6 en hann sagði við þær: „Látið ykkur ekki bregða.+ Þið leitið að Jesú frá Nasaret sem var staurfestur. Hann hefur verið reistur upp.+ Hann er ekki hér. Sjáið, þetta er staðurinn þar sem þeir lögðu hann.+ 7 Farið og segið lærisveinum hans og Pétri: ‚Hann fer á undan ykkur til Galíleu.+ Þar fáið þið að sjá hann eins og hann sagði ykkur.‘“+ 8 Þegar þær komu út voru þær skjálfandi og í mikilli geðshræringu og flúðu frá gröfinni. Þær sögðu engum neitt því að þær voru óttaslegnar.*+
Sjá viðauka A5.
Eða „skírði það niðurdýfingarskírn“.
Eða hugsanl. „þeir vissu hver hann var“.
Eða „lá Jesús til borðs“.
Eða „lágu til borðs“.
Eða „lamaða“.
Eða „lömuðu“.
Eða „skipaði“.
Eða „skipaði“.
Eða „hinn kappsami“.
Heiti sem er notað um Satan.
Eða „þessarar aldar“. Sjá orðaskýringar, „heimsskipan“.
Eða „mæliker“.
Eða „púðanum“.
Eða „bröttum bakkanum“.
Sjá viðauka A5.
Eða „á Tíuborgasvæðinu“.
Eða „að dauða komin“.
Orðrétt „kopar“.
Orðrétt „ekki klæðast tveim kyrtlum“.
Sjá viðauka B14.
Það er, um kl. 3 til sólarupprásar um kl. 6.
Eða „var í þann mund að fara“.
Það er, ekki þvegnum eftir helgisiðareglum Gyðinga.
Sjá viðauka A3.
Fleirtala gríska orðsins pornei′a. Sjá orðaskýringar.
Eða „ósvífna hegðun“. Á grísku asel′geia. Sjá orðaskýringar.
Eða „fædd í“.
Eða „Tíuborgasvæðið“.
Eða „fastandi“.
Orðrétt „Farðu aftur fyrir mig“.
Sjá orðaskýringar.
Sem þýðir ‚kennari‘.
Eða hugsanl. „létu þetta ekki fara lengra“.
Orðrétt „Hjálpaðu vantrú minni!“
Eða „með myllustein sem snúið er af asna“.
Sjá orðaskýringar.
Sjá viðauka A3.
Sjá orðaskýringar.
Sjá viðauka A3.
Sjá orðaskýringar.
Eða „landamærum“.
Orðrétt „eitt hold“.
Orðrétt „eitt hold“.
Eða hugsanl. „hver við annan“.
Eða „á hinni komandi öld“. Sjá orðaskýringar, „heimsskipan“.
Sem þýðir ‚kennari‘.
Orðrétt „Hósanna!“
Sjá viðauka A5.
Sjá viðauka A3.
Orðrétt „efsta hluta hornsins“.
Sjá viðauka A5.
Eða „rétt“.
Það er, nefskatt.
Sjá viðauka B14.
Sjá viðauka B14.
Eða „mikilvægasta“.
Sjá viðauka A5.
Sjá viðauka A5.
Sjá viðauka A5.
Sjá orðaskýringar.
Sjá viðauka A5.
Eða „bestu“.
Eða „eigur“.
Eða „fjárhirslurnar“.
Orðrétt „tvo leptona, sem eru einn kvadrans“. Sjá viðauka B14.
Eða „hörmunganna; þjáninganna“.
Sjá viðauka A5.
Orðrétt „frá vindunum“.
Orðrétt „þegar haninn galar“.
Eða „og lá til borðs“.
Sjá viðauka B14.
Eða „skömmuðu“.
Eða „sálma“.
Eða „Sál mín er hrygg allt til dauða“.
Hebreskt eða arameískt ávarpsorð sem merkir ‚faðir‘ og felur í sér hlýju og innileik orðsins „pabbi“.
Eða „reiðubúinn“.
Eða „léttklæddur; á nærfötunum einum“.
Eða „Hins máttuga“.
Eða „Hvað finnst ykkur?“
Pétur er greinilega að lýsa yfir að eitthvað slæmt kæmi fyrir sig ef hann segði ekki satt.
Eða „Heill þér“.
Eða „veittu honum lotningu“.
Sjá orðaskýringar.
Myrra var sljóvgandi og kvalastillandi.
Það er, um kl. 9.
Sjá viðauka A3.
Sjá orðaskýringar.
Sjá orðaskýringar.
Það er, um kl. 12.
Það er, um kl. 15.
Eða „hins minni“.
Samkvæmt áreiðanlegum fornum handritum lýkur Markúsarguðspjalli með orðunum í 8. versi. Sjá viðauka A3.