BRÉFIÐ TIL RÓMVERJA
1 Frá Páli, þjóni Krists Jesú, sem er kallaður til að vera postuli og útvalinn* til að boða fagnaðarboðskap Guðs+ 2 sem Guð lofaði fyrir milligöngu spámanna sinna í heilagri Ritningu, 3 það er að segja boðskapinn um son hans. Hann fæddist sem maður af ætt Davíðs+ 4 en var lýstur sonur Guðs+ með krafti heilags anda þegar hann var reistur upp frá dauðum.+ Þetta er Jesús Kristur, Drottinn okkar. 5 Við* nutum einstakrar góðvildar hans og hlutum postuladóm+ í þeim tilgangi að hjálpa fólki af öllum þjóðum+ að hlýða honum í trú og virða nafn hans. 6 Meðal þessara þjóða voruð þið líka kölluð svo að þið tilheyrðuð Jesú Kristi. 7 Til allra sem Guð elskar í Róm og eru kallaðir til að vera heilagir:
Megi Guð faðir okkar og Drottinn Jesús Kristur sýna ykkur einstaka góðvild og veita ykkur frið.
8 Ég vil byrja á að þakka Guði mínum í nafni Jesú Krists fyrir ykkur öll því að trú ykkar er umtöluð um allan heim. 9 Guð er vottur þess að ég nefni ykkur sífellt í bænum mínum+ en honum veiti ég heilaga þjónustu af öllu hjarta* þegar ég boða fagnaðarboðskapinn um son hans. 10 Og ég bið þess að mér takist loks að koma til ykkar ef þess er nokkur kostur og Guð vill það. 11 Ég þrái að sjá ykkur til að geta gefið ykkur andlega gjöf svo að þið styrkist, 12 eða öllu heldur til að við getum uppörvað hvert annað+ með trú okkar, bæði ykkar og minni.
13 En ég vil að þið vitið, bræður og systur, að ég hef oft ætlað að koma til ykkar en hingað til hefur ýmislegt hindrað það. Mig langaði til að sjá starf mitt bera árangur meðal ykkar eins og hjá hinum þjóðunum. 14 Ég stend í skuld bæði við Grikki og útlendinga,* vitra og óskynsama. 15 Mér er því mikið í mun að boða einnig ykkur sem búið í Róm fagnaðarboðskapinn.+ 16 Ég skammast mín ekki fyrir fagnaðarboðskapinn+ enda er hann kraftur Guðs til að bjarga öllum sem trúa,+ fyrst Gyðingum+ og síðan Grikkjum.+ 17 Með honum opinberast réttlæti Guðs þeim sem trúa og það styrkir trúna,+ en skrifað stendur: „Hinn réttláti mun lifa vegna trúar.“+
18 Reiði Guðs+ opinberast af himni gegn allri óguðlegri hegðun og gegn ranglæti manna sem þagga niður sannleikann+ með ranglátum aðferðum sínum. 19 Það sem hægt er að vita um Guð blasir við þeim því að Guð hefur sýnt þeim það.+ 20 Ósýnilegt eðli hans, bæði eilífur máttur+ hans og guðdómur,+ hefur verið auðséð allt frá sköpun heimsins því að það má skynja af verkum hans.+ Þess vegna hafa mennirnir enga afsökun. 21 Þótt þeir þekktu Guð lofuðu þeir hann ekki sem Guð né þökkuðu honum heldur urðu þeir grunnhyggnir og skynlaus hjörtu þeirra hjúpuðust myrkri.+ 22 Þeir sögðust vera vitrir en urðu heimskir 23 og skiptu á dýrð hins óforgengilega* Guðs og myndum sem líkjast forgengilegum mönnum, fuglum, ferfætlingum og skriðdýrum.+
24 Þess vegna gaf Guð þá á vald óhreinleika svo að þeir fylgdu því sem þeir girntust í hjörtum sínum og svívirtu þannig líkama sína. 25 Þeir skiptu út sannleikanum um Guð fyrir lygina og veittu lotningu* og þjónuðu* hinu skapaða í stað skaparans, hans sem er lofaður að eilífu. Amen. 26 Þess vegna gaf Guð þá svívirðilegum losta á vald+ því að bæði hafa konurnar breytt eðlilegum mökum í óeðlileg+ 27 og sömuleiðis hættu karlmennirnir eðlilegum mökum við konur og brunnu í losta hver til annars. Karlmenn frömdu skömm með karlmönnum+ og tóku út á sjálfum sér verðskuldaða refsingu* fyrir villu sína.+
28 Fyrst þeir kærðu sig ekki um að þekkja Guð* gaf hann þá á vald hugarfari sem honum mislíkar svo að þeir gerðu það sem ekki sæmir.+ 29 Og þeir fylltust alls kyns ranglæti,+ mannvonsku, græðgi+ og illsku, eru öfundsjúkir,+ blóðþyrstir,+ deilugjarnir, sviksamir,+ illgjarnir+ og slúðurberar.* 30 Þeir baktala,+ hata Guð, eru ósvífnir, hrokafullir og montnir, upphugsa ill* verk og eru óhlýðnir foreldrum sínum.+ 31 Þeir skilja ekki neitt,+ standa ekki við loforð sín, eru kærleikslausir og miskunnarlausir. 32 Þessir menn þekkja mætavel réttlát lög Guðs – að þeir sem stunda þetta eru dauðasekir.+ Samt gera þeir þetta og leggja þar að auki blessun sína yfir þá sem stunda það.
2 Hver sem þú ert, maður, hefurðu enga afsökun+ ef þú dæmir því að þegar þú dæmir annan dæmirðu sjálfan þig, fyrst þú stundar það sama og hann.+ 2 Nú vitum við að dómur Guðs er í samræmi við sannleikann og kemur yfir þá sem stunda slíkt.
3 En heldurðu að þú getir komist undan dómi Guðs, þú sem dæmir þá sem stunda slíkt en gerir það þó sjálfur? 4 Eða fyrirlíturðu ríkulega góðvild hans,+ umburðarlyndi+ og þolinmæði+ og skilur ekki að Guð reynir í góðvild sinni að leiða þig til iðrunar?+ 5 En þar sem þú ert þrjóskur og iðrunarlaus í hjarta kallarðu yfir þig reiði Guðs á degi reiðinnar þegar réttlátur dómur hans er birtur.+ 6 Og hann endurgeldur hverjum og einum eftir verkum hans:+ 7 eilíft líf þeim sem sækjast eftir dýrð, heiðri og óforgengileika*+ með því að sýna þolgæði í góðum verkum, 8 en reiði og bræði þeim sem eru þrætugjarnir og óhlýðnast sannleikanum en hlýða ranglætinu.+ 9 Hver maður sem gerir það sem er illt þarf að þola erfiðleika og þjáningar, fyrst Gyðingurinn og síðan Grikkinn. 10 En hver sem gerir hið góða hlýtur dýrð, heiður og frið, fyrst Gyðingurinn+ og síðan Grikkinn.+ 11 Guð fer ekki í manngreinarálit.+
12 Allir sem syndga og eru ekki undir lögunum deyja þótt þeir séu ekki undir lögunum+ en allir sem syndga og eru undir lögunum verða dæmdir eftir þeim.+ 13 Þeir sem aðeins heyra lögin eru ekki réttlátir frammi fyrir Guði heldur eru þeir sem fylgja lögunum lýstir réttlátir.+ 14 Þegar menn af þjóðunum, sem hafa ekki lögin,+ gera af eðlishvöt það sem segir í lögunum eru þeir sjálfum sér lög þótt þeir hafi engin lög. 15 Þeir sýna að kjarni laganna er skráður í hjörtum þeirra þegar samviska þeirra vitnar innra með þeim og hugsanir þeirra annaðhvort ásaka þá eða afsaka. 16 Þetta gerist á þeim degi þegar Guð dæmir hið leynda hjá mönnunum fyrir milligöngu Krists Jesú,+ en það er í samræmi við fagnaðarboðskapinn sem ég boða.
17 Nú kallarðu þig Gyðing,+ reiðir þig á lögin og ert stoltur af sambandi þínu við Guð. 18 Þú þekkir vilja hans og berð skynbragð á hvað skiptir máli vegna þess að þú ert fræddur* um lögin.+ 19 Þú ert sannfærður um að þú leiðir blinda, lýsir þeim sem eru í myrkri, 20 leiðbeinir óskynsömum, kennir börnum og sjáir útlínur þekkingarinnar og sannleikans sem lögin miðla. 21 Þú sem kennir öðrum, kennir þú ekki sjálfum þér?+ Prédikar þú að ekki skuli stela+ en stelur þó sjálfur? 22 Segir þú að ekki skuli fremja hjúskaparbrot+ en fremur þó sjálfur hjúskaparbrot? Hefur þú viðbjóð á skurðgoðum en rænir þó musteri? 23 Ertu stoltur af því að hafa lögin en óvirðir þó Guð með því að brjóta þau? 24 Það er eins og skrifað stendur: „Ykkar vegna er nafni Guðs lastmælt meðal þjóðanna.“+
25 Umskurður+ gerir þér aðeins gagn ef þú fylgir lögunum+ en ef þú brýtur lögin ertu eins og óumskorinn þótt þú sért umskorinn. 26 Ef því óumskorinn maður+ heldur réttlátar kröfur laganna, er þá ekki litið á hann sem umskorinn?+ 27 Og maður sem er óumskorinn á líkama en heldur lögin dæmir þig sem brýtur lögin þó að þú hafir lagasafnið og umskurðinn. 28 Sá er ekki Gyðingur sem er það hið ytra+ né er umskurðurinn hið ytra, á líkamanum.+ 29 En sá er Gyðingur sem er það hið innra+ og það er hjartað sem er umskorið+ með hjálp andans en ekki lagasafns.+ Sá maður hlýtur lof frá Guði en ekki mönnum.+
3 Hvað hafa þá Gyðingar fram yfir aðra eða hvaða gagn er að því að vera umskorinn? 2 Mikið á allan hátt. Fyrst og fremst var þeim trúað fyrir heilögum boðskap Guðs.+ 3 En suma þeirra skorti trú. Hvað um það? Gerir það trúfesti Guðs að engu? 4 Auðvitað ekki! Guð skal reynast sannorður+ þótt hver einasti maður reyndist lygari,+ eins og skrifað stendur: „Til að það sýni sig að orð þín eru réttlát og þú vinnir mál þitt þegar þú ert ákærður.“+ 5 En ef ranglæti okkar dregur fram réttlæti Guðs hvað eigum við þá að segja? Varla er Guð ranglátur þegar hann lætur reiði sína í ljós. (Ég tala nú eins og sumir menn gera.) 6 Auðvitað ekki! Hvernig ætti Guð þá að geta dæmt heiminn?+
7 En ef ég lýg og það dregur enn skýrar fram að Guð segir satt, og það er honum til lofs, af hverju er ég þá dæmdur syndari? 8 Hvers vegna segjum við ekki: „Gerum það sem er illt því að það hefur gott í för með sér“? Sumir halda því ranglega fram að við segjum þetta, en þeir fá þann dóm sem þeir verðskulda.+
9 Hvað þá? Erum við Gyðingar betur settir en aðrir? Alls ekki. Eins og við höfum þegar bent á eru bæði Gyðingar og Grikkir á valdi syndarinnar.+ 10 Það er eins og skrifað stendur: „Enginn er réttlátur, ekki einn einasti.+ 11 Enginn hefur nokkurn skilning, enginn leitar Guðs. 12 Allir hafa farið af réttri leið, allir eru orðnir óhæfir. Enginn sýnir góðvild, ekki nokkur maður.“+ 13 „Kok þeirra er opin gröf, þeir blekkja með tungu sinni.“+ „Höggormseitur er innan vara þeirra.“+ 14 „Og munnur þeirra er fullur bölvunar og beiskju.“+ 15 „Þeir eru fráir á fæti til að úthella blóði.“+ 16 „Tortíming og eymd er í slóð þeirra 17 og þeir þekkja ekki veg friðarins.“+ 18 „Enginn guðsótti býr í þeim.“+
19 Nú vitum við að allt sem stendur í lögunum er ætlað þeim sem eru undir lögunum til að hver munnur þagni og allur heimurinn þurfi að svara til saka fyrir Guði og eigi refsingu yfir höfði sér.+ 20 Enginn verður því lýstur réttlátur fyrir honum með því að fylgja lögunum+ því að með lögunum fá menn fulla vitneskju um syndina.+
21 En nú hefur réttlæti Guðs verið opinberað óháð lögunum+ eins og lögin og spámennirnir vitna um.+ 22 Já, allir sem trúa geta orðið réttlátir frammi fyrir Guði með því að trúa á Jesú Krist því að það er enginn munur á mönnum.+ 23 Allir hafa syndgað og enginn nær að endurspegla dýrð Guðs+ 24 en Guð gaf þeim þá gjöf+ í einstakri góðvild sinni+ að lýsa þá réttláta. Hann gerði það með lausnargjaldinu sem Kristur Jesús greiddi til að frelsa þá.+ 25 Guð bar hann fram sem friðþægingarfórn*+ til gagns fyrir þá sem trúa á blóð hans.+ Þannig sýndi Guð réttlæti sitt vegna þess að hann var umburðarlyndur og fyrirgaf syndirnar sem fólk hafði áður drýgt. 26 Hann sýndi einnig að hann fylgir sínu eigin réttlæti+ nú á tímum og er réttlátur þegar hann lýsir þann réttlátan sem trúir á Jesú.+
27 Er þá eitthvað til að stæra sig af? Nei, alls ekki. Samkvæmt hvaða lögum? Lögum sem krefjast verka?+ Nei, heldur lögum trúarinnar 28 því að við álítum að maður sé lýstur réttlátur vegna trúar en ekki fyrir verk byggð á lögunum.+ 29 Eða er Guð aðeins Guð Gyðinga?+ Er hann ekki líka Guð þeirra sem eru af þjóðunum?+ Jú, líka fólks af þjóðunum.+ 30 Þar sem Guð er einn+ lýsir hann umskorna menn réttláta+ vegna trúar þeirra og sömuleiðis óumskorna menn+ á grundvelli trúar þeirra. 31 Afnemum við þá lögin með trú okkar? Alls ekki. Við staðfestum þau öllu heldur.+
4 Hvað getum við þá sagt um Abraham forföður okkar? Hvað ávann hann? 2 Ef Abraham hefði verið lýstur réttlátur vegna verka hefði hann haft ástæðu til að stæra sig af því, en ekki frammi fyrir Guði. 3 Hvað segir ritningarstaðurinn? „Abraham trúði Jehóva* og þess vegna var hann talinn réttlátur.“*+ 4 Vinnandi maður fær ekki greidd laun af einstakri góðvild heldur af því að hann á rétt á þeim.* 5 Öðru máli gegnir um mann sem vinnur ekki en trúir á þann sem lýsir óguðlegan mann réttlátan. Hann er talinn réttlátur vegna trúar sinnar.+ 6 Davíð segir líka að sá maður sé hamingjusamur sem Guð álítur réttlátan óháð verkum hans: 7 „Þeir eru hamingjusamir sem hafa fengið afbrot sín fyrirgefin og syndir sínar huldar.* 8 Sá er hamingjusamur sem Jehóva* lætur ekki standa reikningsskap synda sinna.“+
9 Er þessi hamingja þá takmörkuð við hina umskornu eða geta óumskornir hlotið hana líka?+ Við segjum: „Abraham var talinn réttlátur vegna trúar sinnar.“+ 10 Hvenær var hann álitinn réttlátur? Meðan hann var umskorinn eða óumskorinn? Það var áður en hann var umskorinn, meðan hann var enn óumskorinn. 11 Og hann fékk umskurðinn sem tákn,+ innsigli sem staðfesti* að hann væri réttlátur vegna trúar sinnar meðan hann var óumskorinn. Þannig gat hann orðið faðir allra óumskorinna sem trúa+ svo að þeir gætu talist réttlátir 12 og faðir umskorinna afkomenda sinna, bæði þeirra sem halda sig við umskurðinn og þeirra sem feta í fótspor föður okkar Abrahams+ og sýna sömu trú og hann meðan hann var óumskorinn.
13 Það var ekki í krafti laga sem Abraham eða afkomendur hans fengu loforðið um að hann skyldi taka heim í arf+ heldur var það vegna réttlætis sem hlýst af trú.+ 14 Ef þeir sem halda sig við lögin ættu að fá arfinn væri trúin gagnslaus og loforðið fallið úr gildi. 15 Í rauninni vekja lögin reiði Guðs+ en þar sem engin lög eru, þar eru heldur engin lögbrot.+
16 Loforðið var sem sagt gefið vegna trúar og byggðist á einstakri góðvild Guðs+ svo að það næði örugglega til allra afkomenda Abrahams,+ ekki aðeins þeirra sem halda sig við lögin heldur einnig þeirra sem sýna sömu trú og Abraham, faðir okkar allra.+ 17 (Það er eins og skrifað stendur: „Ég hef gert þig að föður margra þjóða.“)+ Abraham fékk loforðið frammi fyrir Guði sem hann trúði á, honum sem gefur dánum líf og talar um það sem er ekki til eins og það sé til.* 18 Hann trúði með von, þó að það virtist vonlaust, að hann yrði faðir margra þjóða samkvæmt því sem sagt hafði verið: „Svona margir verða afkomendur þínir.“+ 19 Hann varð ekki veikur í trúnni þó að hann leiddi hugann að líkama sínum sem var sama sem dáinn (fyrst hann var um 100 ára)+ og að því að Sara var komin úr barneign.*+ 20 Hann trúði og efaðist ekki þar sem Guð hafði gefið honum loforð. Trúin gaf honum styrk og þannig heiðraði hann Guð. 21 Hann var algerlega sannfærður um að Guð gæti staðið við það sem hann hafði lofað honum+ 22 og „þess vegna var hann talinn réttlátur“.+
23 En orðin „þess vegna var hann talinn réttlátur“ voru ekki aðeins skrifuð hans vegna+ 24 heldur einnig okkar vegna. Við verðum álitin réttlát af því að við trúum á hann sem reisti Jesú Drottin okkar upp frá dauðum.+ 25 Hann var framseldur vegna afbrota okkar+ og reistur upp til að hægt væri að lýsa okkur réttlát.+
5 Þar sem við höfum nú verið lýst réttlát vegna trúar+ skulum við eiga frið* við Guð. Við getum það þökk sé Drottni okkar Jesú Kristi.+ 2 Með því að trúa á hann höfum við líka fengið aðgang að þeirri einstöku góðvild sem við njótum nú.+ Gleðjumst* því yfir voninni um að hljóta dýrð Guðs. 3 En ekki bara það. Gleðjumst* líka í raunum+ þar sem við vitum að raunir leiða af sér þolgæði,+ 4 þolgæðið veitir velþóknun Guðs+ og velþóknun Guðs veitir von,+ 5 og vonin bregst okkur ekki+ því að kærleika Guðs hefur verið úthellt í hjörtu okkar með heilögum anda sem okkur var gefinn.+
6 Kristur dó fyrir óguðlega menn á tilsettum tíma meðan við vorum enn veikburða.+ 7 Varla myndi nokkur deyja fyrir réttlátan mann. Fyrir góðan mann væri ef til vill einhver fús til að deyja. 8 En Guð hefur sýnt að hann elskar okkur með því að láta Krist deyja fyrir okkur meðan við vorum enn syndarar.+ 9 Þar sem við höfum nú verið lýst réttlát vegna blóðs hans+ getum við, þökk sé honum, verið enn öruggari um að verða bjargað frá reiði Guðs.+ 10 Fyrst Guð tók okkur í sátt vegna dauða sonar síns+ meðan við vorum óvinir hans getum við verið enn öruggari um að verða bjargað með lífi sonar hans nú þegar hann hefur tekið okkur í sátt. 11 Og ekki bara það heldur gleðjumst við líka yfir sambandi okkar við Guð sem við höfum eignast vegna Drottins okkar Jesú Krists en fyrir milligöngu hans hefur Guð tekið okkur í sátt.+
12 Syndin kom inn í heiminn með einum manni og dauðinn með syndinni.+ Þannig barst dauðinn til allra manna því að þeir höfðu allir syndgað.+ 13 Syndin var í heiminum áður en lögin komu til sögunnar en enginn er sakaður um synd þegar ekki eru nein lög.+ 14 Dauðinn ríkti samt sem konungur frá Adam til Móse, jafnvel yfir þeim sem höfðu ekki syndgað á sama hátt og Adam en hann líktist þeim sem átti að koma.+
15 En gjöfin er ekki eins og afbrotið. Margir dóu vegna afbrots eins manns en einstök góðvild Guðs og gjöf hans er óendanlega miklu meiri og mörgum til góðs.+ Þessi gjöf var gefin með einstakri góðvild eins manns,+ Jesú Krists. 16 Það sem hlýst af gjöfinni er auk þess ólíkt því sem hlaust af synd hins eina manns.+ Dómurinn fyrir eitt afbrot varð til sakfellingar+ en gjöfin sem fylgdi mörgum afbrotum var að menn voru lýstir réttlátir.+ 17 Dauðinn ríkti sem konungur vegna afbrots eins manns.+ Hve miklu fremur munu þá þeir sem hljóta hina einstöku góðvild og gjöf réttlætisins+ í ríkum mæli lifa og ríkja sem konungar+ vegna hins eina, Jesú Krists.+
18 Eitt afbrot leiddi sem sagt til þess að allir menn voru sakfelldir.+ Á sama hátt leiðir eitt réttlætisverk til þess að alls konar menn+ verða lýstir réttlátir og hljóta líf.+ 19 Margir urðu syndarar vegna óhlýðni hins eina manns.+ Eins verða margir réttlættir vegna hlýðni hins eina.+ 20 Nú voru lögin sett til að afbrotin yrðu meiri.*+ En þar sem syndin var mikil var einstök góðvild Guðs enn meiri. 21 Í hvaða tilgangi? Rétt eins og syndin ríkti sem konungur með dauðanum+ þannig skyldi líka einstök góðvild ríkja sem konungur með réttlætinu og leiða til eilífs lífs fyrir milligöngu Jesú Krists, Drottins okkar.+
6 Hvað eigum við þá að segja? Eigum við að halda áfram að syndga til að einstök góðvild Guðs verði meiri? 2 Auðvitað ekki. Fyrst við dóum gagnvart syndinni+ hvernig getum við þá lifað áfram í henni?+ 3 Eða vitið þið ekki að við öll sem vorum skírð til Krists Jesú+ vorum skírð til dauða hans?+ 4 Við vorum jörðuð með Kristi þegar við skírðumst til dauða hans+ til að við skyldum lifa nýju lífi,+ rétt eins og hann þegar faðirinn reisti hann upp frá dauðum með dýrlegum mætti sínum. 5 Fyrst við höfum sameinast honum með því að deyja eins og hann+ er öruggt að við sameinumst honum líka með því að rísa upp eins og hann.+ 6 Við vitum að okkar gamli maður* var staurfestur með honum+ til að syndugur líkami okkar hefði ekki lengur vald yfir okkur+ og við værum ekki lengur þrælar syndarinnar+ 7 því að sá sem er dáinn er sýknaður af synd sinni.*
8 Og ef við erum dáin með Kristi trúum við að við munum líka lifa með honum. 9 Við vitum að Kristur hefur verið reistur upp frá dauðum+ og deyr því aldrei framar.+ Dauðinn drottnar ekki lengur yfir honum. 10 Með dauða sínum dó hann fyrir syndina* í eitt skipti fyrir öll+ en með lífi sínu lifir hann fyrir Guð. 11 Þannig skuluð þið líka álíta sjálf ykkur vera dáin gagnvart syndinni en lifandi gagnvart Guði sem lærisveinar Krists Jesú.+
12 Látið því ekki syndina ríkja áfram sem konung í dauðlegum líkama ykkar+ svo að þið hlýðið girndum hans. 13 Látið ekki heldur líkama* ykkar þjóna syndinni sem vopn ranglætisins. Bjóðið ykkur heldur fram til að þjóna Guði eins og þið séuð lifnuð frá dauðum. Þá getur hann notað líkama* ykkar sem vopn réttlætisins.+ 14 Syndin má ekki drottna yfir ykkur þar sem þið eruð ekki undir lögum+ heldur undir einstakri góðvild.+
15 Hvað þýðir þetta? Eigum við að syndga fyrst við erum ekki undir lögum heldur undir einstakri góðvild?+ Auðvitað ekki. 16 Vitið þið ekki að ef þið bjóðið öðrum sjálf ykkur sem hlýðna þræla eruð þið þrælar þess sem þið hlýðið,+ hvort heldur syndar+ sem leiðir til dauða+ eða hlýðni sem leiðir til réttlætis? 17 Þið voruð eitt sinn þrælar syndarinnar en við þökkum Guði fyrir að þið skylduð hlýða í einlægni því sem hann kenndi ykkur og ykkur var trúað fyrir. 18 Já, þar sem þið voruð leyst undan syndinni+ urðuð þið þrælar réttlætisins.+ 19 Vegna mannlegra veikleika ykkar ætla ég nú að tala mannamál. Þið buðuð fram limi ykkar til að þræla fyrir óhreinleikann og lögleysið svo að þið gerðuð það sem er illt. Bjóðið nú fram limi ykkar til að þræla fyrir réttlætið svo að þið verðið heilög.+ 20 Meðan þið voruð þrælar syndarinnar þurftuð þið ekki að lúta réttlætinu.
21 Hvaða ávöxt báruð þið á þeim tíma? Verk sem þið skammist ykkar nú fyrir, verk sem leiða til dauða.+ 22 En núna eruð þið leyst undan syndinni og eruð þrælar Guðs. Þið uppskerið því þann ávöxt að vera heilög+ og það leiðir til eilífs lífs.+ 23 Launin sem syndin greiðir eru dauði+ en gjöf Guðs er eilíft líf+ vegna Krists Jesú, Drottins okkar.+
7 Vitið þið ekki, bræður og systur – ég tala við þá sem þekkja lögin – að lögin ráða yfir manninum eins lengi og hann lifir? 2 Gift kona er til dæmis bundin manni sínum samkvæmt lögum meðan hann lifir en ef maðurinn deyr er hún leyst undan lögum hans.+ 3 Þess vegna telst það hjúskaparbrot ef hún verður kona annars manns meðan eiginmaður hennar er á lífi.+ En ef maðurinn hennar deyr er hún laus undan lögum hans og þá fremur hún ekki hjúskaparbrot þótt hún verði kona annars manns.+
4 Eins er með ykkur, bræður mínir og systur. Þið dóuð gagnvart lögunum þegar líkama Krists var fórnað til að þið gætuð tilheyrt öðrum,+ honum sem var reistur upp frá dauðum.+ Þannig getum við borið ávöxt Guði til dýrðar.+ 5 Þegar við fylgdum löngunum holdsins voru syndugar ástríður, sem lögin vöktu til lífs,* að verki í líkama* okkar og báru ávöxt sem leiðir til dauða.+ 6 En nú erum við leyst undan lögunum+ þar sem við erum dáin gagnvart því sem hélt okkur í fjötrum. Við getum því verið þrælar á nýjan hátt vegna áhrifa andans+ en ekki á gamla mátann með því að fylgja lagasafninu.+
7 Hvað eigum við þá að segja? Eru lögin gölluð?* Alls ekki. Ég hefði ekki þekkt syndina ef ekki væri fyrir lögin.+ Ég hefði til dæmis ekki vitað um girndina ef ekki hefði staðið í lögunum: „Þú skalt ekki girnast.“+ 8 En syndin greip tækifærið sem boðorðið gaf henni og vakti hjá mér alls konar girndir því að án laga var syndin dauð.+ 9 Ég lifði einu sinni án laga. En þegar boðorðið kom lifnaði syndin við en ég dó.+ 10 Og boðorðið, sem átti að verða til lífs,+ reyndist vera til dauða. 11 Syndin greip tækifærið sem boðorðið gaf henni, tældi mig og drap mig með því. 12 Lögin sjálf eru þannig heilög og boðorðið er heilagt, réttlátt og gott.+
13 Þýðir það að hið góða hafi orðið til þess að ég dó? Auðvitað ekki. Það var syndin sem varð mér að bana. Lögin eru góð en þau drógu fram að syndin varð mér að bana.+ Boðorðið sýndi þannig fram á hve skaðleg syndin er.+ 14 Við vitum að lögin eru andleg en ég er holdlegur, seldur á vald syndarinnar.+ 15 Ég skil ekki af hverju ég geri það sem ég geri því að ég geri ekki það sem ég vil heldur það sem ég hata. 16 Þegar ég geri það sem ég vil ekki viðurkenni ég að lögin séu góð. 17 En nú er það ekki lengur ég sem geri þetta heldur syndin sem býr í mér.+ 18 Ég veit að það býr ekkert gott í mér, það er að segja í holdi mínu. Mig langar til að gera það sem er rétt en er ekki fær um það.+ 19 Ég geri ekki hið góða sem ég vil heldur geri ég hið illa sem ég vil ekki. 20 Ef ég geri það sem ég vil ekki er það eiginlega ekki ég sem geri það heldur syndin sem býr í mér.
21 Þannig reynist mér það eins og lögmál að þegar ég vil gera það sem er rétt hef ég tilhneigingu til að gera það sem er illt.+ 22 Innst inni hef ég yndi af lögum Guðs+ 23 en ég sé annað lögmál í líkama* mínum sem berst gegn lögum hugar míns+ og gerir mig að fanga undir lögmáli+ syndarinnar sem býr í mér.* 24 Ég er aumkunarverður maður. Hver getur frelsað mig frá líkamanum sem dregur mig til dauða með þessum hætti? 25 Ég þakka Guði sem bjargar mér fyrir milligöngu Jesú Krists, Drottins okkar. Ég er sem sagt þræll undir lögum Guðs með huga mínum en undir lögum syndarinnar með líkama mínum.+
8 Þeir sem eru sameinaðir Kristi Jesú eru því ekki dæmdir sekir. 2 Lög andans gefa þeim líf sem eru sameinaðir Kristi Jesú og þau hafa frelsað ykkur+ frá lögum syndarinnar og dauðans. 3 Lögin voru veikburða+ vegna ófullkomleika mannanna. En það sem lögin gátu ekki,+ það gerði Guð með því að senda sinn eigin son,+ líkan syndugum mönnum,+ til að afnema syndina. Þannig dæmir hann syndina í manninum 4 svo að við getum uppfyllt réttlátar kröfur laganna,+ við sem látum stjórnast af andanum en ekki löngunum holdsins.+ 5 Þeir sem fylgja löngunum holdsins einbeita sér að hinu holdlega+ en þeir sem lifa eftir andanum að hinu andlega.+ 6 Að einbeita sér að hinu holdlega leiðir til dauða+ en að einbeita sér að hinu andlega hefur líf og frið í för með sér.+ 7 Að vera upptekinn af hinu holdlega gerir mann að óvini Guðs+ því að holdið hlýðir ekki lögum Guðs og getur það ekki heldur. 8 Þeir sem láta langanir holdsins ráða ferðinni geta því ekki þóknast Guði.
9 En ef nú andi Guðs býr í ykkur látið þið ekki stjórnast af löngunum holdsins heldur andanum.+ Sá sem hefur ekki hugarfar* Krists tilheyrir honum ekki. 10 En ef Kristur er sameinaður ykkur+ er líkaminn að vísu dauður vegna syndarinnar en andinn veitir líf vegna réttlætisins. 11 Ef andi hans sem reisti Jesú upp frá dauðum býr í ykkur þá mun hann sem vakti Krist Jesú upp frá dauðum+ einnig lífga dauðlega líkama ykkar+ með anda sínum sem býr í ykkur.
12 Bræður og systur, við erum þess vegna skuldbundin, en ekki löngunum holdsins svo að þær ráði ferðinni.+ 13 Ef þið látið stjórnast af löngunum holdsins munuð þið vissulega deyja en ef þið deyðið verk holdsins+ með hjálp andans munuð þið lifa.+ 14 Allir sem láta anda Guðs leiða sig eru sannarlega synir Guðs.+ 15 Þið fenguð ekki anda sem hneppir ykkur í þrældóm og vekur ótta að nýju heldur anda sem Guð gefur til að ættleiða ykkur sem syni. Vegna hans köllum við: „Abba,* faðir!“+ 16 Sjálfur andinn vitnar með okkar eigin anda*+ að við erum börn Guðs.+ 17 Og ef við erum börn erum við líka erfingjar – erfingjar Guðs en samerfingjar+ Krists – svo framarlega sem við þjáumst með honum+ til að við getum einnig orðið dýrleg með honum.+
18 Ég lít svo á að þjáningarnar sem við þolum núna séu ekki neitt í samanburði við þá dýrð sem mun opinberast á okkur.+ 19 Sköpunin bíður eftirvæntingarfull eftir að synir Guðs opinberist.+ 20 Sköpunin þurfti að sæta því að lifa innantómu lífi,+ ekki sjálfviljug heldur vegna hans sem ákvað það. Jafnframt var gefin sú von 21 að hún sjálf yrði leyst+ úr þrælkun forgengileikans og hlyti dýrlegt frelsi barna Guðs. 22 Við vitum að öll sköpunin stynur stöðugt og er kvalin allt til þessa. 23 En ekki bara það. Við sem höfum frumgróðann, það er að segja andann, stynjum líka sjálf innra með okkur+ meðan við bíðum óþreyjufull eftir að verða ættleidd sem synir,+ að verða leyst úr líkama okkar með lausnargjaldinu. 24 Þessi von bjargaði okkur. En von er ekki lengur von þegar maður hefur séð hana rætast. Hver vonar það sem hann sér? 25 En ef við vonum+ það sem við sjáum ekki+ bíðum við þess eftirvæntingarfull og þolgóð.+
26 Andinn hjálpar okkur sömuleiðis í veikleika okkar.+ Vandinn er sá að við vitum ekki alltaf um hvað við eigum að biðja þegar við þurfum að biðja. En sjálfur andinn biður fyrir okkar hönd þegar við stynjum en er orða vant. 27 Og Guð, sem rannsakar hjörtun,+ veit hvað andinn á við þar sem hann biður fyrir hinum heilögu í samræmi við vilja Guðs.
28 Við vitum að Guð lætur öll verk sín vinna saman þeim til góðs sem elska hann, þeim sem hann hefur kallað samkvæmt fyrirætlun sinni.+ 29 Hann vissi frá upphafi hverja hann myndi velja og ákvað fyrir fram að móta þá eftir mynd sonar síns+ þannig að hann yrði frumburður+ meðal margra bræðra.+ 30 Þeir sem hann hafði fyrir fram í huga+ eru þeir sömu og hann kallaði.+ Þeir sem hann kallaði eru þeir sömu og hann lýsti réttláta.+ Og þeir sem hann lýsti réttláta eru hinir sömu og hann veitti upphefð.+
31 Hvað eigum við þá að segja um þetta? Ef Guð er með okkur hver getur þá staðið á móti okkur?+ 32 Hann þyrmdi ekki einu sinni syni sínum heldur framseldi hann í þágu okkar allra.+ Fyrst hann gaf okkur son sinn mun hann þá ekki í gæsku sinni gefa okkur allt annað líka? 33 Hver getur ákært þá sem Guð hefur valið?+ Það er Guð sem lýsir þá réttláta.+ 34 Hver getur sakfellt þá? Kristur Jesús dó og var auk þess reistur upp. Hann situr nú við hægri hönd Guðs+ og það er hann sem talar máli okkar.+
35 Hver getur gert okkur viðskila við kærleika Krists?+ Geta erfiðleikar gert það eða þjáningar, ofsóknir, hungur eða nekt, eða þá hætta eða sverð?+ 36 Það er eins og skrifað stendur: „Þín vegna blasir dauðinn við okkur allan liðlangan daginn, við erum metin sem sláturfé.“+ 37 En í öllu þessu vinnum við fullan sigur+ með hjálp hans sem elskaði okkur. 38 Ég er sannfærður um að hvorki dauði né líf, englar né stjórnvöld, það sem nú er né það sem er ókomið, hvorki kraftar,+ 39 hæð né dýpt né nokkuð annað skapað geti gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni okkar.
9 Ég segi ykkur sannleikann sem fylgjandi Krists, ég lýg ekki. Samviska mín vitnar undir áhrifum heilags anda 2 um að ég er sárhryggur og sífellt kvalinn í hjarta mér. 3 Ef ég gæti myndi ég gjarnan vera aðskilinn frá Kristi og taka á mig bölvun í þágu bræðra minna og ættingja, 4 það er Ísraelsmanna. Guð ættleiddi þá sem syni+ og heiðraði þá, gaf þeim sáttmálana,+ lögin,+ helgiþjónustuna+ og loforðin.+ 5 Þeir koma líka af sömu forfeðrum+ og Kristur kom sem maður.+ Guð, sem er yfir öllu, sé lofaður að eilífu. Amen.
6 Það er þó ekki eins og orð Guðs hafi brugðist því að ekki eru allir Ísraelsmenn í raun sem koma af Ísrael.+ 7 Ekki eru þeir heldur allir börn Abrahams þótt þeir séu afkomendur hans.+ Nei, „þeir sem verða kallaðir afkomendur þínir koma af Ísak“.+ 8 Bókstafleg börn Abrahams eru sem sagt ekki börn Guðs+ heldur eru það börnin samkvæmt loforðinu+ sem teljast afkomendur Abrahams. 9 Loforðið var á þessa leið: „Ég kem aftur á þessum tíma að ári liðnu og þá verður Sara búin að eignast son.“+ 10 En loforðið var ekki aðeins gefið þá heldur líka þegar Rebekka átti að eignast tvíbura með Ísak, eiginmanni sínum og forföður okkar.+ 11 Áður en þeir fæddust og höfðu hvorki gert gott né illt tiltók Guð hvorn hann ætlaði að velja en það er undir honum komið hvern hann kallar því að val hans ræðst ekki af verkum manna. 12 Rebekku var sagt: „Sá eldri mun þjóna þeim yngri.“+ 13 Það er eins og skrifað stendur: „Ég elskaði Jakob en hataði Esaú.“+
14 Hvað eigum við þá að segja? Er Guð óréttlátur? Auðvitað ekki.+ 15 Hann segir við Móse: „Ég miskunna þeim sem ég miskunna og sýni meðaumkun þeim sem ég sýni meðaumkun.“+ 16 Það er því undir Guði og miskunn hans komið hver er valinn en ekki undir löngun eða viðleitni mannsins.*+ 17 Í Ritningunni er sagt við faraó: „Ég hef látið þig halda lífi af þessari ástæðu: að nota þig sem dæmi til að sýna mátt minn og láta boða nafn mitt um alla jörðina.“+ 18 Þannig miskunnar hann hverjum sem hann vill en lætur þá forherðast sem hann vill.+
19 Nú segirðu sjálfsagt við mig: „Hvers vegna heldur hann þá áfram að finna að fólki? Hver getur staðið gegn vilja hans?“ 20 En hver ert þú, maður, að mótmæla Guði?+ Segir gripurinn við þann sem mótaði hann: „Hvers vegna gerðirðu mig svona?“+ 21 Hefur ekki leirkerasmiðurinn leirinn á valdi sínu+ til að móta úr sama klumpinum ker til að nota við hátíðleg tækifæri og annað til óvirðulegri nota? 22 Þó að Guð vildi sýna reiði sína og birta mátt sinn umbar hann af mikilli þolinmæði ker reiðinnar sem verðskulda eyðingu. 23 Og hvað nú ef hann gerði það til að sýna hve mikla dýrð hann veitir kerum miskunnarinnar+ sem hann hefur fyrir fram búið til dýrðar, 24 það er að segja okkur sem hann kallaði ekki aðeins úr hópi Gyðinga heldur einnig frá þjóðunum?+ Er hægt að segja eitthvað við því? 25 Það er eins og hann segir hjá Hósea: „Þá sem eru ekki fólk mitt+ mun ég kalla ‚fólk mitt‘, og hana sem var ekki elskuð ‚mína elskuðu‘.+ 26 Og þar sem sagt var við þá: ‚Þið eruð ekki fólk mitt,‘ þar verða þeir kallaðir ‚synir hins lifandi Guðs‘.“+
27 Auk þess hrópar Jesaja varðandi Ísrael: „Þótt Ísraelsmenn væru eins margir og sandkorn sjávarins bjargast aðeins fáeinir.*+ 28 Jehóva* gerir upp reikningana á jörðinni, endanlega og án tafar.“+ 29 Jesaja spáði líka: „Ef Jehóva* hersveitanna hefði ekki látið nokkra afkomendur okkar komast af værum við orðin eins og Sódóma og líktumst Gómorru.“+
30 Hvað þýðir þetta? Að fólk af þjóðunum, sem sóttist ekki eftir að verða réttlátt, varð réttlátt+ og það vegna trúar,+ 31 en Ísraelsmönnum, sem reyndu að verða réttlátir með því að fylgja lögum, tókst ekki að fara eftir þeim. 32 Af hverju? Af því að þeir reyndu að réttlætast með verkum en ekki af trú. Þeir hnutu um „ásteytingarsteininn“+ 33 eins og skrifað stendur: „Ég legg í Síon ásteytingarstein+ og hneykslunarhellu en sá sem byggir trú sína á honum verður ekki fyrir vonbrigðum.“+
10 Bræður,* það er hjartans ósk mín og innileg bæn til Guðs að Ísraelsmenn bjargist.+ 2 Ég get vottað að þeir eru kappsamir vegna Guðs+ en þá skortir nákvæma þekkingu. 3 Þeir þekkja ekki réttlæti Guðs+ heldur reyna að sanna á eigin forsendum að þeir séu réttlátir.+ Þess vegna beygja þeir sig ekki undir réttlæti Guðs.+ 4 Lögin liðu undir lok með Kristi+ og þess vegna geta allir sem trúa orðið réttlátir.+
5 Móse skrifar um réttlætið sem lögin veita: „Sá sem heldur lögin mun lifa vegna þeirra.“+ 6 En um réttlætið sem hlýst af trú segir: „Segðu ekki í hjarta þínu:+ ‚Hver stígur upp til himna?‘+ það er, til að sækja Krist þangað, 7 eða: ‚Hver fer niður í undirdjúpið?‘+ það er, til að sækja Krist til hinna dánu.“ 8 Hvað segir Ritningin? „Orðið er nálægt þér, í munni þínum og hjarta,“+ það er „orð“ trúarinnar sem við boðum. 9 Ef þú lýsir yfir með munni þínum að Jesús sé Drottinn+ og trúir í hjarta þínu að Guð hafi reist hann upp frá dauðum bjargast þú. 10 Með hjartanu trúir maður og það leiðir til réttlætis en með munninum játar maður trúna opinberlega+ og það leiðir til björgunar.
11 Ritningarstaðurinn segir: „Enginn sem byggir trú sína á honum verður fyrir vonbrigðum.“+ 12 Það er enginn munur á Gyðingum og Grikkjum.+ Sami Drottinn er yfir öllum og hann er örlátur við alla sem ákalla hann 13 því að „allir sem ákalla nafn Jehóva* bjargast“.+ 14 En hvernig geta þeir ákallað hann ef þeir trúa ekki á hann? Og hvernig geta þeir trúað á þann sem þeir hafa ekki heyrt um? Hvernig geta þeir heyrt ef enginn boðar? 15 Og hvernig geta þeir boðað nema þeir séu sendir?+ Það er eins og skrifað stendur: „Hversu fagrir eru fætur þeirra sem flytja fagnaðarboðskap um hið góða.“+
16 Þeir hlýddu þó ekki allir fagnaðarboðskapnum. Jesaja segir: „Jehóva,* hver trúir því sem við höfum skýrt frá?“+ 17 Trúin kemur af því sem menn heyra,+ og menn heyra orðið um Krist þegar það er boðað. 18 En ég spyr: Hafa þeir þá ekki heyrt það? Jú, „ómur þeirra hefur borist um alla jörðina og boðskapur þeirra til endimarka heimsbyggðarinnar“.+ 19 Þá spyr ég: Hafa Ísraelsmenn ekki skilið það?+ Móse sagði á sínum tíma: „Ég vek afbrýði ykkar með þeim sem eru ekki þjóð. Ég læt heimska þjóð gera ykkur ævareiða.“+ 20 Og Jesaja sagði berum orðum: „Ég lét þá finna mig sem leituðu mín ekki.+ Ég opinberaðist þeim sem spurðu ekki um mig.“+ 21 En hann sagði um Ísrael: „Allan liðlangan daginn breiddi ég út faðminn móti óhlýðnu og þrjósku fólki.“+
11 Nú spyr ég: Hefur Guð þá hafnað fólki sínu?+ Alls ekki. Ég er sjálfur Ísraelsmaður, afkomandi Abrahams og af ættkvísl Benjamíns. 2 Guð hafnaði ekki fólki sínu sem hann viðurkenndi í upphafi.+ Vitið þið ekki hvað segir í Ritningunni um Elía þegar hann ákærir Ísrael í innilegri bæn til Guðs? 3 „Jehóva,* þeir hafa drepið spámenn þína og rifið niður ölturu þín. Ég er einn eftir og nú sitja þeir um líf mitt.“*+ 4 En hverju svaraði Guð honum? „Ég á enn þá 7.000 menn sem hafa ekki kropið fyrir Baal.“+ 5 Núna er sömuleiðis eftir lítill hópur manna+ sem Guð valdi af einstakri góðvild sinni. 6 Fyrst þeir voru valdir sökum einstakrar góðvildar+ var það ekki vegna verka.+ Annars væri þessi einstaka góðvild ekki einstök góðvild.
7 Hvað þýðir þetta? Ísraelsmenn fengu ekki það sem þeir sóttust svo ákaft eftir en hinir útvöldu fengu það.+ Hinir urðu skilningssljóir+ 8 eins og skrifað er: „Guð hefur svæft þá djúpum andlegum svefni,+ gefið þeim augu sem sjá ekki og eyru sem heyra ekki allt fram á þennan dag.“+ 9 Og Davíð segir: „Borðhald þeirra verði þeim snara og gildra, hrösunarhella og til refsingar. 10 Augu þeirra myrkvist svo að þeir sjái ekki og gangi þeir alltaf bognir í baki.“+
11 Ég spyr því: Hrösuðu þeir svo illa að þeir féllu flatir? Alls ekki. En þar sem þeir misstigu sig getur fólk af þjóðunum bjargast og það vekur afbrýði Ísraels.+ 12 Ef hrösun þeirra færir heiminum auð og afturför þeirra auðgar fólk af þjóðunum+ þá verður auðurinn enn meiri þegar tölu þeirra er náð.
13 Nú tala ég til ykkar sem eruð af þjóðunum. Ég er postuli meðal þjóðanna+ og sýni að ég met þjónustu mína mikils*+ 14 því að ég vona að ég geti á einn eða annan hátt vakið afbrýði ættmanna minna og orðið einhverjum þeirra til bjargar. 15 Guð hafnaði þeim+ og við það opnaðist leið fyrir heiminn til að sættast við hann. Hvað gerist þá þegar Guð tekur aftur við þeim, annað en að þeir lifna frá dauðum? 16 Ef sá hluti deigsins sem er frumgróðafórn er heilagur þá er allt deigið heilagt, og ef rótin er heilög eru greinarnar það líka.
17 En þótt sumar greinarnar hafi verið brotnar af og þú sem ert villiólívuviður hafir verið græddur inn á meðal hinna greinanna og fengið hlutdeild í rótarsafa ólívutrésins 18 skaltu ekki líta niður á þær.* En ef þú gerir það*+ skaltu muna að þú berð ekki rótina heldur rótin þig. 19 Þú segir kannski: „Greinar voru brotnar af til að hægt væri að græða mig á tréð.“+ 20 Rétt er það. Þær voru brotnar af vegna þess að þær voru vantrúaðar+ en þú stendur stöðugur vegna trúar.+ Vertu ekki stoltur heldur gættu þín. 21 Fyrst Guð þyrmdi ekki náttúrulegu greinunum mun hann ekki heldur þyrma þér. 22 Taktu eftir að Guð er bæði góður+ og strangur. Hann er strangur við þá sem féllu+ en góður við þig, svo framarlega sem þú verðskuldar áfram góðvild hans. Annars verður þú líka höggvinn af. 23 Og ef þeir láta af vantrú sinni verða þeir líka græddir á tréð+ því að Guð getur grætt þá aftur á. 24 Þú varst höggvinn af ólívutré sem er villt að eðli til og græddur á ræktaða ólívutréð gagnstætt eðli náttúrunnar. Fyrst svo er hlýtur að vera hægt að græða náttúrulegu greinarnar aftur á sitt eigið ólívutré.
25 Ég vil, bræður og systur, að þið vitið um þennan heilaga leyndardóm+ til að þið verðið ekki vitur í eigin augum: Nokkur hluti Ísraels er orðinn skilningssljór og það varir þangað til tölu fólks af þjóðunum er náð. 26 Þannig bjargast allur Ísrael+ eins og skrifað er: „Bjargvætturinn* kemur frá Síon+ og snýr Jakobi frá óguðlegum verkum. 27 Og þegar ég fjarlægi syndir þeirra+ geri ég sáttmála við þá.“+ 28 Þeir hafa vissulega hafnað fagnaðarboðskapnum og eru þar með óvinir Guðs, en það er ykkur til góðs. Guð valdi þó suma þeirra og elskar þá vegna þess sem hann lofaði forfeðrum þeirra.+ 29 Guð sér ekki eftir gjöfum sínum og köllun. 30 Þið voruð einu sinni óhlýðin Guði+ en ykkur hefur nú verið miskunnað+ vegna óhlýðni Gyðinga.+ 31 Þeir voru sem sagt óhlýðnir og það varð til þess að ykkur var miskunnað. Þar af leiðandi er líka hægt að miskunna þeim núna. 32 Guð hefur látið alla menn vera í fjötrum óhlýðninnar+ til að geta sýnt þeim öllum miskunn.+
33 Hve ríkuleg er ekki blessun Guðs og djúpstæð viska hans og þekking! Dómar hans eru ofar okkar skilningi og vegir hans órekjandi. 34 „Hver hefur kynnst huga Jehóva* og hver hefur verið ráðgjafi hans?“+ 35 Eða „hver hefur að fyrra bragði gefið honum svo að hann þurfi að endurgjalda það?“+ 36 Allt er frá honum og allt er til vegna hans og fyrir hann. Honum sé dýrðin að eilífu. Amen.
12 Bræður og systur, ég hvet ykkur því vegna miskunnar Guðs til að bjóða fram líkama ykkar+ að lifandi og heilagri fórn+ sem hann hefur velþóknun á, að veita heilaga þjónustu byggða á skynsemi.+ 2 Látið ekki heiminn* móta ykkur lengur heldur umbreytist með því að endurnýja hugarfarið+ svo að þið getið sannreynt+ hver sé hinn góði og fullkomni vilji Guðs og hvað honum sé þóknanlegt.
3 Vegna þeirrar einstöku góðvildar sem mér er gefin segi ég ykkur öllum að líta ekki of stórt á sjálf ykkur+ heldur vera raunsæ í samræmi við þá trú sem Guð hefur gefið* ykkur hverju og einu.+ 4 Á einum líkama eru margir limir+ en þeir hafa ekki allir sama hlutverk. 5 Eins er með okkur: Þó að við séum mörg erum við einn líkami sem er sameinaður Kristi. En hvert og eitt erum við limir á líkamanum sem eru háðir hver öðrum.+ 6 Við höfum fengið ólíkar gjafir í samræmi við einstaka góðvild Guðs.+ Ef það er spádómsgáfa skulum við spá í samræmi við trú okkar 7 og ef það er þjónusta skulum við sinna henni. Sá sem kennir skal annast kennsluna,+ 8 sá sem uppörvar* skal uppörva,*+ sá sem gefur* sé örlátur,+ sá sem veitir forstöðu* geri það dyggilega*+ og sá sem sýnir miskunn geri það með gleði.+
9 Kærleikur ykkar sé hræsnislaus.+ Hafið andstyggð á hinu illa.+ Haldið fast við það sem er gott. 10 Sýnið hvert öðru bróðurkærleika og ástúð. Eigið frumkvæðið að því að sýna hvert öðru virðingu.+ 11 Verið iðin* en ekki löt.+ Verið brennandi í andanum.+ Þjónið Jehóva* af kappi.*+ 12 Gleðjist í voninni. Verið þolgóð í erfiðleikum.+ Haldið áfram að biðja.+ 13 Deilið því sem þið eigið með hinum heilögu eftir þörfum þeirra.+ Temjið ykkur gestrisni.+ 14 Blessið þá sem ofsækja ykkur,+ blessið þá en bölvið þeim ekki.+ 15 Gleðjist með þeim sem gleðjast. Grátið með þeim sem gráta. 16 Lítið aðra sömu augum og sjálf ykkur. Sækist ekki eftir því sem ýtir undir hroka* heldur hafið hógværðina að leiðarljósi.+ Verið ekki vitur í eigin augum.+
17 Gjaldið engum illt með illu.+ Reynið að gera það sem er gott í augum allra manna. 18 Ef hægt er skuluð þið halda frið við alla menn að svo miklu leyti sem það er á ykkar valdi.+ 19 Hefnið ykkar ekki sjálf, þið elskuðu, heldur leyfið reiði Guðs að komast að,+ því að skrifað er: „‚Mín er hefndin, ég mun endurgjalda,‘ segir Jehóva.“*+ 20 En „ef óvinur þinn er svangur skaltu gefa honum að borða, ef hann er þyrstur skaltu gefa honum að drekka. Með því að gera það hleðurðu glóandi kolum á höfuð hans.“*+ 21 Láttu ekki hið illa sigra þig heldur sigraðu alltaf illt með góðu.+
13 Allir eiga að vera undirgefnir yfirvöldum*+ því að engin yfirvöld eru til sem eru ekki frá Guði,+ og þau sem eru til eru hver í sinni stöðu með leyfi Guðs.+ 2 Sá sem setur sig upp á móti yfirvöldum stendur því gegn fyrirkomulagi Guðs. Þeir sem gera það kalla yfir sig dóm. 3 Sá sem vinnur góð verk þarf ekki að óttast valdhafana heldur sá sem vinnur vond verk.+ Ef þú vilt ekki þurfa að óttast yfirvöld skaltu halda áfram að gera það sem er gott+ og þú færð hrós frá þeim. 4 Þau eru þjónn Guðs þér til góðs. En ef þú gerir það sem er illt máttu óttast vegna þess að þau bera ekki sverðið að ástæðulausu. Þau eru þjónn Guðs, hefnari til að refsa* þeim sem gera illt.
5 Það er því nauðsynlegt að þið séuð undirgefin, ekki aðeins til að forðast refsingu* heldur einnig samvisku ykkar vegna.+ 6 Þess vegna borgið þið líka skatta enda eru yfirvöldin þjónn Guðs í þágu almennings og inna af hendi það verkefni sem þau hafa fengið. 7 Gefið öllum það sem þeir eiga rétt á: þeim skatt sem fer fram á skatt,+ þeim toll sem fer fram á toll, þeim virðingu sem ber að fá virðingu+ og þeim heiður sem ber að fá heiður.+
8 Skuldið ekki neinum neitt nema það að elska hvert annað+ því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögin.+ 9 Boðorðin: „Þú skalt ekki fremja hjúskaparbrot,+ þú skalt ekki myrða,+ þú skalt ekki stela,+ þú skalt ekki girnast“+ og öll önnur boðorð má draga saman með þessum orðum: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“+ 10 Kærleikurinn gerir náunganum ekkert illt.+ Þess vegna uppfyllir kærleikurinn lögin.+
11 Gerið þetta því að þið vitið hvað tímanum líður, að það er tími til kominn að vakna af svefni.+ Nú er björgunin nær en þegar við tókum trú. 12 Langt er liðið á nóttina og dagurinn er í nánd. Leggjum því af verk myrkursins+ og búumst vopnum ljóssins.+ 13 Lifum sómasamlega+ eins og að degi til og forðumst svallveislur, ofdrykkju, siðlaust kynlíf, blygðunarlausa hegðun,*+ deilur og öfund.+ 14 Íklæðist öllu heldur* Drottni Jesú Kristi+ og reynið ekki að upphugsa leiðir til að fullnægja löngunum holdsins.+
14 Takið vel á móti þeim sem er óstyrkur í trúnni+ og dæmið engan fyrir skoðanir* hans. 2 Trú sumra leyfir þeim að borða allt en sá sem er óstyrkur í trúnni borðar aðeins grænmeti. 3 Sá sem borðar á ekki að líta niður á þann sem borðar ekki, og sá sem borðar ekki á ekki að dæma þann sem borðar+ því að Guð hefur tekið á móti honum. 4 Hvaða rétt hefur þú til að dæma þjón einhvers annars?+ Það er undir húsbónda hans komið hvort hann stendur eða fellur.+ Og hann mun standa því að Jehóva* getur látið hann standa.
5 Einum finnst sumir dagar mikilvægari en aðrir+ en annar metur alla daga jafna.+ Hver og einn ætti að fylgja eigin sannfæringu. 6 Sá sem gerir greinarmun á dögum gerir það fyrir Jehóva.* Sá sem borðar allan mat gerir það fyrir Jehóva* því að hann þakkar Guði.+ Sá sem borðar ekki allt gerir það fyrir Jehóva* en þakkar samt Guði.+ 7 Ekkert okkar lifir aðeins fyrir sjálft sig+ og enginn deyr aðeins fyrir sjálfan sig. 8 Ef við lifum, lifum við fyrir Jehóva*+ og ef við deyjum, deyjum við fyrir Jehóva.* Hvort sem við því lifum eða deyjum tilheyrum við Jehóva.*+ 9 Kristur dó og lifnaði aftur til að hann gæti orðið Drottinn bæði dauðra og lifandi.+
10 En hvers vegna dæmirðu bróður þinn?+ Og hvers vegna líturðu niður á bróður þinn? Við eigum öll eftir að standa frammi fyrir dómarasæti Guðs+ 11 því að skrifað er: „‚Svo sannarlega sem ég lifi,‘+ segir Jehóva,* ‚mun hvert hné beygja sig fyrir mér og hver tunga viðurkenna að ég er Guð.‘“+ 12 Við þurfum því öll að standa Guði reikningsskap gerða okkar.+
13 Þess vegna skulum við hætta að dæma hvert annað.+ Verum heldur staðráðin í að gera ekkert sem getur orðið til þess að bróðir hrasi eða falli frá trúnni.+ 14 Sem lærisveinn Drottins Jesú veit ég og er sannfærður um að ekkert er óhreint í sjálfu sér.+ En ef einhverjum finnst eitthvað óhreint er það óhreint fyrir hann. 15 Ef bróðir þinn hneykslast á því sem þú borðar ertu kominn út af vegi kærleikans.+ Láttu ekki mat verða til þess að sá sem Kristur dó fyrir glatist.+ 16 Látið ekki hið góða sem þið gerið spilla mannorði ykkar. 17 Ríki Guðs snýst ekki um mat og drykk+ heldur réttlæti, frið og gleði sem heilagur andi veitir. 18 Sá sem þjónar Kristi með þessum hætti hlýtur velþóknun Guðs og virðingu manna.
19 Gerum því allt sem við getum til að stuðla að friði+ og byggja hvert annað upp.+ 20 Hættið að brjóta niður verk Guðs bara vegna matar.+ Allt er vissulega hreint en það er til tjóns* að borða nokkuð sem verður öðrum að falli.+ 21 Best er að borða ekki kjöt né drekka vín né gera neitt sem getur orðið bróður þínum að falli.+ 22 Haltu sannfæringu þinni fyrir þig og láttu hana vera milli þín og Guðs. Sá sem ásakar ekki sjálfan sig fyrir það sem hann velur að gera er hamingjusamur. 23 En ef hann er efins en borðar samt er hann þegar dæmdur af því að hann byggir það ekki á sannfæringu sinni. Allt sem er ekki byggt á trú er synd.
15 Við sem erum sterk eigum að bera veikleika þeirra sem eru óstyrkir í trúnni+ og hugsa ekki aðeins um eigin hag.+ 2 Við skulum öll gera það sem er náunganum til góðs og styrkir hann.+ 3 Kristur hugsaði ekki um eigin hag+ heldur fór eins og skrifað stendur: „Smánaryrði þeirra sem smánuðu þig hafa lent á mér.“+ 4 Allt sem var skrifað áður var skrifað til að við gætum lært af því+ og það veitir okkur von+ þar sem Ritningarnar hughreysta og hjálpa okkur að vera þolgóð.+ 5 Megi Guð, sem veitir þolgæði og huggun, hjálpa ykkur öllum að hafa sama hugarfar og Kristur Jesús. 6 Þá getið þið í sameiningu+ lofað Guð og föður Drottins okkar Jesú Krists einum rómi.*
7 Takið því vel á móti hvert öðru+ eins og Kristur tók á móti ykkur,+ Guði til dýrðar. 8 Ég segi ykkur að Kristur varð þjónn hinna umskornu+ til að sýna fram á að Guð er sannorður og staðfesta loforðin sem Guð gaf forfeðrum þeirra,+ 9 og til að þjóðirnar lofuðu Guð fyrir miskunn hans.+ Það er eins og skrifað stendur: „Þess vegna vegsama ég þig meðal þjóðanna og syng nafni þínu lof.“+ 10 Hann segir einnig: „Gleðjist, þið þjóðir, með fólki hans.“+ 11 Annars staðar segir: „Lofið Jehóva,* allar þjóðir, og allir þjóðflokkar vegsami hann.“+ 12 Og Jesaja segir: „Rót Ísaí+ kemur, sá sem rís upp til að stjórna þjóðum.+ Við hann munu þjóðir binda von sína.“+ 13 Megi Guð vonarinnar fylla ykkur gleði og friði þar sem þið treystið honum. Þannig styrkist þið enn meir í voninni með hjálp heilags anda.+
14 Ég er sannfærður um að þið, bræður mínir og systur, séuð full gæsku, búið yfir ríkulegri þekkingu og séuð fær um að leiðbeina* hvert öðru. 15 En í bréfi mínu hef ég verið mjög opinskár við ykkur um sumt til að minna ykkur á það. Ég hef verið það vegna þess að Guð sýndi mér þá einstöku góðvild 16 að gera mig að þjóni Krists Jesú í þágu þjóðanna.+ Ég tek þátt í því heilaga starfi að flytja fagnaðarboðskap Guðs+ til að þessar þjóðir geti verið fórn sem hann hefur velþóknun á, helguð af heilögum anda.
17 Sem fylgjandi Krists Jesú hef ég ástæðu til að fagna yfir þjónustunni sem Guð fól mér. 18 Ég leyfi mér ekki að tala um neitt annað en það sem Kristur hefur látið mig gera til að þjóðirnar hlýði honum. Hann kom því til leiðar með orðum mínum og verkum, 19 með táknum og undrum*+ og með krafti anda Guðs. Þannig hef ég getað boðað fagnaðarboðskapinn um Krist rækilega á svæðinu frá Jerúsalem allt til Illýríu.+ 20 Ég lagði mig fram um að boða ekki fagnaðarboðskapinn þar sem nafn Krists hafði þegar verið kunngert til að byggja ekki á grunni sem annar hafði lagt, 21 en skrifað stendur: „Þeir sem hafa ekki fengið að vita um hann munu sjá og þeir sem hafa ekki heyrt munu skilja.“+
22 Það er líka þess vegna sem ég hef ekki komist til ykkar þótt ég hafi oft ætlað mér það. 23 En nú á ég ekki lengur neitt ósnert svæði á þessum slóðum og ég hef þráð í mörg* ár að koma til ykkar. 24 Ég vonast því til að hitta ykkur þegar ég fer til Spánar og að þið fylgið mér áleiðis eftir að ég hef staldrað við hjá ykkur um tíma. 25 En nú ætla ég að fara til Jerúsalem til að þjóna hinum heilögu.+ 26 Bræður og systur í Makedóníu og Akkeu hafa fúslega gefið framlag í þágu fátækra meðal hinna heilögu í Jerúsalem.+ 27 Þau gerðu það með gleði og fannst þeim reyndar skylt að gera það. Fyrst þjóðirnar fengu hlutdeild í andlegum gæðum Gyðinga ber þeim skylda til að styðja þá með efnislegum eigum sínum.+ 28 Eftir að ég hef lokið þessu og komið framlaginu* örugglega til skila kem ég við hjá ykkur á leiðinni til Spánar. 29 Ég veit líka að þegar ég kem til ykkar mun ég koma með ríkulega blessun frá Kristi.
30 Nú hvet ég ykkur, bræður og systur, vegna trúarinnar á Drottin okkar Jesú Krist og kærleikans sem andinn veitir, til að biðja ákaft til Guðs með mér og fyrir mér.+ 31 Biðjið þess að mér verði bjargað+ frá hinum vantrúuðu í Júdeu og að hinir heilögu í Jerúsalem verði ánægðir með hjálpina sem ég færi þeim.+ 32 Þá get ég, ef Guð vill, komið til ykkar með gleði og endurnærst með ykkur. 33 Megi Guð, sem veitir frið, vera með ykkur öllum.+ Amen.
16 Ég kynni fyrir ykkur Föbe systur okkar sem þjónar í söfnuðinum í Kenkreu.+ 2 Takið vel á móti henni sem trúsystur í Drottni eins og hæfir hinum heilögu og hjálpið henni með allt sem hún þarf+ því að hún hefur sjálf komið mörgum til hjálpar, þar á meðal mér.
3 Ég bið að heilsa Prisku og Akvílasi,+ samstarfsmönnum mínum í þjónustu Krists Jesú 4 sem hafa hætt lífi sínu fyrir mig.+ Það er ekki bara ég sem er þeim þakklátur heldur líka allir söfnuðirnir meðal þjóðanna. 5 Skilið líka kveðju til safnaðarins sem kemur saman í húsi þeirra.+ Ég bið að heilsa mínum elskaða Epænetusi en hann er með þeim fyrstu sem urðu fylgjendur Krists í Asíu. 6 Skilið kveðju til Maríu sem hefur lagt hart að sér fyrir ykkur. 7 Skilið kveðju til Andróníkusar og Júníasar, ættingja minna+ og samfanga. Postularnir þekkja þá vel og þeir hafa verið fylgjendur Krists lengur en ég.
8 Ég bið að heilsa Amplíatusi, elskuðum bróður mínum í Drottni. 9 Skilið kveðju til Úrbanusar, samstarfsmanns okkar í þjónustu Krists, og Stakkýsar sem er mér mjög kær. 10 Skilið kveðju til Apellesar sem Kristur hefur velþóknun á. Skilið kveðju til heimilisfólks Aristóbúls. 11 Ég bið að heilsa Heródíon ættingja mínum og þeim sem eru fylgjendur Drottins á heimili Narkissusar. 12 Skilið kveðju til Trýfænu og Trýfósu, kvenna sem leggja hart að sér fyrir Drottin. Ég bið að heilsa Persis, elskaðri systur okkar, sem hefur líka lagt hart að sér fyrir Drottin. 13 Ég bið að heilsa Rúfusi, sem Drottinn hefur valið, og móður hans en hún er mér einnig sem móðir. 14 Ég bið að heilsa Asynkritusi, Flegon, Hermesi, Patrobasi, Hermasi og bræðrunum* sem eru hjá þeim. 15 Skilið kveðju til Fílólogusar og Júlíu, Nerevs og systur hans, og til Olympasar og allra hinna heilögu sem eru hjá þeim. 16 Heilsið hvert öðru með heilögum kossi. Allir söfnuðir Krists biðja að heilsa ykkur.
17 Nú hvet ég ykkur, bræður og systur, til að hafa auga með þeim sem valda sundrung og verða öðrum að falli með því að fara gegn því sem þið hafið lært. Forðist þá.+ 18 Slíkir menn eru ekki þrælar Drottins okkar Krists heldur sinna eigin langana,* og með fagurgala og smjaðri tæla þeir hjörtu grunlausra manna. 19 Allir taka eftir að þið eruð hlýðin og ég gleðst yfir því. Ég vil að þið hafið visku til að gera það sem er gott en séuð saklaus hvað snertir hið illa.+ 20 Guð, sem veitir frið, mun bráðlega kremja Satan+ undir fótum ykkar. Einstök góðvild Drottins okkar Jesú sé með ykkur.
21 Tímóteus samstarfsmaður minn biður að heilsa ykkur og sömuleiðis þeir Lúkíus, Jason og Sósípater, ættingjar mínir.+
22 Ég, Tertíus, sem hef ritað þetta bréf, bið að heilsa ykkur í nafni Drottins.
23 Gajus,+ sem hefur hýst mig og allan söfnuðinn, sendir ykkur kveðju. Erastus gjaldkeri* borgarinnar biður að heilsa ykkur og Kvartus bróðir hans sömuleiðis. 24* ——
25 Dýrð sé Guði sem getur styrkt ykkur með fagnaðarboðskapnum sem ég boða, það er boðskapnum um Jesú Krist. Hann samræmist opinberun hins heilaga leyndardóms+ sem var hjúpaður þögn óralengi 26 en hefur nú verið opinberaður. Þessi leyndardómur hefur verið kunngerður öllum þjóðum í hinum spádómlegu ritningum til að þær skyldu trúa og hlýða samkvæmt skipun hins eilífa Guðs. 27 Já, Guði, sem einn er vitur,+ sé dýrð að eilífu vegna Jesú Krists. Amen.
Orðrétt „aðgreindur“.
Eða „Ég“. Hugsanlegt er að Páll tali um sjálfan sig í fleirtölu.
Orðrétt „með anda mínum“.
Orðrétt „barbara“. Á þeim tíma hafði orðið ekki neikvæða merkingu.
Sjá orðaskýringar.
Eða „tilbáðu“.
Eða „heilaga þjónustu“.
Eða „makleg málagjöld“.
Eða „þeir vildu ekki kynnast Guði vel“.
Eða „pískra“.
Eða „skaðleg“.
Sjá orðaskýringar.
Eða „fræddur munnlega“.
Eða „sáttarfórn“.
Sjá viðauka A5.
Eða „og það var reiknað honum til réttlætis“.
Eða „á þau inni“.
Eða „fyrirgefnar“.
Sjá viðauka A5.
Eða „tryggingu fyrir; staðfestingu á“.
Eða hugsanl. „kallar á það sem er ekki til svo að það verður til“.
Orðrétt „móðurlíf Söru var dáið“.
Eða hugsanl. „eigum við frið“.
Eða hugsanl. „Við gleðjumst“.
Eða hugsanl. „Við gleðjumst“.
Það er, til að fólk gerði sér grein fyrir sínum mörgu syndum.
Eða „persónuleiki“.
Eða „leystur undan synd sinni; náðaður“.
Það er, til að afnema syndina.
Orðrétt „limi“.
Orðrétt „limi“.
Eða „leiddu í ljós“.
Orðrétt „limum“.
Orðrétt „synd“.
Orðrétt „limum“.
Orðrétt „limum mínum“.
Orðrétt „anda“.
Hebreskt eða arameískt ávarpsorð sem merkir ‚faðir‘ og felur í sér hlýju og innileik orðsins „pabbi“.
Eða „með okkur“.
Orðrétt „ekki þeim sem þráir eða þeim sem hleypur“.
Orðrétt „leifar“.
Sjá viðauka A5.
Sjá viðauka A5.
Hér er hugsanlegt að orðið „bræður“ vísi til beggja kynja.
Sjá viðauka A5.
Sjá viðauka A5.
Sjá viðauka A5.
Eða „sál mína“.
Eða „og heiðra þjónustu mína“.
Eða „stæra þig gegn þeim“.
Eða „stærir þig gegn þeim“.
Eða „Frelsarinn“.
Sjá viðauka A5.
Eða „þessa öld“. Sjá orðaskýringar, „heimsskipan“.
Eða „úthlutað“.
Eða „áminnir“.
Eða „áminna“.
Eða „útbýtir“.
Eða „fer með forystu“.
Eða „sé kappsamur“.
Eða „dugleg; kappsöm“.
Sjá viðauka A5.
Eða „Vinnið fyrir Jehóva sem þrælar“.
Eða „Verið ekki stórhuga“.
Sjá viðauka A5.
Hugsunin er að mýkja hjarta hans og „bræða“ hann.
Eða „stjórnvöldum“.
Eða „láta reiðina koma niður á“.
Orðrétt „vegna reiðinnar“.
Eða „ósvífna hegðun“. Fleirtala gríska orðsins asel′geia. Sjá orðaskýringar.
Eða „Líkið öllu heldur eftir“.
Eða hugsanl. „vegna persónulegra efasemda“.
Sjá viðauka A5.
Sjá viðauka A5.
Sjá viðauka A5.
Sjá viðauka A5.
Sjá viðauka A5.
Sjá viðauka A5.
Sjá viðauka A5.
Sjá viðauka A5.
Eða „rangt“.
Orðrétt „munni“.
Sjá viðauka A5.
Eða „áminna“.
Það er, fyrirboðum.
Eða hugsanl. „nokkur“.
Orðrétt „ávextinum“.
Hér er hugsanlegt að orðið „bræður“ vísi til beggja kynja.
Eða „maga“.
Eða „ráðsmaður“.
Sjá viðauka A3.