Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • nwt Matteus 1:1-28:20
  • Matteus

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Matteus
  • Biblían – Nýheimsþýðingin
Biblían – Nýheimsþýðingin
Matteus

MATTEUS SEGIR FRÁ

1 Bókin sem segir sögu* Jesú Krists,* sonar Davíðs,+ sonar Abrahams.+

 2 Abraham eignaðist Ísak,+

Ísak eignaðist Jakob,+

Jakob eignaðist Júda+ og bræður hans,

 3 Júda eignaðist Peres og Sera+ með Tamar,

Peres eignaðist Hesrón,+

Hesrón eignaðist Ram,+

 4 Ram eignaðist Ammínadab,

Ammínadab eignaðist Nakson,+

Nakson eignaðist Salmón,

 5 Salmón eignaðist Bóas með Rahab,+

Bóas eignaðist Óbeð með Rut,+

Óbeð eignaðist Ísaí,+

 6 Ísaí eignaðist Davíð+ konung.

Davíð eignaðist Salómon+ með eiginkonu Úría,

 7 Salómon eignaðist Rehabeam,+

Rehabeam eignaðist Abía,

Abía eignaðist Asa,+

 8 Asa eignaðist Jósafat,+

Jósafat eignaðist Jóram,+

Jóram eignaðist Ússía,

 9 Ússía eignaðist Jótam,+

Jótam eignaðist Akas,+

Akas eignaðist Hiskía,+

10 Hiskía eignaðist Manasse,+

Manasse eignaðist Amón,+

Amón eignaðist Jósía,+

11 Jósía+ eignaðist Jekonja+ og bræður hans um það leyti sem Gyðingar voru fluttir í útlegð til Babýlonar.+

12 Jekonja eignaðist Sealtíel í útlegðinni í Babýlon,

Sealtíel eignaðist Serúbabel,+

13 Serúbabel eignaðist Abíúd,

Abíúd eignaðist Eljakím,

Eljakím eignaðist Asór,

14 Asór eignaðist Sadók,

Sadók eignaðist Akím,

Akím eignaðist Elíúd,

15 Elíúd eignaðist Eleasar,

Eleasar eignaðist Mattan,

Mattan eignaðist Jakob,

16 Jakob eignaðist Jósef eiginmann Maríu en hún fæddi Jesú+ sem er kallaður Kristur.+

17 Alls voru því 14 kynslóðir frá Abraham til Davíðs, 14 kynslóðir frá Davíð til útlegðarinnar í Babýlon og 14 kynslóðir frá útlegðinni í Babýlon til Krists.

18 Fæðingu Jesú Krists bar að með þessum hætti: María móðir hans var trúlofuð Jósef, en áður en þau gengu í hjónaband reyndist hún barnshafandi af völdum heilags anda.*+ 19 Jósef eiginmaður* hennar var réttlátur maður og vildi ekki valda henni opinberri skömm. Hann ætlaði því að skilja við hana í kyrrþey.+ 20 En þegar hann hafði gert upp hug sinn birtist engill Jehóva* honum í draumi og sagði: „Jósef sonur Davíðs, vertu óhræddur að taka Maríu konu þína heim til þín því að hún er barnshafandi af völdum heilags anda.+ 21 Hún mun fæða son og þú átt að nefna hann Jesú*+ því að hann mun frelsa fólk frá syndum þess.“+ 22 Allt gerðist þetta til að það rættist sem Jehóva* sagði fyrir milligöngu spámanns síns: 23 „Meyjan verður barnshafandi og fæðir son og hann verður nefndur Immanúel,“+ en það merkir ‚Guð er með okkur‘.+

24 Þegar Jósef vaknaði gerði hann eins og engill Jehóva* hafði sagt honum og tók konu sína heim til sín. 25 Hann hafði þó ekki kynmök við hana fyrr en hún hafði fætt son.+ Og hann lét hann heita Jesú.+

2 Jesús fæddist í Betlehem+ í Júdeu á dögum Heródesar*+ konungs. Dag einn komu stjörnuspekingar frá Austurlöndum til Jerúsalem 2 og sögðu: „Hvar er barnið sem á að verða konungur Gyðinga?+ Við sáum stjörnu hans þegar við vorum í Austurlöndum og erum komnir til að veita honum lotningu.“* 3 Þegar Heródes konungur heyrði þetta komst hann í mikið uppnám og öll Jerúsalem með honum. 4 Hann kallaði saman alla yfirprestana og fræðimennina og spurði þá hvar Kristur* ætti að fæðast. 5 Þeir svöruðu honum: „Í Betlehem+ í Júdeu því að spámaðurinn skrifaði: 6 ‚Þú, Betlehem í landi Júda, ert alls ekki ómerkilegasta borgin í augum stjórnenda Júda því að frá þér kemur stjórnandi sem verður hirðir þjóðar minnar, Ísraels.‘“+

7 Heródes kallaði þá stjörnuspekingana til sín með leynd og fékk hjá þeim nákvæmar upplýsingar um hvenær stjarnan hafði birst. 8 Hann sendi þá síðan til Betlehem og sagði: „Farið og leitið úti um allt að barninu. Látið mig svo vita þegar þið hafið fundið það svo að ég geti líka farið og veitt því lotningu.“ 9 Eftir að hafa hlustað á konung lögðu þeir af stað. En stjarnan sem þeir höfðu séð í Austurlöndum+ fór á undan þeim þar til hún staðnæmdist fyrir ofan staðinn þar sem barnið var. 10 Þeir urðu himinlifandi þegar þeir sáu stjörnuna. 11 Þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu móður þess, féllu á kné og veittu því lotningu.* Þeir opnuðu öskjur sínar og gáfu því gjafir: gull, reykelsi* og myrru. 12 En þar sem Guð varaði þá við því í draumi+ að snúa aftur til Heródesar fóru þeir aðra leið til heimalands síns.

13 Þegar þeir voru farnir birtist engill Jehóva* Jósef í draumi+ og sagði: „Farðu á fætur, taktu barnið og móður þess og flýið til Egyptalands. Verið þar þangað til ég læt þig vita því að Heródes ætlar að leita að barninu til að drepa það.“ 14 Jósef fór þá á fætur, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands. 15 Hann bjó þar þangað til Heródes dó. Þannig rættist það sem Jehóva* lét spámann sinn segja: „Ég kallaði son minn frá Egyptalandi.“+

16 Heródes reiddist heiftarlega þegar hann áttaði sig á að stjörnuspekingarnir höfðu leikið á hann. Hann sendi menn og lét drepa alla drengi í Betlehem og nágrenni, tveggja ára og yngri, en það samsvaraði þeim tíma sem hann hafði komist að hjá stjörnuspekingunum.+ 17 Þá rættist það sem sagt var fyrir milligöngu Jeremía spámanns: 18 „Rödd heyrist í Rama, grátur og harmakvein. Það er Rakel+ sem grætur börn sín og vill ekki láta huggast því að þau eru ekki lengur á lífi.“+

19 Þegar Heródes var dáinn birtist engill Jehóva* Jósef í draumi+ í Egyptalandi 20 og sagði: „Stattu upp, taktu barnið og móður þess og farðu til Ísraelslands því að þeir sem sóttust eftir lífi* barnsins eru dánir.“ 21 Hann hélt þá af stað með barnið og móður þess og kom til Ísraelslands. 22 En þegar hann frétti að Arkelás réði ríkjum í Júdeu í stað Heródesar föður síns þorði hann ekki að fara þangað. Auk þess fékk hann viðvörun frá Guði í draumi+ og fór því til Galíleu.+ 23 Hann settist að í borg sem heitir Nasaret+ til að það rættist sem sagt var fyrir milligöngu spámannanna: „Hann verður kallaður Nasarei.“*+

3 Síðar meir kom Jóhannes+ skírari og boðaði+ í óbyggðum Júdeu: 2 „Iðrist, því að himnaríki er í nánd.“+ 3 Hann er sá sem Jesaja spámaður talaði um+ þegar hann sagði: „Rödd manns kallar í óbyggðunum: ‚Greiðið veg Jehóva!* Gerið brautir hans beinar.‘“+ 4 Jóhannes klæddist fötum úr úlfaldahári og var með leðurbelti um mittið.+ Hann át engisprettur og villihunang.+ 5 Fólk frá Jerúsalem, allri Júdeu og öllu Jórdansvæðinu kom til hans.+ 6 Það játaði syndir sínar opinberlega og hann skírði það* í ánni Jórdan.+

7 Þegar hann sá að margir farísear og saddúkear+ komu á skírnarstaðinn sagði hann við þá: „Þið nöðruafkvæmi,+ hver sagði ykkur að þið gætuð flúið hina komandi reiði?+ 8 Berið ávöxt sem sýnir* að þið hafið iðrast. 9 Vogið ykkur ekki að segja með sjálfum ykkur: ‚Abraham er faðir okkar.‘+ Ég segi ykkur að Guð getur myndað börn handa Abraham úr þessum steinum. 10 Öxin liggur þegar við rætur trjánna. Þau tré sem bera ekki góðan ávöxt verða höggvin og þeim kastað í eldinn.+ 11 Ég skíri ykkur með vatni vegna þess að þið iðrist+ en sá sem kemur á eftir mér er máttugri en ég, og ég er ekki þess verðugur að taka sandalana af fótum hans.+ Hann mun skíra ykkur með heilögum anda+ og eldi.+ 12 Hann er með varpskófluna* í hendi og mun gerhreinsa þreskivöllinn. Hann safnar hveitinu í hlöðu en brennir hismið í óslökkvandi eldi.“+

13 Jesús kom nú frá Galíleu til Jórdanar til að skírast hjá Jóhannesi+ 14 en Jóhannes mótmælti og sagði: „Það er ég sem þarf að skírast hjá þér. Hvers vegna kemur þú þá til mín?“ 15 Jesús svaraði honum: „Gerðu það nú samt, því að þannig fullnægjum við öllu réttlæti.“ Þá hætti hann að mótmæla. 16 Um leið og Jesús hafði verið skírður kom hann upp úr vatninu, himnarnir opnuðust+ og Jóhannes sá anda Guðs koma niður yfir hann eins og dúfu.+ 17 Einnig heyrðist rödd af himni+ sem sagði: „Þetta er sonur minn+ sem ég elska og hef velþóknun á.“+

4 Andinn leiddi nú Jesú út í óbyggðirnar þar sem Djöfullinn freistaði hans.+ 2 Eftir að hafa fastað í 40 daga og 40 nætur var hann orðinn sársvangur. 3 Freistarinn+ kom þá til hans og sagði: „Ef þú ert sonur Guðs segðu þá þessum steinum að verða að brauði.“ 4 En hann svaraði: „Skrifað stendur: ‚Maðurinn lifir ekki aðeins á brauði heldur á hverju orði sem kemur af munni Jehóva.‘“*+

5 Þá fór Djöfullinn með hann inn í borgina helgu,+ setti hann upp á virkisvegg* musterisins+ 6 og sagði við hann: „Ef þú ert sonur Guðs kastaðu þér þá fram af, því að skrifað stendur: ‚Hann sendir engla sína til þín,‘ og: ‚Þeir munu bera þig á höndum sér til að þú hrasir ekki um stein.‘“+ 7 Jesús sagði við hann: „Það stendur líka skrifað: ‚Þú skalt ekki ögra Jehóva* Guði þínum.‘“+

8 Eftir það fór Djöfullinn með hann upp á afar hátt fjall, sýndi honum öll ríki heims og dýrð þeirra+ 9 og sagði við hann: „Ég skal gefa þér allt þetta ef þú fellur fram og tilbiður mig einu sinni.“ 10 Þá svaraði Jesús: „Farðu burt, Satan! Skrifað stendur: ‚Þú skalt tilbiðja Jehóva* Guð þinn+ og honum einum skaltu veita heilaga þjónustu.‘“+ 11 Þá yfirgaf Djöfullinn hann+ og englar komu og þjónuðu honum.+

12 Þegar Jesús frétti að Jóhannes hefði verið handtekinn+ hélt hann til Galíleu.+ 13 Síðar fór hann frá Nasaret og settist að í Kapernaúm+ við vatnið í héruðum Sebúlons og Naftalí, 14 til að það rættist sem Jesaja spámaður sagði: 15 „Sebúlonsland og Naftalíland við veginn til sjávar,* handan við Jórdan, Galílea þjóðanna! 16 Fólkið sem sat í myrkri sá mikið ljós og ljós+ skein á þá sem sátu í skuggalandi dauðans.“+ 17 Upp frá því fór Jesús að boða: „Iðrist, því að himnaríki er í nánd.“+

18 Hann gekk meðfram Galíleuvatni og sá tvo bræður kasta neti í vatnið. Það voru þeir Símon, sem er kallaður Pétur,+ og Andrés bróðir hans en þeir voru fiskimenn.+ 19 Hann sagði við þá: „Komið og fylgið mér og ég skal láta ykkur veiða menn.“+ 20 Þeir yfirgáfu netin samstundis og fylgdu honum.+ 21 Hann gekk áfram og sá tvo aðra bræður, þá Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróður hans.+ Þeir voru í bátnum með Sebedeusi föður sínum að bæta netin. Hann kallaði á þá+ 22 og þeir yfirgáfu bátinn og föður sinn samstundis og fylgdu honum.

23 Hann fór síðan um alla Galíleu,+ kenndi í samkunduhúsunum,+ boðaði fagnaðarboðskapinn um ríkið og læknaði fólk af hvers kyns sjúkdómum og meinum.+ 24 Fréttirnar af honum bárust um allt Sýrland. Fólk kom til hans með alla sem kvöldust og þjáðust af ýmsum sjúkdómum,+ voru andsetnir,+ flogaveikir+ og lamaðir, og hann læknaði þá. 25 Mikill fjöldi fylgdi honum þess vegna frá Galíleu, Dekapólis,* Jerúsalem, Júdeu og landinu handan við Jórdan.

5 Þegar Jesús sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Hann settist niður og lærisveinarnir komu til hans. 2 Síðan fór hann að kenna þeim og sagði:

3 „Þeir sem skynja andlega þörf sína* eru hamingjusamir+ því að himnaríki tilheyrir þeim.

4 Þeir sem syrgja eru hamingjusamir því að þeir hljóta huggun.+

5 Hinir hógværu*+ eru hamingjusamir því að þeir erfa jörðina.+

6 Þeir sem hungrar og þyrstir+ eftir réttlæti eru hamingjusamir því að þeir verða saddir.+

7 Hinir miskunnsömu+ eru hamingjusamir því að þeim verður sýnd miskunn.

8 Hinir hjartahreinu+ eru hamingjusamir því að þeir munu sjá Guð.

9 Þeir sem stuðla að friði*+ eru hamingjusamir því að þeir verða kallaðir börn* Guðs.

10 Þeir sem hafa verið ofsóttir fyrir að gera rétt+ eru hamingjusamir því að himnaríki tilheyrir þeim.

11 Þið eruð hamingjusöm þegar menn smána ykkur,+ ofsækja+ og ljúga upp á ykkur öllu illu vegna mín.+ 12 Gleðjist og fagnið ákaflega+ því að laun ykkar+ eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir líka spámennina á undan ykkur.+

13 Þið eruð salt+ jarðar. En hvernig er hægt að endurheimta seltuna ef saltið dofnar? Það er ekki lengur nothæft til neins heldur er því hent út+ og troðið undir fótum.

14 Þið eruð ljós heimsins.+ Ekki er hægt að fela borg sem stendur á fjalli. 15 Fólk kveikir ekki á lampa og setur hann undir körfu* heldur á ljósastand og þá lýsir hann öllum í húsinu.+ 16 Eins skuluð þið láta ljós ykkar lýsa meðal manna+ svo að þeir sjái góð verk ykkar+ og lofi föður ykkar sem er á himnum.+

17 Ekki halda að ég sé kominn til að afnema lögin eða spámennina.* Ég kom ekki til að afnema heldur uppfylla.+ 18 Trúið mér, það er líklegra að himinn og jörð líði undir lok en að einn smástafur eða stafkrókur hverfi úr lögunum áður en allt er komið fram.+ 19 Hver sem brýtur eitt minnsta boðorð þeirra og kennir öðrum að gera það verður því óhæfur til að ganga inn í himnaríki.* En hver sem heldur þau og kennir verður hæfur til að ganga inn í himnaríki.* 20 Ég segi ykkur að þið komist alls ekki inn í himnaríki+ ef þið eruð ekki réttlátari en fræðimenn* og farísear.*+

21 Þið hafið heyrt að sagt var við forfeðurna: ‚Þú skalt ekki myrða+ en sá sem fremur morð þarf að svara til saka fyrir dómi.‘+ 22 En ég segi ykkur að hver sem elur með sér reiði+ í garð bróður síns þarf að svara til saka fyrir dómi og sá sem eys svívirðingum yfir bróður sinn þarf að svara til saka fyrir Hæstarétti. Og sá sem segir: ‚Heimskingi!‘ á yfir höfði sér að lenda í eldi Gehenna.*+

23 Ef þú ert að koma með fórn þína að altarinu+ og manst þá að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér 24 skaltu því skilja fórnina eftir fyrir framan altarið. Farðu fyrst og sæstu við bróður þinn. Komdu síðan aftur og færðu fórnina.+

25 Vertu fljótur að sættast við þann sem höfðar mál gegn þér. Gerðu það meðan þið eruð á leiðinni í réttinn svo að hann dragi þig ekki fyrir dómarann og dómarinn afhendi þig réttarþjóninum og þér verði varpað í fangelsi.+ 26 Ég segi þér að þú losnar alls ekki þaðan fyrr en þú hefur greitt upp skuldina, hvern einasta eyri.*

27 Þið hafið heyrt að sagt var: ‚Þú skalt ekki fremja hjúskaparbrot.‘+ 28 En ég segi ykkur að hver sem horfir á konu+ þannig að hann fer að girnast hana hefur þegar framið hjúskaparbrot með henni í hjarta sínu.+ 29 Ef hægra augað verður þér að falli skaltu rífa það úr og henda því burt.+ Það er betra fyrir þig að missa einn líkamshluta en að öllum líkama þínum verði kastað í Gehenna.*+ 30 Og ef hægri hönd þín verður þér að falli skaltu höggva hana af og henda henni burt.+ Það er betra fyrir þig að missa einn útlim en að allur líkami þinn lendi í Gehenna.*+

31 Þar að auki var sagt: ‚Hver sem skilur við konu sína skal gefa henni skilnaðarbréf.‘+ 32 En ég segi ykkur að hver sem skilur við konu sína nema vegna kynferðislegs siðleysis* setur hana í þá hættu að fremja hjúskaparbrot, og hver sem giftist fráskilinni konu fremur hjúskaparbrot.+

33 Þið hafið einnig heyrt að sagt var við forfeðurna: ‚Þú skalt ekki sverja eið án þess að halda hann+ heldur skaltu efna heit þín við Jehóva.‘*+ 34 En ég segi ykkur: Þið eigið alls ekki að sverja,+ hvorki við himininn, því að hann er hásæti Guðs, 35 né við jörðina, því að hún er fótskemill hans,+ né við Jerúsalem því að hún er borg hins mikla konungs.+ 36 Þú átt ekki að sverja við höfuð þitt því að þú getur ekki gert eitt hár hvítt eða svart. 37 Láttu ‚já‘ þitt merkja já og ‚nei‘ þitt nei+ því að allt þar fyrir utan er frá hinum vonda.+

38 Þið hafið heyrt að sagt var: ‚Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.‘+ 39 En ég segi ykkur: Streitist ekki á móti vondum manni. Ef einhver slær þig á hægri kinnina skaltu líka snúa hinni kinninni að honum.+ 40 Vilji einhver draga þig fyrir dómstól og hafa af þér kyrtilinn skaltu líka láta hann hafa yfirhöfnina+ 41 og ef maður í valdastöðu þvingar þig* með sér eina mílu* skaltu fara með honum tvær. 42 Gefðu þeim sem biður þig og vísaðu ekki frá þeim sem vill fá lán* hjá þér.+

43 Þið hafið heyrt að sagt var: ‚Þú skalt elska náunga þinn+ og hata óvin þinn.‘ 44 En ég segi ykkur: Elskið óvini ykkar+ og biðjið fyrir þeim sem ofsækja ykkur.+ 45 Þannig reynist þið börn* föður ykkar á himnum+ því að hann lætur sólina skína bæði á vonda og góða og rigna bæði yfir réttláta og rangláta.+ 46 Hvaða laun hljótið þið ef þið elskið þá sem elska ykkur?+ Gera ekki skattheimtumenn það sama? 47 Og hvað er svona merkilegt við það ef þið heilsið bara bræðrum ykkar? Gerir ekki fólk af þjóðunum það sama? 48 Þið skuluð því vera fullkomin eins og faðir ykkar á himnum er fullkominn.+

6 Gætið þess að vinna ekki góðverk ykkar í augsýn manna til að sýnast fyrir þeim.+ Annars fáið þið engin laun frá föður ykkar á himnum. 2 Þegar þú gefur fátækum* skaltu því ekki láta blása í lúður fyrir þér eins og hræsnarar gera í samkunduhúsum og á götum úti til að fá lof manna. Trúið mér, þeir hafa tekið út laun sín að fullu. 3 Þegar þú gefur fátækum skaltu ekki láta vinstri hönd þína vita hvað sú hægri gerir 4 svo að gjöf þín sé gefin í leynum. Faðir þinn, sem horfir á í leynum, mun þá launa þér.+

5 Þegar þið biðjist fyrir skuluð þið ekki heldur hegða ykkur eins og hræsnararnir.+ Þeir vilja gjarnan biðja standandi í samkunduhúsum og á gatnamótum til að sýnast fyrir fólki.+ Trúið mér, þeir hafa tekið út laun sín að fullu. 6 En þegar þú biður skaltu fara inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja til föður þíns sem er í leynum.+ Faðir þinn, sem horfir á í leynum, mun þá launa þér. 7 Þegar þið biðjist fyrir skuluð þið ekki fara með sömu orðin aftur og aftur eins og fólk af þjóðunum gerir. Það heldur að það verði bænheyrt fyrir orðaflauminn. 8 Líkist þeim ekki. Faðir ykkar veit hvers þið þarfnist,+ jafnvel áður en þið biðjið hann.

9 Þannig skuluð þið biðja:+

‚Faðir okkar á himnum, við biðjum að nafn þitt+ helgist.*+ 10 Við biðjum að ríki þitt+ komi og vilji þinn+ verði á jörð+ eins og á himni. 11 Gefðu okkur brauð fyrir daginn í dag+ 12 og fyrirgefðu skuldir okkar eins og við höfum fyrirgefið þeim sem skulda okkur.+ 13 Leiddu okkur ekki í freistingu*+ heldur frelsaðu* okkur frá hinum vonda.‘+

14 Ef þið fyrirgefið mönnum það sem þeir gera á hlut ykkar mun faðir ykkar á himnum líka fyrirgefa ykkur.+ 15 En ef þið fyrirgefið ekki öðrum það sem þeir gera á hlut ykkar mun faðir ykkar ekki heldur fyrirgefa ykkur það ranga sem þið gerið.+

16 Þegar þið fastið+ skuluð þið ekki vera döpur á svip eins og hræsnararnir. Þeir afskræma andlit sín* því að þeir vilja sýna að þeir fasta.+ Trúið mér, þeir hafa tekið út laun sín að fullu. 17 En þegar þú fastar skaltu bera olíu á höfuðið og þvo þér í framan 18 svo að menn taki ekki eftir að þú fastir heldur aðeins faðir þinn sem er í leynum. Faðir þinn, sem horfir á í leynum, mun þá launa þér.

19 Hættið að safna fjársjóðum á jörð+ þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. 20 Safnið frekar fjársjóðum á himni+ þar sem hvorki mölur né ryð eyðir+ og þjófar brjótast ekki inn og stela. 21 Þar sem fjársjóður þinn er, þar verður líka hjarta þitt.

22 Augað er lampi líkamans.+ Ef augað sér skýrt* verður allur líkami þinn bjartur.* 23 En ef augað er öfundsjúkt*+ verður allur líkami þinn dimmur. Ef ljósið í þér er í rauninni myrkur, mikið er þá myrkrið!

24 Enginn getur þjónað tveim herrum því að annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn+ eða er trúr öðrum og fyrirlítur hinn. Þið getið ekki þjónað Guði og auðnum.+

25 Þess vegna segi ég ykkur: Hættið að hafa áhyggjur+ af því hvað þið eigið að borða eða drekka til að viðhalda lífi ykkar, eða hverju þið eigið að klæðast.+ Er ekki lífið meira virði en maturinn og líkaminn meira virði en fötin?+ 26 Virðið fyrir ykkur fugla himinsins.+ Þeir sá hvorki né uppskera né safna í hlöður en faðir ykkar á himnum fóðrar þá samt. Eruð þið ekki meira virði en þeir? 27 Hvert ykkar getur með áhyggjum lengt ævi sína um eina alin?*+ 28 Og hvers vegna hafið þið áhyggjur af fatnaði? Lærið af liljum vallarins, hvernig þær vaxa. Þær vinna hvorki né spinna 29 en ég segi ykkur að jafnvel Salómon+ í allri sinni dýrð var ekki eins fallega klæddur og ein þeirra. 30 Fyrst Guð prýðir þannig gróður vallarins sem stendur í dag og er kastað í ofn á morgun, mun hann þá ekki miklu frekar klæða ykkur, þið trúlitlu? 31 Segið því aldrei áhyggjufull:+ ‚Hvað eigum við að borða?‘ eða: ‚Hvað eigum við að drekka?‘ eða: ‚Hverju eigum við að klæðast?‘+ 32 Þjóðirnar keppast eftir öllu þessu en faðir ykkar á himnum veit að þið þarfnist alls þessa.

33 Einbeitið ykkur því fyrst og fremst að ríki Guðs og réttlæti, þá fáið þið allt hitt að auki.+ 34 Hafið ekki áhyggjur af morgundeginum+ því að morgundeginum fylgja sínar áhyggjur. Hverjum degi nægja sín vandamál.

7 Hættið að dæma+ svo að þið verðið ekki dæmd 2 því að þið verðið dæmd á sama hátt og þið dæmið aðra+ og ykkur verður mælt í sama mæli og þið mælið öðrum.+ 3 Hvers vegna horfirðu á flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í þínu eigin auga?+ 4 Eða hvernig geturðu sagt við bróður þinn: ‚Leyfðu mér að taka flísina úr auga þínu,‘ þegar þú ert sjálfur með bjálka í auganu? 5 Hræsnari! Fjarlægðu fyrst bjálkann úr þínu eigin auga, þá sérðu skýrt til að taka flísina úr auga bróður þíns.

6 Gefið ekki hundum það sem er heilagt og kastið ekki perlum ykkar fyrir svín+ því að þau myndu troða þær niður, snúa sér við og ráðast á ykkur.

7 Haldið áfram að biðja og ykkur verður gefið,+ haldið áfram að leita og þið munuð finna, haldið áfram að banka og það verður opnað fyrir ykkur+ 8 því að allir fá sem biðja,+ allir finna sem leita og opnað verður fyrir öllum sem banka. 9 Hver myndi gefa syni sínum stein ef hann bæði um brauð? 10 Og varla myndi hann rétta honum höggorm ef hann bæði um fisk. 11 Fyrst þið, sem eruð vond, hafið vit á að gefa börnum ykkar góðar gjafir hlýtur faðir ykkar á himnum miklu frekar að gefa þeim góðar gjafir+ sem biðja hann.+

12 Allt sem þið viljið að aðrir geri fyrir ykkur skuluð þið gera fyrir þá.+ Um þetta snúast lögin og spámennirnir.+

13 Gangið inn um þrönga hliðið+ því að vítt er hliðið og vegurinn breiður sem liggur til tortímingar og margir fara þar inn. 14 En þröngt er hliðið og vegurinn mjór sem liggur til lífsins og fáir finna hann.+

15 Varið ykkur á falsspámönnum+ sem koma til ykkar í sauðargærum+ en eru undir niðri gráðugir úlfar.+ 16 Þið þekkið þá af ávöxtum þeirra. Ekki tína menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum.+ 17 Hvert gott tré ber sömuleiðis góða ávexti en fúið tré vonda.+ 18 Gott tré getur ekki borið vonda ávexti og ekki heldur fúið tré góða.+ 19 Hvert tré sem ber ekki góða ávexti er höggvið og því kastað í eldinn.+ 20 Á sama hátt þekkið þið þessa menn af ávöxtum þeirra.+

21 Ekki munu allir sem segja við mig: ‚Drottinn, Drottinn,‘ ganga inn í himnaríki heldur aðeins þeir sem gera vilja föður míns sem er á himnum.+ 22 Margir munu segja við mig á þeim degi: ‚Drottinn, Drottinn,+ spáðum við ekki í þínu nafni, rákum út illa anda í þínu nafni og unnum mörg máttarverk í þínu nafni?‘+ 23 Þá svara ég þeim: ‚Ég hef aldrei þekkt ykkur. Farið frá mér, illvirkjar!‘+

24 Hver sem heyrir þessi orð mín og fer eftir þeim er eins og skynsamur maður sem byggði hús sitt á klöpp.+ 25 Nú skall á hellirigning, það kom flóð og stormur geisaði og buldi á húsinu en það hrundi ekki af því að það var byggt á klöpp. 26 En hver sem heyrir þessi orð mín og fer ekki eftir þeim er eins og heimskur maður sem byggði hús sitt á sandi.+ 27 Nú skall á hellirigning, það kom flóð og stormur geisaði og buldi á húsinu,+ og það hrundi og gereyðilagðist.“

28 Þegar Jesús lauk ræðunni var mannfjöldinn agndofa yfir kennslu hans+ 29 því að hann kenndi eins og sá sem hefur vald+ en ekki eins og fræðimennirnir.

8 Hann gekk nú niður af fjallinu og mikill mannfjöldi fylgdi honum. 2 Holdsveikur maður kom til hans, kraup fyrir honum* og sagði: „Drottinn, þú getur hreinsað mig ef þú bara vilt!“+ 3 Jesús rétti þá út höndina, snerti hann og sagði: „Ég vil! Vertu hreinn.“+ Samstundis varð hann hreinn af holdsveikinni.+ 4 Síðan sagði Jesús við hann: „Gættu þess að segja engum frá þessu+ en farðu og sýndu þig prestinum+ og færðu fórnina sem Móselögin kveða á um+ til að sanna að þú sért læknaður.“

5 Þegar hann gekk inn í Kapernaúm kom til hans liðsforingi og bað hann innilega:+ 6 „Herra, þjónn minn liggur lamaður heima og er sárþjáður.“ 7 Jesús sagði við hann: „Ég lækna hann þegar ég kem heim til þín.“ 8 Liðsforinginn svaraði: „Herra, ég er ekki þess verðugur að þú komir inn í hús mitt. Segðu bara eitt orð og þá læknast hann. 9 Ég þarf sjálfur að lúta valdi annarra en ræð líka yfir hermönnum. Ég segi einum: ‚Farðu,‘ og hann fer, og öðrum: ‚Komdu,‘ og hann kemur, og við þjón minn segi ég: ‚Gerðu þetta,‘ og hann gerir það.“ 10 Jesús varð undrandi þegar hann heyrði þetta og sagði við þá sem fylgdu honum: „Svona sterka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael.+ 11 En ég segi ykkur að margir munu koma úr austri og vestri og sitja* til borðs með Abraham, Ísak og Jakobi í himnaríki+ 12 en sonum ríkisins verður kastað út í myrkrið fyrir utan. Þar munu þeir gráta og gnísta tönnum.“+ 13 Síðan sagði Jesús við liðsforingjann: „Farðu í friði. Þér verður umbunað fyrir trú þína.“+ Og þjónninn læknaðist á sömu stundu.+

14 Jesús kom í hús Péturs og sá að tengdamóðir hans+ lá veik með hita.+ 15 Hann snerti hönd hennar,+ hitinn hvarf og hún fór á fætur og matbjó handa honum. 16 Um kvöldið kom fólk til hans með marga sem voru andsetnir. Hann rak út andana með einfaldri skipun og læknaði alla sem voru veikir. 17 Þannig rættist það sem Jesaja spámaður sagði: „Hann tók á sig veikindi okkar og bar sjúkdóma okkar.“+

18 Þegar Jesús sá mikinn mannfjölda kringum sig sagði hann lærisveinunum að koma með sér yfir vatnið.+ 19 Fræðimaður kom þá til hans og sagði: „Kennari, ég vil fylgja þér hvert sem þú ferð.“+ 20 En Jesús svaraði: „Refir eiga greni og fuglar himins hreiður en Mannssonurinn á hvergi stað til að halla höfði sínu.“+ 21 Þá sagði einn af lærisveinunum við hann: „Drottinn, leyfðu mér að fara fyrst og jarða föður minn.“+ 22 Jesús svaraði honum: „Fylgdu mér og láttu hina dauðu jarða sína dauðu.“+

23 Hann steig nú um borð í bát og lærisveinarnir fylgdu honum.+ 24 Úti á vatninu skall á stormur og öldurnar gengu yfir bátinn en Jesús svaf.+ 25 Þeir vöktu hann þá og sögðu: „Drottinn, bjargaðu okkur! Við erum að farast!“ 26 En hann sagði við þá: „Af hverju eruð þið svona hræddir, þið trúlitlu menn?“+ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og allt datt í dúnalogn.+ 27 Mennirnir voru agndofa og sögðu: „Hvers konar maður er þetta? Jafnvel vindarnir og vatnið hlýða honum.“

28 Þegar hann kom í Gadarenahérað hinum megin við vatnið komu tveir andsetnir menn til hans frá gröfunum.+ Þeir voru svo ofsafengnir að enginn þorði að fara um veginn sem lá þar hjá. 29 Þeir æptu: „Hvað viltu okkur, sonur Guðs?+ Ertu kominn hingað til að kvelja okkur+ fyrir tímann?“+ 30 Langt í fjarska var stór svínahjörð á beit.+ 31 Illu andarnir báðu hann: „Sendu okkur í svínahjörðina+ ef þú rekur okkur út.“ 32 Hann sagði við þá: „Farið!“ Þá fóru þeir úr mönnunum og í svínin, og öll hjörðin æddi fram af þverhnípinu* og drapst í vatninu. 33 En svínahirðarnir flúðu, fóru inn í borgina og sögðu frá öllu saman, meðal annars því sem hafði gerst hjá andsetnu mönnunum. 34 Allir borgarbúar fóru þá til móts við Jesú og þegar þeir sáu hann sárbændu þeir hann að yfirgefa héraðið.+

9 Hann steig um borð í bátinn, hélt yfir vatnið og kom til borgar sinnar.*+ 2 Þá komu menn til hans með lamaðan mann á börum. Þegar Jesús sá trú þeirra sagði hann við lamaða manninn: „Hertu upp hugann, barnið mitt. Syndir þínar eru fyrirgefnar.“+ 3 Nokkrir fræðimenn hugsuðu með sér: „Maðurinn guðlastar.“ 4 Jesús vissi hvað þeir voru að hugsa og sagði: „Hvers vegna hugsið þið illt í hjörtum ykkar?+ 5 Hvort er auðveldara að segja: ‚Syndir þínar eru fyrirgefnar,‘ eða: ‚Stattu upp og gakktu‘?+ 6 En til að þið vitið að Mannssonurinn hefur vald á jörð til að fyrirgefa syndir …“ og síðan segir hann við lamaða manninn: „Stattu upp, taktu börurnar og farðu heim.“+ 7 Hann stóð þá upp og fór heim til sín. 8 Þegar fólkið sá þetta varð það óttaslegið og lofaði Guð sem hafði gefið mönnum slíkt vald.

9 Á leið sinni þaðan kom Jesús auga á mann sem hét Matteus en hann sat á skattheimtustofunni. Jesús sagði við hann: „Fylgdu mér.“ Hann stóð þá upp og fylgdi honum.+ 10 Síðar, þegar Jesús var að borða* í húsi hans, komu margir skattheimtumenn og syndarar og borðuðu* með honum og lærisveinum hans.+ 11 Þegar farísearnir sáu það sögðu þeir við lærisveinana: „Af hverju borðar kennari ykkar með skattheimtumönnum og syndurum?“+ 12 Jesús heyrði þetta og sagði: „Heilbrigðir þurfa ekki á lækni að halda heldur þeir sem eru veikir.+ 13 Farið og hugleiðið hvað þetta merkir: ‚Ég vil sjá miskunnsemi en ekki fórnir.‘+ Ég kom ekki til að kalla réttláta heldur syndara.“

14 Nú komu lærisveinar Jóhannesar til hans og spurðu: „Hvers vegna föstum við og farísearnir en lærisveinar þínir ekki?“+ 15 Jesús svaraði þeim: „Varla hafa vinir brúðgumans ástæðu til að syrgja meðan brúðguminn+ er hjá þeim. En sá dagur kemur að brúðguminn verður tekinn frá þeim+ og þá fasta þeir. 16 Enginn saumar bót af óþæfðu efni á gamla flík því að nýja bótin hleypur og rifan á flíkinni verður enn stærri.+ 17 Enginn lætur heldur nýtt vín á gamla vínbelgi. Ef það er gert springa þeir, vínið fer til spillis og belgirnir eyðileggjast. Nýtt vín er öllu heldur látið á nýja belgi og þá varðveitist hvort tveggja.“

18 Meðan Jesús var að segja þeim þetta kom forstöðumaður nokkur, kraup fyrir honum* og sagði: „Dóttir mín er örugglega dáin núna en komdu og leggðu hönd þína yfir hana, þá lifnar hún aftur.“+

19 Jesús stóð þá upp og fór með honum ásamt lærisveinunum. 20 Kona sem hafði haft stöðugar blæðingar í 12 ár+ kom nú að honum aftan frá og snerti kögrið á yfirhöfn hans+ 21 því að hún hugsaði með sér: „Ef ég bara snerti yfirhöfn hans læknast ég.“ 22 Jesús sneri sér við og þegar hann kom auga á hana sagði hann: „Hertu upp hugann, dóttir. Trú þín hefur læknað þig.“+ Og konan varð samstundis heil heilsu.+

23 Jesús kom nú í hús forstöðumannsins og sá flautuleikarana og fólkið í uppnámi.+ 24 Þá sagði hann: „Farið út. Stúlkan er ekki dáin heldur sofandi.“+ Fólkið hló þá að honum. 25 Um leið og fólkið var farið út gekk hann inn til stúlkunnar og tók um hönd hennar+ og hún reis á fætur.+ 26 Þetta fréttist að sjálfsögðu um allt héraðið.

27 Þegar Jesús fór þaðan eltu hann tveir blindir menn+ og kölluðu: „Miskunnaðu okkur, sonur Davíðs!“ 28 Jesús fór inn í hús og blindu mennirnir komu til hans. Hann spurði þá: „Trúið þið að ég geti læknað ykkur?“+ „Já, Drottinn,“ svöruðu þeir. 29 Þá snerti hann augu þeirra+ og sagði: „Verði ykkur að trú ykkar,“ 30 og þeir fengu sjónina. Jesús gaf þeim síðan þessi ströngu fyrirmæli: „Gætið þess að enginn fái að vita þetta.“+ 31 En þegar þeir voru komnir út sögðu þeir frá honum um allt héraðið.

32 Þegar þeir voru að fara kom fólk til hans með mállausan mann sem var haldinn illum anda.+ 33 Eftir að illi andinn hafði verið rekinn út gat mállausi maðurinn talað.+ Mannfjöldinn var furðu lostinn og sagði: „Aldrei hefur nokkuð þessu líkt sést í Ísrael.“+ 34 En farísearnir sögðu: „Hann rekur út illu andana með hjálp höfðingja illu andanna.“+

35 Jesús fór nú um allar borgirnar og þorpin og kenndi í samkunduhúsum, boðaði fagnaðarboðskapinn um ríkið og læknaði fólk af hvers kyns sjúkdómum og meinum.+ 36 Þegar hann sá mannfjöldann kenndi hann í brjósti um fólkið+ því að það var hrjáð og hrakið eins og sauðir án hirðis.+ 37 Hann sagði þá við lærisveinana: „Uppskeran er mikil en verkamennirnir fáir.+ 38 Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“+

10 Hann kallaði nú til sín lærisveina sína 12 og gaf þeim vald til að reka út óhreina anda+ og lækna fólk af hvers kyns sjúkdómum og meinum.

2 Postularnir 12 hétu:+ Símon, sem var kallaður Pétur,+ og Andrés+ bróðir hans, Jakob Sebedeusson og Jóhannes+ bróðir hans, 3 Filippus og Bartólómeus,+ Tómas+ og Matteus+ skattheimtumaður, Jakob Alfeusson og Taddeus, 4 Símon Kananeus* og Júdas Ískaríot sem síðar sveik hann.+

5 Jesús sendi út þessa 12 og gaf þeim eftirfarandi fyrirmæli:+ „Leggið ekki leið ykkar til annarra þjóða og farið ekki inn í nokkra samverska borg+ 6 heldur aðeins til týndra sauða af ætt Ísraels.+ 7 Farið og boðið: ‚Himnaríki er í nánd.‘+ 8 Læknið veika,+ reisið upp dána, hreinsið holdsveika, rekið út illa anda. Gefins hafið þið fengið, gefins skuluð þið láta í té. 9 Útvegið ykkur ekki gull, silfur eða kopar til að hafa í peningabelti ykkar+ 10 og takið ekki nestispoka til ferðarinnar, föt til skiptanna,* sandala eða staf+ því að verkamaðurinn verðskuldar mat sinn.+

11 Þegar þið komið í borg eða þorp skuluð þið leita að þeim sem eru verðugir og dvelja þar þangað til þið leggið af stað aftur.+ 12 Heilsið heimilisfólkinu þegar þið gangið í húsið. 13 Ef það er verðugt skal friðurinn sem þið óskið því koma yfir það+ en ef það er ekki verðugt skal friðurinn snúa aftur til ykkar. 14 Ef einhver tekur ekki á móti ykkur eða hlustar ekki á ykkur skuluð þið hrista rykið af fótum ykkar+ þegar þið farið úr húsinu eða borginni. 15 Trúið mér, bærilegra verður fyrir land Sódómu og Gómorru+ á dómsdegi en þá borg.

16 Ég sendi ykkur út eins og sauði meðal úlfa. Verið því varkárir eins og höggormar en saklausir eins og dúfur.+ 17 Varið ykkur á mönnum því að þeir munu draga ykkur fyrir dómstóla+ og húðstrýkja ykkur+ í samkunduhúsum sínum.+ 18 Þið verðið leiddir fyrir landstjóra og konunga+ vegna mín til að bera vitni fyrir þeim og þjóðunum.+ 19 En þegar þeir leiða ykkur fyrir yfirvöld skuluð þið ekki hafa áhyggjur af því hvað þið eigið að segja eða hvernig, því að ykkur verður gefið það jafnóðum.+ 20 Það eruð ekki bara þið sem talið heldur er það andi föður ykkar sem hjálpar ykkur að tala.+ 21 Auk þess mun bróðir framselja bróður sinn til dauða og faðir barn sitt, og börn rísa gegn foreldrum sínum og fá þau líflátin.+ 22 Allir munu hata ykkur vegna nafns míns+ en sá sem er þolgóður allt til enda bjargast.+ 23 Þegar þeir ofsækja ykkur í einni borg skuluð þið flýja í aðra.+ Trúið mér, þið náið alls ekki að fara um allar borgir Ísraels áður en Mannssonurinn kemur.

24 Nemandi er ekki fremri kennara sínum né þjónn húsbónda sínum.+ 25 Nemandi má búast við að fá sömu meðferð og kennari hans og þjónn sömu meðferð og húsbóndi hans.*+ Ef menn hafa kallað húsbóndann Beelsebúl*+ hljóta þeir að kalla heimilismenn hans það líka. 26 Hræðist þá ekki því að ekkert er hulið sem verður ekki flett ofan af og ekkert er leynt sem verður ekki kunnugt.+ 27 Segið í birtu það sem ég segi ykkur í myrkri og boðið af húsþökum það sem þið heyrið hvíslað.+ 28 Hræðist ekki þá sem drepa líkamann en geta ekki drepið sálina.*+ Hræðist heldur þann sem getur tortímt bæði sál og líkama í Gehenna.*+ 29 Eru ekki tveir spörvar seldir fyrir einn smápening?* Samt fellur enginn þeirra til jarðar án þess að faðir ykkar viti af því.+ 30 En á ykkur eru jafnvel öll höfuðhárin talin. 31 Verið því óhræddir, þið eruð meira virði en margir spörvar.+

32 Hvern þann sem kannast við mig frammi fyrir mönnum+ mun ég einnig kannast við frammi fyrir föður mínum á himnum.+ 33 En þeim sem afneitar mér frammi fyrir mönnum mun ég einnig afneita frammi fyrir föður mínum á himnum.+ 34 Ekki halda að ég sé kominn til að færa frið á jörð. Ég kom ekki til að færa frið heldur sverð.+ 35 Ég kom til að valda sundrung, setja son upp á móti föður sínum, dóttur á móti móður sinni og tengdadóttur á móti tengdamóður sinni.+ 36 Já, heimilismenn manns verða óvinir hans. 37 Hver sem elskar föður eða móður meira en mig verðskuldar ekki að fylgja mér og hver sem elskar son eða dóttur meira en mig verðskuldar ekki að fylgja mér.+ 38 Hver sem tekur ekki kvalastaur* sinn og fylgir mér verðskuldar ekki að vera fylgjandi minn.+ 39 Hver sem finnur líf sitt týnir því og hver sem týnir lífi sínu vegna mín finnur það.+

40 Hver sem tekur við ykkur tekur líka við mér og hver sem tekur við mér tekur líka við þeim sem sendi mig.+ 41 Hver sem tekur við spámanni af því að hann er spámaður hlýtur sömu laun og spámaður+ og hver sem tekur við réttlátum manni af því að hann er réttlátur hlýtur sömu laun og réttlátur maður. 42 Og hver sem gefur einum af þessum minnstu bolla af köldu vatni að drekka af því að hann er lærisveinn fer alls ekki á mis við launin.“+

11 Þegar Jesús hafði lokið við að leiðbeina lærisveinunum 12 hélt hann þaðan til að kenna og boða fagnaðarboðskapinn í öðrum borgum.+

2 Jóhannes hafði heyrt í fangelsinu+ um verk Krists og sendi lærisveina sína+ 3 til að spyrja hann: „Ert þú sá sem á að koma eða eigum við að búast við öðrum?“+ 4 Jesús svaraði þeim: „Farið og segið Jóhannesi það sem þið heyrið og sjáið:+ 5 Blindir sjá+ og fatlaðir ganga, holdsveikir+ hreinsast og heyrnarlausir heyra, dánir eru reistir upp og fátækum er fluttur fagnaðarboðskapurinn.+ 6 Sá sem hneykslast ekki á mér er hamingjusamur.“+

7 Þegar þeir voru farnir fór Jesús að tala við mannfjöldann um Jóhannes og sagði: „Hvað fóruð þið til að sjá í óbyggðunum?+ Reyr sem sveiflast til í vindi?+ 8 Hvað fóruð þið þá til að sjá? Mann í fínum* fötum? Nei, þeir sem klæðast fínum fötum halda til í konungshöllum. 9 Til hvers fóruð þið þá? Til að sjá spámann? Já, segi ég ykkur, og miklu meira en spámann.+ 10 Það er hann sem skrifað er um: ‚Ég sendi sendiboða minn á undan þér sem greiðir veg þinn.‘+ 11 Trúið mér, enginn sem er fæddur af konu er meiri en Jóhannes skírari en hinn minnsti í himnaríki er meiri en hann.+ 12 Frá dögum Jóhannesar skírara þar til nú er himnaríki markmiðið sem menn keppa að og þeir sem keppa að því ná því.+ 13 Bæði spámennirnir og lögin sögðu fyrir hvað myndi gerast, allt þar til Jóhannes kom,+ 14 og hvort sem þið viðurkennið það eða ekki er hann ‚sá Elía sem átti að koma‘.+ 15 Sá sem hefur eyru hann hlusti.

16 Við hverja á ég að líkja þessari kynslóð?+ Hún er eins og börn sem sitja á markaðstorgum og kalla til leikfélaga sinna: 17 ‚Við lékum á flautu fyrir ykkur en þið dönsuðuð ekki, við sungum sorgarljóð en þið syrgðuð ekki.‘* 18 Eins kom Jóhannes, át hvorki né drakk og fólk segir: ‚Hann er haldinn illum anda.‘ 19 Mannssonurinn kom, borðar og drekkur+ og fólk segir: ‚Sjáið! Hann er mathákur og drykkfelldur, vinur skattheimtumanna og syndara.‘+ En viskan sannast af verkum sínum.“*+

20 Síðan fór hann að ávíta borgirnar þar sem hann hafði unnið flest máttarverk sín því að íbúar þeirra iðruðust ekki. 21 „Þú auma Korasín! Þú auma Betsaída! Ef máttarverkin sem gerðust í ykkur hefðu átt sér stað í Týrus og Sídon hefðu íbúar þeirra fyrir löngu iðrast í sekk og ösku.+ 22 En ég segi ykkur: Bærilegra verður fyrir Týrus og Sídon á dómsdegi en ykkur.+ 23 Og þú, Kapernaúm,+ verður þú kannski hafin upp til himins? Nei, þú ferð niður í gröfina.*+ Ef máttarverkin sem gerðust í þér hefðu átt sér stað í Sódómu stæði hún enn þann dag í dag. 24 En ég segi ykkur: Bærilegra verður fyrir land Sódómu á dómsdegi en ykkur.“+

25 Um þessar mundir sagði Jesús: „Faðir, Drottinn himins og jarðar, ég lofa þig í áheyrn annarra því að þú hefur hulið þetta fyrir hinum vitru og gáfuðu en opinberað það börnum.+ 26 Já, faðir, þetta er samkvæmt vilja þínum. 27 Faðir minn hefur lagt allt í hendur mér+ og enginn gerþekkir soninn nema faðirinn.+ Enginn gerþekkir heldur föðurinn nema sonurinn og þeir sem sonurinn vill opinbera hann.+ 28 Komið til mín, þið öll sem stritið og berið þungar byrðar, og ég skal endurnæra ykkur. 29 Takið á ykkur mitt ok og lærið af mér því að ég er ljúfur í lund og lítillátur í hjarta,+ og þá endurnærist þið.* 30 Ok mitt er þægilegt* og byrði mín létt.“

12 Um þessar mundir fór Jesús um kornakra á hvíldardegi. Lærisveinar hans voru svangir og fóru að tína kornöx og borða.+ 2 Farísearnir sáu það og sögðu við hann: „Sjáðu! Lærisveinar þínir gera það sem er bannað á hvíldardegi.“+ 3 Hann sagði við þá: „Hafið þið ekki lesið hvað Davíð gerði þegar hann og menn hans voru svangir?+ 4 Hann gekk inn í hús Guðs og þeir átu skoðunarbrauðin+ sem hvorki hann né menn hans máttu borða heldur aðeins prestarnir.+ 5 Eða hafið þið ekki lesið í lögunum að á hvíldardögum vanhelga prestarnir hvíldardaginn í musterinu án þess að baka sér sekt?+ 6 En ég segi ykkur að hér er meira en musterið.+ 7 Ef þið hefðuð skilið hvað þetta merkir: ‚Ég vil sjá miskunnsemi+ en ekki fórnir,‘+ hefðuð þið ekki fordæmt saklausa menn. 8 Ég segi þetta af því að Mannssonurinn er drottinn hvíldardagsins.“+

9 Eftir að hann fór þaðan gekk hann inn í samkunduhús þeirra. 10 Þar var maður með visna* hönd.+ Þeir vildu ákæra Jesú og spurðu því: „Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi?“+ 11 Hann svaraði þeim: „Segjum að þið eigið sauðkind og hún falli í gryfju á hvíldardegi. Hver ykkar myndi ekki taka hana og lyfta henni upp úr?+ 12 Er ekki maðurinn miklu meira virði en sauðkind? Það er því leyfilegt að gera góðverk á hvíldardegi.“ 13 Síðan sagði hann við manninn: „Réttu fram höndina.“ Hann rétti hana fram og hún varð heilbrigð eins og hin höndin. 14 Þá gengu farísearnir út og lögðu á ráðin um að drepa Jesú. 15 Þegar hann komst að því fór hann þaðan. Margir fylgdu honum+ og hann læknaði þá alla 16 en harðbannaði þeim að segja frá hver hann væri.+ 17 Þannig rættist það sem Jesaja spámaður sagði:

18 „Sjáið þjón minn+ sem ég hef valið, hann sem ég elska og hef* velþóknun á.+ Ég læt anda minn koma yfir hann+ og hann mun boða þjóðunum hvað réttlæti er. 19 Hann þrætir hvorki+ né hrópar og enginn heyrir rödd hans á strætunum. 20 Hann brýtur ekki brákaðan reyr og slekkur ekki á rjúkandi kveik+ þar til hann kemur á réttlæti. 21 Já, nafn hans mun veita þjóðunum von.“+

22 Nú komu þeir til hans með andsetinn mann sem var blindur og mállaus, og hann læknaði manninn þannig að hann gat talað og séð. 23 Allur mannfjöldinn var agndofa og sagði: „Þetta er þó ekki sonur Davíðs?“ 24 Farísearnir heyrðu þetta og sögðu: „Þessi maður rekur ekki út illa anda nema með hjálp Beelsebúls,* höfðingja illu andanna.“+ 25 Hann vissi hvað þeir hugsuðu og sagði við þá: „Hvert það ríki sem er sundrað líður undir lok og engin borg eða fjölskylda sem er sundruð fær staðist. 26 Ef Satan rekur Satan út hefur hann snúist gegn sjálfum sér. Hvernig getur ríki hans þá staðist? 27 Og ef ég rek út illu andana með hjálp Beelsebúls, hver hjálpar þá fylgjendum* ykkar að reka þá út? Þeir skulu því vera dómarar ykkar. 28 En ef ég rek út illu andana með hjálp anda Guðs þá er ríki Guðs komið, ykkur að óvörum.+ 29 Eða hvernig getur nokkur brotist inn í hús hjá sterkum manni og hrifsað eigur hans nema hann bindi fyrst manninn? Þá fyrst getur hann rænt hús hans. 30 Hver sem stendur ekki með mér er á móti mér og hver sem safnar ekki saman með mér, hann tvístrar.+

31 Ég segi ykkur þess vegna að mönnum verða fyrirgefnar hvers kyns syndir og lastmæli en lastmæli gegn andanum verður ekki fyrirgefið.+ 32 Til dæmis verður hverjum sem talar gegn Mannssyninum fyrirgefið+ en engum sem talar gegn heilögum anda verður fyrirgefið, hvorki í þessum heimi* né hinum komandi.+

33 Annaðhvort eruð þið gott tré sem ber góðan ávöxt eða fúið tré sem ber rotinn ávöxt. Tréð þekkist af ávextinum.+ 34 Nöðruafkvæmi,+ hvernig getið þið talað það sem er gott fyrst þið eruð vondir? Munnurinn talar af gnægð hjartans.+ 35 Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði sínum en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði.+ 36 Ég segi ykkur að á dómsdegi þurfa menn að svara fyrir+ hvert fánýtt* orð sem þeir segja 37 því að menn verða lýstir réttlátir vegna orða sinna og dæmdir sekir vegna orða sinna.“

38 Nokkrir fræðimenn og farísear svöruðu honum og sögðu: „Kennari, við viljum sjá þig gera tákn.“+ 39 Hann svaraði þeim: „Vond og ótrú kynslóð heimtar stöðugt að fá tákn en hún fær ekkert annað en tákn Jónasar spámanns.+ 40 Jónas var í kviði stórfisksins í þrjá daga og þrjár nætur+ og eins verður Mannssonurinn í djúpi jarðar í þrjá daga og þrjár nætur.+ 41 Nínívemenn rísa upp í dóminum ásamt þessari kynslóð og dæma hana seka því að þeir iðruðust vegna boðunar Jónasar.+ En hér er meira en Jónas.+ 42 Drottningin í suðri verður reist upp í dóminum ásamt þessari kynslóð og dæmir hana seka því að hún kom frá endimörkum jarðar til að hlusta á visku Salómons.+ En hér er meira en Salómon.+

43 Þegar óhreinn andi fer úr manni flakkar hann um þurrar auðnir í leit að hvíldarstað en finnur engan.+ 44 Þá segir hann: ‚Ég fer aftur í hús mitt sem ég flutti úr.‘ Þegar hann kemur þangað finnur hann það autt en sópað og skreytt. 45 Hann fer þá og tekur með sér sjö aðra anda sem eru verri en hann sjálfur. Þeir fara inn og setjast þar að, og maðurinn er enn verr settur en í upphafi.+ Þannig fer einnig fyrir þessari illu kynslóð.“

46 Meðan hann var enn að tala við fólkið komu móðir hans og bræður.+ Þau stóðu fyrir utan og vildu tala við hann.+ 47 Einhver sagði þá við hann: „Móðir þín og bræður standa fyrir utan og vilja tala við þig.“ 48 Hann svaraði þeim sem talaði við hann: „Hver er móðir mín og hverjir eru bræður mínir?“ 49 Síðan rétti hann út höndina í átt að lærisveinum sínum og sagði: „Sjáið, hér eru móðir mín og bræður.+ 50 Hver sem gerir vilja föður míns sem er á himnum, sá er bróðir minn og systir og móðir.“+

13 Sama dag fór Jesús úr húsinu og settist við vatnið. 2 Svo mikill mannfjöldi safnaðist að honum að hann steig um borð í bát. Þar settist hann niður en allt fólkið stóð á ströndinni.+ 3 Síðan kenndi hann fólkinu margt með dæmisögum+ og sagði: „Akuryrkjumaður gekk út að sá.+ 4 Þegar hann sáði féll sumt af korninu meðfram veginum og fuglar komu og átu það.+ 5 Annað féll í grýtta jörð þar sem var lítill jarðvegur og það spratt fljótt því að jarðvegurinn var grunnur.+ 6 En þegar sólin hækkaði á lofti skrælnaði það og dó vegna þess að það hafði litlar sem engar rætur. 7 Annað féll meðal þyrna og þyrnarnir uxu og kæfðu það.+ 8 En sumt féll í góðan jarðveg og bar ávöxt, sumt hundraðfaldan, sumt sextugfaldan og sumt þrítugfaldan.+ 9 Sá sem hefur eyru hann hlusti.“+

10 Lærisveinarnir komu nú til hans og spurðu: „Hvers vegna kennirðu fólkinu með dæmisögum?“+ 11 Hann svaraði: „Ykkur er gefið að skilja heilaga leyndardóma+ himnaríkis en hinum er það ekki gefið. 12 Þeim sem hefur verður gefið meira og hann mun hafa gnægð. En frá þeim sem hefur ekki verður tekið jafnvel það litla sem hann hefur.+ 13 Þess vegna tala ég til fólksins í dæmisögum því að það sér að vísu en horfir þó til einskis og heyrir en hlustar til einskis og það nær ekki merkingunni.+ 14 Spádómur Jesaja rætist á þessu fólki en þar segir: ‚Þið munuð vissulega heyra en alls ekki skilja og horfa en alls ekki sjá.+ 15 Hjörtu þessa fólks eru orðin ónæm. Það heyrir með eyrunum án þess að bregðast við því og það hefur lokað augunum. Þess vegna sér það ekki með augunum og heyrir ekki með eyrunum né skilur með hjartanu svo að það snúi við og ég lækni það.‘+

16 En þið eruð hamingjusamir þar sem augu ykkar sjá og eyru ykkar heyra.+ 17 Trúið mér, margir spámenn og réttlátir menn þráðu að sjá það sem þið sjáið en sáu það ekki+ og heyra það sem þið heyrið en heyrðu það ekki.

18 Heyrið nú hvað dæmisagan um akuryrkjumanninn merkir:+ 19 Þegar einhver heyrir boðskapinn um ríkið en skilur hann ekki kemur hinn vondi+ og hrifsar frá honum það sem var sáð í hjarta hans. Þetta er sáðkornið sem var sáð meðfram veginum.+ 20 Það sem var sáð í grýtta jörð er sá sem heyrir orðið og tekur strax við því með fögnuði+ 21 en hefur enga rótfestu. Hann stendur um tíma en fellur um leið og erfiðleikar eða ofsóknir verða vegna orðsins. 22 Það sem var sáð meðal þyrna er sá sem heyrir orðið en áhyggjur daglegs lífs*+ og tál auðæfanna kæfir orðið svo að það ber ekki ávöxt.+ 23 Það sem var sáð í góða jörð er sá sem heyrir orðið, skilur það og ber ávöxt. Einn gefur af sér hundraðfalt, annar sextugfalt og annar þrítugfalt.“+

24 Hann sagði þeim aðra dæmisögu: „Himnaríki má líkja við mann sem sáði góðu korni í akur sinn. 25 Meðan menn sváfu kom óvinur hans og sáði illgresi meðal hveitisins og fór síðan. 26 Þegar hveitið spratt og myndaði öx kom illgresið einnig í ljós. 27 Þjónar húsbóndans komu þá til hans og sögðu: ‚Herra, sáðirðu ekki góðu korni í akurinn? Hvaðan kemur þá illgresið?‘ 28 Hann svaraði þeim: ‚Þetta hefur einhver óvinur gert.‘+ Þá sögðu þjónarnir: ‚Viltu að við förum og reytum það?‘ 29 Hann svaraði: ‚Nei, ef þið reytið illgresið er hætta á að þið slítið upp hveitið um leið. 30 Látið hvort tveggja vaxa saman fram að uppskerunni og þegar uppskerutíminn kemur segi ég við kornskurðarmennina: Safnið fyrst illgresinu og bindið í knippi til að brenna það. Safnið síðan hveitinu í hlöðu mína.‘“+

31 Hann sagði þeim aðra dæmisögu: „Himnaríki er eins og sinnepsfræ sem maður sáði í akur sinn.+ 32 Það er smæst allra fræja en þegar það vex verður það stærst allra plantna. Það verður að tré og fuglar himins koma og finna sér samastað í greinum þess.“

33 Hann sagði þeim aðra dæmisögu: „Himnaríki er eins og súrdeig sem kona tók og blandaði í þrjá stóra mæla mjöls svo að allt deigið gerjaðist.“+

34 Jesús sagði allt þetta í dæmisögum. Hann talaði reyndar ekki til mannfjöldans án dæmisagna+ 35 því að það átti að rætast sem spámaðurinn sagði: „Ég tala í dæmisögum, ég boða það sem hefur verið hulið frá upphafi.“*+

36 Síðan sendi hann fólkið burt og fór inn í húsið. Lærisveinarnir komu til hans og sögðu: „Útskýrðu fyrir okkur dæmisöguna um illgresið á akrinum.“ 37 Hann sagði: „Sá sem sáir góða korninu er Mannssonurinn 38 og akurinn er heimurinn.+ Góða kornið er synir ríkisins, illgresið er synir hins vonda+ 39 og óvinurinn sem sáði því er Djöfullinn. Uppskerutíminn er lokaskeið þessarar heimsskipanar* og kornskurðarmennirnir eru englar. 40 Rétt eins og illgresinu er safnað og það brennt í eldi, þannig verður á lokaskeiði þessarar heimsskipanar.*+ 41 Mannssonurinn sendir engla sína og þeir fjarlægja úr ríki hans allt sem verður öðrum að falli og fólk sem gerir illt 42 og kasta því í brennsluofn.+ Þar mun það gráta og gnísta tönnum. 43 Þá munu hinir réttlátu skína eins skært og sólin+ í ríki föður þeirra. Sá sem hefur eyru hann hlusti.

44 Himnaríki er eins og fjársjóður sem var falinn á akri. Maður nokkur fann hann og faldi aftur. Í gleði sinni fer hann og selur allar eigur sínar og kaupir akurinn.+

45 Himnaríki er einnig eins og farandkaupmaður sem leitar að fögrum perlum. 46 Þegar hann finnur eina dýrmæta perlu fer hann strax og selur allar eigur sínar og kaupir hana.+

47 Himnaríki er einnig eins og dragnet sem lagt er í sjó og safnar alls konar fiski. 48 Þegar það fyllist er það dregið í land og menn setjast við og safna góðu fiskunum+ í ker en kasta hinum óætu burt.+ 49 Þannig verður á lokaskeiði þessarar heimsskipanar.* Englarnir verða sendir út og aðgreina vonda frá réttlátum 50 og kasta þeim í brennsluofn. Þar munu þeir gráta og gnísta tönnum.

51 Skiljið þið allt þetta?“ „Já,“ svöruðu þeir. 52 Þá sagði hann: „Fyrst svo er skuluð þið vita að hver kennari sem hefur fengið fræðslu um himnaríki er eins og húsbóndi sem ber fram bæði nýtt og gamalt úr forðabúri sínu.“*

53 Eftir að Jesús hafði sagt þessar dæmisögur fór hann þaðan. 54 Hann kom í heimabyggð sína+ og fór að kenna í samkunduhúsinu. Menn voru agndofa og sögðu: „Hvaðan hefur maðurinn þessa visku og hvernig getur hann gert þessi máttarverk?+ 55 Er þetta ekki sonur smiðsins?+ Heitir ekki móðir hans María og bræður hans Jakob, Jósef, Símon og Júdas?+ 56 Og systur hans, búa þær ekki allar á meðal okkar? Hvaðan hefur hann þá allt þetta?“+ 57 Og þeir höfnuðu honum.+ En Jesús sagði við þá: „Spámaður er alls staðar mikils metinn nema í heimabyggð sinni og á eigin heimili.“+ 58 Vegna vantrúar þeirra vann hann ekki mörg máttarverk þar.

14 Um þessar mundir frétti Heródes* héraðsstjóri* af Jesú+ 2 og hann sagði við þjóna sína: „Þetta er Jóhannes skírari. Hann er risinn upp frá dauðum og þess vegna getur hann unnið þessi máttarverk.“+ 3 Heródes hafði handtekið Jóhannes, fjötrað hann og varpað í fangelsi vegna Heródíasar, eiginkonu Filippusar bróður síns,+ 4 því að Jóhannes hafði margsinnis sagt við hann: „Þú hefur ekki leyfi til að eiga hana.“+ 5 Heródes vildi drepa hann en óttaðist fólkið þar sem það taldi hann vera spámann.+ 6 En þegar haldið var upp á afmæli+ Heródesar dansaði dóttir Heródíasar í veislunni og Heródes varð svo hrifinn+ 7 að hann sór þess eið að gefa henni hvað sem hún bæði um. 8 Þá sagði hún að undirlagi móður sinnar: „Gefðu mér höfuð Jóhannesar skírara á fati.“+ 9 Konungur hryggðist en vegna eiðsins og gestanna* skipaði hann svo fyrir að hún fengi það. 10 Hann sendi því mann og lét hálshöggva Jóhannes í fangelsinu. 11 Höfuð hans var borið inn á fati og fengið stúlkunni og hún færði móður sinni það. 12 Lærisveinar hans komu síðan, tóku líkið og greftruðu. Eftir það fóru þeir og sögðu Jesú frá. 13 Þegar Jesús heyrði þetta fór hann á báti á óbyggðan stað til að vera einn. En fólkið í borgunum frétti það og fór gangandi á eftir honum.+

14 Þegar Jesús steig á land sá hann mikinn mannfjölda. Hann kenndi í brjósti um fólkið+ og læknaði þá sem voru veikir.+ 15 Þegar kvöldaði komu lærisveinarnir til hans og sögðu: „Þetta er afskekktur staður og það er orðið áliðið. Sendu fólkið burt svo að það geti komist í þorpin og keypt sér mat.“+ 16 En Jesús svaraði þeim: „Fólkið þarf ekki að fara. Þið getið gefið því að borða.“ 17 „Við erum bara með fimm brauð og tvo fiska,“ sögðu þeir. 18 „Komið með það hingað,“ svaraði hann. 19 Hann sagði fólkinu að setjast í grasið, tók brauðin fimm og fiskana tvo, leit til himins og fór með bæn.+ Hann braut síðan brauðin og rétti lærisveinunum og lærisveinarnir gáfu fólkinu. 20 Allir borðuðu og urðu saddir. Þeir tóku saman brauðbitana sem voru afgangs og fylltu 12 körfur.+ 21 En þeir sem borðuðu voru um 5.000 karlmenn, auk kvenna og barna.+ 22 Síðan sagði hann lærisveinum sínum að fara tafarlaust um borð í bátinn og fara á undan sér yfir vatnið á meðan hann sendi mannfjöldann burt.+

23 Eftir að hafa sent fólkið burt gekk hann upp á fjallið einn síns liðs til að biðjast fyrir.+ Um kvöldið var hann þar einn. 24 Báturinn var nú mörg hundruð metra* frá landi og lærisveinarnir börðust við öldurnar því að þeir höfðu mótvind. 25 En um fjórðu næturvöku* kom hann til þeirra gangandi á vatninu. 26 Þegar þeir sáu hann ganga á vatninu urðu þeir skelkaðir og sögðu: „Þetta er andi!“ Og þeir æptu af ótta. 27 En Jesús sagði strax við þá: „Verið rólegir. Þetta er ég, verið ekki hræddir.“+ 28 Pétur svaraði honum: „Drottinn, ef þetta ert þú segðu mér þá að koma til þín út á vatnið.“ 29 Jesús sagði: „Komdu!“ Pétur steig þá úr bátnum og gekk á vatninu til hans. 30 En þegar hann horfði á veðurofsann varð hann hræddur. Hann fór að sökkva og hrópaði: „Drottinn, bjargaðu mér!“ 31 Jesús rétti þegar í stað út höndina, greip í hann og sagði: „Trúlitli maður, hvers vegna fórstu að efast?“+ 32 Þeir stigu í bátinn og þá lægði storminn. 33 Þeir sem voru í bátnum veittu honum lotningu* og sögðu: „Þú ert sannarlega sonur Guðs.“ 34 Og þeir héldu ferðinni áfram og komu að landi við Genesaret.+

35 Menn á staðnum þekktu hann og sendu boð út um allt svæðið í kring, og fólk kom til hans með alla sem voru veikir. 36 Þeir sárbændu hann að fá rétt að snerta kögrið á yfirhöfn hans+ og allir sem snertu það læknuðust að fullu.

15 Nú komu farísear og fræðimenn frá Jerúsalem til Jesú+ og sögðu: 2 „Af hverju bregða lærisveinar þínir út af erfðavenjum manna frá fyrri tíð? Þeir þvo sér* til dæmis ekki um hendurnar áður en þeir borða.“+

3 Hann svaraði þeim: „Af hverju brjótið þið boðorð Guðs vegna erfðavenja ykkar?+ 4 Guð sagði til dæmis: ‚Sýndu föður þínum og móður virðingu,‘+ og: ‚Sá sem formælir föður sínum eða móður skal tekinn af lífi.‘+ 5 En þið segið: ‚Hver sem segir við föður sinn eða móður: „Það sem ég á og getur gagnast þér er gjöf helguð Guði,“+ 6 hann þarf alls ekki að sýna föður sínum virðingu.‘ Þannig hafið þið ógilt orð Guðs með erfikenningum ykkar.+ 7 Hræsnarar, Jesaja hafði rétt fyrir sér þegar hann spáði um ykkur:+ 8 ‚Þetta fólk heiðrar mig með vörunum en hjörtu þess eru fjarlæg mér. 9 Það tilbiður mig til einskis því að það kennir mannaboð eins og trúarsetningar.‘“+ 10 Hann kallaði nú mannfjöldann til sín og sagði: „Hlustið og reynið að skilja þetta:+ 11 Það sem fer inn um munninn óhreinkar ekki manninn heldur það sem fer út af munninum.“+

12 Lærisveinarnir komu þá og sögðu við hann: „Veistu að farísearnir hneyksluðust á því sem þú sagðir?“+ 13 Hann svaraði: „Hver einasta planta sem himneskur faðir minn hefur ekki gróðursett verður upprætt. 14 Látið þá eiga sig. Þeir eru blindir leiðtogar. Ef blindur leiðir blindan falla báðir í gryfju.“+ 15 Þá sagði Pétur: „Útskýrðu líkinguna fyrir okkur.“ 16 Hann svaraði: „Skiljið þið þetta ekki heldur?+ 17 Vitið þið ekki að allt sem kemur inn um munninn fer gegnum magann og síðan út í skólpræsið? 18 En það sem kemur út af munninum kemur frá hjartanu, og það óhreinkar manninn.+ 19 Frá hjartanu koma til dæmis illar hugsanir+ sem hafa í för með sér morð, hjúskaparbrot, kynferðislegt siðleysi,* þjófnað, ljúgvitni og lastmæli. 20 Það er þetta sem óhreinkar manninn en að borða með óþvegnum* höndum óhreinkar ekki manninn.“

21 Jesús fór nú þaðan og hélt til héraðs Týrusar og Sídonar.+ 22 Fönikísk kona úr héraðinu kom þá og kallaði: „Miskunnaðu mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er sárþjáð af illum anda.“+ 23 En hann svaraði henni ekki einu orði. Lærisveinar hans komu þá og sögðu við hann: „Segðu henni að fara því að hún hættir ekki að kalla á eftir okkur.“ 24 Hann svaraði: „Ég var ekki sendur nema til týndra sauða af ætt Ísraels.“+ 25 En konan kom, kraup fyrir honum* og sagði: „Drottinn, hjálpaðu mér!“ 26 Hann svaraði: „Það er ekki rétt að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hvolpana.“ 27 Hún sagði: „Það er satt, Drottinn, en hvolparnir éta samt brauðmolana sem falla af borði húsbændanna.“+ 28 Þá svaraði Jesús: „Mikil er trú þín, kona. Verði þér að ósk þinni.“ Og dóttir hennar læknaðist samstundis.

29 Jesús fór nú þaðan og kom að Galíleuvatni.+ Hann gekk upp á fjallið og settist þar. 30 Fólk kom þá til hans hópum saman og hafði með sér halta, fatlaða, blinda, mállausa og marga aðra og lagði þá við fætur hans, og hann læknaði þá.+ 31 Fólkið var agndofa þegar það sá mállausa tala, fatlaða verða heilbrigða, halta ganga og blinda sjá, og það lofaði Guð Ísraels.+

32 Jesús kallaði lærisveinana til sín og sagði: „Ég kenni í brjósti um fólkið+ því að það er búið að vera hjá mér í þrjá daga og hefur ekkert fengið að borða. Ég vil ekki senda það svangt* frá mér því að það gæti örmagnast á leiðinni.“+ 33 En lærisveinarnir sögðu við hann: „Hvar eigum við að fá nóg af brauði á þessum afskekkta stað til að metta allan þennan fjölda?“+ 34 Þá spurði Jesús: „Hvað eruð þið með mörg brauð?“ Þeir svöruðu: „Sjö, og fáeina litla fiska.“ 35 Hann sagði fólkinu að setjast á jörðina, 36 tók brauðin sjö og fiskana og fór með þakkarbæn. Síðan braut hann brauðin og gaf lærisveinunum og lærisveinarnir fólkinu.+ 37 Allir átu og urðu saddir. Þeir tóku saman leifarnar og þær fylltu sjö stórar körfur.+ 38 En þeir sem borðuðu voru 4.000 karlmenn, auk kvenna og barna. 39 Að lokum lét hann mannfjöldann fara, steig um borð í bátinn og fór til Magadanhéraðs.+

16 Þar komu farísear og saddúkear til hans. Þeir vildu reyna hann og báðu hann að sýna sér tákn af himni.+ 2 Hann svaraði þeim: „Að kvöldi segið þið: ‚Það verður gott veður því að himinninn er eldrauður,‘ 3 og að morgni: ‚Það verður kuldi og rigning í dag því að himinninn er eldrauður en þungbúinn.‘ Þið getið spáð um veðrið af útliti himins en þið kunnið ekki að ráða tákn tímanna. 4 Vond og ótrú kynslóð heimtar stöðugt að fá tákn en hún fær ekkert annað en tákn Jónasar.“+ Síðan fór hann og skildi við þá.

5 Lærisveinarnir fóru nú yfir vatnið en gleymdu að taka með sér brauð.+ 6 Jesús sagði við þá: „Hafið augun opin og varið ykkur á súrdeigi farísea og saddúkea.“+ 7 Þeir fóru þá að ræða sín á milli og sögðu: „Við tókum ekkert brauð með.“ 8 Jesús varð þess var og sagði: „Hvers vegna eruð þið að tala um að þið hafið ekkert brauð, þið trúlitlu menn? 9 Skiljið þið þetta ekki enn eða munið þið ekki eftir brauðunum fimm handa þeim 5.000 og hve margar körfur þið tókuð saman?+ 10 Eða brauðunum sjö handa þeim 4.000 og hve margar stórar körfur þið tókuð saman?+ 11 Hvers vegna skiljið þið þetta ekki? Ég var ekki að tala við ykkur um brauð heldur að þið ættuð að vara ykkur á súrdeigi farísea og saddúkea.“+ 12 Þá skildu þeir að hann var ekki að vara við súrdeigi í brauði heldur því sem farísear og saddúkear kenndu.

13 Þegar Jesús var kominn í grennd við Sesareu Filippí spurði hann lærisveinana: „Hver heldur fólk að Mannssonurinn sé?“+ 14 Þeir svöruðu: „Sumir segja Jóhannes skírari,+ sumir Elía+ og aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum.“ 15 Hann spurði þá: „En þið, hver segið þið að ég sé?“ 16 Símon Pétur svaraði: „Þú ert Kristur,+ sonur hins lifandi Guðs.“+ 17 Jesús sagði þá við hann: „Vertu ánægður, Símon Jónasson, því að það var ekki maður* sem opinberaði þér þetta heldur faðir minn á himnum.+ 18 Og ég segi þér: Þú ert Pétur+ og á þessum kletti+ mun ég byggja söfnuð minn og hlið grafarinnar* munu ekki yfirbuga hann. 19 Ég gef þér lykla himnaríkis og hvað sem þú bindur á jörð hefur þegar verið bundið á himnum og hvað sem þú leysir á jörð hefur þegar verið leyst á himnum.“ 20 Síðan harðbannaði hann lærisveinunum að segja nokkrum að hann væri Kristur.+

21 Upp frá því fór Jesús að skýra fyrir lærisveinunum að hann yrði að fara til Jerúsalem og þola miklar þjáningar af hendi öldunganna, yfirprestanna og fræðimannanna. Hann yrði líflátinn en reistur upp á þriðja degi.+ 22 Pétur tók hann þá afsíðis, ávítaði hann og sagði: „Hlífðu þér, Drottinn. Þetta mun aldrei koma fyrir þig.“+ 23 Jesús sneri þá bakinu í Pétur og sagði við hann: „Farðu burt frá mér,* Satan! Þú leggur stein í götu mína því að þú hugsar ekki eins og Guð heldur eins og menn.“+

24 Jesús sagði nú við lærisveinana: „Sá sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kvalastaur* sinn og fylgi mér.+ 25 Hver sem vill bjarga lífi sínu týnir því en hver sem týnir lífi sínu vegna mín finnur það.+ 26 Hvaða gagn hefði maðurinn af því að eignast allan heiminn en týna lífi sínu?+ Eða hvað gæfi maðurinn í skiptum fyrir líf sitt?+ 27 Mannssonurinn kemur í dýrð föður síns ásamt englum sínum og þá endurgeldur hann hverjum og einum eftir breytni hans.+ 28 Trúið mér, sumir þeirra sem standa hér munu ekki deyja fyrr en þeir sjá Mannssoninn koma í ríki sínu.“+

17 Sex dögum síðar tók Jesús þá Pétur, Jakob og Jóhannes bróður hans með sér upp á hátt fjall þar sem þeir voru einir.+ 2 Þar ummyndaðist hann frammi fyrir þeim. Andlit hans geislaði sem sólin og föt hans urðu skínandi* eins og ljósið.+ 3 Skyndilega birtust Móse og Elía og töluðu við Jesú. 4 Pétur sagði þá við Jesú: „Drottinn, það er gott að vera hér. Ef þú vilt skal ég reisa hér þrjú tjöld, eitt handa þér, eitt handa Móse og eitt handa Elía.“ 5 Meðan hann var enn að tala huldi þá bjart ský og rödd heyrðist úr skýinu sem sagði: „Þetta er sonur minn sem ég elska og hef velþóknun á.+ Hlustið á hann.“+ 6 Lærisveinarnir urðu mjög hræddir þegar þeir heyrðu þetta og féllu á grúfu. 7 Jesús kom þá til þeirra, snerti þá og sagði: „Standið upp. Verið óhræddir.“ 8 Þeir litu upp en sáu nú engan nema Jesú einan. 9 Á leiðinni niður af fjallinu gaf Jesús þeim þessi fyrirmæli: „Segið engum frá sýninni fyrr en Mannssonurinn hefur verið reistur upp frá dauðum.“+

10 Lærisveinarnir spurðu hann: „Hvers vegna segja fræðimennirnir að Elía eigi að koma fyrst?“+ 11 Hann svaraði: „Elía kemur vissulega og færir allt í samt lag.+ 12 En ég segi ykkur að Elía er þegar kominn og þeir þekktu hann ekki heldur fóru með hann eins og þeim sýndist.+ Eins á Mannssonurinn að þjást af þeirra völdum.“+ 13 Þá skildu lærisveinarnir að hann var að tala um Jóhannes skírara.

14 Þegar þeir nálguðust mannfjöldann+ kom maður til Jesú, féll á kné og sagði: 15 „Drottinn, miskunnaðu syni mínum því að hann er flogaveikur og illa haldinn. Hann fellur oft í eld og oft í vatn.+ 16 Ég fór með hann til lærisveina þinna en þeir gátu ekki læknað hann.“ 17 Jesús svaraði: „Þú trúlausa og spillta kynslóð,+ hve lengi þarf ég að vera hjá ykkur? Hve lengi þarf ég að umbera ykkur? Komið með hann hingað til mín.“ 18 Síðan ávítaði Jesús illa andann, hann fór út af drengnum og drengurinn læknaðist samstundis.+ 19 Þegar lærisveinarnir voru einir með Jesú spurðu þeir hann: „Hvers vegna gátum við ekki rekið hann út?“ 20 Hann svaraði: „Vegna þess að þið hafið ekki næga trú. Trúið mér, ef þið hafið trú á við sinnepsfræ getið þið sagt við þetta fjall: ‚Færðu þig þangað,‘ og það færir sig. Ekkert verður ykkur um megn.“+ 21* ——

22 Meðan þeir voru saman í Galíleu sagði Jesús við þá: „Mannssonurinn verður svikinn í hendur manna+ 23 og þeir munu taka hann af lífi en á þriðja degi verður hann reistur upp.“+ Þeir urðu mjög hryggir við þetta.

24 Þegar þeir voru komnir til Kapernaúm komu mennirnir sem innheimtu musterisskattinn* til Péturs og spurðu: „Greiðir kennari ykkar ekki musterisskattinn?“+ 25 „Jú,“ svaraði hann. En þegar hann kom inn í húsið spurði Jesús hann að fyrra bragði: „Hvað heldur þú, Símon? Af hverjum heimta konungar jarðarinnar tolla eða skatta?* Af sonum sínum eða öðrum?“ 26 „Af öðrum,“ svaraði hann. „Þá eru synirnir undanþegnir skatti,“ sagði Jesús. 27 „En til að við hneykslum þá ekki+ skaltu ganga niður að vatninu, renna öngli og taka fyrsta fiskinn sem þú færð. Þegar þú opnar munninn á honum finnurðu silfurpening.* Taktu hann og greiddu skattinn fyrir mig og þig.“

18 Eftir þetta komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu: „Hver er eiginlega mestur í himnaríki?“+ 2 Þá kallaði hann til sín barn, lét það standa meðal þeirra 3 og sagði: „Trúið mér, þið komist alls ekki inn í himnaríki nema þið breytið hugarfari ykkar* og verðið eins og börn.+ 4 Hver sem auðmýkir sig eins og þetta barn, hann er mestur í himnaríki+ 5 og hver sem tekur við einu slíku barni vegna nafns míns tekur einnig við mér. 6 En ef einhver veldur því að einn af þessum minnstu sem trúa á mig fellur væri betra fyrir hann að vera sökkt í opið haf með stóran myllustein* hengdan um hálsinn.+

7 Illa fer fyrir heiminum því að hann er fólki til hrösunar. Auðvitað er óhjákvæmilegt að eitthvað verði fólki til hrösunar en illa fer fyrir þeim manni sem veldur því. 8 Ef hönd þín eða fótur verður þér að falli skaltu höggva hann af og kasta frá þér.+ Það er betra fyrir þig að ganga limlestur eða einfættur inn til lífsins en að vera kastað í eilífa eldinn með báðar hendur eða báða fætur.+ 9 Og ef auga þitt verður þér að falli skaltu rífa það úr þér og kasta því burt. Það er betra fyrir þig að ganga eineygður inn til lífsins en að hafa bæði augun og vera kastað í eld Gehenna.*+ 10 Gætið þess að fyrirlíta ekki neinn af þessum minnstu því að ég segi ykkur að englar þeirra á himnum hafa andlit föður míns á himnum stöðugt fyrir augum.*+ 11* ——

12 Hvað haldið þið? Ef maður á 100 sauði og einn þeirra villist frá hjörðinni,+ skilur hann þá ekki hina 99 eftir á fjallinu og fer að leita að þeim týnda?+ 13 Trúið mér, ef hann finnur hann gleðst hann meira yfir honum en yfir þeim 99 sem týndust ekki. 14 Faðir minn* á himnum vill ekki heldur að einn einasti þessara minnstu glatist.+

15 Ef bróðir þinn syndgar skaltu fara og benda honum einslega á það ranga sem hann hefur gert.*+ Ef hann hlustar á þig hefurðu endurheimt bróður þinn.+ 16 En ef hann hlustar ekki skaltu taka með þér einn eða tvo til að allt sé staðfest með framburði tveggja eða þriggja vitna.+ 17 Ef hann hlustar ekki á þá skaltu segja söfnuðinum það. Ef hann hlustar ekki einu sinni á söfnuðinn skaltu líta á hann sem mann af þjóðunum+ og skattheimtumann.+

18 Trúið mér, hvað sem þið bindið á jörð hefur þegar verið bundið á himnum og hvað sem þið leysið á jörð hefur þegar verið leyst á himnum. 19 Ég segi ykkur einnig að ef tveir ykkar á jörð eru sammála um að biðja um eitthvað mikilvægt mun faðir minn á himnum veita þeim það.+ 20 Þar sem tveir eða þrír eru samankomnir í mínu nafni+ þar er ég mitt á meðal þeirra.“

21 Pétur gekk nú til hans og spurði: „Drottinn, hversu oft á ég að fyrirgefa bróður mínum ef hann syndgar gegn mér? Allt að sjö sinnum?“ 22 Jesús svaraði: „Ég segi þér: Ekki allt að sjö sinnum heldur 77 sinnum.+

23 Þess vegna má líkja himnaríki við konung sem vildi gera upp reikninga við þjóna sína. 24 Þegar hann byrjaði á uppgjörinu var komið með mann til hans sem skuldaði honum 10.000 talentur.* 25 Þar sem hann gat ekki greitt skuldina fyrirskipaði konungur að hann, kona hans og börn og allt sem hann átti skyldi selt til að greiða skuldina.+ 26 Þjónninn féll þá á kné, veitti honum lotningu* og sagði: ‚Sýndu mér þolinmæði og ég skal borga allt til baka.‘ 27 Konungurinn kenndi í brjósti um þjóninn, leyfði honum að fara og gaf honum upp skuldina.+ 28 Þjónninn fór þá út og hitti einn af samþjónum sínum sem skuldaði honum 100 denara.* Hann tók hann kverkataki og sagði: ‚Borgaðu það sem þú skuldar mér.‘ 29 Samþjónn hans féll þá á kné og grátbað hann: ‚Sýndu mér þolinmæði og ég skal borga þér til baka.‘ 30 En hann vildi það ekki heldur fór og lét varpa honum í fangelsi. Þar átti hann að vera þangað til hann gæti borgað skuldina. 31 Þegar samþjónar hans sáu hvað hafði gerst urðu þeir miður sín og fóru og sögðu konunginum frá öllu sem hafði átt sér stað. 32 Konungurinn kallaði hann þá fyrir sig og sagði: ‚Þú illi þjónn, ég gaf þér upp alla skuldina þegar þú baðst mig um það. 33 Áttir þú ekki að sýna samþjóni þínum miskunn eins og ég miskunnaði þér?‘+ 34 Í reiði sinni afhenti konungurinn hann fangavörðunum. Hann átti að sitja inni þar til hann hefði borgað alla skuldina. 35 Faðir minn á himnum fer eins með ykkur+ ef þið fyrirgefið ekki bróður ykkar af öllu hjarta.“+

19 Eftir að Jesús hafði lokið máli sínu fór hann frá Galíleu og kom að útjaðri* Júdeu handan við Jórdan.+ 2 Fólk fylgdi honum hópum saman og hann læknaði það.

3 Farísear komu til hans, ákveðnir í að reyna hann. Þeir spurðu: „Má maður skilja við konu sína fyrir hvaða sök sem er?“+ 4 Hann svaraði: „Hafið þið ekki lesið að sá sem skapaði þau í upphafi gerði þau karl og konu+ 5 og sagði: ‚Af þeirri ástæðu yfirgefur maður föður sinn og móður og binst konu sinni og þau tvö verða eitt‘?*+ 6 Þannig eru þau ekki lengur tvö heldur eitt.* Það sem Guð hefur tengt saman má enginn maður aðskilja.“+ 7 Þeir sögðu við hann: „Hvers vegna sagði Móse þá að það mætti gefa henni skilnaðarbréf og skilja við hana?“+ 8 Hann svaraði: „Móse gerði þá tilslökun að þið mættuð skilja við eiginkonur ykkar vegna þess hve harðbrjósta þið eruð+ en þannig var það ekki frá upphafi.+ 9 Ég segi ykkur að sá sem skilur við konu sína fyrir aðra sök en kynferðislegt siðleysi* og giftist annarri fremur hjúskaparbrot.“+

10 Lærisveinarnir sögðu við hann: „Fyrst sambandi karls og konu er þannig háttað er ekki ráðlegt að giftast.“ 11 Hann sagði við þá: „Það er ekki á allra færi að gera eins og ég segi heldur aðeins þeirra sem það er gefið.+ 12 Sumir eru fæddir þannig að þeir geta ekki gifst* og sumir eru þannig af mannavöldum en sumir neita sér um að giftast* til að geta helgað sig himnaríki. Sá sem hefur tök á því ætti að gera það.“+

13 Fólk kom nú til hans með börn til að hann legði hendur yfir þau og bæði fyrir þeim. Lærisveinarnir ávítuðu fólkið+ 14 en Jesús sagði: „Látið börnin í friði og reynið ekki að hindra að þau komi til mín því að himnaríki tilheyrir þeim sem eru eins og þau.“+ 15 Og hann lagði hendur yfir þau og fór síðan þaðan.

16 Þá kom til hans ungur maður og sagði: „Kennari, hvað gott þarf ég að gera til að hljóta eilíft líf?“+ 17 Jesús svaraði: „Hvers vegna spyrðu mig hvað sé gott? Aðeins einn er góður.+ En ef þú vilt ganga inn til lífsins skaltu halda boðorðin.“+ 18 „Hvaða boðorð?“ spurði hann. Jesús svaraði: „Þú skalt ekki myrða,+ þú skalt ekki fremja hjúskaparbrot,+ þú skalt ekki stela,+ þú skalt ekki bera ljúgvitni,+ 19 sýndu föður þínum og móður virðingu+ og þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“+ 20 Ungi maðurinn sagði við hann: „Ég hef haldið allt þetta. Hvað fleira þarf ég að gera?“ 21 Jesús svaraði: „Ef þú vilt vera fullkominn farðu þá og seldu eigur þínar og gefðu fátækum og þá áttu fjársjóð á himni.+ Komdu síðan og fylgdu mér.“+ 22 Ungi maðurinn fór hryggur burt þegar hann heyrði þetta því að hann átti miklar eignir.+ 23 Jesús sagði þá við lærisveinana: „Trúið mér, það verður erfitt fyrir ríkan mann að komast inn í himnaríki.+ 24 Ég segi ykkur að það er auðveldara fyrir úlfalda að komast gegnum nálarauga en fyrir ríkan mann að ganga inn í ríki Guðs.“+

25 Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta voru þeir steini lostnir og sögðu: „Hver getur þá eiginlega bjargast?“+ 26 Jesús horfði einbeittur á þá og sagði: „Mönnum er það ógerlegt en Guð getur allt.“+

27 Þá sagði Pétur: „Við höfum yfirgefið allt og fylgt þér. Hvað fáum við?“+ 28 Jesús sagði við þá: „Trúið mér, þegar allt verður endurnýjað* og Mannssonurinn sest í dýrlegt hásæti sitt munuð þið sem hafið fylgt mér sitja í 12 hásætum og dæma 12 ættkvíslir Ísraels.+ 29 Og allir sem hafa yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða landareignir vegna nafns míns fá hundraðfalt aftur og hljóta eilíft líf.+

30 En margir hinna fyrstu verða síðastir og hinna síðustu fyrstir.+

20 Himnaríki má líkja við landeiganda sem fór út snemma morguns til að ráða verkamenn í víngarð sinn.+ 2 Eftir að hafa samið við verkamennina um denar* í daglaun sendi hann þá í víngarðinn. 3 Um þriðju stund* fór hann aftur út og sá menn standa atvinnulausa á markaðstorginu. 4 Hann sagði við þá: ‚Farið þið líka í víngarðinn og ég skal greiða ykkur sanngjörn laun,‘ 5 og þeir fóru. Hann fór einnig út um sjöttu stund* og níundu stund* og réð fleiri. 6 Að lokum, um elleftu stund,* fór hann út og fann aftur menn sem stóðu þar og hann sagði við þá: ‚Hvers vegna hafið þið staðið hér atvinnulausir allan daginn?‘ 7 ‚Vegna þess að enginn hefur ráðið okkur,‘ svöruðu þeir. Hann sagði þá: ‚Farið þið líka í víngarðinn.‘

8 Um kvöldið sagði víngarðseigandinn við verkstjóra sinn: ‚Kallaðu á verkamennina og greiddu þeim kaupið.+ Byrjaðu á þeim síðustu og endaðu á þeim fyrstu.‘ 9 Þeir sem voru ráðnir á elleftu stund komu nú og fengu hver sinn denar.* 10 Þegar þeir fyrstu komu bjuggust þeir við að fá meira, en þeir fengu líka sinn denarinn* hver. 11 Þá fóru þeir að kvarta við landeigandann 12 og sögðu: ‚Þeir sem komu síðast unnu eina stund. Samt fá þeir sama kaup og við sem höfum stritað allan daginn í steikjandi hitanum.‘ 13 En hann svaraði einum þeirra: ‚Vinur, ég er ekki ósanngjarn við þig. Sömdum við ekki um einn denar?*+ 14 Taktu kaupið þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil greiða þeim síðasta það sama og þér. 15 Ræð ég ekki sjálfur hvað ég geri við eigið fé? Eða ertu öfundsjúkur* af því að ég er örlátur?‘*+ 16 Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“+

17 Á leiðinni upp til Jerúsalem tók Jesús lærisveinana 12 afsíðis og sagði einslega við þá:+ 18 „Nú erum við á leið upp til Jerúsalem og Mannssonurinn verður látinn í hendur yfirpresta og fræðimanna. Þeir munu dæma hann til dauða+ 19 og láta hann í hendur manna af þjóðunum sem munu hæðast að honum, húðstrýkja og staurfesta,+ en á þriðja degi verður hann reistur upp.“+

20 Nú kom móðir Sebedeussona+ til hans ásamt sonum sínum, kraup fyrir honum* og bað hann um greiða.+ 21 „Hvað viltu?“ spurði hann. Hún svaraði: „Lofaðu að synir mínir tveir fái að sitja við hlið þér í ríki þínu, annar til hægri handar og hinn til vinstri.“+ 22 Jesús sagði: „Þið vitið ekki um hvað þið biðjið. Getið þið drukkið bikarinn sem ég á að drekka?“+ „Við getum það,“ svöruðu þeir. 23 Hann sagði við þá: „Þið skuluð vissulega drekka bikar minn+ en það er ekki mitt að ákveða hver situr mér til hægri handar og vinstri. Þessi sæti eru tekin frá handa þeim sem faðir minn hefur ákveðið að sitji þar.“+

24 Þegar hinir tíu heyrðu af þessu urðu þeir gramir út í bræðurna tvo.+ 25 En Jesús kallaði þá til sín og sagði: „Þið vitið að þeir sem ráða yfir þjóðunum drottna yfir þeim og háttsettir menn beita valdi sínu.+ 26 Þannig má það ekki vera hjá ykkur.+ Sá sem vill verða mikill á meðal ykkar á að vera þjónn ykkar+ 27 og sá sem vill vera fremstur á meðal ykkar á að vera þræll ykkar,+ 28 rétt eins og Mannssonurinn sem kom ekki til að láta þjóna sér heldur til að þjóna+ og gefa líf sitt sem lausnargjald fyrir marga.“+

29 Mikill mannfjöldi fylgdi honum þegar þeir fóru frá Jeríkó. 30 Tveir blindir menn sátu við veginn. Þegar þeir heyrðu að Jesús ætti leið hjá hrópuðu þeir: „Drottinn sonur Davíðs, miskunnaðu okkur!“+ 31 Fólkið hastaði á þá og sagði þeim að þegja en þeir hrópuðu bara enn hærra: „Drottinn sonur Davíðs, miskunnaðu okkur!“ 32 Jesús nam þá staðar, kallaði á þá og sagði: „Hvað viljið þið að ég geri fyrir ykkur?“ 33 Þeir sögðu við hann: „Drottinn, opnaðu augu okkar.“ 34 Jesús kenndi í brjósti um þá, snerti augu þeirra+ og þeir endurheimtu sjónina samstundis og fylgdu honum.

21 Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage á Olíufjallinu sendi Jesús tvo lærisveina+ 2 og sagði við þá: „Farið inn í þorpið hér fram undan. Um leið og þið komið þangað finnið þið ösnu sem er bundin og fola hjá henni. Leysið þau og komið með þau til mín. 3 Ef einhver segir eitthvað skuluð þið svara: ‚Drottinn þarf á þeim að halda.‘ Þá leyfir hann ykkur tafarlaust að taka þau.“

4 Þetta gerðist til að það rættist sem spámaðurinn sagði: 5 „Segið Síonardóttur: ‚Sjáðu! Konungur þinn kemur til þín+ ljúfur í lund+ og ríður asna, fola undan burðardýri.‘“+

6 Lærisveinarnir fóru og gerðu alveg eins og Jesús hafði sagt þeim.+ 7 Þeir komu með ösnuna og folann, lögðu yfirhafnir sínar á þau og hann settist á bak.+ 8 Fjöldamargir breiddu yfirhafnir sínar á veginn+ en aðrir skáru greinar af trjánum og lögðu þær á veginn. 9 Mannfjöldinn sem fór á undan honum og eftir honum hrópaði: „Verndaðu* son Davíðs!+ Blessaður sé sá sem kemur í nafni Jehóva!*+ Verndaðu hann, þú sem ert í hæstu hæðum.“+

10 Þegar hann kom til Jerúsalem var öll borgin í uppnámi og menn sögðu: „Hver er þetta?“ 11 Mannfjöldinn sem fylgdi honum sagði: „Þetta er spámaðurinn Jesús+ frá Nasaret í Galíleu.“

12 Jesús gekk inn í musterið og rak út alla sem seldu þar og keyptu. Hann velti um koll bekkjum dúfnasalanna og borðum þeirra sem skiptu peningum+ 13 og sagði við þá: „Skrifað stendur: ‚Hús mitt verður kallað bænahús,‘+ en þið gerið það að ræningjabæli.“+ 14 Blindir og fatlaðir komu til hans í musterinu og hann læknaði þá.

15 Yfirprestarnir og fræðimennirnir urðu gramir+ þegar þeir sáu hann vinna þessi miklu verk og heyrðu drengina hrópa í musterinu: „Verndaðu son Davíðs!“+ 16 Þeir sögðu við hann: „Heyrirðu hvað þeir segja?“ Jesús svaraði: „Já. Hafið þið aldrei lesið þetta: ‚Af munni barna og ungbarna kallarðu fram lof‘?“+ 17 Hann yfirgaf þá, fór úr borginni til Betaníu og var þar um nóttina.+

18 Hann sneri aftur til borgarinnar snemma morguns og var þá svangur.+ 19 Hann kom auga á fíkjutré við veginn og gekk að því en fann ekkert nema laufblöðin ein.+ Þá sagði hann við tréð: „Aldrei framar skal vaxa ávöxtur á þér.“+ Og fíkjutréð visnaði samstundis. 20 Lærisveinarnir undruðust þegar þeir sáu þetta og sögðu: „Hvernig gat fíkjutréð visnað svona fljótt?“+ 21 Jesús svaraði: „Það megið þið vita að ef þið trúið án þess að efast getið þið ekki aðeins gert það sama og ég gerði við fíkjutréð heldur getið þið jafnvel sagt við þetta fjall: ‚Lyftu þér upp og kastaðu þér í hafið,‘ og það gerist.+ 22 Þið fáið allt sem þið biðjið um í bænum ykkar ef þið hafið trú.“+

23 Hann gekk inn í musterið. Yfirprestarnir og öldungarnir komu til hans meðan hann var að kenna og spurðu: „Hvaða vald hefurðu til að gera þetta? Og hver gaf þér þetta vald?“+ 24 Jesús svaraði þeim: „Ég ætla líka að spyrja ykkur að einu. Ef þið svarið mér þá skal ég segja ykkur hvaða vald ég hef til að gera þetta. 25 Hvaðan fékk Jóhannes vald til að skíra? Frá himni eða frá mönnum?“ Þeir fóru að ræða sín á milli og sögðu: „Ef við segjum: ‚Frá himni,‘ segir hann við okkur: ‚Hvers vegna trúðuð þið honum þá ekki?‘+ 26 En ef við segjum: ‚Frá mönnum,‘ er hætta á að fólkið snúist gegn okkur því að allir telja að Jóhannes hafi verið spámaður.“ 27 Þeir svöruðu því Jesú: „Við vitum það ekki.“ Hann sagði: „Þá segi ég ykkur ekki heldur hvaða vald ég hef til að gera þetta.

28 Hvað finnst ykkur? Maður átti tvo syni. Hann fór til annars þeirra og sagði: ‚Sonur minn, farðu út í víngarðinn að vinna í dag.‘ 29 ‚Ég vil það ekki,‘ svaraði hann en sá svo eftir því og fór. 30 Maðurinn fór til hins og sagði það sama. Sá svaraði: ‚Ég skal gera það, herra,‘ en fór ekki. 31 Hvor þeirra gerði það sem faðirinn bað um?“ „Sá fyrri,“ svöruðu þeir. Jesús sagði þá: „Trúið mér, skattheimtumenn og vændiskonur verða á undan ykkur inn í ríki Guðs. 32 Jóhannes kom og benti ykkur á leið réttlætisins en þið trúðuð honum ekki. Skattheimtumenn og vændiskonur trúðu honum+ hins vegar. Þið sáuð það en samt iðruðust þið ekki né trúðuð honum.

33 Heyrið aðra dæmisögu: Maður nokkur, landeigandi, plantaði víngarð,+ girti hann af, gróf fyrir vínpressu og reisti turn.+ Hann leigði hann síðan vínyrkjum og fór úr landi.+ 34 Þegar uppskerutíminn hófst sendi hann þræla sína til vínyrkjanna að sækja sinn hluta af uppskerunni. 35 En vínyrkjarnir tóku þrælana, börðu einn, drápu annan og enn einn grýttu þeir.+ 36 Hann sendi aðra þræla, fleiri en í fyrra skiptið, en þeir fóru eins með þá.+ 37 Að lokum sendi hann son sinn til þeirra því að hann hugsaði með sér: ‚Þeir eiga eftir að virða son minn.‘ 38 Þegar vínyrkjarnir sáu soninn sögðu þeir hver við annan: ‚Þetta er erfinginn.+ Komum, drepum hann og náum af honum arfinum.‘ 39 Síðan tóku þeir hann, köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann.+ 40 Hvað gerir nú eigandi víngarðsins við vínyrkjana þegar hann kemur?“ 41 Þeir svöruðu: „Þar sem þeir eru vondir tortímir hann þeim og leigir öðrum vínyrkjum garðinn. Þeir gefa honum síðan ávöxtinn þegar uppskeran er tilbúin.“

42 Jesús sagði við þá: „Hafið þið aldrei lesið í Ritningunum: ‚Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að aðalhornsteini.*+ Hann er frá Jehóva* og hann er stórfenglegur í augum okkar‘?+ 43 Þess vegna segi ég ykkur að ríki Guðs verður tekið frá ykkur og gefið þjóð sem ber ávexti þess. 44 Sá sem fellur á þennan stein tortímist+ og sá sem steinninn fellur á verður sundurkraminn.“+

45 Þegar yfirprestarnir og farísearnir heyrðu þessar dæmisögur skildu þeir að hann átti við þá.+ 46 Þeir vildu handtaka hann en óttuðust mannfjöldann því að fólkið leit á hann sem spámann.+

22 Jesús talaði aftur til þeirra í dæmisögum og sagði: 2 „Himnaríki má líkja við konung sem hélt brúðkaupsveislu+ fyrir son sinn. 3 Hann sendi þjóna sína til að kalla boðsgestina til veislunnar en þeir vildu ekki koma.+ 4 Hann sendi aðra þjóna og sagði: ‚Segið boðsgestunum: „Ég hef undirbúið máltíðina. Það er búið að slátra nautum mínum og alifé og allt er tilbúið. Komið í brúðkaupsveisluna.“‘ 5 En boðsgestirnir létu sér fátt um finnast. Einn fór á akur sinn, annar til að sinna viðskiptum+ 6 en hinir tóku þjónana, misþyrmdu þeim og drápu.

7 Konungurinn varð ævareiður, sendi út her sinn og lét drepa morðingjana og brenna borg þeirra.+ 8 Síðan sagði hann við þjóna sína: ‚Brúðkaupsveislan er tilbúin en boðsgestirnir verðskulduðu ekki að koma.+ 9 Farið því út á vegina sem liggja út úr borginni og bjóðið öllum sem þið finnið í brúðkaupsveisluna.‘+ 10 Þjónarnir fóru þá út á vegina og söfnuðu öllum sem þeir fundu, bæði vondum og góðum, og brúðkaupssalurinn fylltist af gestum.*

11 Þegar konungurinn gekk inn til að virða fyrir sér gestina kom hann auga á mann sem var ekki í brúðkaupsfötum. 12 Hann sagði við hann: ‚Vinur, hvernig komstu hingað inn án þess að vera í brúðkaupsfötum?‘ Maðurinn gat engu svarað. 13 Þá sagði konungurinn við þjóna sína: ‚Bindið hann á höndum og fótum og kastið honum út í myrkrið fyrir utan. Þar mun hann gráta og gnísta tönnum.‘

14 Já, mörgum er boðið en fáir eru útvaldir.“

15 Farísearnir fóru þá og tóku sig saman um að hanka hann á orðum hans.+ 16 Þeir sendu því lærisveina sína til hans ásamt fylgismönnum Heródesar+ og þeir sögðu: „Kennari, við vitum að þú ert sannsögull og kennir veg Guðs sannleikanum samkvæmt. Allir eru jafnir fyrir þér því að þú horfir ekki á útlit fólks. 17 Hvað telur þú? Er leyfilegt* að greiða keisaranum skatt* eða ekki?“ 18 En Jesús vissi hve illir þeir voru og sagði: „Hræsnarar, hvers vegna leggið þið gildru fyrir mig? 19 Sýnið mér peninginn sem er greiddur í skatt.“ Þeir færðu honum denar.* 20 Hann sagði við þá: „Mynd hvers og áletrun er þetta?“ 21 „Keisarans,“ svöruðu þeir. Þá sagði hann: „Gjaldið þá keisaranum það sem tilheyrir keisaranum en Guði það sem tilheyrir Guði.“+ 22 Þeir undruðust þegar þeir heyrðu þetta, yfirgáfu hann og gengu burt.

23 Sama dag komu saddúkear til hans en þeir segja að upprisa sé ekki til.+ Þeir spurðu hann:+ 24 „Kennari, Móse sagði: ‚Ef maður deyr barnlaus á bróðir hans að giftast konu hans til að hún ali fyrri eiginmanni sínum afkomendur.‘+ 25 Nú voru sjö bræður meðal okkar. Sá fyrsti gifti sig og dó síðan. Hann var barnlaus og eftirlét því bróður sínum konuna. 26 Eins fór fyrir öðrum bróðurnum og þeim þriðja og síðan öllum sjö. 27 Að síðustu dó konan. 28 Kona hvers þeirra sjö verður hún í upprisunni? Allir höfðu þeir átt hana.“

29 Jesús svaraði þeim: „Ykkur skjátlast því að þið þekkið hvorki Ritningarnar né mátt Guðs.+ 30 Í upprisunni kvænist fólk hvorki né giftist heldur er það eins og englar á himni.+ 31 Hafið þið ekki lesið það sem Guð segir ykkur um upprisu dauðra: 32 ‚Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs‘?+ Hann er ekki Guð dauðra heldur þeirra sem lifa.“+ 33 Mannfjöldinn sem heyrði þetta hreifst af kennslu hans.+

34 Þegar farísearnir fréttu að Jesús hefði þaggað niður í saddúkeunum komu þeir saman. 35 Einn þeirra, sem var löglærður, vildi reyna hann og spurði: 36 „Kennari, hvert er æðsta boðorð laganna?“+ 37 Hann svaraði: „‚Þú skalt elska Jehóva* Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sál* þinni og öllum huga þínum.‘+ 38 Þetta er mesta og æðsta boðorðið. 39 Annað er líkt því og það er: ‚Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘+ 40 Lögin í heild og spámennirnir byggjast á þessum tveim boðorðum.“+

41 Jesús spurði nú faríseana+ meðan þeir voru enn saman í hópi: 42 „Hvað hugsið þið um Krist? Sonur hvers er hann?“ „Davíðs,“ svöruðu þeir.+ 43 Þá spurði hann: „Hvernig stendur þá á því að Davíð var innblásið+ að kalla hann Drottin þegar hann sagði: 44 ‚Jehóva* sagði við Drottin minn: „Sittu mér til hægri handar þar til ég legg óvini þína undir fætur þína“‘?+ 45 Fyrst Davíð kallar hann Drottin hvernig getur hann þá verið sonur hans?“+ 46 Enginn gat svarað honum einu orði og frá þeim degi þorði enginn að spyrja hann neins framar.

23 Jesús talaði nú til mannfjöldans og lærisveinanna og sagði: 2 „Fræðimenn og farísear hafa sest á stól Móse. 3 Þið skuluð því gera og halda allt sem þeir segja ykkur en líkið ekki eftir verkum þeirra því að þeir segja eitt en gera annað.+ 4 Þeir binda þungar byrðar og leggja fólki á herðar+ en sjálfir vilja þeir ekki snerta þær einum fingri.+ 5 Allt sem þeir gera er til að sýnast fyrir mönnum.+ Þeir stækka hylkin með ritningarstöðunum sem þeir bera sér til verndar+ og lengja kögrið á fötunum.+ 6 Þeim finnst gott að sitja í virðingarsæti í veislum og fremstu* sætunum í samkunduhúsum,+ 7 láta heilsa sér á torgunum og láta kalla sig rabbí.* 8 En þið skuluð ekki láta kalla ykkur rabbí því að þið eigið aðeins einn kennara+ og þið eruð öll bræður og systur. 9 Kallið engan föður ykkar á jörð því að þið eigið aðeins einn föður+ og hann er á himnum. 10 Látið ekki heldur kalla ykkur leiðtoga því að þið eigið aðeins einn leiðtoga, Krist. 11 En sá mesti á meðal ykkar á að vera þjónn ykkar.+ 12 Hver sem upphefur sjálfan sig verður auðmýktur+ og hver sem auðmýkir sjálfan sig verður upphafinn.+

13 Illa fer fyrir ykkur, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þið lokið himnaríki fyrir fólki. Sjálfir gangið þið ekki inn og þeim sem eru á leiðinni þangað leyfið þið ekki heldur að komast inn.+ 14* ——

15 Illa fer fyrir ykkur, fræðimenn og farísear, hræsnarar!+ Þið ferðist um sjó og land til að snúa einum til ykkar trúar og þegar það tekst valdið þið því að hann verðskuldar enn frekar en þið að lenda í Gehenna.*

16 Illa fer fyrir ykkur, blindu leiðtogar,+ sem segið: ‚Ef einhver sver við musterið er það ógilt en ef einhver sver við gullið í musterinu þarf hann að halda eiðinn.‘+ 17 Blindu og heimsku menn! Hvort er meira, gullið eða musterið sem helgar gullið? 18 Þið segið líka: ‚Ef einhver sver við altarið er það ógilt en ef einhver sver við fórnina á altarinu þarf hann að halda eiðinn.‘ 19 Blindu menn! Hvort er meira, fórnin eða altarið sem helgar fórnina? 20 Sá sem sver við altarið sver við það og allt sem er á því, 21 sá sem sver við musterið sver við það og þann sem býr í því+ 22 og sá sem sver við himininn sver við hásæti Guðs og þann sem situr í því.

23 Illa fer fyrir ykkur, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þið gefið tíund af myntu, dilli og broddkúmeni+ en vanrækið það sem meira máli skiptir í lögunum, það er að segja réttlæti,+ miskunn+ og trúfesti. Tíundin er vissulega nauðsynleg en það má ekki sleppa hinu.+ 24 Blindu leiðtogar,+ þið síið mýfluguna frá+ en gleypið úlfaldann!+

25 Illa fer fyrir ykkur, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þið hreinsið bikarinn og diskinn að utan+ en að innan eru þeir fullir græðgi*+ og óhófs.+ 26 Blindi farísei, hreinsaðu fyrst bikarinn og diskinn að innan svo að þeir geti líka orðið hreinir að utan.

27 Illa fer fyrir ykkur, fræðimenn og farísear, hræsnarar!+ Þið líkist hvítkölkuðum gröfum+ sem eru fallegar að sjá að utan en að innan eru þær fullar af beinum dauðra manna og alls konar óhreinindum. 28 Á sama hátt virðist þið út á við vera réttlátir en að innan eruð þið fullir hræsni og illsku.+

29 Illa fer fyrir ykkur, fræðimenn og farísear, hræsnarar!+ Þið hlaðið upp leiði spámannanna og skreytið grafir* hinna réttlátu.+ 30 Þið segið: ‚Ef við hefðum verið uppi á dögum forfeðra okkar hefðum við ekki úthellt blóði spámannanna eins og þeir.‘ 31 Þar með vitnið þið gegn sjálfum ykkur þar sem þið játið að þið eruð synir þeirra sem myrtu spámennina.+ 32 Ljúkið þá verkinu sem forfeður ykkar hófu.*

33 Höggormar, nöðruafkvæmi,+ hvernig ætlið þið að komast hjá þeim dómi að lenda í Gehenna?*+ 34 Þess vegna sendi ég til ykkar spámenn,+ vitra menn og kennara.+ Suma þeirra munuð þið drepa+ og staurfesta, og suma þeirra munuð þið húðstrýkja+ í samkunduhúsum ykkar og ofsækja+ borg úr borg. 35 Þess vegna kemur yfir ykkur blóð allra réttlátra sem hafa verið drepnir á jörðinni, frá blóði hins réttláta Abels+ til blóðs Sakaría Barakíasonar sem þið myrtuð milli musterisins og altarisins.+ 36 Trúið mér, allt þetta kemur yfir þessa kynslóð.

37 Jerúsalem, Jerúsalem, þú sem drepur spámennina og grýtir þá sem eru sendir til þín!+ Hve oft vildi ég ekki safna saman börnum þínum eins og hæna safnar ungum sínum undir vængi sér. En þið vilduð það ekki.+ 38 Hús ykkar verður yfirgefið og í ykkar höndum.*+ 39 Ég segi ykkur að þið munuð alls ekki sjá mig aftur fyrr en þið segið: ‚Blessaður sé sá sem kemur í nafni Jehóva.‘“*+

24 Jesús var á leið frá musterinu þegar lærisveinarnir komu til hans og vildu sýna honum byggingar musterisins. 2 Þá sagði hann: „Sjáið þið allt þetta? Trúið mér, hér mun ekki standa steinn yfir steini heldur verður allt rifið niður.“+

3 Meðan hann sat á Olíufjallinu og lærisveinarnir voru einir með honum komu þeir að máli við hann og spurðu: „Segðu okkur, hvenær gerist þetta og hvert verður tákn þess að þú sért nærverandi*+ og að lokaskeið þessarar heimsskipanar* sé hafið?“+

4 Jesús svaraði þeim: „Gætið þess að láta engan blekkja ykkur+ 5 því að margir munu koma í mínu nafni og segja: ‚Ég er Kristur,‘ og blekkja marga.+ 6 Þið munuð frétta af stríðsátökum í grennd og í fjarska. Gætið þess að skelfast ekki því að þetta þarf að gerast en endirinn er samt ekki kominn.+

7 Þjóð mun ráðast gegn þjóð og ríki gegn ríki.+ Það verða hungursneyðir+ og jarðskjálftar+ á einum stað eftir annan. 8 Allt er þetta upphaf fæðingarhríðanna.*

9 Þá mun fólk ofsækja ykkur+ og drepa+ og allar þjóðir munu hata ykkur vegna nafns míns.+ 10 Margir munu einnig falla frá trúnni og svíkja og hata hver annan. 11 Margir falsspámenn koma fram og blekkja marga+ 12 og vegna þess að illskan magnast mun kærleikur flestra kólna. 13 En sá sem er þolgóður allt til enda mun bjargast.+ 14 Og fagnaðarboðskapurinn um ríkið verður boðaður um alla jörðina til að allar þjóðir fái að heyra hann,+ og síðan kemur endirinn.

15 Þegar þið sjáið viðurstyggðina sem veldur eyðingu, og Daníel spámaður talar um, standa á heilögum stað+ (sá sem les þetta sýni dómgreind) 16 þá flýi þeir sem eru í Júdeu til fjalla.+ 17 Sá sem er uppi á þaki fari ekki niður til að sækja eigur sínar í húsinu 18 og sá sem er úti á akri snúi ekki aftur til að ná í yfirhöfn sína. 19 Þetta verða skelfilegir dagar fyrir barnshafandi konur og þær sem eru með barn á brjósti. 20 Biðjið að þið þurfið ekki að flýja að vetri til eða á hvíldardegi 21 því að þá verður svo mikil þrenging+ að annað eins hefur ekki gerst frá upphafi heims allt til þessa og gerist aldrei aftur.+ 22 Ef þessir dagar yrðu ekki styttir myndi enginn bjargast en vegna hinna útvöldu verða þeir styttir.+

23 Ef einhver segir við ykkur: ‚Sjáið! Hér er Kristur,‘+ eða: ‚Þarna er hann,‘ þá skuluð þið ekki trúa því.+ 24 Falskristar og falsspámenn+ munu koma fram og gera mikil tákn og undur til að blekkja+ jafnvel hina útvöldu ef hægt er. 25 Ég hef varað ykkur við. 26 Ef fólk segir við ykkur: ‚Hann er í óbyggðunum!‘ þá skuluð þið ekki fara þangað, eða: ‚Hann er innst inni í húsinu!‘ þá skuluð þið ekki trúa því.+ 27 Nærvera* Mannssonarins verður eins og elding sem leiftrar frá austri til vesturs.+ 28 Þar sem hræið er þar safnast ernirnir.+

29 Strax eftir þrengingu þessara daga mun sólin myrkvast+ og tunglið hætta að skína, stjörnurnar falla af himni og kraftar himnanna nötra.+ 30 Þá birtist tákn Mannssonarins á himni og allar þjóðir* jarðar harma og kveina,+ og þær sjá Mannssoninn+ koma á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð.+ 31 Hann sendir út engla sína með sterkum lúðurblæstri og þeir safna saman hans útvöldu úr áttunum* fjórum, frá öðrum endimörkum himins til hinna.+

32 Lærið af þessari líkingu um fíkjutréð: Um leið og ungu greinarnar mýkjast og laufið springur út vitið þið að sumar er í nánd.+ 33 Eins skuluð þið vita þegar þið sjáið allt þetta að hann er í nánd, við dyrnar.+ 34 Trúið mér, þessi kynslóð líður alls ekki undir lok fyrr en allt þetta gerist. 35 Himinn og jörð líða undir lok en orð mín líða alls ekki undir lok.+

36 Enginn veit þann dag og stund,+ hvorki englarnir á himnum né sonurinn heldur aðeins faðirinn.+ 37 Nærvera* Mannssonarins verður eins og dagar Nóa.+ 38 Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust fram til þess dags sem Nói gekk inn í örkina,+ 39 og þeir gáfu engan gaum að því sem var að gerast fyrr en flóðið kom og sópaði þeim öllum burt.+ Þannig verður við nærveru Mannssonarins. 40 Þá verða tveir menn á akri, annar verður tekinn og hinn skilinn eftir. 41 Tvær konur mala í handkvörn, önnur verður tekin og hin skilin eftir.+ 42 Haldið því vöku ykkar. Þið vitið ekki hvaða dag Drottinn ykkar kemur.+

43 En eitt skuluð þið vita: Ef húseigandinn vissi hvenær um nóttina* þjófurinn kæmi+ myndi hann vaka og ekki láta brjótast inn í hús sitt.+ 44 Verið þið sömuleiðis viðbúnir,+ því að Mannssonurinn kemur þegar þið eigið ekki von á því.

45 Hver er eiginlega hinn trúi og skynsami* þjónn sem húsbóndinn hefur sett yfir vinnuhjú sín til að gefa þeim mat á réttum tíma?+ 46 Sá þjónn er glaður ef húsbóndi hans sér hann gera það þegar hann kemur.+ 47 Trúið mér, hann setur hann yfir allar eigur sínar.

48 En ef þjónninn reynist illur og segir í hjarta sínu: ‚Húsbónda mínum seinkar,‘+ 49 og hann fer að berja samþjóna sína og borða og drekka með drykkjumönnum, 50 þá kemur húsbóndi hans á degi sem hann á ekki von á og stund sem hann býst ekki við.+ 51 Hann refsar þá þjóninum harðlega og rekur hann út til hræsnaranna. Þar mun hann gráta og gnísta tönnum.+

25 Himnaríki má líkja við tíu meyjar sem tóku lampa sína+ og fóru út til móts við brúðgumann.+ 2 Fimm voru óskynsamar og fimm skynsamar.*+ 3 Hinar óskynsömu tóku lampa sína en höfðu enga olíu með sér 4 en þær skynsömu tóku með sér olíu á flöskum auk lampanna. 5 Nú tafðist brúðguminn og þær urðu allar syfjaðar og sofnuðu. 6 Um miðja nótt var kallað: ‚Brúðguminn er að koma! Farið á móti honum.‘ 7 Þá stóðu allar meyjarnar á fætur og tóku til lampa sína.+ 8 Óskynsömu meyjarnar sögðu við þær skynsömu: ‚Gefið okkur smá olíu því að það er að slokkna á lömpunum okkar.‘ 9 Hinar skynsömu svöruðu: ‚Þá nægir hún kannski ekki handa okkur öllum. Farið frekar og kaupið ykkur olíu hjá þeim sem selja hana.‘ 10 Meðan þær voru að kaupa olíuna kom brúðguminn. Meyjarnar sem voru viðbúnar fóru með honum inn til brúðkaupsveislunnar+ og dyrunum var lokað. 11 Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: ‚Herra, herra, opnaðu fyrir okkur!‘+ 12 Hann svaraði: ‚Ég segi ykkur eins og er, ég þekki ykkur ekki.‘

13 Haldið því vöku ykkar+ því að þið vitið hvorki daginn né stundina.+

14 Himnaríki má einnig líkja við mann sem ætlaði til útlanda. Hann kallaði á þjóna sína og fól þeim að sjá um eigur sínar.+ 15 Hann fékk einum fimm talentur,* öðrum tvær og þeim þriðja eina, allt eftir hæfni hvers og eins, og fór svo úr landi. 16 Sá sem fékk fimm talentur fór tafarlaust, verslaði með þær og þénaði aðrar fimm. 17 Sá sem fékk tvær gerði slíkt hið sama og þénaði aðrar tvær. 18 En þjónninn sem fékk aðeins eina fór burt, gróf peninga* húsbónda síns í jörð og faldi þá.

19 Löngu síðar kom húsbóndi þjónanna og lét þá gera reikningsskil.+ 20 Sá sem hafði fengið fimm talentur gekk þá fram, færði honum fimm til viðbótar og sagði: ‚Herra, þú trúðir mér fyrir fimm talentum og ég hef þénað fimm í viðbót.‘+ 21 Húsbóndinn sagði við hann: ‚Vel gert, góði og trúi þjónn. Þú varst trúr yfir litlu. Ég set þig yfir mikið.+ Komdu og fagnaðu með húsbónda þínum.‘+ 22 Því næst gekk sá fram sem hafði fengið tvær talentur og sagði: ‚Herra, þú trúðir mér fyrir tveim talentum og ég hef þénað tvær í viðbót.‘+ 23 Húsbóndinn sagði við hann: ‚Vel gert, góði og trúi þjónn. Þú varst trúr yfir litlu. Ég set þig yfir mikið. Komdu og fagnaðu með húsbónda þínum.‘

24 Að lokum gekk þjónninn fram sem hafði fengið eina talentu og sagði: ‚Herra, ég vissi að þú ert kröfuharður maður. Þú uppskerð þar sem þú sáðir ekki og safnar þar sem þú þresktir ekki.+ 25 Ég varð því hræddur og faldi talentuna í jörð. Hér hefurðu það sem þú átt.‘ 26 Húsbóndinn svaraði honum: ‚Illi og lati þjónn, þú vissir sem sagt að ég uppsker þar sem ég sáði ekki og safna þar sem ég þreskti ekki. 27 Þú hefðir því átt að leggja fé* mitt í banka. Þá hefði ég fengið það aftur með vöxtum þegar ég kom.

28 Takið talentuna af honum og gefið þeim sem hefur tíu talentur+ 29 því að hverjum sem hefur verður gefið meira og hann mun hafa gnægð. En frá þeim sem hefur ekki verður tekið jafnvel það litla sem hann hefur.+ 30 Kastið nú þessum einskis nýta þjóni út í myrkrið fyrir utan. Þar mun hann gráta og gnísta tönnum.‘

31 Þegar Mannssonurinn+ kemur í dýrð sinni og allir englarnir með honum+ sest hann í dýrðarhásæti sitt. 32 Allar þjóðir safnast saman frammi fyrir honum og hann skilur fólk hvað frá öðru eins og hirðir skilur sauði frá geitum. 33 Hann lætur sauðina+ vera sér til hægri handar en geiturnar til vinstri.+

34 Þá segir konungurinn við þá sem eru honum á hægri hönd: ‚Komið, þið sem faðir minn hefur blessað, og takið við ríkinu sem ykkur var ætlað frá grundvöllun heims. 35 Ég var svangur og þið gáfuð mér að borða, þyrstur og þið gáfuð mér að drekka. Ég var ókunnugur og þið sýnduð mér gestrisni,+ 36 nakinn* og þið klædduð mig.+ Ég var veikur og þið önnuðust mig. Ég var í fangelsi og þið heimsóttuð mig.‘+ 37 Þá svara hinir réttlátu: ‚Drottinn, hvenær sáum við þig svangan og gáfum þér að borða eða þyrstan og gáfum þér að drekka?+ 38 Hvenær sáum við þig ókunnugan og sýndum þér gestrisni eða nakinn og klæddum þig? 39 Hvenær sáum við þig veikan eða í fangelsi og heimsóttum þig?‘ 40 Þá svarar konungurinn þeim: ‚Trúið mér, allt sem þið gerðuð fyrir einn minna minnstu bræðra gerðuð þið fyrir mig.‘+

41 Síðan segir hann við þá sem eru honum á vinstri hönd: ‚Farið frá mér,+ þið sem eruð bölvaðir, í hinn eilífa eld+ sem bíður Djöfulsins og engla hans.+ 42 Ég var svangur en þið gáfuð mér ekkert að borða og þyrstur en þið gáfuð mér ekkert að drekka. 43 Ég var ókunnugur en þið sýnduð mér ekki gestrisni, nakinn en þið klædduð mig ekki, veikur og í fangelsi en þið önnuðust mig ekki.‘ 44 Þá svara þeir líka: ‚Drottinn, hvenær sáum við þig svangan eða þyrstan, ókunnugan eða nakinn, veikan eða í fangelsi og hjálpuðum þér ekki?‘ 45 Þá svarar hann þeim: ‚Trúið mér, allt sem þið gerðuð ekki fyrir einn þessara minnstu gerðuð þið ekki heldur fyrir mig.‘+ 46 Þeirra bíður eilífur dauði*+ en hinir réttlátu hljóta eilíft líf.“+

26 Eftir að Jesús hafði sagt allt þetta sagði hann við lærisveina sína: 2 „Þið vitið að eftir tvo daga eru páskar+ og þá verður Mannssonurinn framseldur til staurfestingar.“+

3 Nú komu yfirprestarnir og öldungarnir saman í húsagarði æðstaprestsins, sem hét Kaífas,+ 4 og lögðu á ráðin+ um að ná Jesú með brögðum og taka hann af lífi. 5 En þeir sögðu: „Ekki á hátíðinni svo að það verði ekki uppþot meðal fólksins.“

6 Jesús var staddur í Betaníu heima hjá Símoni holdsveika+ 7 þegar kona kom til hans með dýra ilmolíu í alabastursflösku. Hún hellti olíunni á höfuð hans meðan hann var að borða.* 8 Þegar lærisveinarnir sáu þetta hneyksluðust þeir og sögðu: „Af hverju sóar hún olíunni svona? 9 Það hefði mátt selja hana fyrir mikið fé og gefa fátækum.“ 10 Jesús varð var við þetta og sagði við þá: „Hvers vegna eruð þið að angra konuna? Það var fallegt af henni að gera þetta fyrir mig. 11 Þið hafið fátæka alltaf hjá ykkur+ en mig hafið þið ekki alltaf.+ 12 Þegar hún smurði líkama minn með þessari ilmolíu var hún að búa hann til greftrunar.+ 13 Trúið mér, um allan heim þar sem fagnaðarboðskapurinn verður boðaður verður einnig sagt frá því sem þessi kona gerði, til minningar um hana.“+

14 Nú fór einn þeirra tólf, sá sem hét Júdas Ískaríot,+ til yfirprestanna+ 15 og sagði: „Hvað viljið þið gefa mér fyrir að svíkja hann í hendur ykkar?“+ Þeir buðu honum 30 silfurpeninga.+ 16 Upp frá því leitaði hann að hentugu tækifæri til að svíkja Jesú.

17 Á fyrsta degi hátíðar ósýrðu brauðanna+ komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu: „Hvar viltu að við undirbúum páskamáltíðina handa þér?“+ 18 Hann sagði: „Farið inn í borgina til ákveðins manns og segið við hann: ‚Kennarinn segir: „Minn tími er í nánd. Ég vil halda páska með lærisveinum mínum heima hjá þér.“‘“ 19 Lærisveinarnir gerðu eins og Jesús sagði þeim og undirbjuggu páskamáltíðina.

20 Um kvöldið+ lá hann til borðs með lærisveinunum 12.+ 21 Meðan þeir voru að borða sagði hann: „Trúið mér, einn ykkar mun svíkja mig.“+ 22 Þeir urðu mjög hryggir yfir þessu og sögðu við hann hver af öðrum: „Drottinn, er það nokkuð ég?“ 23 Hann svaraði: „Sá sem dýfir brauðinu í skálina með mér er sá sem svíkur mig.+ 24 Mannssonurinn fer reyndar burt eins og skrifað er um hann en illa fer fyrir+ þeim sem svíkur hann.+ Það hefði verið betra fyrir þann mann að hafa aldrei fæðst.“+ 25 Júdas, sem var í þann mund að svíkja hann, sagði: „Er það nokkuð ég, rabbí?“ Jesús svaraði: „Þú sagðir það sjálfur.“

26 Þeir héldu áfram að borða og Jesús tók þá brauð og fór með bæn. Hann braut það,+ gaf lærisveinunum og sagði: „Takið þetta og borðið. Það táknar líkama minn.“+ 27 Hann tók síðan bikar, fór með þakkarbæn, rétti þeim hann og sagði: „Drekkið allir af honum+ 28 því að þetta táknar blóð mitt,+ ‚blóð sáttmálans‘,+ sem verður úthellt í þágu margra+ til að þeir fái syndir sínar fyrirgefnar.+ 29 En ég segi ykkur: Ég mun alls ekki drekka aftur af ávexti vínviðarins fyrr en daginn sem ég drekk nýtt vín með ykkur í ríki föður míns.“+ 30 Að lokum, eftir að hafa sungið lofsöngva,* fóru þeir til Olíufjallsins.+

31 Jesús sagði nú við þá: „Í nótt munuð þið allir hrasa og falla vegna þess sem kemur fyrir mig því að skrifað er: ‚Ég slæ hirðinn og sauðir hjarðarinnar tvístrast.‘+ 32 En eftir að ég hef verið reistur upp fer ég á undan ykkur til Galíleu.“+ 33 Pétur sagði þá við hann: „Þó að allir hinir hrasi og falli vegna þess sem kemur fyrir þig geri ég það aldrei!“+ 34 Jesús svaraði honum: „Trúðu mér, í nótt, áður en hani galar, muntu afneita mér þrisvar.“+ 35 Pétur sagði við hann: „Jafnvel þótt ég þyrfti að deyja með þér myndi ég aldrei afneita þér.“+ Allir hinir lærisveinarnir sögðu það sama.

36 Jesús kom nú ásamt lærisveinunum til staðar sem heitir Getsemane+ og sagði við þá: „Setjist hérna meðan ég fer og biðst fyrir þarna.“+ 37 Hann tók með sér Pétur og báða syni Sebedeusar. Hann varð hryggur og angistarfullur+ 38 og sagði við þá: „Ég er yfirkominn af harmi.* Bíðið hér og vakið með mér.“+ 39 Hann fór spölkorn frá þeim, féll á grúfu og bað:+ „Faðir minn, ef hægt er, viltu láta þennan bikar+ fara fram hjá mér? En verði þó ekki eins og ég vil heldur eins og þú vilt.“+

40 Hann kom aftur til lærisveinanna og fann þá sofandi. Hann sagði við Pétur: „Gátuð þið ekki einu sinni vakað með mér eina stund?+ 41 Vakið+ og biðjið stöðugt+ svo að þið fallið ekki í freistni.+ Andinn er ákafur* en holdið er veikt.“+ 42 Hann fór burt í annað sinn og bað: „Faðir minn, ef ekki verður hjá því komist að ég drekki þennan bikar, þá verði þinn vilji.“+ 43 Þegar hann kom til baka fann hann þá sofandi því að þeir gátu ekki haldið augunum opnum. 44 Hann fór nú aftur frá þeim og baðst fyrir í þriðja sinn með sömu orðum og áður. 45 Síðan sneri hann aftur til lærisveinanna og sagði við þá: „Þið sofið og hvílið ykkur á stund sem þessari. Mannssonurinn verður rétt bráðum svikinn í hendur syndara. 46 Standið upp, förum. Sá sem svíkur mig er að koma.“ 47 Meðan hann var enn að tala kom Júdas, einn þeirra tólf, og með honum mikill fjöldi manna með sverð og barefli, en yfirprestarnir og öldungarnir höfðu sent þá.+

48 Svikarinn hafði sagst ætla að gefa þeim merki: „Sá sem ég kyssi er maðurinn. Handtakið hann.“ 49 Hann gekk rakleiðis til Jesú og sagði: „Sæll, rabbí!“ og kyssti hann blíðlega. 50 En Jesús sagði við hann: „Í hvaða tilgangi ertu hér?“+ Þá gengu hinir fram, gripu Jesú og tóku hann höndum. 51 En einn þeirra sem voru með Jesú greip sverð sitt og dró það úr slíðrum, hjó til þjóns æðstaprestsins og sneið af honum eyrað.+ 52 Þá sagði Jesús við hann: „Stingdu sverðinu aftur í slíðrin+ því að allir sem bregða sverði munu falla fyrir sverði.+ 53 Eða heldurðu að ég geti ekki beðið föður minn að senda mér tafarlaust meira en 12 hersveitir engla?+ 54 En hvernig ættu þá Ritningarnar að rætast sem segja að þetta eigi að gerast með þessum hætti?“ 55 Jesús sagði nú við mannfjöldann: „Komuð þið til að handtaka mig með sverðum og bareflum eins og ég væri ræningi? Ég sat í musterinu dag eftir dag og kenndi+ og samt handtókuð þið mig ekki.+ 56 En allt þetta hefur átt sér stað til að ritningar* spámannanna rætist.“+ Þá yfirgáfu allir lærisveinarnir hann og flúðu.+

57 Þeir sem handtóku Jesú fóru með hann til Kaífasar+ æðstaprests en þar höfðu fræðimennirnir og öldungarnir safnast saman.+ 58 Pétur fylgdi honum í nokkurri fjarlægð alla leið að húsagarði æðstaprestsins. Þar gekk hann inn og settist hjá þjónustufólkinu til að sjá hvernig færi.+

59 Yfirprestarnir og allt Æðstaráðið leituðu nú að mönnum til að bera ljúgvitni gegn Jesú og fá hann líflátinn+ 60 en fundu ekkert þó að mörg ljúgvitni gengju fram.+ Að lokum komu tveir menn 61 og sögðu: „Þessi maður sagði: ‚Ég get rifið niður musteri Guðs og reist það aftur á þrem dögum.‘“+ 62 Þá stóð æðstipresturinn upp og sagði við hann: „Svararðu engu? Heyrirðu ekki hvernig þessir menn vitna gegn þér?“+ 63 En Jesús þagði.+ Æðstipresturinn sagði þá: „Sverðu mér eið við hinn lifandi Guð og segðu okkur hvort þú sért Kristur, sonur Guðs.“+ 64 Jesús svaraði honum: „Þú sagðir það sjálfur. En ég segi ykkur: Héðan í frá munuð þið sjá Mannssoninn+ sitja við hægri hönd máttarins*+ og koma á skýjum himins.“+ 65 Þá reif æðstipresturinn yfirhöfn sína og sagði: „Hann guðlastar! Þurfum við nokkuð fleiri vitni? Þið hafið heyrt guðlastið. 66 Hvað sýnist ykkur?“ Þeir svöruðu: „Hann er dauðasekur.“+ 67 Þá hræktu þeir framan í hann+ og slógu hann með hnefunum.+ Aðrir löðrunguðu hann+ 68 og sögðu: „Sýndu okkur að þú sért spámaður, Kristur. Hver sló þig?“

69 Pétur sat úti í húsagarðinum. Þá kom þjónustustúlka til hans og sagði: „Þú varst líka með Jesú frá Galíleu.“+ 70 En hann neitaði því frammi fyrir öllum og sagði: „Ég veit ekki hvað þú ert að tala um.“ 71 Hann gekk að fordyrinu en þá tók önnur stúlka eftir honum og sagði við þá sem voru þar: „Þessi maður var með Jesú frá Nasaret.“+ 72 Hann neitaði því aftur og sór: „Ég þekki ekki manninn!“ 73 Skömmu seinna komu þeir sem stóðu þar nærri og sögðu við Pétur: „Víst ertu einn af þeim enda kemur mállýskan* upp um þig.“ 74 Þá formælti hann sjálfum sér* og sór: „Ég þekki ekki manninn!“ Um leið galaði hani. 75 Nú rifjaðist upp fyrir Pétri það sem Jesús hafði sagt: „Áður en hani galar muntu afneita mér þrisvar.“+ Og hann gekk út og grét beisklega.

27 Um morguninn báru allir yfirprestarnir og öldungarnir saman ráð sín um hvernig þeir gætu fengið Jesú líflátinn.+ 2 Síðan bundu þeir hann, leiddu hann burt og afhentu hann Pílatusi landstjóra.+

3 Þegar Júdas, sem sveik Jesú, sá að hann hafði verið dæmdur fylltist hann sektarkennd og kom til yfirprestanna og öldunganna til að skila silfurpeningunum 30.+ 4 Hann sagði: „Ég hef syndgað og svikið saklaust blóð.“ Þeir svöruðu: „Hvað kemur það okkur við? Það er þitt mál.“ 5 Hann kastaði þá silfurpeningunum inn í musterið og fór síðan og hengdi sig.+ 6 En yfirprestarnir tóku silfurpeningana og sögðu: „Við megum ekki láta þá í hina helgu fjárhirslu því að þetta eru blóðpeningar.“ 7 Þeir ræddu málið og keyptu síðan fyrir peningana akur leirkerasmiðsins til að nota sem grafreit fyrir aðkomumenn. 8 Þess vegna hefur akurinn verið kallaður Blóðreitur+ allt fram á þennan dag. 9 Þannig rættist það sem Jeremía spámaður sagði: „Þeir tóku silfurpeningana 30, verðið sem Ísraelsmenn mátu hann á, 10 og keyptu fyrir þá akur leirkerasmiðsins eins og Jehóva* hafði sagt mér að gera.“+

11 Jesús stóð nú frammi fyrir landstjóranum sem spurði hann: „Ertu konungur Gyðinga?“ Jesús svaraði: „Þú segir það sjálfur.“+ 12 En meðan yfirprestarnir og öldungarnir ákærðu hann svaraði hann engu.+ 13 Pílatus sagði þá við hann: „Heyrirðu ekki hve margt þeir ásaka þig um?“ 14 En Jesús svaraði ekki einu orði, landstjóranum til mikillar undrunar.

15 Á hverri hátíð var landstjórinn vanur að láta lausan einn fanga, hvern sem fólkið vildi fá.+ 16 Um þessar mundir var í haldi illræmdur fangi að nafni Barabbas. 17 Pílatus sagði því við mannfjöldann sem var samankominn: „Hvorn viljið þið að ég láti lausan, Barabbas eða Jesú sem er kallaður Kristur?“ 18 Pílatusi var ljóst að það var vegna öfundar sem þeir höfðu framselt hann. 19 Þar að auki sendi kona hans honum þessi boð meðan hann sat í dómarasætinu: „Láttu þennan réttláta mann í friði því að mér hefur liðið skelfilega í dag út af draumi sem tengist honum.“ 20 En yfirprestarnir og öldungarnir fengu mannfjöldann til að biðja um Barabbas+ en að fá Jesú tekinn af lífi.+ 21 Landstjórinn spurði fólkið: „Hvorn þeirra tveggja viljið þið að ég láti lausan?“ „Barabbas,“ svaraði fólkið. 22 Pílatus spurði þá: „Hvað á ég þá að gera við Jesú sem er kallaður Kristur?“ „Staurfestu hann!“ hrópuðu allir.+ 23 „Af hverju?“ spurði hann. „Hvað hefur hann brotið af sér?“ En fólkið hrópaði bara enn hærra: „Staurfestu hann!“+

24 Pílatus sá að hann fékk ekki við neitt ráðið og að uppþot var í aðsigi. Hann tók þá vatn, þvoði hendur sínar frammi fyrir mannfjöldanum og sagði: „Ég er saklaus af blóði þessa manns. Þið verðið að bera ábyrgðina.“ 25 Þá svaraði allt fólkið: „Blóð hans komi yfir okkur og yfir börn okkar.“+ 26 Hann lét þá Barabbas lausan en lét húðstrýkja Jesú+ og framseldi hann til staurfestingar.+

27 Hermenn landstjórans fóru nú með Jesú inn í höll landstjórans og söfnuðu allri hersveitinni saman í kringum hann.+ 28 Þeir afklæddu hann og sveipuðu um hann skarlatsrauðri skikkju,+ 29 fléttuðu þyrnikórónu og settu á höfuð hans og létu reyrstaf í hægri hönd hans. Þeir krupu síðan á kné fyrir honum, gerðu gys að honum og sögðu: „Lengi lifi* konungur Gyðinga!“ 30 Þeir hræktu á hann,+ tóku reyrstafinn og slógu hann í höfuðið. 31 Að lokum, eftir að hafa hæðst að honum, klæddu þeir hann úr skikkjunni og í hans eigin föt og leiddu hann burt til að staurfesta hann.+

32 Á leiðinni út hittu þeir mann sem hét Símon og var frá Kýrene. Þeir þvinguðu hann til þjónustu og létu hann bera kvalastaurinn.*+ 33 Þegar þeir komu á stað sem heitir Golgata, það er að segja Hauskúpustaður,+ 34 gáfu þeir Jesú vín blandað beiskum jurtum.+ Hann bragðaði á því en vildi ekki drekka það. 35 Eftir að hafa staurfest hann skiptu þeir fötum hans á milli sín með hlutkesti+ 36 og sátu svo þar og gættu hans. 37 Þeir festu yfir höfði hans sakargiftina á hendur honum. Þar stóð: „Þetta er Jesús konungur Gyðinga.“+

38 Síðan staurfestu þeir tvo ræningja með honum, annan til hægri og hinn til vinstri.+ 39 Þeir sem áttu leið hjá gerðu gys að honum,+ hristu höfuðið+ 40 og sögðu: „Þú sem ætlaðir að rífa musterið og endurreisa það á þrem dögum,+ bjargaðu nú sjálfum þér! Ef þú ert sonur Guðs komdu þá niður af kvalastaurnum!“*+ 41 Yfirprestarnir, fræðimennirnir og öldungarnir hæddu hann á sama hátt og sögðu:+ 42 „Öðrum bjargaði hann en sjálfum sér getur hann ekki bjargað! Hann er konungur Ísraels.+ Nú ætti hann að koma niður af kvalastaurnum* og þá skulum við trúa á hann. 43 Hann treystir á Guð. Nú ætti Guð að bjarga honum ef honum er annt um hann.+ Sagði hann ekki: ‚Ég er sonur Guðs‘?“+ 44 Jafnvel ræningjarnir sem voru staurfestir með honum smánuðu hann á sama hátt.+

45 Frá sjöttu stund* varð myrkur í öllu landinu og það stóð fram á níundu stund.*+ 46 Um níundu stund hrópaði Jesús hárri röddu: „Elí, Elí, lama sabaktaní?“ sem þýðir: ‚Guð minn, Guð minn, hvers vegna hefurðu yfirgefið mig?‘+ 47 Sumir nærstaddir sögðu þegar þeir heyrðu þetta: „Maðurinn kallar á Elía.“+ 48 Einn þeirra hljóp strax til, tók svamp, dýfði honum í súrt vín, stakk á reyrstaf og gaf honum að drekka.+ 49 En hinir sögðu: „Látum hann vera. Sjáum hvort Elía kemur og bjargar honum.“ 50 Jesús kallaði aftur hárri röddu og gaf upp andann.+

51 Þá rifnaði fortjald musterisins+ í tvennt,+ ofan frá og niður úr,+ og jörðin skalf og björgin klofnuðu. 52 Grafirnar opnuðust og lík margra hinna heilögu blöstu við* 53 og margir sáu þau. (Eftir að Jesús var risinn upp kom fólk sem hafði verið hjá gröfunum inn í borgina helgu.) 54 Þegar liðsforinginn og þeir sem gættu Jesú ásamt honum sáu jarðskjálftann og þessa atburði urðu þeir mjög hræddir og sögðu: „Hann var sannarlega sonur Guðs.“+

55 Margar konur voru þar og horfðu á úr fjarlægð en þær höfðu fylgt Jesú frá Galíleu og þjónað honum.+ 56 Meðal þeirra voru María Magdalena, María, móðir þeirra Jakobs og Jóse, og móðir Sebedeussona.+

57 Nú var áliðið dags og kom þá ríkur maður frá Arímaþeu, Jósef að nafni, en hann var einnig orðinn lærisveinn Jesú.+ 58 Hann fór til Pílatusar og bað um lík Jesú.+ Pílatus skipaði þá svo fyrir að Jósef fengi það.+ 59 Jósef tók líkið, vafði það í hreinan dúk úr fínu líni+ 60 og lagði það í nýja gröf+ sem hann hafði látið höggva í klett. Hann velti síðan stórum steini fyrir grafarmunnann og fór. 61 En María Magdalena og María hin sátu áfram hjá gröfinni.+

62 Næsta dag, daginn eftir undirbúningsdag,*+ söfnuðust yfirprestarnir og farísearnir saman hjá Pílatusi 63 og sögðu: „Herra, það rifjaðist upp fyrir okkur að þessi svikari sagði meðan hann var á lífi: ‚Eftir þrjá daga verð ég reistur upp.‘+ 64 Viltu því skipa svo fyrir að grafarinnar verði tryggilega gætt fram á þriðja dag til að lærisveinar hans komi ekki og steli líkinu+ og segi svo fólki: ‚Hann var reistur upp frá dauðum.‘ Þá yrði síðari blekkingin verri en hin fyrri.“ 65 Pílatus svaraði: „Þið skuluð fá varðmenn. Farið og gangið eins tryggilega frá gröfinni og þið getið.“ 66 Þeir fóru því og gengu tryggilega frá gröfinni með því að innsigla steininn og settu varðmenn til að gæta hennar.

28 Eftir hvíldardaginn, þegar birti af fyrsta degi vikunnar, komu María Magdalena og María hin til að líta á gröfina.+

2 Mikill jarðskjálfti hafði orðið því að engill Jehóva* hafði stigið niður af himni og velt steininum frá og sat nú á honum.+ 3 Hann ljómaði eins og elding og fötin voru snjóhvít.+ 4 Varðmennirnir skulfu af hræðslu þegar þeir sáu hann og voru lamaðir af ótta.

5 En engillinn sagði við konurnar: „Verið óhræddar. Ég veit að þið eruð að leita að Jesú sem var staurfestur.+ 6 Hann er ekki hér því að hann hefur verið reistur upp eins og hann sagði.+ Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. 7 Farið síðan sem skjótast og segið lærisveinunum að hann sé risinn upp frá dauðum. Hann fer á undan ykkur til Galíleu+ og þar fáið þið að sjá hann. Munið hvað ég hef sagt ykkur.“+

8 Þær flýttu sér þá burt frá gröfinni,* óttaslegnar en mjög glaðar, og hlupu af stað til að færa lærisveinunum fréttirnar.+ 9 Jesús kom á móti þeim og sagði: „Sælar!“ Þær fóru til hans, féllu fram fyrir honum, gripu um fætur hans og veittu honum lotningu. 10 Jesús sagði þá við þær: „Verið óhræddar. Farið og segið bræðrum mínum frá svo að þeir fari til Galíleu. Þar munu þeir sjá mig.“

11 Meðan þær voru á leiðinni fóru nokkrir af varðmönnunum+ inn í borgina og sögðu yfirprestunum frá öllu sem hafði gerst. 12 Yfirprestarnir söfnuðust þá saman ásamt öldungunum og báru saman ráð sín. Þeir gáfu síðan hermönnunum talsvert fé* 13 og sögðu: „Segið að lærisveinar hans hafi komið að næturlagi og stolið honum meðan þið sváfuð.+ 14 Og ef landstjórinn fréttir þetta skulum við útskýra málið fyrir honum.* Hafið engar áhyggjur.“ 15 Þeir tóku þá við fénu og gerðu eins og þeim var sagt. Þessi saga hefur verið borin út meðal Gyðinga allt fram á þennan dag.

16 En lærisveinarnir 11 fóru til Galíleu,+ til fjallsins þar sem Jesús hafði sagt að þeir skyldu hittast.+ 17 Þegar þeir sáu hann veittu þeir honum lotningu* en sumir efuðust. 18 Jesús gekk til þeirra og sagði: „Mér hefur verið gefið allt vald á himni og jörð.+ 19 Farið því og gerið fólk af öllum þjóðum+ að lærisveinum, skírið það+ í nafni föðurins, sonarins og heilags anda 20 og kennið því að halda öll fyrirmæli mín.+ Og munið að ég er með ykkur alla daga allt þar til þessi heimsskipan* endar.“+

Eða „rekur ættartölu“.

Eða „Messíasar; hins smurða“.

Eða „kraftar Guðs“.

Hjá Gyðingum var sú hefð að unnusti væri kallaður eiginmaður.

Þetta er fyrsti staðurinn af 237 þar sem nafn Guðs, Jehóva, stendur í Grísku ritningunum í þessari biblíuútgáfu. Sjá viðauka A5.

Samsvarar hebreska nafninu Jesúa eða Jósúa sem merkir ‚Jehóva er hjálpræði‘.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Sjá orðaskýringar.

Eða „krjúpa fyrir honum“.

Eða „Messías; hinn smurði“.

Eða „krupu fyrir því“.

Eða „hvítt reykelsi“.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Eða „sál“.

Líklega dregið af hebresku orði sem merkir ‚sproti‘.

Sjá viðauka A5.

Eða „skírði það niðurdýfingarskírn“.

Eða „Sýnið í verki“.

Áhald sem var notað til að skilja hismið frá korninu.

Sjá viðauka A5.

Eða „brjóstrið; efstu brún“.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Sennilega Miðjarðarhaf en samkvæmt sumum heimildum Galíleuvatn.

Eða „Tíuborgasvæðinu“.

Eða „Þeir sem betla andann; Þeir sem skilja að þeir þarfnast Guðs“.

Eða „mildu“.

Eða „Hinir friðsömu“.

Orðrétt „synir“.

Eða „mæliker“.

Þegar talað er um „lögin og spámennina“ er átt við Hebresku ritningarnar í heild.

Orðrétt „kallaður minnstur í himnaríki“.

Orðrétt „kallaður mikill í himnaríki“.

Sjá orðaskýringar.

Sjá orðaskýringar.

Staður fyrir utan Jerúsalem þar sem sorp var brennt. Sjá orðaskýringar.

Orðrétt „síðasta kvadransinn“. Sjá viðauka B14.

Sjá orðaskýringar.

Sjá orðaskýringar.

Á grísku pornei′a. Sjá orðaskýringar.

Sjá viðauka A5.

Eða „þvingar þig til þjónustu“.

Sjá viðauka B14.

Það er, vaxtalaust lán.

Orðrétt „synir“.

Eða „gefur miskunnargjafir“. Sjá orðaskýringar.

Eða „verði upphafið; verði virt sem heilagt“.

Eða „Leyfðu ekki að við látum undan freistingu“.

Eða „bjargaðu“.

Eða „hirða ekki um útlitið“.

Eða „beinist að einu“. Orðrétt „er einfalt“.

Eða „upplýstur“.

Orðrétt „illt“.

Sjá viðauka B14.

Eða „veitti honum lotningu“.

Eða „liggja“.

Eða „bröttum bakkanum“.

Það er, Kapernaúm þar sem hann dvaldist oft á ferðum sínum um Galíleu.

Eða „lá til borðs“.

Eða „lágu til borðs“.

Eða „sýndi honum lotningu“.

Eða „hinn kappsami“.

Orðrétt „tvo kyrtla“.

Orðrétt „Lærisveini nægir að verða eins og kennari hans og þjóni eins og húsbóndi hans“.

Heiti sem er notað um Satan, höfðingja eða drottnara illra anda.

Eða „lífið“, það er, möguleikann á lífi í framtíðinni.

Sjá orðaskýringar.

Orðrétt „assaríon“. Sjá viðauka B14.

Sjá orðaskýringar.

Eða „mjúkum“.

Eða „börðuð ykkur ekki á brjóst“.

Eða „réttlætist af árangrinum“.

Eða „Hades“, það er, sameiginlega gröf mannkyns. Sjá orðaskýringar.

Eða „sál ykkar“.

Eða „auðvelt að bera“.

Eða „lamaða“.

Eða „sál mín hefur“.

Heiti sem er notað um Satan.

Orðrétt „sonum“.

Eða „á þessari öld“. Sjá orðaskýringar, „heimsskipan“.

Eða „skaðlegt“.

Eða „þessarar aldar“. Sjá orðaskýringar, „heimsskipan“.

Eða hugsanl. „grundvöllun heims“.

Eða „aldar“. Sjá orðaskýringar.

Eða „aldar“. Sjá orðaskýringar.

Eða „aldar“. Sjá orðaskýringar.

Orðrétt „sjóði sínum“.

Það er, Heródes Antípas. Sjá orðaskýringar.

Orðrétt „fjórðungsstjóri; tetrarki“.

Eða „þeirra sem lágu til borðs með honum“.

Orðrétt „mörg skeiðrúm“. Skeiðrúm var 185 m.

Það er, um kl. 3 til sólarupprásar um kl. 6.

Eða „féllu til fóta honum“.

Það er, þvo sér eftir helgisiðareglum Gyðinga.

Fleirtala gríska orðsins pornei′a. Sjá orðaskýringar.

Það er, ekki þvegnum eftir helgisiðareglum Gyðinga.

Eða „veitti honum lotningu“.

Eða „fastandi“.

Orðrétt „hold og blóð“.

Eða „máttur dauðans“. Orðrétt „hlið Hadesar“. Sjá orðaskýringar.

Orðrétt „Farðu aftur fyrir mig“.

Sjá orðaskýringar.

Eða „hvít“.

Sjá viðauka A3.

Orðrétt „tvídrökmuna“. Sjá viðauka B14.

Það er, nefskatt.

Orðrétt „stater“. Sennilega er átt við fjórdrökmuna. Sjá viðauka B14.

Orðrétt „snúið við“.

Eða „með myllustein sem snúið er af asna“.

Sjá orðaskýringar.

Eða „hafa alltaf aðgang að föður mínum á himnum“.

Sjá viðauka A3.

Eða hugsanl. „ykkar“.

Orðrétt „og ávíta hann einslega“.

10.000 silfurtalentur jafngiltu 60 milljónum denara. Sjá viðauka B14.

Eða „kraup fyrir honum“.

Sjá viðauka B14.

Eða „landamærum“.

Orðrétt „eitt hold“.

Orðrétt „eitt hold“.

Á grísku pornei′a. Sjá orðaskýringar.

Orðrétt „fæddir geldingar“.

Orðrétt „gera sig að geldingum“.

Eða „endurskapað“.

Sjá viðauka B14.

Það er, um kl. 9.

Það er, um kl. 12.

Það er, um kl. 15.

Það er, um kl. 17.

Sjá viðauka B14.

Sjá viðauka B14.

Sjá viðauka B14.

Orðrétt „er auga þitt illt“.

Eða „góður“.

Eða „veitti honum lotningu“.

Orðrétt „Hósanna“.

Sjá viðauka A5.

Orðrétt „efsta hluta hornsins“.

Sjá viðauka A5.

Eða „þeim sem lágu til borðs“.

Eða „rétt“.

Það er, nefskatt.

Sjá viðauka B14.

Sjá viðauka A5.

Sjá orðaskýringar.

Sjá viðauka A5.

Eða „bestu“.

Sem þýðir ‚kennari‘.

Sjá viðauka A3.

Sjá orðaskýringar.

Eða „ránsfengs“.

Eða „minningargrafir“.

Orðrétt „Fyllið þá mæli forfeðra ykkar“.

Sjá orðaskýringar.

Eða hugsanl. „og lagt í eyði“.

Sjá viðauka A5.

Sjá orðaskýringar, „nærvera“.

Eða „aldar“. Sjá orðaskýringar.

Eða „hörmunganna; þjáninganna“.

Sjá orðaskýringar.

Orðrétt „allir ættbálkar“.

Orðrétt „frá vindunum“.

Sjá orðaskýringar.

Eða „á hvaða næturvöku“.

Eða „hyggni“.

Eða „hyggnar“.

Grísk talenta jafngilti 20,4 kg. Sjá viðauka B14.

Orðrétt „silfur“.

Orðrétt „silfur“.

Eða „illa klæddur“.

Orðrétt „Þeir verða sniðnir af að eilífu“.

Eða „lá til borðs“.

Eða „sálma“.

Eða „Sál mín er hrygg allt til dauða“.

Eða „reiðubúinn“.

Eða „rit“.

Eða „Hins máttuga“.

Eða „hreimurinn“.

Pétur er greinilega að lýsa yfir að eitthvað slæmt kæmi fyrir sig ef hann segði ekki satt.

Sjá viðauka A5.

Eða „Heill þér“.

Sjá orðaskýringar.

Sjá orðaskýringar.

Sjá orðaskýringar.

Það er, um kl. 12.

Það er, um kl. 15.

Orðrétt „risu upp“.

Sjá orðaskýringar.

Sjá viðauka A5.

Eða „minningargröfinni“.

Eða „talsvert af silfurpeningum“.

Orðrétt „tala hann til“.

Eða „krupu þeir fyrir honum“.

Eða „öld“. Sjá orðaskýringar.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila