Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • nwt Lúkas 1:1-24:53
  • Lúkas

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Lúkas
  • Biblían – Nýheimsþýðingin
Biblían – Nýheimsþýðingin
Lúkas

LÚKAS SEGIR FRÁ

1 Margir hafa tekið sér fyrir hendur að rekja sögu þeirra atburða sem við trúum staðfastlega.+ 2 Hún kemur heim og saman við frásögn þeirra sem voru sjónarvottar+ að atburðunum allt frá upphafi og boða boðskapinn.+ 3 Nú hef ég athugað allt þetta gaumgæfilega frá upphafi og ákvað því einnig að skrifa samfellda sögu handa þér, göfugi Þeófílus.+ 4 Þannig geturðu fullvissað þig um að það sem þú hefur lært af munni annarra sé áreiðanlegt.+

5 Á dögum Heródesar,*+ konungs í Júdeu, var uppi prestur að nafni Sakaría en hann var af flokki Abía.+ Kona hans var af ætt Arons og hét Elísabet. 6 Þau voru bæði réttlát og lifðu óaðfinnanlega eftir öllum boðorðum og lögum Jehóva* Guðs. 7 En þau voru barnlaus þar sem Elísabet gat ekki eignast börn og þau voru bæði orðin gömul.

8 Eitt sinn þegar Sakaría gegndi prestsþjónustu frammi fyrir Guði ásamt flokki sínum+ 9 kom röðin að honum, samkvæmt venju prestdómsins, að ganga inn í helgidóm Jehóva*+ og fórna reykelsi.+ 10 Allur mannfjöldinn var fyrir utan og baðst fyrir meðan reykelsisfórnin var færð. 11 Engill Jehóva* birtist honum og stóð hægra megin við reykelsisaltarið. 12 Sakaría brá við að sjá hann og varð skelfingu lostinn. 13 En engillinn sagði við hann: „Vertu óhræddur, Sakaría, því að Guð hefur heyrt auðmjúka bæn þína. Elísabet kona þín mun fæða þér son og þú skalt láta hann heita Jóhannes.+ 14 Þú munt fagna og gleðjast ákaflega og margir munu fagna fæðingu hans+ 15 því að hann verður mikill í augum Jehóva.*+ En hann má hvorki drekka vín né nokkurn áfengan drykk.+ Hann mun fyllast heilögum anda jafnvel fyrir fæðingu*+ 16 og snúa mörgum sonum Ísraels aftur til Jehóva* Guðs þeirra.+ 17 Hann mun einnig ganga á undan honum* í anda og krafti Elía+ til að gera hjörtu feðra eins og hjörtu barna*+ og hjálpa óhlýðnum að breyta viturlega eins og hinir réttlátu. Þannig undirbýr hann fólk svo að það sé tilbúið að þjóna Jehóva.“*+

18 Sakaría sagði við engilinn: „Hvernig get ég treyst þessu? Ég er orðinn gamall og konan mín sömuleiðis.“ 19 Engillinn svaraði: „Ég er Gabríel+ sem stend frammi fyrir Guði+ og ég var sendur til að tala við þig og flytja þér þessa gleðifrétt. 20 En þú verður mállaus og getur ekki talað fyrr en daginn sem þetta kemur fram því að þú trúðir ekki orðum mínum. Þau munu rætast á tilsettum tíma.“ 21 Meðan á þessu stóð beið fólkið eftir Sakaría og var hissa hve lengi hann var inni í helgidóminum. 22 Þegar hann kom út gat hann ekki talað og fólkinu var ljóst að hann hafði séð yfirnáttúrulega sýn í helgidóminum. Hann tjáði sig með bendingum en var áfram mállaus. 23 Þegar þjónustudagar hans voru á enda fór hann heim til sín.

24 Nokkrum dögum síðar varð Elísabet kona hans barnshafandi. Hún hélt sig heima fyrir í fimm mánuði og sagði: 25 „Þetta hefur Jehóva* gert fyrir mig. Hann hefur gefið mér gaum og afmáð skömm mína meðal manna.“+

26 Þegar hún var komin á sjötta mánuð sendi Guð engilinn Gabríel+ til borgar í Galíleu sem heitir Nasaret, 27 til meyjar+ sem var trúlofuð manni af ætt Davíðs. Hann hét Jósef og mærin hét María.+ 28 Engillinn kom inn til hennar og sagði: „Sæl, þú sem nýtur velþóknunar Guðs. Jehóva* er með þér.“ 29 Henni brá mjög við orð hans og hún reyndi að átta sig á hvað þessi kveðja merkti. 30 Engillinn sagði þá við hana: „Vertu óhrædd, María, því að Guð hefur velþóknun á þér. 31 Þú verður barnshafandi og fæðir son.+ Þú skalt láta hann heita Jesú.+ 32 Hann verður mikill+ og verður kallaður sonur Hins hæsta,+ og Jehóva* Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans.+ 33 Hann mun ríkja sem konungur yfir ætt Jakobs að eilífu og ríki hans líður aldrei undir lok.“+

34 En María sagði við engilinn: „Hvernig getur þetta gerst fyrst ég hef ekki lagst með manni?“+ 35 Engillinn svaraði henni: „Heilagur andi mun koma yfir þig+ og kraftur Hins hæsta umlykja þig. Þess vegna verður barnið sem fæðist kallað heilagt,+ sonur Guðs.+ 36 Elísabet frænka þín gengur einnig með son á gamals aldri. Hún var sögð ófrjó en er nú komin á sjötta mánuð 37 því að ekkert sem Guð segir er honum ofviða.“*+ 38 María sagði þá: „Ég er ambátt Jehóva.* Megi það gerast sem þú hefur sagt um mig.“ Þá fór engillinn.

39 Skömmu síðar lagði María af stað og flýtti sér til borgar í fjalllendi Júda. 40 Hún kom inn á heimili Sakaría og heilsaði Elísabetu. 41 Þegar Elísabet heyrði kveðju Maríu sparkaði barnið í kviði hennar og hún fylltist heilögum anda 42 og hrópaði: „Blessuð sértu meðal kvenna og blessaður sé ávöxtur kviðar þíns! 43 Hvað kemur til að mér veitist þessi heiður að móðir Drottins míns kemur til mín? 44 Barnið í kviði mínum sparkaði af gleði þegar ég heyrði kveðju þína. 45 Þú ert hamingjusöm því að þú trúðir. Allt sem Jehóva* sagði þér mun rætast að fullu.“

46 María sagði: „Sál mín* vegsamar Jehóva*+ 47 og hjarta mitt fagnar yfir Guði, frelsara mínum,+ 48 því að hann hefur gefið gaum að lítilmótlegri ambátt sinni.+ Héðan í frá munu allar kynslóðir kalla mig hamingjusama+ 49 því að Hinn máttugi hefur gert mikla hluti fyrir mig og nafn hans er heilagt.+ 50 Kynslóð eftir kynslóð sýnir hann miskunn þeim sem óttast hann.+ 51 Hann hefur unnið máttarverk með hendi sinni og tvístrað þeim sem eru hrokafullir í hjarta.+ 52 Hann hefur steypt valdamönnum af stóli+ og upphafið lágt setta,+ 53 mettað hungraða með því sem er gott+ og sent auðmenn tómhenta frá sér. 54 Hann hefur komið Ísrael þjóni sínum til hjálpar og minnst miskunnar sinnar+ 55 að eilífu eins og hann lofaði forfeðrum okkar, Abraham og afkomendum hans.“+ 56 María dvaldist hjá henni hér um bil þrjá mánuði en sneri svo aftur heim til sín.

57 Nú kom að því að Elísabet átti að fæða og hún eignaðist son. 58 Nágrannar hennar og ættingjar fréttu að Jehóva* hefði sýnt henni mikla miskunn og samglöddust henni.+ 59 Á áttunda degi komu þeir þegar átti að umskera drenginn+ og þeir vildu láta hann heita í höfuðið á Sakaría föður sínum. 60 En móðir hans svaraði: „Nei, hann á að heita Jóhannes.“ 61 Þeir sögðu við hana: „Enginn ættingi þinn heitir þessu nafni.“ 62 Þeir spurðu síðan föður hans með bendingum hvað hann vildi láta hann heita. 63 Hann bað þá um spjald og skrifaði: „Hann heitir Jóhannes.“+ Allir urðu mjög undrandi. 64 Samstundis opnaðist munnur hans og það losnaði um tungu hans og hann fór að tala+ og lofa Guð. 65 Allir nágrannar þeirra fylltust lotningu og fréttirnar af þessu bárust um allt fjalllendi Júdeu. 66 Allir sem heyrðu þetta veltu þessu fyrir sér og sögðu: „Hvað skyldi verða úr þessu barni?“ því að hönd Jehóva* var sannarlega með drengnum.

67 Sakaría faðir hans fylltist nú heilögum anda og flutti spámannlegan boðskap: 68 „Lofaður sé Jehóva* Guð Ísraels+ því að hann hefur gefið gaum að fólki sínu til að veita því frelsun.+ 69 Hann hefur reist okkur horn frelsunar*+ af ætt Davíðs þjóns síns+ 70 eins og hann sagði fyrir milligöngu heilagra spámanna sinna til forna.+ 71 Hann lofaði að frelsa okkur úr hendi óvina okkar og allra sem hata okkur.+ 72 Hann mun sýna miskunn eins og hann lofaði forfeðrum okkar og minnast heilags sáttmála síns,+ 73 eiðsins sem hann sór Abraham forföður okkar.+ 74 Eftir að Guð hefur frelsað okkur úr hendi óvina okkar fáum við þann heiður að veita honum heilaga þjónustu óttalaust 75 í trúfesti og réttlæti alla ævidaga okkar. 76 En þú, litla barn, verður kallað spámaður Hins hæsta því að þú munt ganga á undan Jehóva* til að greiða veg hans+ 77 og upplýsa fólk hans um að hann frelsi það með því að fyrirgefa syndir þess.+ 78 Þessu veldur innileg samúð Guðs okkar. Hennar vegna sjáum við ljós af himni eins og þegar sólin rennur upp 79 til að lýsa þeim sem sitja í myrkri og skugga dauðans+ og beina fótum okkar á veg friðarins.“

80 Drengurinn óx og varð þroskaður ungur maður.* Hann hélt sig í óbyggðunum þangað til hann kom fram á sjónarsviðið í Ísrael.

2 Um þessar mundir kom tilskipun frá Ágústusi keisara um að skrásetja alla íbúa ríkisins.* 2 (Þetta var fyrri skrásetningin og hún var gerð meðan Kýreníus var landstjóri í Sýrlandi.) 3 Allir fóru til að láta skrá sig, hver til sinnar borgar. 4 Jósef+ gerði það auðvitað líka. Hann var af ætt Davíðs og fór því úr Galíleu, frá borginni Nasaret, upp til Júdeu, til borgar Davíðs sem heitir Betlehem.+ 5 Hann fór til að láta skrá sig ásamt Maríu eiginkonu sinni+ sem átti von á sér+ um þetta leyti. 6 Meðan þau voru þar kom sá tími að hún átti að fæða. 7 Hún fæddi son, frumburð sinn,+ vafði hann í reifar og lagði hann í jötu+ þar sem ekki var pláss fyrir þau í gistihúsinu.

8 Á þessum slóðum héldu fjárhirðar til undir berum himni og gættu hjarða sinna um nóttina. 9 Skyndilega stóð engill Jehóva* frammi fyrir þeim og dýrð Jehóva* ljómaði í kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir 10 en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir því að ég flyt ykkur fagnaðarboðskap sem verður öllum til mikillar gleði. 11 Í dag fæddist ykkur frelsari+ í borg Davíðs,+ það er Drottinn Kristur.+ 12 Þetta skal vera ykkur tákn: Þið finnið ungbarn vafið í reifar og liggjandi í jötu.“ 13 Allt í einu birtist með englinum mikill her engla.+ Þeir lofuðu Guð og sögðu: 14 „Dýrð sé Guði í hæðum uppi og friður á jörð meðal manna sem hann hefur velþóknun á.“

15 Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins sögðu fjárhirðarnir hver við annan: „Við verðum að fara til Betlehem til að sjá það sem hefur gerst og Jehóva* hefur látið okkur vita af.“ 16 Og þeir flýttu sér þangað og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið sem lá í jötunni. 17 Þegar þeir sáu það sögðu þeir frá því sem þeim hafði verið sagt um barnið. 18 Allir sem heyrðu til undruðust það sem hirðarnir sögðu 19 en María geymdi allt þetta í hjarta sér+ og hugleiddi hvað það merkti. 20 Á leiðinni til baka lofuðu hirðarnir Guð og vegsömuðu hann fyrir það sem þeir höfðu heyrt og séð. Allt var eins og þeim hafði verið sagt.

21 Átta dögum síðar kom að því að umskera drenginn.+ Hann var þá nefndur Jesús eins og engillinn sagði að hann ætti að heita áður en hann var getinn í móðurkviði.+

22 Þegar tíminn kom að þau áttu að hreinsast í samræmi við Móselögin+ fóru þau með hann upp til Jerúsalem til að bera hann fram fyrir Jehóva* 23 eins og stendur í lögum Jehóva:* „Hver karlkyns frumburður* skal vera helgaður Jehóva.“*+ 24 Og þau færðu fórn í samræmi við lög Jehóva* en þar segir: „tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur“.+

25 Í Jerúsalem var réttlátur og guðrækinn maður sem hét Símeon. Hann beið þess að Ísrael fengi huggun+ og heilagur andi var yfir honum. 26 Guð hafði líka opinberað honum fyrir tilstilli heilags anda að hann myndi ekki deyja fyrr en hann hefði séð Krist sem Jehóva* sendi. 27 Hann kom nú í musterið því að andinn beindi honum þangað. Þegar foreldrarnir komu þangað með drenginn Jesú til að gera eins og venja var samkvæmt lögunum+ 28 tók hann drenginn í fangið, lofaði Guð og sagði: 29 „Alvaldur Drottinn, nú læturðu þjón þinn fara í friði+ eins og þú hefur lofað, 30 því að augu mín hafa séð þann sem veitir frelsun,+ 31 þann sem þú hefur sent í augsýn allra þjóða.+ 32 Hann verður ljós+ til að eyða hulunni sem umlykur þjóðirnar+ og verður þjóð þinni, Ísrael, til dýrðar.“ 33 Faðir og móðir drengsins undruðust það sem sagt var um hann. 34 Símeon blessaði þau og sagði við Maríu móður barnsins: „Þessi drengur verður til þess að margir í Ísrael falla+ og aðrir rísa upp.+ Hann verður tákn sem margir tala gegn.+ 35 Þannig kemur innsta eðli margra* í ljós en sverð mun nísta sál þína.“+

36 Nú var þar spákona sem hét Anna Fanúelsdóttir og var af ættkvísl Assers. Hún var orðin öldruð og hafði búið með manni sínum í sjö ár eftir að þau giftust* 37 en var nú ekkja, 84 ára gömul. Hún var öllum stundum í musterinu og veitti heilaga þjónustu dag og nótt með föstum og innilegum bænum. 38 Hún kom til þeirra í sömu andrá og fór að þakka Guði og tala um barnið við alla sem væntu þess að Jerúsalem yrði frelsuð.+

39 Þegar þau höfðu gert allt sem lög Jehóva* kváðu á um+ sneru þau aftur til Galíleu, til heimaborgar sinnar Nasaret.+ 40 Drengurinn stækkaði, styrktist og óx að viti og Guð hafði velþóknun á honum.+

41 Nú voru foreldrar hans vanir að fara til Jerúsalem á hverju ári til að sækja páskahátíðina.+ 42 Þegar hann var 12 ára fóru þau upp eftir til hátíðarinnar eins og þau voru vön.+ 43 Þegar þau héldu heim á leið eftir hátíðisdagana varð drengurinn Jesús eftir í Jerúsalem en foreldrarnir tóku ekki eftir því. 44 Þau gerðu ráð fyrir að hann væri með samferðafólkinu og fóru eina dagleið áður en þau byrjuðu að leita að honum meðal ættingja og kunningja. 45 En þau fundu hann ekki og sneru því aftur til Jerúsalem og leituðu að honum úti um allt. 46 Eftir þrjá daga fundu þau hann í musterinu þar sem hann sat meðal kennaranna, hlustaði á þá og spurði þá spurninga. 47 Allir sem heyrðu til hans voru steinhissa á skilningi hans og svörum.+ 48 Foreldrar hans voru gáttaðir þegar þeir sáu hann og móðir hans spurði: „Barn, hvers vegna gerðirðu okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað örvæntingarfull að þér.“ 49 Hann svaraði þeim: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að ég á að vera í húsi föður míns?“+ 50 En þau skildu ekki hvað hann átti við.

51 Hann fór síðan með þeim heim til Nasaret og var þeim hlýðinn* áfram.+ En móðir hans geymdi öll þessi orð í hjarta sér.+ 52 Jesús þroskaðist jafnt og þétt að viti og vexti og bæði Guð og menn fengu sífellt meiri mætur á honum.

3 Á 15. stjórnarári Tíberíusar keisara, þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu, Heródes*+ héraðsstjóri* í Galíleu, Filippus bróðir hans héraðsstjóri í Ítúreu og Trakónítishéraði og Lýsanías héraðsstjóri í Abílene, 2 á dögum Annasar yfirprests og Kaífasar,+ kom orð Guðs til Jóhannesar+ Sakaríasonar í óbyggðunum.+

3 Hann fór þá um allt svæðið meðfram Jórdan og boðaði að fólk ætti að skírast til tákns um iðrun svo að það gæti fengið syndir sínar fyrirgefnar.+ 4 Um þetta er skrifað í bókinni sem geymir orð Jesaja spámanns: „Rödd manns hrópar í óbyggðunum: ‚Greiðið veg Jehóva!* Gerið brautir hans beinar.+ 5 Hver dalur skal fyllast og hvert fjall og hæð jafnast út, krókóttir vegir verða beinir og ójafnir vegir sléttir 6 og allir munu* sjá þá frelsun sem Guð veitir.‘“*+

7 Þegar fólk þyrptist að til að láta hann skíra sig sagði hann: „Þið nöðruafkvæmi, hver sagði ykkur að þið gætuð flúið hina komandi reiði?+ 8 Berið ávöxt sem sýnir* að þið hafið iðrast. Segið ekki með sjálfum ykkur: ‚Abraham er faðir okkar.‘ Ég segi ykkur að Guð getur myndað börn handa Abraham úr þessum steinum. 9 Öxin liggur nú þegar við rætur trjánna. Þau tré sem bera ekki góðan ávöxt verða höggvin og þeim kastað í eldinn.“+

10 En fólkið spurði hann: „Hvað eigum við þá að gera?“ 11 Hann svaraði: „Sá sem á tvenn föt* taki önnur þeirra og gefi þeim sem á engin og sá sem á eitthvað að borða gefi þeim sem hefur ekkert.“+ 12 Jafnvel skattheimtumenn komu til að skírast+ og sögðu við hann: „Kennari, hvað eigum við að gera?“ 13 Hann svaraði: „Heimtið* ekki hærri skatt en lögboðið er.“+ 14 Hermenn spurðu hann líka: „Hvað eigum við að gera?“ Hann sagði við þá: „Kúgið ekki fé af neinum og berið ekki á þá rangar sakir+ heldur verið ánægðir með það sem þið fáið.“*

15 Nú var fólk eftirvæntingarfullt og velti fyrir sér hvort Jóhannes gæti verið Kristur.+ 16 Jóhannes svaraði öllum og sagði: „Ég skíri ykkur með vatni en sá kemur sem er máttugri en ég og ég er ekki þess verðugur að leysa ólarnar á sandölum hans.+ Hann mun skíra ykkur með heilögum anda og eldi.+ 17 Hann er með varpskófluna* í hendi til að gerhreinsa þreskivöllinn. Hann safnar hveitinu í hlöðu sína en brennir hismið í óslökkvandi eldi.“

18 Jóhannes leiðbeindi fólki líka á marga aðra vegu og boðaði því fagnaðarboðskapinn. 19 Hann ávítaði Heródes héraðsstjóra vegna Heródíasar, konu bróður hans, og alls hins illa sem hann hafði gert. 20 Þá vann Heródes enn eitt vonskuverkið: Hann varpaði Jóhannesi í fangelsi.+

21 Þegar allt fólkið skírðist lét Jesús einnig skírast.+ Meðan hann baðst fyrir opnuðust himnarnir+ 22 og heilagur andi kom niður yfir hann í sýnilegri* mynd, eins og dúfa, og rödd heyrðist af himni: „Þú ert sonur minn sem ég elska. Ég hef velþóknun á þér.“+

23 Jesús+ var um þrítugt þegar hann hóf starf sitt.+ Almennt var hann talinn

sonur Jósefs,+

sonar Elí,

24 sonar Mattats,

sonar Leví,

sonar Melkí,

sonar Jannaí,

sonar Jósefs,

25 sonar Mattatíasar,

sonar Amosar,

sonar Nahúms,

sonar Eslí,

sonar Naggaí,

26 sonar Maats,

sonar Mattatíasar,

sonar Semeíns,

sonar Jóseks,

sonar Jóda,

27 sonar Jóhanans,

sonar Hresa,

sonar Serúbabels,+

sonar Sealtíels,+

sonar Nerí,

28 sonar Melkí,

sonar Addí,

sonar Kósams,

sonar Elmadams,

sonar Ers,

29 sonar Jesú,

sonar Elíesers,

sonar Jóríms,

sonar Mattats,

sonar Leví,

30 sonar Símeons,

sonar Júdasar,

sonar Jósefs,

sonar Jónams,

sonar Eljakíms,

31 sonar Melea,

sonar Menna,

sonar Mattata,

sonar Natans,+

sonar Davíðs,+

32 sonar Ísaí,+

sonar Óbeðs,+

sonar Bóasar,+

sonar Salmóns,+

sonar Naksons,+

33 sonar Ammínadabs,

sonar Arní,

sonar Hesróns,

sonar Peresar,+

sonar Júda,+

34 sonar Jakobs,+

sonar Ísaks,+

sonar Abrahams,+

sonar Tera,+

sonar Nahors,+

35 sonar Serúgs,+

sonar Reú,+

sonar Pelegs,+

sonar Ebers,+

sonar Sela,+

36 sonar Kenans,

sonar Arpaksads,+

sonar Sems,+

sonar Nóa,+

sonar Lameks,+

37 sonar Metúsala,+

sonar Enoks,

sonar Jareds,+

sonar Mahalalels,+

sonar Kenans,+

38 sonar Enosar,+

sonar Sets,+

sonar Adams,+

sonar Guðs.

4 Jesús yfirgaf síðan Jórdan, fullur af heilögum anda. Andinn leiddi hann um óbyggðirnar+ 2 í 40 daga og Djöfullinn freistaði hans.+ Hann borðaði ekkert þessa daga og var í lokin orðinn sársvangur. 3 Djöfullinn sagði þá við hann: „Ef þú ert sonur Guðs segðu þá þessum steini að verða að brauði.“ 4 En Jesús svaraði: „Skrifað stendur: ‚Maðurinn lifir ekki aðeins á brauði.‘“+

5 Djöfullinn fór þá með hann og sýndi honum á augabragði öll ríki jarðar.+ 6 Djöfullinn sagði við hann: „Ég skal gefa þér vald yfir öllum þessum ríkjum og dýrð þeirra því að mér hefur verið fengið það+ og ég get gefið það hverjum sem ég vil. 7 Ef þú tilbiður mig einu sinni færðu allt þetta.“ 8 Jesús svaraði honum: „Skrifað stendur: ‚Þú skalt tilbiðja Jehóva* Guð þinn og honum einum skaltu veita heilaga þjónustu.‘“+

9 Þá fór Djöfullinn með hann inn í Jerúsalem, setti hann upp á virkisvegg* musterisins og sagði við hann: „Ef þú ert sonur Guðs kastaðu þér þá fram af,+ 10 því að skrifað stendur: ‚Hann sendir engla sína til að vernda þig,‘ 11 og: ‚Þeir munu bera þig á höndum sér til að þú hrasir ekki um stein.‘“+ 12 Jesús svaraði honum: „Sagt er: ‚Þú skalt ekki ögra Jehóva* Guði þínum.‘“+ 13 Þá hætti Djöfullinn að freista hans, fór frá honum og beið færis að freista hans síðar.+

14 Jesús sneri nú aftur til Galíleu+ í krafti andans og fréttirnar af góðum verkum hans bárust um allt svæðið í kring. 15 Hann fór að kenna í samkunduhúsunum og allir lofuðu hann.

16 Hann kom nú til Nasaret+ þar sem hann hafði alist upp. Hann fór í samkunduhúsið á hvíldardegi eins og hann var vanur+ og stóð upp til að lesa. 17 Honum var fengin bókrolla Jesaja spámanns og hann opnaði hana og fann staðinn þar sem stendur skrifað: 18 „Andi Jehóva* er yfir mér því að hann smurði mig til að flytja fátækum fagnaðarboðskap. Hann sendi mig til að boða fjötruðum frelsi og blindum sjón, leysa undirokaða úr ánauð+ 19 og boða ár velvildar Jehóva.“*+ 20 Að svo búnu rúllaði hann bókrollunni upp, afhenti þjóninum hana og settist niður en allir í samkunduhúsinu horfðu eftirvæntingarfullir á hann. 21 Þá sagði hann: „Í dag hefur ræst þessi ritningarstaður sem þið heyrðuð.“+

22 Allir töluðu lofsamlega um hann og undruðust hrífandi orð hans.+ „Er þetta ekki sonur Jósefs?“ sögðu þeir.+ 23 En hann sagði við þá: „Þið munuð eflaust heimfæra upp á mig máltækið: ‚Læknir, læknaðu sjálfan þig,‘ og segja: ‚Við höfum heyrt um það sem þú gerðir í Kapernaúm.+ Gerðu nú það sama hér í heimabyggð þinni.‘“ 24 Síðan sagði hann: „Trúið mér, engum spámanni er vel tekið í heimabyggð sinni.+ 25 Ég segi ykkur satt að margar ekkjur voru í Ísrael á dögum Elía þegar himinninn var lokaður í þrjú ár og sex mánuði og mikil hungursneyð varð í öllu landinu.+ 26 Elía var þó ekki sendur til neinnar þeirra heldur aðeins til ekkju í Sarefta í Sídonlandi.+ 27 Sömuleiðis voru margir holdsveikir í Ísrael á dögum Elísa spámanns en þó var enginn þeirra læknaður* heldur aðeins Naaman Sýrlendingur.“+ 28 Allir í samkunduhúsinu reiddust heiftarlega þegar þeir heyrðu þetta.+ 29 Þeir spruttu á fætur og hröktu hann út úr borginni og fóru með hann fram á brún fjallsins þar sem borgin stóð til að henda honum fram af. 30 En hann gekk mitt í gegnum mannþröngina og fór sína leið.+

31 Hann hélt síðan niður til Kapernaúm, borgar í Galíleu. Hann kenndi þar á hvíldardegi+ 32 og fólk var agndofa yfir kennslu hans+ því að hann talaði eins og sá sem hefur vald. 33 Í samkunduhúsinu var maður haldinn óhreinum illum anda og hann hrópaði hárri röddu:+ 34 „Ó, nei! Hvað viltu okkur, Jesús frá Nasaret?+ Ertu kominn til að tortíma okkur? Ég veit vel hver þú ert, hinn heilagi Guðs.“+ 35 En Jesús ávítaði andann og sagði: „Þegiðu og farðu úr honum.“ Illi andinn slengdi honum í gólfið fyrir framan þá og fór úr honum án þess að verða honum að meini. 36 Allir voru furðu lostnir og sögðu sín á milli: „Heyrið hvernig hann talar! Hann skipar óhreinu öndunum fyrir með valdi og krafti og þeir fara út!“ 37 Fréttirnar af honum bárust um allt svæðið í kring.

38 Jesús yfirgaf nú samkunduhúsið og fór heim til Símonar. Tengdamóðir Símonar var með háan hita og þeir báðu hann að hjálpa henni.+ 39 Hann beygði sig yfir hana, skipaði hitanum að hverfa frá henni og hitinn hvarf. Hún fór samstundis á fætur og matbjó handa þeim.

40 En um sólsetur komu allir sem voru með sjúklinga á sínum vegum og færðu þá Jesú. Þeir voru haldnir ýmsum sjúkdómum en hann lagði hendur yfir hvern og einn þeirra og læknaði þá.+ 41 Einnig fóru illir andar úr mörgum og æptu: „Þú ert sonur Guðs.“+ En hann ávítaði þá og bannaði þeim að tala+ því að þeir vissu að hann var Kristur.+

42 Snemma næsta morgun fór hann burt á óbyggðan stað.+ En fólkið fór að leita að honum og fann hann. Það reyndi að telja hann á að fara ekki 43 en hann sagði: „Ég þarf líka að flytja öðrum borgum fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs því að til þess var ég sendur.“+ 44 Síðan fór hann og boðaði fagnaðarboðskapinn í samkunduhúsunum í Júdeu.

5 Einhverju sinni stóð Jesús við Genesaretvatn*+ og mannfjöldinn þrengdi að honum til að hlusta á orð Guðs. 2 Hann sá þá tvo báta sem lágu við ströndina en fiskimennirnir voru farnir í land og voru að þvo netin.+ 3 Hann steig um borð í annan bátinn, þann sem Símon átti, og bað hann að leggja lítið eitt frá landi. Síðan settist hann og fór að kenna mannfjöldanum úr bátnum. 4 Þegar hann lauk máli sínu sagði hann við Símon: „Haltu út á djúpið og leggið netin.“ 5 Símon svaraði: „Kennari, við höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið+ en fyrst þú segir það skal ég leggja netin.“ 6 Þeir gerðu það og fengu svo mikinn fisk að netin byrjuðu að rifna.+ 7 Þeir gáfu þá félögum sínum á hinum bátnum bendingu um að koma og aðstoða sig, og þeir komu og fylltu báða bátana svo að þeir voru nærri sokknir. 8 Þegar Símon Pétur sá þetta féll hann á kné fyrir Jesú og sagði: „Farðu frá mér, Drottinn, því að ég er syndugur maður.“ 9 En bæði honum og þeim sem voru með honum var mjög brugðið vegna fiskaflans sem þeir höfðu fengið, 10 og hið sama var að segja um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni,+ félaga Símonar. En Jesús sagði við Símon: „Vertu ekki hræddur. Héðan í frá skaltu veiða menn.“+ 11 Þeir lögðu þá bátunum aftur að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum.+

12 Öðru sinni var hann staddur í einni af borgunum og þar var maður altekinn holdsveiki. Þegar hann sá Jesú féll hann á grúfu og sárbændi hann: „Drottinn, þú getur hreinsað mig ef þú bara vilt!“+ 13 Jesús rétti þá út höndina, snerti hann og sagði: „Ég vil! Vertu hreinn.“ Samstundis hvarf holdsveikin af honum.+ 14 Hann bannaði síðan manninum að segja nokkrum frá þessu og sagði: „En farðu og sýndu þig prestinum og færðu fórn fyrir hreinsun þína eins og Móselögin kveða á um+ til að sanna að þú sért læknaður.“+ 15 En fréttirnar af honum héldu áfram að breiðast út og fólk kom hópum saman til að hlusta á hann og læknast af sjúkdómum sínum.+ 16 Hann fór þó oft á óbyggða staði til að biðjast fyrir.

17 Dag nokkurn var Jesús að kenna. Þar sátu farísear og lagakennarar sem höfðu komið úr öllum þorpum Galíleu og Júdeu og frá Jerúsalem, og kraftur Jehóva* var með honum til að lækna.+ 18 Þá komu menn með lamaðan mann á börum og reyndu að komast inn með hann og leggja hann fyrir framan Jesú.+ 19 Þar sem þeir komust ekki inn með hann vegna mannfjöldans fóru þeir upp á þakið, tóku upp þakhellur og létu hann síga niður á börunum beint fyrir framan Jesú. 20 Þegar hann sá trú þeirra sagði hann: „Vinur, syndir þínar eru fyrirgefnar.“+ 21 Þá sögðu fræðimennirnir og farísearnir hver við annan: „Hver er hann að guðlasta svona? Hver getur fyrirgefið syndir nema Guð einn?“+ 22 En Jesús skynjaði hvað þeir hugsuðu og sagði: „Hvað hugsið þið í hjörtum ykkar? 23 Hvort er auðveldara að segja: ‚Syndir þínar eru fyrirgefnar,‘ eða: ‚Stattu upp og gakktu‘? 24 En til að þið vitið að Mannssonurinn hefur vald á jörð til að fyrirgefa syndir …“ og nú talar hann við lamaða manninn: „þá segi ég þér: Stattu upp, taktu börurnar og farðu heim.“+ 25 Hann stóð þá upp fyrir framan þá, tók það sem hann hafði legið á og fór heim til sín og lofaði Guð. 26 Allir voru agndofa og lofuðu Guð. Þeir fylltust lotningu og sögðu: „Það er ótrúlegt sem við höfum séð í dag!“

27 Eftir þetta fór hann út og sá þá skattheimtumann sem hét Leví þar sem hann sat á skattheimtustofunni. Jesús sagði við hann: „Fylgdu mér.“+ 28 Hann stóð upp, yfirgaf allt og fylgdi honum. 29 Leví hélt nú mikla veislu fyrir hann í húsi sínu og fjöldi skattheimtumanna og annarra borðaði* með þeim.+ 30 En farísear og fræðimenn þeirra fóru að kvarta við lærisveina hans og sögðu: „Af hverju borðið þið og drekkið með skattheimtumönnum og syndurum?“+ 31 Jesús svaraði þeim: „Heilbrigðir þurfa ekki á lækni að halda heldur þeir sem eru veikir.+ 32 Ég er ekki kominn til að hvetja réttláta til að iðrast heldur syndara.“+

33 Þeir sögðu við hann: „Lærisveinar Jóhannesar fasta oft og biðja innilegra bæna og lærisveinar farísea sömuleiðis, en þínir borða og drekka.“+ 34 Jesús svaraði: „Varla fáið þið vini brúðgumans til að fasta meðan brúðguminn er hjá þeim. 35 En sá dagur kemur að brúðguminn+ verður tekinn frá þeim og þá fasta þeir.“+

36 Hann brá einnig upp líkingu og sagði: „Enginn klippir bót úr nýrri flík og saumar hana á gamla. Ef það er gert hleypur nýja bótin og passar ekki á gömlu flíkina.+ 37 Og enginn lætur nýtt vín á gamla vínbelgi. Ef það er gert sprengir vínið belgina, vínið fer til spillis og belgirnir eyðileggjast. 38 Nýtt vín þarf að láta á nýja belgi. 39 Enginn vill nýtt vín eftir að hafa drukkið gamalt því að hann segir: ‚Hið gamla er gott.‘“

6 Hvíldardag einn fór Jesús um kornakra og lærisveinar hans tíndu kornöx,+ neru þau milli handanna og átu.+ 2 Þá sögðu sumir faríseanna: „Hvers vegna gerið þið það sem er bannað á hvíldardegi?“+ 3 En Jesús svaraði þeim: „Hafið þið aldrei lesið hvað Davíð gerði þegar hann og menn hans voru svangir?+ 4 Hann gekk inn í hús Guðs og honum voru fengin skoðunarbrauðin og hann át og gaf einnig mönnum sínum af þeim, en þau má enginn borða nema prestarnir.“+ 5 Síðan sagði hann við þá: „Mannssonurinn er drottinn hvíldardagsins.“+

6 Annan hvíldardag+ gekk hann inn í samkunduhúsið og fór að kenna. Þar var maður með visna* hægri hönd.+ 7 Fræðimenn og farísear fylgdust vandlega með Jesú til að sjá hvort hann myndi lækna á hvíldardegi en þeir vildu finna tilefni til að ákæra hann. 8 Hann vissi aftur á móti hvað þeir hugsuðu+ og sagði því við manninn með visnu* höndina: „Stattu upp og komdu fram í miðjan salinn.“ Hann stóð þá upp og kom. 9 Síðan sagði Jesús við þá: „Ég spyr ykkur: Er leyfilegt að gera gott eða illt á hvíldardegi, að bjarga lífi* eða tortíma því?“+ 10 Hann leit á alla í kringum sig og sagði svo við manninn: „Réttu fram höndina.“ Maðurinn gerði það og höndin varð heilbrigð. 11 En þeir urðu hamslausir af reiði og fóru að ræða sín á milli hvað þeir gætu gert við Jesú.

12 Um þessar mundir gekk hann á fjallið til að biðjast fyrir+ og var alla nóttina á bæn til Guðs.+ 13 Þegar dagur rann kallaði hann lærisveinana til sín, valdi 12 úr hópnum og nefndi þá postula:+ 14 Símon sem hann nefndi einnig Pétur, Andrés bróður hans, Jakob, Jóhannes, Filippus,+ Bartólómeus, 15 Matteus, Tómas,+ Jakob Alfeusson, Símon, sem var kallaður „hinn kappsami“, 16 Júdas Jakobsson og Júdas Ískaríot sem varð svikari.

17 Hann gekk niður með þeim og nam staðar á sléttri flöt. Stór hópur lærisveina hans og mikill fjöldi fólks frá allri Júdeu og Jerúsalem og strandsvæðinu við Týrus og Sídon kom til að hlusta á hann og læknast af sjúkdómum sínum. 18 Jafnvel þeir sem óhreinir andar þjáðu læknuðust. 19 Allt fólkið reyndi að snerta hann því að kraftur fór út frá honum+ og læknaði alla.

20 Hann leit upp, horfði á lærisveinana og sagði:

„Þið sem eruð fátæk eruð hamingjusöm því að ríki Guðs tilheyrir ykkur.+

21 Þið sem eruð hungruð núna eruð hamingjusöm því að þið verðið södd.+

Þið sem grátið núna eruð hamingjusöm því að þið munuð hlæja.+

22 Þið eruð hamingjusöm þegar menn hata ykkur+ og þegar þeir útskúfa ykkur+ og smána og sverta nafn ykkar* vegna Mannssonarins. 23 Fagnið á þeim degi og hoppið af gleði því að laun ykkar eru mikil á himni. Þannig fóru forfeður þeirra líka með spámennina.+

24 En aumingja þið sem eruð rík+ því að þið hafið fengið alla þá huggun sem þið fáið.+

25 Aumingja þið sem eruð södd núna því að þið verðið hungruð.

Aumingja þið sem hlæið núna því að þið munuð syrgja og gráta.+

26 Aumingja þið þegar allir tala vel um ykkur+ því að þannig töluðu forfeður þeirra um falsspámennina.

27 En ég segi ykkur sem hlustið á mig: Elskið óvini ykkar og gerið þeim gott sem hata ykkur,+ 28 blessið þá sem bölva ykkur og biðjið fyrir þeim sem smána ykkur.+ 29 Ef einhver slær þig á aðra kinnina skaltu bjóða honum hina líka, og taki einhver frá þér yfirhöfnina skaltu ekki neita honum um kyrtilinn heldur.+ 30 Gefðu öllum sem biðja þig+ og taki einhver það sem þú átt skaltu ekki biðja um að fá það aftur.

31 Og eins og þið viljið að aðrir geri fyrir ykkur skuluð þið gera fyrir þá.+

32 Hvaða hrós eigið þið skilið ef þið elskið þá sem elska ykkur? Syndarar elska þá líka sem elska þá.+ 33 Og hvaða hrós eigið þið skilið ef þið gerið þeim gott sem gera ykkur gott? Jafnvel syndarar gera það. 34 Og hvaða hrós eigið þið skilið ef þið lánið* þeim sem þið reiknið með að endurgreiði ykkur?+ Jafnvel syndarar lána syndurum því að þeir vænta þess að fá allt endurgreitt. 35 Elskið heldur óvini ykkar, gerið gott og lánið án þess að vænta nokkurrar endurgreiðslu.+ Þá verða laun ykkar mikil og þið verðið synir Hins hæsta því að hann er góður við vanþakkláta og vonda.+ 36 Verið miskunnsöm eins og faðir ykkar er miskunnsamur.+

37 Hættið að dæma og þið verðið alls ekki dæmd+ og hættið að fordæma og þið verðið alls ekki fordæmd. Fyrirgefið öðrum og ykkur verður fyrirgefið.*+ 38 Gefið og fólk mun gefa ykkur.+ Þið fáið góðan mæli í fangið, troðinn, hristan og kúffullan, því að ykkur verður mælt í sama mæli og þið mælið öðrum.“

39 Síðan brá hann upp líkingu og sagði: „Varla getur blindur maður leitt blindan. Falla þá ekki báðir í gryfju?+ 40 Nemandi* er ekki fremri kennara sínum en hver sem er fullnuma verður eins og kennari hans. 41 Hvers vegna horfirðu á flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í þínu eigin auga?+ 42 Hvernig geturðu sagt við bróður þinn: ‚Bróðir, leyfðu mér að taka flísina sem er í auga þínu,‘ þegar þú sérð ekki bjálkann í eigin auga? Hræsnari! Fjarlægðu fyrst bjálkann úr þínu eigin auga, þá sérðu skýrt til að taka flísina sem er í auga bróður þíns.

43 Gott tré ber ekki skemmdan ávöxt né fúið tré góðan.+ 44 Hvert tré þekkist af ávexti sínum.+ Menn tína ekki fíkjur af þyrnum né vínber af þyrnirunnum. 45 Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði hjarta síns en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði sínum því að munnurinn talar af gnægð hjartans.+

46 Hvers vegna ávarpið þið mig: ‚Drottinn, Drottinn!‘ en gerið ekki það sem ég segi?+ 47 Ég skal segja ykkur hverjum sá líkist sem kemur til mín, heyrir orð mín og fer eftir þeim:+ 48 Hann er eins og maður sem byggði hús, gróf djúpt og lagði grunninn á klöpp. Nú kom flóð og vatnsflaumurinn skall á húsinu en það haggaðist ekki því að það var vel byggt.+ 49 Hver sem hins vegar heyrir orð mín og fer ekki eftir þeim+ er eins og maður sem byggði hús á jörðinni án undirstöðu. Vatnsflaumurinn skall á því og það hrundi samstundis og gereyðilagðist.“

7 Þegar hann hafði lokið við að tala til fólksins gekk hann inn í Kapernaúm. 2 Liðsforingi nokkur átti þjón sem var honum mjög kær. Þjónninn var alvarlega veikur og lá fyrir dauðanum.+ 3 Þegar hann frétti af Jesú sendi hann nokkra af öldungum Gyðinga til að biðja hann að koma og lækna þjón sinn. 4 Þeir komu til Jesú, sárbændu hann um að lækna þjóninn og sögðu: „Liðsforinginn verðskuldar að þú gerir þetta fyrir hann 5 því að hann elskar þjóð okkar og það var hann sem byggði samkunduhúsið okkar.“ 6 Jesús fór þá með þeim. En þegar hann nálgaðist húsið sendi liðsforinginn vini sína og lét segja honum: „Herra, gerðu þér ekki meira ómak því að ég er ekki þess verðugur að þú komir inn í hús mitt.+ 7 Mér fannst ég ekki heldur þess verðugur að koma til þín. En segðu eitt orð þannig að þjónn minn læknist. 8 Ég þarf sjálfur að lúta valdi annarra en ræð líka yfir hermönnum. Ég segi einum: ‚Farðu,‘ og hann fer, og öðrum: ‚Komdu,‘ og hann kemur, og við þjón minn segi ég: ‚Gerðu þetta,‘ og hann gerir það.“ 9 Jesús varð undrandi þegar hann heyrði þetta, sneri sér að mannfjöldanum sem fylgdi honum og sagði: „Svona sterka trú hef ég ekki einu sinni fundið í Ísrael.“+ 10 Þegar vinir liðsforingjans sneru aftur heim til hans fundu þeir þjóninn heilan heilsu.+

11 Skömmu síðar hélt hann til borgar sem heitir Nain og lærisveinar hans fylgdu honum ásamt miklum mannfjölda. 12 Þegar hann nálgaðist borgarhliðið var verið að bera út látinn mann. Hann var einkasonur móður sinnar+ sem var auk þess ekkja. Töluverður fjöldi fólks úr borginni var með henni. 13 Þegar Drottinn kom auga á hana kenndi hann í brjósti um hana+ og sagði: „Gráttu ekki.“+ 14 Síðan gekk hann að líkbörunum og snerti þær en þeir sem báru þær námu staðar. Þá sagði hann: „Ungi maður, ég segi þér: Rístu upp!“+ 15 Hinn látni settist þá upp og fór að tala, og Jesús gaf hann móður hans.+ 16 En ótti greip alla og þeir lofuðu Guð og sögðu: „Mikill spámaður er kominn fram meðal okkar,“+ og: „Guð hefur gefið gaum að fólki sínu.“+ 17 Fréttirnar af þessu bárust um alla Júdeu og allt svæðið í kring.

18 Lærisveinar Jóhannesar sögðu honum nú frá öllu þessu.+ 19 Jóhannes kallaði þá til sín tvo lærisveina sína og sendi þá til Drottins til að spyrja hann: „Ert þú sá sem á að koma+ eða eigum við að búast við öðrum?“ 20 Þegar mennirnir komu til Jesú sögðu þeir: „Jóhannes skírari sendi okkur til að spyrja: ‚Ert þú sá sem á að koma eða eigum við að búast við öðrum?‘“ 21 Þá stundina var hann að lækna marga af veikindum+ og alvarlegum sjúkdómum. Hann rak út illa anda og gaf mörgum blindum sjón. 22 Hann svaraði mönnunum: „Farið og segið Jóhannesi það sem þið hafið séð og heyrt: Blindir sjá,+ fatlaðir ganga, holdsveikir hreinsast, heyrnarlausir heyra,+ dánir eru reistir upp og fátækum er fluttur fagnaðarboðskapurinn.+ 23 Sá sem hneykslast ekki á mér+ er hamingjusamur.“

24 Þegar sendimenn Jóhannesar voru farnir fór Jesús að tala við mannfjöldann um hann og sagði: „Hvað fóruð þið til að sjá í óbyggðunum? Reyr sem sveiflast til í vindi?+ 25 Hvað fóruð þið þá til að sjá? Mann í fínum* fötum?+ Nei, þeir sem eru skartklæddir og lifa munaðarlífi halda til í konungshöllum. 26 Hvað fóruð þið þá eiginlega til að sjá? Spámann? Já, segi ég ykkur, og miklu meira en spámann.+ 27 Það er hann sem skrifað er um: ‚Ég sendi sendiboða minn á undan þér sem greiðir veg þinn.‘+ 28 Ég segi ykkur: Enginn sem er fæddur af konu er meiri en Jóhannes en hinn minnsti í ríki Guðs er meiri en hann.“+ 29 (Þegar allt fólkið og skattheimtumennirnir heyrðu þetta lýstu þeir yfir að Guð væri réttlátur enda höfðu þeir skírst hjá Jóhannesi.+ 30 En farísearnir og hinir löglærðu höfðu leiðbeiningar* Guðs að engu+ því að þeir höfðu ekki skírst hjá honum.)

31 „Við hverja á ég að líkja mönnum þessarar kynslóðar? Hverjum eru þeir líkir?+ 32 Þeir eru eins og börn sem sitja á markaðstorgi og kalla hvert til annars: ‚Við lékum á flautu fyrir ykkur en þið dönsuðuð ekki, við sungum sorgarljóð en þið grétuð ekki.‘ 33 Eins kom Jóhannes skírari, át hvorki brauð né drakk vín+ og þið segið: ‚Hann er haldinn illum anda.‘ 34 Mannssonurinn er kominn, borðar og drekkur og þið segið: ‚Sjáið! Hann er mathákur og drykkfelldur, vinur skattheimtumanna og syndara!‘+ 35 En viskan sannast af árangrinum.“*+

36 Farísei nokkur bauð honum margsinnis að koma og borða hjá sér. Hann gekk því í hús faríseans og lagðist til borðs. 37 Kona sem var þekkt í borginni fyrir syndsamlegt líferni frétti að hann væri í matarboði* í húsi faríseans. Hún kom þangað með ilmolíu í alabastursflösku+ 38 og tók sér stöðu fyrir aftan hann við fætur hans. Hún grét og vætti fætur hans með tárum sínum og þurrkaði þá með höfuðhári sínu, kyssti fætur hans blíðlega og smurði með ilmolíunni. 39 Þegar faríseinn sem hafði boðið honum sá þetta sagði hann við sjálfan sig: „Ef þessi maður væri raunverulegur spámaður vissi hann hvers konar kona þetta er sem snertir hann, að hún er syndug.“+ 40 Jesús sagði þá við hann: „Símon, ég þarf að segja þér svolítið.“ „Segðu það, kennari,“ svaraði hann.

41 „Tveir menn skulduðu lánveitanda nokkrum peninga, annar 500 denara* en hinn 50. 42 Nú gátu þeir ekki endurgreitt honum og þá gaf hann þeim fúslega upp skuldina. Hvor þeirra skyldi elska hann meira?“ 43 Símon svaraði: „Ætli það sé ekki sá sem skuldaði honum meira.“ „Rétt hjá þér,“ sagði Jesús. 44 Þá sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: „Sérðu þessa konu? Ég kom í hús þitt og þú gafst mér ekki vatn til að þvo fætur mína. En þessi kona vætti fætur mína með tárum sínum og þurrkaði þá með hárinu. 45 Þú gafst mér ekki koss en þessi kona hefur ekki hætt að kyssa fætur mína síðan ég kom. 46 Þú helltir ekki olíu á höfuð mér en þessi kona hefur smurt fætur mína með ilmolíu. 47 Þess vegna segi ég ykkur að syndir hennar eru fyrirgefnar þótt margar* séu+ því að hún elskaði mikið. En sá sem er fyrirgefið lítið elskar lítið.“ 48 Síðan sagði hann við hana: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“+ 49 Þeir sem lágu til borðs með honum sögðu þá hver við annan: „Hver er þessi maður sem fyrirgefur jafnvel syndir?“+ 50 En hann sagði við konuna: „Trú þín hefur bjargað þér.+ Farðu í friði.“

8 Skömmu síðar fór hann borg úr borg og þorp úr þorpi og boðaði fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs.+ Með honum voru þeir tólf 2 og nokkrar konur sem höfðu losnað undan áhrifum illra anda og læknast af sjúkdómum sínum. Það voru þær María, kölluð Magdalena, en sjö illir andar höfðu farið úr henni, 3 Jóhanna,+ kona Kúsa ráðsmanns Heródesar, Súsanna og margar aðrar konur sem studdu þá með eigum sínum.+

4 Fjöldi fólks hafði nú safnast saman ásamt þeim sem fylgdu honum borg úr borg. Þá sagði hann þessa dæmisögu:+ 5 „Akuryrkjumaður gekk út að sá korni. Þegar hann sáði féll sumt af því meðfram veginum, það var troðið niður og fuglar himins átu það.+ 6 Sumt féll á klöpp, spíraði en skrælnaði síðan af því að það fékk engan raka.+ 7 Sumt féll meðal þyrna og þyrnarnir, sem uxu ásamt því, kæfðu það.+ 8 En annað féll í góðan jarðveg, óx og bar hundraðfaldan ávöxt.“+ Að svo mæltu hrópaði hann: „Sá sem hefur eyru hann hlusti.“+

9 En lærisveinarnir spurðu hann hvað þessi dæmisaga merkti.+ 10 Hann sagði: „Ykkur er gefið að skilja heilaga leyndardóma Guðsríkis en hinir fá þá í dæmisögum.+ Þeir sjá að vísu en horfa þó til einskis og heyra en skilja ekki.+ 11 Dæmisagan merkir þetta: Sáðkornið er orð Guðs.+ 12 Það sem féll meðfram veginum eru þeir sem heyra orðið en síðan kemur Djöfullinn og tekur það úr hjarta þeirra svo að þeir trúi ekki og bjargist.+ 13 Það sem féll á klöppina eru þeir sem taka við orðinu með fögnuði þegar þeir heyra það en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um tíma en falla frá þegar á reynir.+ 14 Það sem féll meðal þyrna eru þeir sem heyra en áhyggjur, auðæfi+ og nautnir lífsins+ hrífa þá með sér svo að þeir kafna og bera ekki þroskaðan ávöxt.+ 15 En það sem féll í góðan jarðveg eru þeir sem hafa einlægt og gott hjarta,+ heyra orðið, varðveita það og bera ávöxt með þolgæði.+

16 Enginn kveikir á lampa og setur hann undir ker eða undir rúm heldur er hann settur á ljósastand til að þeir sem koma inn sjái ljósið.+ 17 Ekkert er hulið sem verður ekki sýnilegt og ekkert er vandlega falið sem verður ekki kunnugt né kemur í ljós.+ 18 Gætið því að hvernig þið hlustið því að þeim sem hefur verður gefið meira,+ en frá þeim sem hefur ekki verður tekið jafnvel það sem hann ímyndar sér að hann hafi.“+

19 Móðir Jesú og bræður+ komu nú til að hitta hann en komust ekki að honum vegna mannfjöldans.+ 20 Honum var þá sagt: „Móðir þín og bræður standa fyrir utan og vilja ná tali af þér.“ 21 Hann svaraði þeim: „Móðir mín og bræður eru þeir sem heyra orð Guðs og fara eftir því.“+

22 Dag einn stigu hann og lærisveinarnir um borð í bát og hann sagði við þá: „Förum yfir vatnið.“ Þeir drógu þá upp seglin.+ 23 En á leiðinni sofnaði Jesús. Þá skall á mikill stormur á vatninu og þeir voru hætt komnir því að bátinn fyllti næstum.+ 24 Þá vöktu þeir hann og sögðu: „Kennari, kennari, við erum að farast!“ Hann reis þá upp og hastaði á vindinn og ölduganginn. Óveðrinu linnti og það gerði logn.+ 25 Síðan sagði hann við þá: „Hvar er trú ykkar?“ En þeir urðu agndofa og óttaslegnir og sögðu hver við annan: „Hver er hann eiginlega? Hann skipar jafnvel vindum og vatni og hvort tveggja hlýðir honum.“+

26 Þeir komu að landi við Gerasenahérað+ sem er gegnt Galíleu. 27 Þegar Jesús steig á land kom á móti honum andsetinn maður úr borginni. Hann hafði ekki verið í fötum um langan tíma og hafðist ekki við í húsi heldur hjá gröfunum.+ 28 Þegar hann sá Jesú æpti hann, féll fram fyrir honum og sagði hárri röddu: „Hvað viltu mér, Jesús, sonur hins hæsta Guðs? Ég bið þig að kvelja mig ekki.“+ 29 (En Jesús hafði skipað óhreina andanum að fara úr manninum. Andinn hafði gripið hann margsinnis*+ og hann hafði oft verið hlekkjaður á höndum og fótum og hafður í gæslu en hann sleit fjötrana og andinn hrakti hann á óbyggða staði.) 30 Jesús spurði hann: „Hvað heitirðu?“ „Hersing,“ svaraði hann því að margir illir andar höfðu farið í hann. 31 Þeir sárbændu Jesú um að skipa sér ekki að fara í undirdjúpið.+ 32 Nú var stór svínahjörð+ á beit þar á fjallinu og þeir báðu hann að leyfa sér að fara í svínin. Hann leyfði þeim það.+ 33 Illu andarnir fóru þá úr manninum og í svínin en hjörðin æddi fram af þverhnípinu* og drukknaði í vatninu. 34 Þegar svínahirðarnir sáu hvað hafði gerst flúðu þeir og sögðu fréttirnar í borginni og sveitinni.

35 Fólk kom nú til að sjá hvað hafði gerst. Það kom til Jesú og fann manninn sem illu andarnir höfðu farið úr sitja klæddan og með réttu ráði við fætur Jesú. Og fólkið varð hrætt. 36 Þeir sem höfðu séð þetta sögðu fólkinu frá hvernig andsetni maðurinn hafði orðið heilbrigður. 37 Fjölmargir frá Gerasenahéraði báðu þá Jesú að fara burt því að mikill ótti greip þá. Hann fór þá um borð í bátinn til að halda brott. 38 En maðurinn sem illu andarnir höfðu farið úr þrábað Jesú um að mega vera áfram með honum, en hann sagði manninum að fara með þessum orðum:+ 39 „Farðu heim og segðu frá því sem Guð hefur gert fyrir þig.“ Hann fór og greindi frá því um alla borgina hvað Jesús hafði gert fyrir hann.

40 Þegar Jesús kom til baka tók fólkið vel á móti honum því að allir höfðu beðið eftir að hann kæmi.+ 41 Maður að nafni Jaírus kom nú til hans en hann var samkundustjóri. Hann féll til fóta Jesú og sárbændi hann um að koma heim til sín+ 42 því að einkadóttir hans, sem var um 12 ára, lá fyrir dauðanum.

Þegar Jesús var á leiðinni þangað þrengdi mannfjöldinn að honum. 43 Meðal fólksins var kona sem hafði haft stöðugar blæðingar+ í 12 ár og enginn hafði getað læknað hana.+ 44 Hún kom að honum aftan frá og snerti kögrið á yfirhöfn hans,+ og blæðingarnar stöðvuðust samstundis. 45 „Hver snerti mig?“ spurði Jesús. Allir neituðu að hafa snert hann og Pétur sagði: „Kennari, þú ert umkringdur fólki og það þrengir að þér.“+ 46 En Jesús sagði: „Einhver snerti mig því að ég fann að kraftur+ fór út frá mér.“ 47 Konan sá nú að hún gat ekki dulist. Hún kom skjálfandi og féll til fóta honum og sagði í allra áheyrn hvers vegna hún hefði snert hann og hvernig hún læknaðist samstundis. 48 En hann sagði við hana: „Dóttir, trú þín hefur læknað þig. Farðu í friði.“+

49 Meðan hann var enn að tala kom einn af mönnum samkundustjórans og sagði: „Dóttir þín er dáin. Vertu ekki að ónáða kennarann lengur.“+ 50 Þegar Jesús heyrði þetta sagði hann við Jaírus: „Vertu óhræddur, trúðu bara og hún mun lifa.“*+ 51 Hann kom nú að húsinu en leyfði engum að fara inn með sér nema Pétri, Jóhannesi, Jakobi og föður stúlkunnar og móður. 52 Allt fólkið grét og barði sér á brjóst. Hann sagði þá: „Hættið að gráta+ því að hún er ekki dáin heldur sofandi.“+ 53 Fólkið hló þá að honum því að það vissi að hún var dáin. 54 En hann tók í hönd hennar og sagði hátt og skýrt: „Rístu upp, barnið mitt.“+ 55 Og lífsandi*+ hennar sneri aftur og hún reis samstundis á fætur+ og hann sagði að henni skyldi gefið að borða. 56 Foreldrar hennar voru frá sér numdir en hann sagði þeim að segja engum frá því sem hafði gerst.+

9 Jesús kallaði nú saman þá tólf og gaf þeim mátt og vald yfir öllum illum öndum+ og kraft til að lækna sjúkdóma.+ 2 Hann sendi þá af stað til að boða ríki Guðs og lækna 3 og sagði við þá: „Takið ekkert með til ferðarinnar, hvorki staf né nestispoka, brauð né peninga* né föt til skiptanna.*+ 4 En þegar þið komið inn á heimili skuluð þið dvelja þar þangað til þið farið úr borginni.+ 5 Ef fólk tekur ekki á móti ykkur skuluð þið hrista rykið af fótum ykkar þegar þið farið úr borginni, fólkinu til viðvörunar.“+ 6 Þeir lögðu þá af stað, fóru um svæðið þorp úr þorpi, boðuðu fagnaðarboðskapinn og læknuðu fólk alls staðar.+

7 Heródes* héraðsstjóri* frétti af öllu sem var að gerast og vissi ekki hvað hann átti að halda því að sumir sögðu að Jóhannes væri risinn upp frá dauðum,+ 8 aðrir sögðu að Elía væri kominn fram og enn aðrir að einn af spámönnum fortíðar væri risinn upp.+ 9 Heródes sagði: „Ég lét hálshöggva Jóhannes.+ Hver er þá þessi maður sem ég heyri talað svona mikið um?“ Hann vildi gjarnan fá að sjá Jesú.+

10 Þegar postularnir komu aftur sögðu þeir Jesú frá öllu sem þeir höfðu gert.+ Eftir það tók hann þá með sér til borgar sem heitir Betsaída til að þeir gætu verið einir.+ 11 En mannfjöldinn varð þess var og elti hann. Hann tók fólkinu vel, talaði við það um ríki Guðs og læknaði þá sem þurftu á lækningu að halda.+ 12 Nú tók degi að halla. Þeir tólf komu þá til hans og sögðu: „Sendu fólkið burt svo að það geti komist í sveitina og þorpin í kring og fengið mat og gistingu því að við erum á afskekktum stað.“+ 13 En hann sagði við þá: „Þið getið gefið því að borða.“+ Þeir svöruðu: „Við eigum ekki meira en fimm brauð og tvo fiska nema við förum og kaupum mat handa öllu þessu fólki.“ 14 Þarna voru um 5.000 karlmenn. Hann sagði við lærisveinana: „Látið þá setjast í hópa, um 50 í hverjum.“ 15 Þeir gerðu það og létu alla setjast. 16 Hann tók nú brauðin fimm og fiskana tvo, leit til himins og fór með bæn. Síðan braut hann brauðin og rétti lærisveinunum þau ásamt fiskunum og þeir gáfu mannfjöldanum. 17 Allir borðuðu og urðu saddir. Þeir tóku saman brauðbitana sem voru afgangs og fylltu 12 körfur.+

18 Síðar, þegar hann var einn á bæn, komu lærisveinarnir til hans og hann spurði þá: „Hver heldur fólk að ég sé?“+ 19 Þeir svöruðu: „Jóhannes skírari en sumir segja Elía og aðrir að einn af spámönnum fortíðar sé risinn upp.“+ 20 Þá spurði hann: „En þið, hver segið þið að ég sé?“ Pétur svaraði: „Kristur Guðs.“+ 21 Hann bannaði þeim þá stranglega að segja nokkrum þetta+ 22 og bætti við: „Mannssonurinn þarf að þola miklar þjáningar og öldungarnir, yfirprestarnir og fræðimennirnir munu hafna honum. Hann verður líflátinn+ en reistur upp á þriðja degi.“+

23 Síðan sagði hann við alla: „Sá sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér,+ taki kvalastaur* sinn daglega og fylgi mér.+ 24 Hver sem vill bjarga lífi sínu týnir því en hver sem týnir lífi sínu vegna mín, hann bjargar því.+ 25 Hvaða gagn hefði maðurinn af því að eignast allan heiminn en glata sjálfum sér eða bíða tjón?+ 26 Hvern þann sem skammast sín fyrir mig og orð mín mun Mannssonurinn skammast sín fyrir þegar hann kemur í dýrð sinni, föðurins og hinna heilögu engla.+ 27 En trúið mér, sumir þeirra sem standa hér munu ekki deyja fyrr en þeir sjá ríki Guðs.“+

28 Um átta dögum eftir að hann sagði þetta tók hann Pétur, Jóhannes og Jakob með sér og gekk á fjallið til að biðjast fyrir.+ 29 Meðan hann var á bæn breyttist yfirbragð andlits hans og fötin urðu skínandi hvít. 30 Skyndilega voru þar tveir menn á tali við hann. Það voru Móse og Elía. 31 Þeir birtust í dýrðarljóma og fóru að tala um væntanlega brottför hans sem átti að eiga sér stað í Jerúsalem.+ 32 Pétur og þeir sem voru með honum voru hálfsofandi en nú glaðvöknuðu þeir og sáu dýrð hans+ og mennina tvo sem stóðu hjá honum. 33 Þegar mennirnir voru að fara sagði Pétur við Jesú: „Kennari, það er gott að vera hér. Reisum þrjú tjöld, eitt handa þér, eitt handa Móse og eitt handa Elía.“ En hann gerði sér ekki grein fyrir hvað hann var að segja. 34 Meðan hann var enn að tala myndaðist ský sem huldi þá. Þegar skýið umlukti þá urðu þeir hræddir. 35 Þá heyrðist rödd+ úr skýinu sem sagði: „Þetta er sonur minn sem ég hef útvalið.+ Hlustið á hann.“+ 36 Þegar þeir heyrðu röddina sáu þeir að Jesús var einn. En þeir sögðu engum frá þessu heldur þögðu um tíma yfir því sem þeir höfðu séð.+

37 Þegar þeir komu niður af fjallinu daginn eftir kom mikill mannfjöldi á móti honum.+ 38 Maður nokkur kallaði: „Kennari, ég bið þig að líta á son minn því að hann er einkabarn mitt.+ 39 Illur andi grípur hann og hann æpir skyndilega, fær krampaflog og froðufellir. Og andinn er mjög tregur til að yfirgefa hann eftir að hafa misþyrmt honum. 40 Ég bað lærisveina þína að reka hann út en þeir gátu það ekki.“ 41 Jesús sagði þá: „Þú trúlausa og spillta kynslóð,+ hve lengi þarf ég að vera hjá ykkur og umbera ykkur? Komdu hingað með son þinn.“+ 42 En meðan drengurinn var að koma slengdi illi andinn honum til jarðar og olli miklu krampaflogi hjá honum. Jesús ávítaði óhreina andann, læknaði drenginn og gaf hann föður hans aftur. 43 Allir voru agndofa yfir því hve mikill máttur Guðs var.

Meðan allir undruðust allt sem hann gerði sagði hann við lærisveina sína: 44 „Hlustið vel og munið eftir þessum orðum: Mannssonurinn verður svikinn í hendur manna.“+ 45 En þeir áttuðu sig ekki á því sem hann sagði. Reyndar var það þeim hulið svo að þeir skildu það ekki, og þeir þorðu ekki að spyrja hann út í það.

46 Þeir fóru nú að deila um hver þeirra væri mestur.+ 47 Jesús vissi hvernig þeir hugsuðu í hjörtum sínum. Hann tók því barn, lét það standa við hlið sér 48 og sagði við þá: „Hver sem tekur við þessu barni vegna nafns míns tekur einnig við mér og hver sem tekur við mér tekur einnig við þeim sem sendi mig+ því að sá sem hegðar sér eins og hann sé minnstur ykkar allra, hann er mikill.“+

49 Þá sagði Jóhannes: „Kennari, við sáum mann reka út illa anda í þínu nafni og við reyndum að aftra honum frá því þar sem hann er ekki einn af okkur.“+ 50 En Jesús svaraði: „Reynið ekki að aftra honum því að sá sem er ekki á móti ykkur er með ykkur.“

51 Nú nálgaðist sá tími* að hann yrði tekinn upp til himna+ og hann var staðráðinn í að fara til* Jerúsalem. 52 Hann lét því sendiboða fara á undan sér og þeir komu í samverskt þorp til að undirbúa komu hans. 53 En menn tóku ekki við honum+ því að hann var á leið til Jerúsalem. 54 Þegar lærisveinarnir Jakob og Jóhannes+ urðu þess vísir sögðu þeir: „Drottinn, viltu að við köllum eld niður af himni til að tortíma þeim?“+ 55 En hann sneri sér við og ávítaði þá. 56 Síðan fóru þeir í annað þorp.

57 Meðan þeir voru á leiðinni sagði maður nokkur við hann: „Ég vil fylgja þér hvert sem þú ferð.“ 58 En Jesús svaraði: „Refir eiga greni og fuglar himins hreiður en Mannssonurinn á hvergi stað til að halla höfði sínu.“+ 59 Síðan sagði hann við annan: „Fylgdu mér.“ Maðurinn svaraði: „Drottinn, leyfðu mér að fara fyrst og jarða föður minn.“+ 60 En Jesús sagði við hann: „Láttu hina dauðu+ jarða sína dauðu en þú skalt fara og boða ríki Guðs vítt og breitt.“+ 61 Enn einn sagði: „Drottinn, ég vil fylgja þér en leyfðu mér fyrst að kveðja heimilisfólk mitt.“ 62 Jesús svaraði honum: „Enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir til baka+ er hæfur í ríki Guðs.“+

10 Eftir þetta valdi Drottinn 70 aðra og sendi þá tvo og tvo+ á undan sér til allra borga og staða sem hann ætlaði sjálfur að koma til. 2 Hann sagði við þá: „Uppskeran er mikil en verkamennirnir fáir. Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.+ 3 Farið! Ég sendi ykkur út eins og lömb meðal úlfa.+ 4 Takið hvorki með ykkur peningapyngju, nestispoka né sandala+ og heilsið engum* á leiðinni. 5 Hvar sem þið komið inn í hús skuluð þið byrja á því að segja: ‚Friður sé með þessu húsi.‘+ 6 Og sé þar friðarvinur skal friður ykkar hvíla yfir honum. Annars skal friðurinn snúa aftur til ykkar. 7 Dveljið í því húsi+ og borðið og drekkið það sem borið er fram+ því að verkamaðurinn verðskuldar laun sín.+ Flytjið ykkur ekki sífellt hús úr húsi.

8 Og þegar þið komið í borg og tekið er við ykkur skuluð þið borða það sem er borið fram fyrir ykkur, 9 lækna þá sem eru veikir og segja þeim: ‚Ríki Guðs er komið í nánd við ykkur.‘+ 10 En þegar þið komið í borg og ekki er tekið við ykkur skuluð þið fara út á aðalgöturnar og segja: 11 ‚Við þurrkum jafnvel rykið úr borginni af fótum okkar til merkis um sekt ykkar.+ Vitið samt að ríki Guðs er komið í nánd.‘ 12 Ég segi ykkur að bærilegra verður fyrir Sódómu á þeim degi en þá borg.+

13 Þú auma Korasín! Þú auma Betsaída! Ef máttarverkin sem hafa gerst í ykkur hefðu átt sér stað í Týrus og Sídon hefðu íbúar þeirra fyrir löngu iðrast og setið í sekk og ösku.+ 14 Bærilegra verður því fyrir Týrus og Sídon í dóminum en ykkur. 15 Og þú, Kapernaúm, verður þú kannski hafin upp til himins? Nei, þú ferð niður í gröfina.*

16 Hver sem hlustar á ykkur hlustar á mig+ og hver sem lítilsvirðir ykkur lítilsvirðir einnig mig. En hver sem lítilsvirðir mig lítilsvirðir einnig þann sem sendi mig.“+

17 Þeir 70 sneru nú aftur fagnandi og sögðu: „Drottinn, jafnvel illu andarnir hlýða okkur þegar við notum nafn þitt.“+ 18 Þá sagði hann við þá: „Ég sé Satan nú þegar fallinn af himni+ eins og eldingu. 19 Ég hef gefið ykkur vald til að fótumtroða höggorma og sporðdreka og mátt til að yfirbuga óvininn,+ og alls ekkert getur orðið ykkur að meini. 20 Gleðjist samt ekki yfir því að andarnir hlýða ykkur. Gleðjist frekar yfir því að nöfn ykkar eru skráð á himnum.“+ 21 Á sömu stundu fylltist hann fögnuði vegna heilags anda og sagði: „Faðir, Drottinn himins og jarðar, ég lofa þig í áheyrn annarra því að þú hefur hulið þetta vandlega fyrir hinum vitru og gáfuðu+ en opinberað það börnum. Já, faðir, þetta er samkvæmt vilja þínum.+ 22 Faðir minn hefur lagt allt í hendur mér. Enginn veit hver sonurinn er nema faðirinn og enginn veit hver faðirinn er nema sonurinn+ og þeir sem sonurinn vill opinbera hann.“+

23 Hann sneri sér nú að lærisveinunum og sagði við þá einslega: „Þeir sem sjá það sem þið sjáið eru hamingjusamir.+ 24 Ég segi ykkur að margir spámenn og konungar þráðu að sjá það sem þið sjáið en sáu það ekki+ og heyra það sem þið heyrið en heyrðu það ekki.“

25 Nú stóð löglærður maður upp og vildi reyna hann. Hann spurði: „Kennari, hvað þarf ég að gera til að hljóta eilíft líf?“+ 26 „Hvað stendur í lögunum? Hvað lestu út úr þeim?“ sagði Jesús. 27 Hann svaraði: „‚Þú skalt elska Jehóva* Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sál* þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum‘+ og ‚náunga þinn eins og sjálfan þig‘.“+ 28 „Þú svaraðir rétt,“ sagði Jesús. „Haltu þessu áfram og þú færð að lifa.“+

29 En maðurinn vildi réttlæta sjálfan sig+ og sagði við Jesú: „Hver er þá náungi minn?“ 30 Jesús svaraði: „Maður var á leið frá Jerúsalem niður til Jeríkó þegar ræningjar réðust á hann, afklæddu hann og börðu. Þeir fóru síðan og skildu hann eftir nær dauða en lífi. 31 Nú vildi svo til að prestur var á leið niður eftir veginum en þegar hann sá manninn sveigði hann fram hjá. 32 Levíti kom einnig þar að, sá hann og sveigði fram hjá. 33 En Samverji+ nokkur, sem var líka á leið eftir veginum, kom að honum og þegar hann sá hann kenndi hann í brjósti um hann. 34 Hann gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau olíu og víni. Síðan setti hann manninn á asna sinn, fór með hann á gistihús og annaðist hann. 35 Daginn eftir tók hann upp tvo denara,* fékk gestgjafanum og sagði: ‚Viltu annast hann? Það sem þú eyðir umfram þetta skal ég endurgreiða þér þegar ég kem aftur.‘ 36 Hver þessara þriggja finnst þér hafa reynst náungi+ mannsins sem ræningjarnir réðust á?“ 37 Hann svaraði: „Sá sem vann miskunnarverkið.“+ Jesús sagði þá við hann: „Farðu og gerðu eins og hann.“+

38 Þeir héldu nú ferð sinni áfram og komu í þorp nokkurt. Kona sem hét Marta+ tók vel á móti Jesú á heimili sínu. 39 Hún átti systur sem hét María og hún settist við fætur Drottins til að hlusta á það sem hann sagði.* 40 Marta var hins vegar önnum kafin við að gera sem best við hann. Hún kom til hans og sagði: „Drottinn, er þér sama um að systir mín skuli láta mig eina um alla vinnuna? Segðu henni að koma og hjálpa mér.“ 41 Drottinn svaraði henni: „Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og upptekin af mörgu. 42 Við þurfum ekki margt, jafnvel eitt væri nóg. María valdi góða* hlutskiptið+ og það verður ekki tekið frá henni.“

11 Nú var Jesús á stað einum að biðjast fyrir. Þegar hann lauk bæninni sagði einn lærisveinanna við hann: „Drottinn, kenndu okkur að biðja eins og Jóhannes kenndi lærisveinum sínum.“

2 Hann sagði við þá: „Þegar þið biðjið skuluð þið segja: ‚Faðir, við biðjum að nafn þitt helgist.*+ Við biðjum að ríki þitt komi.+ 3 Gefðu okkur daglega það brauð sem við þurfum hvern dag.+ 4 Fyrirgefðu syndir okkar+ því að við fyrirgefum líka öllum sem skulda okkur.+ Og leiddu okkur ekki í freistingu.‘“*+

5 Síðan sagði hann: „Segjum að einhver ykkar eigi vin og fari til hans um miðja nótt og segi við hann: ‚Vinur, lánaðu mér þrjú brauð 6 því að vinur minn er á ferðalagi og er nýkominn til mín en ég á ekkert til að bjóða honum.‘ 7 Hinn svarar inni: ‚Hættu að ónáða mig. Það er búið að læsa dyrunum og börnin og ég erum komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur til að gefa þér brauð.‘ 8 Ég segi ykkur að þótt hann fari ekki á fætur og gefi honum brauð vegna vináttu þeirra fer hann samt fram úr vegna ágengni hans+ og gefur honum það sem hann þarf. 9 Þess vegna segi ég ykkur: Haldið áfram að biðja+ og ykkur verður gefið, haldið áfram að leita og þið munuð finna, haldið áfram að banka og það verður opnað fyrir ykkur,+ 10 því að allir fá sem biðja,+ allir finna sem leita og opnað verður fyrir öllum sem banka. 11 Myndi nokkur faðir á meðal ykkar gefa syni sínum höggorm ef hann bæði um fisk?+ 12 Eða myndi hann gefa honum sporðdreka ef hann bæði um egg? 13 Fyrst þið, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum ykkar góðar gjafir hlýtur faðirinn á himnum miklu frekar að gefa þeim heilagan anda sem biðja hann.“+

14 Síðar rak Jesús út illan anda sem olli málleysi hjá manni nokkrum.+ Eftir að illi andinn var farinn út gat mállausi maðurinn talað og fólkið undraðist mjög.+ 15 En sumir sögðu: „Hann rekur út illu andana með hjálp Beelsebúls,* höfðingja illu andanna.“+ 16 Aðrir vildu reyna hann og heimtuðu að hann gæfi þeim tákn+ af himni. 17 Hann vissi hvað þeir hugsuðu+ og sagði við þá: „Hvert það ríki sem er sundrað líður undir lok og hver sú fjölskylda sem er sundruð leysist upp. 18 Ef Satan hefur snúist gegn sjálfum sér, hvernig getur ríki hans þá staðist? Þið segið að ég reki illu andana út með hjálp Beelsebúls. 19 Ef ég rek út illu andana með hjálp Beelsebúls, hver hjálpar þá fylgjendum* ykkar að reka þá út? Þeir skulu því vera dómarar ykkar. 20 En ef ég rek út illu andana með fingri Guðs+ þá er ríki Guðs komið, ykkur að óvörum.+ 21 Þegar sterkur og vel vopnaður maður gætir hallar sinnar eru eigur hans óhultar. 22 En þegar annar honum sterkari ræðst á hann og sigrar hann tekur sá öll vopnin sem hinn treysti á og deilir út því sem hann tekur frá honum. 23 Hver sem stendur ekki með mér er á móti mér og hver sem safnar ekki saman með mér, hann tvístrar.+

24 Þegar óhreinn andi fer úr manni flakkar hann um þurrar auðnir í leit að hvíldarstað og þegar hann finnur engan segir hann: ‚Ég fer aftur í hús mitt sem ég flutti úr.‘+ 25 Hann kemur þangað og finnur það sópað og skreytt. 26 Hann fer þá og tekur með sér sjö aðra anda sem eru verri en hann sjálfur. Þeir fara inn og setjast þar að svo að maðurinn er enn verr settur en í upphafi.“

27 Þegar hann sagði þetta kallaði kona meðal mannfjöldans til hans: „Sú móðir sem gekk með þig og gaf þér brjóst er hamingjusöm.“+ 28 En hann sagði: „Nei, þeir sem heyra orð Guðs og fara eftir því, þeir eru hamingjusamir.“+

29 Þegar fólkið þyrptist að sagði hann: „Þessi kynslóð er vond kynslóð. Hún heimtar tákn en fær ekkert annað en tákn Jónasar.+ 30 Eins og Jónas+ varð tákn fyrir Nínívebúa þannig verður Mannssonurinn tákn fyrir þessa kynslóð. 31 Drottningin í suðri+ verður reist upp í dóminum ásamt fólki af þessari kynslóð og sakfellir það því að hún kom frá endimörkum jarðar til að hlusta á visku Salómons. En hér er meira en Salómon.+ 32 Nínívemenn rísa upp í dóminum ásamt þessari kynslóð og dæma hana seka því að þeir iðruðust vegna boðunar Jónasar.+ En hér er meira en Jónas. 33 Sá sem kveikir á lampa fer ekki með hann í felur eða setur hann undir körfu* heldur á ljósastand+ svo að þeir sem koma inn sjái ljósið. 34 Augað er lampi líkamans. Þegar augað sér skýrt* er allur líkami þinn bjartur.* En þegar það er öfundsjúkt* er líkami þinn dimmur.+ 35 Gættu því þess að ljósið í þér sé ekki myrkur. 36 Ef allur líkami þinn er bjartur og ekkert myrkur er í honum verður hann allur eins bjartur og þegar lampi lýsir þér.“

37 Eftir að hann hafði sagt þetta bauð farísei nokkur honum til sín í mat. Hann fór inn til hans og lagðist til borðs. 38 En faríseinn furðaði sig á að hann skyldi ekki þvo sér* fyrir matinn.+ 39 Drottinn sagði þá við hann: „Þið farísear, þið hreinsið bikarinn og diskinn að utan en að innan eruð þið fullir græðgi og illsku.+ 40 Þið óskynsömu menn! Hefur ekki sá sem gerði hið ytra einnig gert hið innra? 41 Þegar þið gefið fátækum gjafir* á það að koma innan frá og þá verðið þið hreinir að öllu öðru leyti. 42 En illa fer fyrir ykkur, farísear, því að þið gefið tíund af myntu og rúðu og öllum öðrum kryddjurtum*+ en skeytið ekki um réttlæti og kærleika til Guðs. Ykkur var skylt að gjalda tíundina en þið áttuð ekki að sleppa hinu.+ 43 Illa fer fyrir ykkur, farísear, því að þið njótið þess að sitja í fremstu* sætunum í samkunduhúsum og láta heilsa ykkur á torgunum.+ 44 Illa fer fyrir ykkur því að þið eruð eins og grafir sem sjást illa*+ og menn ganga yfir án þess að vita það.“

45 Löglærður maður sagði þá við hann: „Kennari, þú misbýður okkur líka með því sem þú segir.“ 46 Jesús svaraði: „Illa fer fyrir ykkur líka, þið löglærðu, því að þið íþyngið mönnum með þungum byrðum en sjálfir snertið þið þær ekki einum fingri.+

47 Illa fer fyrir ykkur því að þið hlaðið upp grafir spámannanna sem forfeður ykkar drápu.+ 48 Þið vitið mætavel hvað forfeður ykkar gerðu en þið látið ykkur það vel líka. Þeir drápu spámennina+ og þið hlaðið upp grafir þeirra. 49 Þess vegna sagði Guð í visku sinni: ‚Ég mun senda þeim spámenn og postula og þeir munu drepa og ofsækja suma þeirra. 50 Þessi kynslóð verður því gerð ábyrg fyrir blóði* allra spámanna sem hefur verið úthellt frá grundvöllun heims,+ 51 frá blóði Abels+ til blóðs Sakaría sem var drepinn milli altarisins og musterisins.‘*+ Já, ég segi ykkur að þessi kynslóð verður gerð ábyrg fyrir því.*

52 Illa fer fyrir ykkur, þið löglærðu, því að þið hafið fjarlægt lykil þekkingarinnar. Sjálfir hafið þið ekki gengið inn og þið hindrið þá sem vilja komast inn!“+

53 Hann fór út þaðan og fræðimennirnir og farísearnir gengu þá hart að honum og létu spurningarnar dynja á honum. 54 Þeir sátu fyrir honum til að reyna að hanka hann á einhverju sem hann segði.+

12 Meðan þessu fór fram hafði fólk flykkst að þúsundum saman og tróð hvað á öðru. Jesús sneri sér að lærisveinunum og sagði: „Varið ykkur á súrdeigi farísea sem er hræsnin.+ 2 Ekkert er vandlega falið sem kemur ekki í ljós og ekkert er leynt sem verður ekki kunnugt.+ 3 Hvað sem þið segið í myrkri heyrist í birtu og það sem þið hvíslið fyrir luktum dyrum verður boðað af húsþökum. 4 Ég segi ykkur enn fremur, vinir mínir:+ Hræðist ekki þá sem drepa líkamann og geta síðan ekki gert neitt meira.+ 5 En ég skal segja ykkur hvern á að hræðast: Hræðist þann sem hefur vald til að drepa og síðan varpa í Gehenna.*+ Já, ég segi ykkur, hræðist hann.+ 6 Eru ekki fimm spörvar seldir fyrir tvo smápeninga?* Samt gleymir Guð engum* þeirra.+ 7 En á ykkur eru jafnvel öll höfuðhárin talin.+ Verið óhrædd, þið eruð meira virði en margir spörvar.+

8 Ég segi ykkur að hvern þann sem kannast við mig frammi fyrir mönnum+ mun Mannssonurinn einnig kannast við frammi fyrir englum Guðs.+ 9 En þeim sem afneitar mér frammi fyrir mönnum verður afneitað frammi fyrir englum Guðs.+ 10 Og hverjum sem talar gegn Mannssyninum verður fyrirgefið en þeim sem lastmælir gegn heilögum anda verður ekki fyrirgefið.+ 11 Þegar þeir draga ykkur fyrir opinber dómþing,* valdamenn og yfirvöld skuluð þið ekki hafa áhyggjur af því hvernig þið eigið að verja ykkur eða hvað þið eigið að segja+ 12 því að heilagur andi kennir ykkur á þeirri stundu hvað þið skuluð segja.“+

13 Einn úr mannfjöldanum sagði þá við hann: „Kennari, segðu bróður mínum að skipta arfinum með mér.“ 14 Hann svaraði: „Maður, hver skipaði mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur tveim?“ 15 Síðan sagði hann við þá: „Hafið augun opin og varist hvers kyns græðgi*+ því að eigur manns veita honum ekki líf þótt hann búi við allsnægtir.“+ 16 Hann sagði þeim svo þessa dæmisögu: „Ríkur maður átti land sem gaf vel af sér. 17 Hann hugsaði þá með sér: ‚Hvað á ég nú að gera fyrst ég kem uppskeru minni hvergi fyrir?‘ 18 Síðan sagði hann: ‚Þetta ætla ég að gera:+ Ég ríf hlöður mínar og byggi aðrar stærri og þangað safna ég öllu korni mínu og eigum, 19 og ég segi við sjálfan mig: „Þú átt miklar birgðir til margra ára. Taktu það rólega, borðaðu, drekktu og njóttu lífsins.“‘ 20 En Guð sagði við hann: ‚Óskynsami maður, í nótt deyrðu.* Hver fær þá það sem þú hefur safnað?‘+ 21 Þannig fer fyrir þeim sem safnar sér auði en er ekki ríkur í augum Guðs.“+

22 Síðan sagði hann við lærisveina sína: „Þess vegna segi ég ykkur: Hættið að hafa áhyggjur af því hvað þið eigið að borða til að viðhalda lífi ykkar eða hverju þið eigið að klæðast.+ 23 Lífið er meira virði en maturinn og líkaminn meira virði en fötin. 24 Hugsið til hrafnanna: Þeir sá hvorki né uppskera og hafa hvorki forðabúr né hlöður en Guð fóðrar þá samt.+ Eruð þið ekki miklu meira virði en fuglar?+ 25 Hvert ykkar getur með áhyggjum lengt ævi sína um alin?* 26 Fyrst þið getið ekki gert slíkt smáræði, hvers vegna ættuð þið þá að hafa áhyggjur af öllu hinu?+ 27 Hugsið til þess hvernig liljurnar vaxa. Þær vinna hvorki né spinna en ég segi ykkur að jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki eins fallega klæddur og ein þeirra.+ 28 Fyrst Guð prýðir þannig gróðurinn á vellinum sem stendur í dag og er kastað í ofn á morgun hlýtur hann miklu frekar að klæða ykkur, þið trúlitlu. 29 Hættið að vera upptekin af því hvað þið eigið að borða og drekka, og hættið að vera áhyggjufull.+ 30 Fólkið í heiminum keppist eftir öllu þessu en faðir ykkar veit að þið þarfnist þessa.+ 31 Einbeitið ykkur heldur að ríki hans og þá fáið þið þetta að auki.+

32 Vertu ekki hrædd, litla hjörð,+ því að faðir ykkar hefur ákveðið að gefa ykkur ríkið.+ 33 Seljið eigur ykkar og gefið fátækum gjafir.*+ Fáið ykkur pyngjur sem slitna ekki, óþrjótandi fjársjóð á himnum+ þar sem þjófar ná ekki til og mölur eyðir ekki. 34 Þar sem fjársjóður ykkar er, þar verður líka hjarta ykkar.

35 Verið albúin*+ og látið loga á lömpum ykkar.+ 36 Verið eins og menn sem bíða eftir að húsbóndi þeirra komi heim+ úr brúðkaupinu+ þannig að þeir geti opnað fyrir honum um leið og hann bankar. 37 Þjónarnir sem húsbóndinn finnur viðbúna þegar hann kemur eru glaðir. Trúið mér, hann klæðir sig í þjónsföt,* lætur þá leggjast til borðs og gengur um og þjónar þeim. 38 Þeir eru glaðir ef hann kemur og finnur þá viðbúna á annarri næturvöku* eða jafnvel þriðju.* 39 En það skuluð þið vita að húseigandinn myndi ekki láta brjótast inn í hús sitt ef hann vissi hvenær* þjófurinn kæmi.+ 40 Verið þið líka viðbúin því að Mannssonurinn kemur þegar* þið búist ekki við honum.“+

41 Pétur spurði þá: „Drottinn, ertu að segja öllum þessa dæmisögu eða bara okkur?“ 42 Drottinn svaraði: „Hver er eiginlega hinn trúi og skynsami* ráðsmaður* sem húsbóndinn setur yfir vinnuhjú sín til að gefa þeim matarskammtinn stöðugt á réttum tíma?+ 43 Sá þjónn er glaður ef húsbóndi hans sér hann gera það þegar hann kemur. 44 Trúið mér, hann setur hann yfir allar eigur sínar. 45 En ef þjónninn segir í hjarta sínu: ‚Húsbónda mínum seinkar,‘ og fer að berja vinnumenn og vinnukonur og borða og drekka sig drukkinn+ 46 þá kemur húsbóndi hans á degi sem hann á ekki von á og stund sem hann býst ekki við. Hann refsar þá þjóninum harðlega og rekur hann út til hinna ótrúu. 47 Þjónninn vissi hvað húsbóndinn vildi en var hvorki tilbúinn né gerði það sem hann var beðinn um.* Hann verður því barinn mörg högg.+ 48 En sá sem kallaði yfir sig refsingu í vanvisku sinni verður barinn fá högg. Hver sem mikið er gefið verður krafinn um mikið og sá sem er settur yfir mikið verður krafinn um meira en venjulegt er.+

49 Ég kom til að kveikja eld á jörð og hann er nú þegar kveiktur. Hvers get ég óskað umfram það? 50 En ég þarf að skírast ákveðinni skírn og hún hvílir þungt á mér þar til henni er lokið.+ 51 Haldið þið að ég sé kominn til að færa frið á jörð? Nei, segi ég ykkur, ég kom öllu heldur til að valda sundrung.+ 52 Héðan í frá verða fimm í sama húsi ósáttir, þrír á móti tveim og tveir á móti þrem. 53 Faðir snýst gegn syni og sonur gegn föður, móðir gegn dóttur og dóttir gegn móður, tengdamóðir gegn tengdadóttur og tengdadóttir gegn tengdamóður.“+

54 Síðan sagði hann við fólkið: „Þegar þið sjáið ský draga upp í vestri segið þið undireins: ‚Óveður er í aðsigi,‘ og það verður. 55 Og þegar sunnanvindur blæs segið þið: ‚Nú kemur hitabylgja,‘ og það gerist. 56 Hræsnarar, þið kunnið að ráða útlit himins og jarðar en hvers vegna skiljið þið ekki þýðingu þess sem er að gerast núna?+ 57 Hvers vegna getið þið ekki sjálf dæmt um hvað sé rétt? 58 Tökum dæmi: Þegar þú ert á leið til yfirvalda með þeim sem höfðar mál gegn þér skaltu reyna að ná sáttum við hann til að hann dragi þig ekki fyrir dómara, dómarinn afhendi þig réttarþjóninum og réttarþjónninn varpi þér í fangelsi.+ 59 Ég segi þér að þú losnar alls ekki þaðan fyrr en þú greiðir upp skuldina, hvern einasta eyri.“*

13 Í sömu mund sögðu nokkrir viðstaddra honum frá Galíleumönnunum sem Pílatus hafði drepið meðan þeir færðu fórnir svo að blóð þeirra blandaðist fórnarblóðinu. 2 Hann svaraði þeim: „Haldið þið að þessir Galíleumenn hafi verið meiri syndarar en allir aðrir Galíleumenn fyrst þeir urðu fyrir þessu? 3 Nei, segi ég ykkur. En ef þið iðrist ekki munuð þið öll deyja eins og þeir.+ 4 Eða þeir 18 sem dóu þegar turninn í Sílóam féll á þá – haldið þið að þeir hafi verið sekari en allir aðrir Jerúsalembúar? 5 Nei, segi ég ykkur. En ef þið iðrist ekki deyið þið öll eins og þeir.“

6 Síðan sagði hann þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré í víngarði sínum og kom til að leita að ávexti á því en fann engan.+ 7 Þá sagði hann við garðyrkjumanninn: ‚Nú hef ég komið í þrjú ár og leitað að ávexti á þessu fíkjutré en engan fundið. Felldu tréð. Hvers vegna á það að standa og taka pláss?‘ 8 Hann svaraði: ‚Herra, láttu það standa eitt ár í viðbót þar til ég hef grafið kringum það og gefið því áburð. 9 Þá má vel vera að það beri ávöxt. Ef ekki skaltu fella það.‘“+

10 Jesús var nú að kenna á hvíldardegi í einu af samkunduhúsunum. 11 Þar var kona sem var haldin illum anda og hafði verið veik af völdum hans* í 18 ár. Hún var kengbogin í baki og algerlega ófær um að rétta úr sér. 12 Þegar Jesús sá hana sagði hann: „Kona, þú ert laus við mein þitt.“+ 13 Hann lagði hendur yfir hana og hún rétti samstundis úr sér og lofaði Guð. 14 Samkundustjórinn brást reiður við að Jesús skyldi lækna á hvíldardegi og sagði við fólkið: „Sex dagar vikunnar eru ætlaðir til vinnu.+ Þá daga getið þið komið og fengið lækningu en ekki á hvíldardeginum.“+ 15 En Drottinn svaraði: „Hræsnarar,+ leysið þið ekki allir naut ykkar eða asna af básnum á hvíldardegi og leiðið þau út til að brynna þeim?+ 16 Þessi kona, sem er dóttir Abrahams og Satan hefur haldið í fjötrum í 18 ár, átti ekki að leysa hana úr fjötrum hennar á hvíldardegi?“ 17 Allir andstæðingar hans urðu skömmustulegir þegar hann sagði þetta en mannfjöldinn gladdist yfir öllum þeim stórfenglegu verkum sem hann vann.+

18 Hann hélt áfram: „Hvernig á að lýsa ríki Guðs og við hvað á ég að líkja því? 19 Það er eins og sinnepsfræ sem maður sáði í garð sinn. Það óx og varð tré og fuglar himins hreiðruðu sig í greinum þess.“+

20 Og hann endurtók: „Við hvað á ég að líkja ríki Guðs? 21 Það er eins og súrdeig sem kona tók og blandaði í þrjá stóra mæla* mjöls svo að allt deigið gerjaðist.“+

22 Hann hélt áfram ferð sinni til Jerúsalem, fór borg úr borg og þorp úr þorpi og kenndi. 23 Maður nokkur sagði nú við hann: „Drottinn, eru fáir sem bjargast?“ Hann sagði við þá: 24 „Leggið hart að ykkur til að komast inn um þröngu dyrnar+ því að ég segi ykkur að margir reyna að komast inn en geta það ekki. 25 Þegar húsbóndinn stendur upp og læsir dyrunum munuð þið standa fyrir utan, banka og segja: ‚Drottinn, opnaðu fyrir okkur.‘+ En hann svarar ykkur: ‚Ég veit ekki hvaðan þið eruð.‘ 26 Þá segið þið: ‚Við borðuðum og drukkum með þér og þú kenndir á strætum okkar.‘+ 27 En hann svarar ykkur: ‚Ég veit ekki hvaðan þið eruð. Farið frá mér, þið allir sem vinnið illskuverk!‘ 28 Þið munuð gráta og gnísta tönnum þegar þið sjáið Abraham, Ísak, Jakob og alla spámennina í ríki Guðs en ykkur sjálfum er kastað út.+ 29 Fólk mun koma úr austri og vestri, norðri og suðri og sitja* til borðs í ríki Guðs. 30 Sumir hinna síðustu verða fyrstir og sumir hinna fyrstu síðastir.“+

31 Í sömu andrá komu nokkrir farísear til hans og sögðu: „Farðu héðan því að Heródes vill drepa þig.“ 32 Hann svaraði þeim: „Farið og segið þeim ref: ‚Ég rek út illa anda og lækna fólk í dag og á morgun, og á þriðja degi verð ég búinn.‘ 33 En ég verð að halda ferð minni áfram í dag og á morgun og hinn því að það er óhugsandi* að spámaður sé líflátinn annars staðar en í Jerúsalem.+ 34 Jerúsalem, Jerúsalem, þú sem drepur spámennina og grýtir þá sem eru sendir til þín!+ Hve oft vildi ég ekki safna saman börnum þínum eins og hæna safnar ungahópnum undir vængi sér. En þið vilduð það ekki.+ 35 Hús ykkar verður yfirgefið og í ykkar höndum.+ Ég segi ykkur að þið munuð alls ekki sjá mig fyrr en þið segið: ‚Blessaður sé sá sem kemur í nafni Jehóva.‘“*+

14 Á hvíldardegi nokkrum var Jesú boðið til máltíðar í húsi eins af leiðtogum farísea og menn fylgdust náið með honum. 2 Fyrir framan hann var maður sem var með mikinn bjúg. 3 Jesús spurði þá hina löglærðu og faríseana: „Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?“+ 4 En þeir þögðu. Þá snerti hann manninn, læknaði hann og lét hann fara. 5 Síðan sagði hann við þá: „Ef einhver ykkar ætti son eða naut sem félli í brunn+ á hvíldardegi, myndi hann þá ekki draga hann strax upp úr?“+ 6 Þeir gátu ekki svarað þessu.

7 Þegar hann sá gestina velja sér bestu sætin+ sagði hann þeim þessa dæmisögu: 8 „Þegar þér er boðið til brúðkaupsveislu skaltu ekki velja besta sætið.+ Kannski er einhverjum boðið sem er fremri þér að virðingu. 9 Sá sem bauð ykkur báðum kemur þá og segir við þig: ‚Leyfðu þessum manni að sitja hér.‘ Þá þarftu að færa þig með skömm í lakasta sætið. 10 Þegar þér er boðið skaltu frekar velja lakasta sætið svo að gestgjafinn segi við þig þegar hann kemur: ‚Vinur, færðu þig nær.‘ Þá verður þér sýnd virðing frammi fyrir öllum hinum gestunum.+ 11 Hver sem upphefur sjálfan sig verður auðmýktur og hver sem auðmýkir sjálfan sig verður upphafinn.“+

12 Síðan sagði hann við gestgjafann: „Þegar þú býður til hádegisverðar eða kvöldverðar skaltu ekki bjóða vinum þínum, bræðrum, ættingjum eða ríkum nágrönnum. Þeir bjóða þér kannski seinna og endurgjalda þannig boðið. 13 Þegar þú heldur veislu skaltu bjóða fátækum, fötluðum, höltum og blindum+ 14 og þú verður hamingjusamur því að þeir geta ekki endurgoldið þér. Þér verður endurgoldið í upprisu+ hinna réttlátu.“

15 Þegar einn af gestunum heyrði þetta sagði hann við Jesú: „Sá er hamingjusamur sem matast* í ríki Guðs.“

16 Jesús sagði við hann: „Maður hélt mikla veislu+ og bauð mörgum. 17 Þegar kom að veislunni sendi hann þjón sinn til að segja þeim sem voru boðnir: ‚Komið, því að nú er allt tilbúið.‘ 18 En þeir fóru allir að afsaka sig.+ Sá fyrsti sagði við hann: ‚Ég var að kaupa akur og þarf að fara og líta á hann. Ég bið þig að hafa mig afsakaðan.‘ 19 Annar sagði: ‚Ég var að kaupa fimm eyki* nauta og ætla að fara og skoða þau. Ég bið þig að hafa mig afsakaðan.‘+ 20 Og enn annar sagði: ‚Ég var að gifta mig og þess vegna get ég ekki komið.‘ 21 Þjónninn kom nú til húsbónda síns og greindi honum frá þessu. Þá reiddist húsbóndinn og sagði við þjóninn: ‚Flýttu þér út á stræti og götur borgarinnar og komdu hingað með fátæka, fatlaða, blinda og halta.‘ 22 Þegar þjónninn kom til baka sagði hann: ‚Herra, ég hef gert eins og þú baðst um og enn er pláss fyrir fleiri.‘ 23 Húsbóndinn sagði þá við þjóninn: ‚Farðu út á vegi og sveitagötur og teldu fólk á að koma svo að hús mitt fyllist.+ 24 Ég segi ykkur að enginn þeirra sem voru boðnir skal fá að bragða á kvöldverði mínum.‘“+

25 Mikill fjöldi fólks var í för með honum. Hann sneri sér við og sagði við fólkið: 26 „Sá sem kemur til mín og elskar mig minna en* föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og jafnvel sitt eigið líf+ getur ekki verið lærisveinn minn.+ 27 Hver sem ber ekki kvalastaur* sinn og fylgir mér getur ekki verið lærisveinn minn.+ 28 Ef einhver ykkar vill byggja turn, sest hann þá ekki fyrst niður og reiknar kostnaðinn til að kanna hvort hann hafi efni á að fullgera hann? 29 Annars fer kannski svo að hann leggur grunninn en tekst ekki að ljúka verkinu og allir sem sjá það gera gys að honum 30 og segja: ‚Þessi maður fór að byggja en gat ekki lokið við það.‘ 31 Eða hvaða konungur heldur út í stríð gegn öðrum konungi án þess að setjast fyrst niður með ráðgjöfum sínum og ræða hvort hann geti farið með 10.000 hermönnum gegn þeim sem kemur á móti honum með 20.000 menn? 32 Ef svo er ekki gerir hann út sendinefnd og biðst friðar meðan hinn er enn langt undan. 33 Eins skuluð þið vita að enginn ykkar getur verið lærisveinn minn nema hann segi skilið við* allt sem hann á.+

34 Salt er vissulega gott. En ef saltið dofnar, með hverju á þá að krydda það?+ 35 Það er hvorki nothæft í mold né mykjuhaug. Því er fleygt. Sá sem hefur eyru hann hlusti.“+

15 Skattheimtumenn og syndarar hópuðust stöðugt kringum Jesú til að hlusta á hann+ 2 en bæði farísear og fræðimenn tautuðu: „Þessi maður umgengst syndara og borðar með þeim.“ 3 Þá sagði hann þeim þessa dæmisögu: 4 „Ef einhver ykkar á 100 sauði og týnir einum, skilur hann þá ekki hina 99 eftir í óbyggðinni og leitar að þeim týnda þar til hann finnur hann?+ 5 Þegar hann finnur sauðinn gleðst hann og leggur hann á herðar sér. 6 Og þegar hann kemur heim kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: ‚Samgleðjist mér því að ég hef fundið sauðinn minn sem var týndur.‘+ 7 Ég segi ykkur að á sama hátt verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara sem iðrast+ en yfir 99 réttlátum sem þurfa ekki að iðrast.

8 Eða segjum að kona eigi tíu drökmur* og týni einni. Kveikir hún þá ekki á lampa, sópar húsið og leitar vandlega þar til hún finnur hana? 9 Og þegar hún finnur hana kallar hún saman vinkonur sínar og nágranna og segir: ‚Samgleðjist mér því að ég hef fundið drökmuna* sem ég týndi.‘ 10 Ég segi ykkur að englar Guðs gleðjast á sama hátt yfir einum syndara sem iðrast.“+

11 Síðan sagði hann: „Maður átti tvo syni. 12 Sá yngri sagði við föður sinn: ‚Pabbi, gefðu mér þann hluta eignanna sem ég á að erfa.‘ Hann skipti þá eigum sínum milli þeirra. 13 Nokkrum dögum síðar tók yngri sonurinn saman allar eigur sínar og ferðaðist til fjarlægs lands. Þar sóaði hann arfinum í taumlausu* líferni. 14 Þegar hann hafði eytt aleigunni varð mikil hungursneyð í landinu og hann fór að líða skort. 15 Hann réð sig meira að segja í vinnu hjá manni nokkrum í landinu sem sendi hann út í haga að gæta svína.+ 16 Hann sárlangaði til að seðja sig á fræbelgjunum sem svínin átu en enginn gaf honum neitt.

17 Þegar hann kom til sjálfs sín sagði hann: ‚Allir daglaunamenn pabba hafa meira en nóg af brauði en ég er að deyja hér úr hungri. 18 Ég ætla að taka mig upp og fara heim til pabba og segja við hann: „Pabbi, ég hef syndgað gegn himninum og gegn þér. 19 Ég á ekki lengur skilið að kallast sonur þinn. Leyfðu mér að vera eins og einn af daglaunamönnum þínum.“‘ 20 Hann tók sig síðan upp og fór til föður síns. Faðir hans kom auga á hann meðan hann var enn langt í burtu. Hann kenndi í brjósti um hann og hljóp á móti honum, faðmaði hann að sér* og kyssti hann blíðlega. 21 Sonurinn sagði þá við hann: ‚Pabbi, ég hef syndgað gegn himninum og gegn þér.+ Ég á ekki lengur skilið að kallast sonur þinn.‘ 22 En faðirinn sagði við þjóna sína: ‚Flýtið ykkur! Komið með skikkju, þá bestu, og klæðið hann í. Dragið hring á fingur hans og klæðið hann í sandala. 23 Sækið líka alikálfinn og slátrið honum. Borðum og gerum okkur glaðan dag 24 því að þessi sonur minn var dáinn en er lifnaður aftur.+ Hann var týndur en er fundinn.‘ Síðan gerðu menn sér glaðan dag.

25 Nú var eldri sonurinn úti á akri. Þegar hann sneri heim og nálgaðist húsið heyrði hann tónlist og dans. 26 Hann kallaði á einn af þjónunum og spurði hvað væri um að vera. 27 Þjónninn svaraði: ‚Bróðir þinn er kominn aftur heill á húfi* og þess vegna hefur faðir þinn slátrað alikálfinum.‘ 28 En hann reiddist og vildi ekki fara inn. Faðir hans kom þá út og hvatti hann til að koma inn. 29 Hann svaraði föður sínum: ‚Ég hef stritað fyrir þig öll þessi ár og hef ekki óhlýðnast þér í eitt einasta skipti. Samt hefurðu aldrei gefið mér svo mikið sem kiðling til að ég geti skemmt mér með vinum mínum. 30 En þessi sonur þinn, sem sóaði eigum þínum með vændiskonum, er ekki fyrr kominn heim en þú slátrar alikálfinum fyrir hann.‘ 31 Faðirinn sagði þá við hann: ‚Sonur minn, þú hefur alltaf verið hjá mér og allt mitt er þitt. 32 En við gátum ekki annað en glaðst og haldið veislu því að bróðir þinn var dáinn en er lifnaður aftur. Hann var týndur en er fundinn.‘“

16 Hann sagði nú við lærisveinana: „Ríkur maður var með ráðsmann* sem var sakaður um að sóa eigum hans. 2 Hann kallaði hann því til sín og sagði: ‚Hvað er þetta sem ég heyri um þig? Gerðu grein fyrir ráðsmennsku þinni því að þú getur ekki verið bústjóri lengur.‘ 3 Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: ‚Hvað á ég að gera fyrst húsbóndi minn ætlar að svipta mig ráðsmennskunni? Ég er ekki nógu sterkur til að grafa og mér finnst skammarlegt að betla. 4 Nú veit ég hvað ég geri til að fólk taki við mér á heimili sín þegar ég verð settur af sem ráðsmaður.‘ 5 Hann kallaði til sín skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn, og spurði þann fyrsta: ‚Hve mikið skuldarðu húsbónda mínum?‘ 6 Maðurinn svaraði: ‚Hundrað mæla* ólívuolíu.‘ Hann sagði þá: ‚Taktu skuldabréfið, sestu niður og skrifaðu sem fljótast 50.‘ 7 Því næst sagði hann við annan: ‚En þú, hvað skuldarðu mikið?‘ Maðurinn svaraði: ‚Hundrað stóra mæla* hveitis.‘ Hann sagði þá: ‚Taktu skuldabréfið og skrifaðu 80.‘ 8 Húsbóndinn hrósaði ráðsmanninum, þótt ranglátur væri, fyrir útsjónarsemina.* Já, fólk þessa heims* er snjallara í samskiptum við sína kynslóð en þeir sem eru í ljósinu.*+

9 Ég segi ykkur enn fremur: Notið hin ranglátu auðæfi* til að eignast vini+ svo að þeir taki við ykkur í hina eilífu bústaði þegar þau þrjóta.+ 10 Sá sem er trúr í því smæsta er einnig trúr í miklu og sá sem er ranglátur í því smæsta er einnig ranglátur í miklu. 11 Ef þið hafið ekki farið með hin ranglátu auðæfi af trúmennsku, hver trúir ykkur þá fyrir sönnum verðmætum? 12 Og ef þið hafið ekki farið með eigur annarra af trúmennsku, hver gefur ykkur þá það sem ykkur er ætlað?+ 13 Enginn þjónn getur þjónað tveim herrum því að annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða er trúr öðrum og fyrirlítur hinn. Þið getið ekki verið þjónar Guðs og auðsins.“+

14 Farísearnir, sem voru fégjarnir, heyrðu allt þetta og fóru að hæðast að honum.+ 15 Hann sagði því við þá: „Þið reynið að telja fólki trú um að þið séuð réttlátir+ en Guð þekkir hjörtu ykkar.+ Það sem menn hafa í hávegum er viðurstyggilegt í augum Guðs.+

16 Lögin og spámennirnir ná fram til Jóhannesar. Þaðan í frá er fagnaðarboðskapurinn um ríki Guðs boðaður og alls konar fólk leggur hart að sér til að komast þar inn.+ 17 Já, það er líklegra að himinn og jörð líði undir lok en að einn stafkrókur laganna rætist ekki.+

18 Hver sem skilur við konu sína og giftist annarri fremur hjúskaparbrot og hver sem giftist fráskilinni konu fremur hjúskaparbrot.+

19 Nú var ríkur maður sem klæddist purpura og fínu líni og lifði í munaði og vellystingum alla daga. 20 En betlari, sem hét Lasarus og var þakinn sárum, var að jafnaði færður að hliðinu við hús hans. 21 Hann þráði að seðja sig á því sem féll af borði ríka mannsins. Hundar komu jafnvel og sleiktu sár hans. 22 Nú dó betlarinn og englar báru hann í faðm Abrahams.

Ríki maðurinn dó einnig og var grafinn. 23 Í gröfinni,* þar sem hann kvaldist, leit hann upp og sá Abraham í fjarska og Lasarus við hlið hans.* 24 Þá kallaði hann: ‚Abraham faðir minn, miskunnaðu mér og sendu Lasarus til að dýfa fingurgómi sínum í vatn og kæla tungu mína því að ég kvelst í þessum logandi eldi.‘ 25 En Abraham svaraði: ‚Barnið mitt, mundu að þú naust mikilla gæða meðan þú lifðir en Lasarus bjó hins vegar við bág kjör. Nú fær hann huggun hér en þú ert kvalinn. 26 Auk þess er mikil gjá milli okkar og ykkar þannig að þeir sem vilja fara héðan yfir til ykkar geta það ekki og fólk kemst ekki heldur þaðan sem þið eruð yfir til okkar.‘ 27 Þá sagði hann: ‚Fyrst svo er bið ég þig, faðir, að senda hann í hús föður míns 28 því að ég á fimm bræður. Þá getur hann varað þá við svo að þeir lendi ekki líka á þessum kvalastað.‘ 29 En Abraham svaraði: ‚Þeir hafa Móse og spámennina. Þeir geta hlustað á þá.‘+ 30 Hann sagði þá: ‚Nei, Abraham faðir minn, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dánu myndu þeir iðrast.‘ 31 En Abraham svaraði: ‚Ef þeir hlusta ekki á Móse+ og spámennina láta þeir ekki heldur sannfærast þótt einhver rísi upp frá dauðum.‘“

17 Síðan sagði hann við lærisveinana: „Það er óhjákvæmilegt að eitthvað komi upp sem verður fólki að falli. En illa fer fyrir þeim sem veldur því. 2 Það væri betra fyrir hann að myllusteinn væri hengdur um háls hans og honum kastað í hafið en að hann yrði einum þessara minnstu að falli.+ 3 Gætið að ykkur. Ef bróðir þinn syndgar skaltu ávíta hann+ og ef hann iðrast skaltu fyrirgefa honum.+ 4 Jafnvel þótt hann syndgi gegn þér sjö sinnum á dag og komi aftur til þín sjö sinnum og segi: ‚Ég sé eftir þessu,‘ skaltu fyrirgefa honum.“+

5 Postularnir sögðu nú við Drottin: „Gefðu okkur meiri trú.“+ 6 Drottinn svaraði: „Ef þið hefðuð trú á við sinnepsfræ gætuð þið sagt við þetta mórberjatré: ‚Rífðu þig upp með rótum og gróðursettu þig í sjónum!‘ og það myndi hlýða ykkur.+

7 Segjum að einhver ykkar eigi þjón sem plægir eða gætir fjár. Segir hann þá við þjóninn þegar hann kemur inn af akrinum: ‚Komdu nú hingað og fáðu þér að borða‘? 8 Segir hann ekki öllu heldur: ‚Eldaðu handa mér kvöldmat, settu á þig svuntu og þjónaðu mér meðan ég borða og drekk. Síðan getur þú borðað og drukkið‘? 9 Varla verður hann þjóninum þakklátur fyrir að gera það sem var í hans verkahring. 10 Það sama á við um ykkur. Þegar þið hafið gert allt sem ykkur var falið skuluð þið segja: ‚Við erum ómerkilegir þjónar. Við höfum bara gert það sem við áttum að gera.‘“+

11 Á ferð Jesú til Jerúsalem lá leið hans á mörkum Samaríu og Galíleu. 12 Þegar hann kom að þorpi nokkru mættu honum tíu holdsveikir menn en stóðu þó í nokkurri fjarlægð.+ 13 Þeir hrópuðu: „Jesús, kennari, miskunnaðu okkur!“ 14 Þegar hann sá þá sagði hann við þá: „Farið og sýnið ykkur prestunum.“+ Á leiðinni þangað urðu þeir hreinir.+ 15 Einn þeirra sneri við þegar hann sá að hann hafði læknast og lofaði Guð háum rómi. 16 Hann féll á grúfu við fætur Jesú og þakkaði honum. En maðurinn var Samverji.+ 17 Jesús sagði þá: „Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru þá hinir níu? 18 Sneri enginn við til að lofa Guð nema þessi erlendi maður?“ 19 Síðan sagði hann við manninn: „Stattu á fætur og farðu leiðar þinnar. Trú þín hefur læknað þig.“+

20 Farísear spurðu hann nú hvenær ríki Guðs kæmi.+ Hann svaraði þeim: „Ríki Guðs kemur ekki þannig að mikið beri á. 21 Fólk mun ekki heldur segja: ‚Sjáið, það er hér!‘ eða: ‚Það er þar!‘ því að ríki Guðs er meðal ykkar.“+

22 Síðan sagði hann við lærisveinana: „Sá tími kemur að þið þráið að sjá einn af dögum Mannssonarins en fáið það ekki. 23 Menn munu segja við ykkur: ‚Sjáið, hann er þar!‘ eða: ‚Sjáið, hann er hér!‘ Farið ekki og hlaupið eftir þeim+ 24 því að Mannssonurinn+ verður á degi sínum eins og elding sem leiftrar frá einum enda himins til annars.+ 25 En fyrst þarf hann að þola miklar þjáningar og þessi kynslóð mun hafna honum.+ 26 Það verður eins á dögum Mannssonarins og var á dögum Nóa:+ 27 Fólk át og drakk, kvæntist og giftist fram til þess dags sem Nói gekk inn í örkina+ og flóðið kom og eyddi öllum.+ 28 Eins gerðist á dögum Lots:+ Fólk át og drakk, keypti og seldi, gróðursetti og byggði. 29 En daginn sem Lot fór út úr Sódómu rigndi eldi og brennisteini af himni og eyddi öllum.+ 30 Eins verður á þeim degi sem Mannssonurinn opinberast.+

31 Sá sem er uppi á þaki á þeim degi en er með eigur sínar í húsinu á ekki að fara niður til að sækja þær, og sá sem er úti á akri á ekki heldur að fara heim til að ná í það sem hann á. 32 Munið eftir konu Lots.+ 33 Hver sem reynir að bjarga lífi sínu týnir því en hver sem týnir lífi sínu varðveitir það.+ 34 Ég segi ykkur að þá nótt verða tveir í sama rúmi, annar verður tekinn en hinn skilinn eftir.+ 35 Tvær konur mala í sömu kvörn, önnur verður tekin en hin skilin eftir.“ 36* —— 37 Þeir spurðu hann þá: „Hvar, Drottinn?“ Hann svaraði: „Þar sem líkið er þar safnast ernirnir.“+

18 Síðan sagði hann þeim dæmisögu til að benda á að þeir þyrftu að biðja stöðugt og mættu ekki gefast upp.+ 2 „Í borg einni var dómari sem óttaðist hvorki Guð né virti nokkurn mann. 3 Í borginni bjó einnig ekkja sem kom ítrekað til hans og sagði: ‚Láttu mig ná rétti mínum gagnvart andstæðingi mínum.‘ 4 Lengi vel var hann ófús til þess en að lokum sagði hann við sjálfan sig: ‚Ég óttast hvorki Guð né virði nokkurn mann 5 en þar sem þessi ekkja hættir ekki að ónáða mig skal ég sjá til þess að hún nái rétti sínum. Annars heldur hún áfram að koma og gerir út af við mig með þessu nauði sínu.‘“*+ 6 Síðan sagði Drottinn: „Heyrið hvað dómarinn sagði þótt hann væri ranglátur. 7 Mun Guð þá ekki láta sína útvöldu, sem hrópa til hans dag og nótt, ná rétti sínum?+ Hann gerir það en er þolinmóður við þá.+ 8 Ég segi ykkur að hann lætur þá fljótt ná rétti sínum. En skyldi Mannssonurinn finna slíka trú* á jörð þegar hann kemur?“

9 Hann sagði einnig þessa dæmisögu við nokkra sem treystu að sjálfir væru þeir réttlátir og litu niður á aðra: 10 „Tveir menn fóru upp í musterið til að biðjast fyrir. Annar var farísei og hinn skattheimtumaður. 11 Faríseinn stóð og bað með sjálfum sér: ‚Guð, ég þakka þér fyrir að ég er ekki eins og allir aðrir – okrarar, ranglátir og þeir sem fremja hjúskaparbrot – eða þá eins og þessi skattheimtumaður. 12 Ég fasta tvisvar í viku og gef tíund af öllu sem ég eignast.‘+ 13 En skattheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni horfa til himins heldur barði sér á brjóst og sagði: ‚Guð, ég er syndugur. Miskunnaðu mér.‘+ 14 Ég segi ykkur að þessi maður fór heim til sín réttlátari en faríseinn+ því að hver sem upphefur sjálfan sig verður niðurlægður en hver sem auðmýkir sjálfan sig verður upphafinn.“+

15 Fólk kom nú til hans með ungbörn sín til að hann snerti þau en þegar lærisveinarnir sáu það fóru þeir að ávíta fólkið.+ 16 Jesús bað hins vegar um að komið væri með ungbörnin til sín og sagði: „Leyfið börnunum að koma til mín. Reynið ekki að hindra þau því að ríki Guðs tilheyrir þeim sem eru eins og þau.+ 17 Trúið mér, sá sem tekur ekki við ríki Guðs eins og lítið barn kemst alls ekki inn í það.“+

18 Einn af leiðtogum fólksins spurði hann nú: „Góði kennari, hvað þarf ég að gera til að hljóta eilíft líf?“+ 19 Jesús svaraði: „Hvers vegna kallarðu mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn.+ 20 Þú þekkir boðorðin: ‚Þú skalt ekki fremja hjúskaparbrot,+ þú skalt ekki myrða,+ þú skalt ekki stela,+ þú skalt ekki bera ljúgvitni,+ sýndu föður þínum og móður virðingu.‘“+ 21 Maðurinn sagði þá: „Allt þetta hef ég haldið frá unga aldri.“ 22 Þegar Jesús heyrði þetta sagði hann: „Enn vantar eitt upp á hjá þér: Seldu allt sem þú átt og skiptu fénu milli fátækra og þá áttu fjársjóð á himnum. Komdu síðan og fylgdu mér.“+ 23 Hann varð sárhryggur þegar hann heyrði þetta því að hann var mjög ríkur.+

24 Jesús leit á hann og sagði: „Mikið verður erfitt fyrir hina ríku að komast inn í ríki Guðs.+ 25 Reyndar er auðveldara fyrir úlfalda að komast gegnum nálarauga en fyrir ríkan mann að ganga inn í ríki Guðs.“+ 26 Þeir sem heyrðu þetta spurðu: „Hver getur þá bjargast?“+ 27 Hann svaraði: „Guð getur það sem mönnum er ógerlegt.“+ 28 En Pétur sagði: „Við höfum yfirgefið það sem við áttum og fylgt þér.“+ 29 Hann sagði við þá: „Trúið mér, enginn hefur yfirgefið heimili, eiginkonu, bræður, foreldra eða börn vegna ríkis Guðs+ 30 án þess að hann fái margfalt aftur á þessum tíma og í hinum komandi heimi* eilíft líf.“+

31 Jesús tók síðan þá tólf afsíðis og sagði við þá: „Nú erum við á leið upp til Jerúsalem og allt sem spámennirnir skrifuðu um Mannssoninn mun rætast.+ 32 Hann verður látinn í hendur manna af þjóðunum+ sem hæðast að honum,+ misþyrma honum og hrækja á hann.+ 33 Þeir munu húðstrýkja hann og taka af lífi+ en á þriðja degi rís hann upp.“+ 34 En þeir áttuðu sig ekki á hvað neitt af þessu merkti því að orðin voru þeim hulin og þeir skildu ekki það sem sagt var.

35 Jesús nálgaðist nú Jeríkó. Blindur maður sat við veginn og betlaði.+ 36 Hann heyrði að fjöldi fólks fór fram hjá og spurði hvað væri um að vera. 37 Honum var sagt: „Jesús frá Nasaret á leið hjá.“ 38 Þá hrópaði hann: „Jesús sonur Davíðs, miskunnaðu mér!“ 39 Þeir sem voru á undan höstuðu á hann og sögðu honum að þegja en hann hrópaði bara enn ákafar: „Sonur Davíðs, miskunnaðu mér!“ 40 Jesús nam þá staðar og bað um að komið yrði með manninn til sín. Þegar hann kom spurði Jesús hann: 41 „Hvað viltu að ég geri fyrir þig?“ Maðurinn svaraði: „Drottinn, gefðu mér sjónina aftur.“ 42 Jesús sagði við hann: „Fáðu sjónina aftur. Trú þín hefur læknað þig.“+ 43 Og hann endurheimti sjónina samstundis, fór að fylgja honum+ og lofa Guð. Þegar allt fólkið sá þetta fór það sömuleiðis að lofa Guð.+

19 Jesús kom nú til Jeríkó og gekk gegnum borgina. 2 Þar var maður sem hét Sakkeus. Hann var yfirskattheimtumaður og var ríkur. 3 Hann reyndi að sjá hver þessi Jesús væri en gat það ekki vegna mannfjöldans því að hann var lágvaxinn. 4 Hann hljóp því á undan og klifraði upp í mórfíkjutré til að sjá hann því að leið hans lá þar hjá. 5 Þegar Jesús kom þangað leit hann upp og sagði: „Sakkeus, flýttu þér niður því að ég ætla að heimsækja þig í dag.“ 6 Hann flýtti sér þá niður og tók glaður á móti honum á heimili sínu. 7 Þeir sem sáu þetta tautuðu allir: „Hann heimsækir syndugan mann.“+ 8 En Sakkeus reis á fætur og sagði við Drottin: „Ég gef fátækum helming eigna minna, Drottinn, og allt sem ég hef kúgað* út úr öðrum endurgreiði ég fjórfalt.“+ 9 Jesús sagði þá við hann: „Í dag hefur þetta heimili hlotið frelsun því að þú ert einnig sonur Abrahams. 10 Mannssonurinn kom til að leita að hinu týnda og bjarga því.“+

11 Meðan lærisveinarnir hlustuðu á þetta sagði hann aðra dæmisögu því að hann var í grennd við Jerúsalem og þeir héldu að ríki Guðs myndi birtast þegar í stað.+ 12 Hann sagði: „Maður af göfugum ættum ferðaðist til fjarlægs lands+ til að tryggja sér konungdóm og koma síðan aftur. 13 Hann kallaði á tíu þjóna sína, fékk þeim tíu mínur* og sagði: ‚Verslið með þær þangað til ég kem.‘+ 14 En samlandar hans hötuðu hann og gerðu út sendinefnd á eftir honum til að segja: ‚Við viljum ekki að þessi maður verði konungur yfir okkur.‘

15 Þegar hann kom aftur eftir að hafa tryggt sér konungdóm* kallaði hann fyrir sig þjónana sem hann hafði fengið peningana* til að kanna hve mikið þeir hefðu hagnast á viðskiptum sínum.+ 16 Sá fyrsti kom og sagði: ‚Herra, ég hef ávaxtað mínuna þína og fengið tíu í viðbót.‘+ 17 Konungurinn sagði við hann: ‚Vel gert, góði þjónn. Þar sem þú reyndist trúr í mjög litlu skaltu fá að ráða yfir tíu borgum.‘+ 18 Nú kom annar og sagði: ‚Herra, mínan þín gaf af sér fimm mínur.‘+ 19 Hann sagði eins við hann: ‚Ég set þig yfir fimm borgir.‘ 20 Þá kom enn einn og sagði: ‚Herra, hér er mínan þín. Ég vafði hana í dúk og faldi. 21 Ég var hræddur við þig því að þú ert strangur maður. Þú tekur út það sem þú lagðir ekki inn og uppskerð það sem þú sáðir ekki.‘+ 22 Hann sagði við hann: ‚Illi þjónn, ég dæmi þig eftir þínum eigin orðum. Þú vissir sem sagt að ég er strangur maður og tek út það sem ég lagði ekki inn og uppsker það sem ég sáði ekki.+ 23 Hvers vegna lagðirðu þá ekki peningana mína* í banka? Þá hefði ég fengið þá aftur með vöxtum þegar ég kom.‘

24 Síðan sagði hann við þá sem stóðu hjá: ‚Takið mínuna af honum og gefið þeim sem hefur tíu mínur.‘+ 25 En þeir sögðu við hann: ‚Herra, hann er með tíu mínur!‘ 26 Hann svaraði: ‚Ég segi ykkur að hverjum sem hefur verður gefið meira, en frá þeim sem hefur ekki verður tekið jafnvel það litla sem hann hefur.+ 27 Og komið með þessa óvini mína sem vildu ekki að ég yrði konungur yfir sér og takið þá af lífi frammi fyrir mér.‘“

28 Eftir að hafa sagt þetta hélt Jesús áfram upp til Jerúsalem. 29 Þegar hann nálgaðist Betfage og Betaníu við Olíufjallið+ sem svo er nefnt sendi hann tvo af lærisveinunum+ 30 og sagði: „Farið inn í þorpið hér fram undan og þegar þið komið þangað finnið þið fola sem er bundinn og enginn hefur nokkurn tíma komið á bak. Leysið hann og komið með hann hingað. 31 En ef einhver spyr ykkur: ‚Hvers vegna eruð þið að leysa hann?‘ skuluð þið svara: ‚Drottinn þarf á honum að halda.‘“ 32 Lærisveinarnir tveir fóru og fundu folann rétt eins og hann hafði sagt þeim.+ 33 En meðan þeir voru að leysa hann sögðu eigendur hans við þá: „Hvers vegna eruð þið að leysa folann?“ 34 „Drottinn þarf á honum að halda,“ svöruðu þeir. 35 Síðan leiddu þeir folann til Jesú, köstuðu yfirhöfnum sínum á hann og settu Jesú á bak.+

36 Menn breiddu yfirhafnir sínar á veginn þar sem leið hans lá.+ 37 Um leið og hann nálgaðist veginn niður af Olíufjallinu fögnuðu allir lærisveinarnir og lofuðu Guð háum rómi fyrir öll máttarverkin sem þeir höfðu séð 38 og sögðu: „Blessaður sé konungurinn sem kemur í nafni Jehóva!* Friður á himni og dýrð í hæstu hæðum!“+ 39 En nokkrir farísear í mannfjöldanum sögðu við hann: „Kennari, hastaðu á lærisveina þína.“+ 40 Hann svaraði: „Ég segi ykkur að ef þeir þegðu myndu steinarnir hrópa.“

41 Þegar hann nálgaðist borgina horfði hann yfir hana, grét+ 42 og sagði: „Ef þú hefðir aðeins skilið á þessum degi hvað veitir frið! En nú er það hulið augum þínum.+ 43 Þeir dagar koma að óvinir þínir reisa kringum þig virki úr oddhvössum staurum, umkringja þig og þrengja að þér á alla vegu.*+ 44 Þeir munu leggja þig og börn þín að velli+ og ekki láta standa stein yfir steini í þér+ þar sem þú áttaðir þig ekki á að tíminn var kominn til að dæma* þig.“

45 Síðan gekk hann inn í musterið, rak út þá sem voru að selja+ 46 og sagði við þá: „Skrifað stendur: ‚Hús mitt verður bænahús,‘+ en þið hafið gert það að ræningjabæli.“+

47 Hann kenndi nú daglega í musterinu. Yfirprestarnir, fræðimennirnir og leiðtogar þjóðarinnar leituðust við að ráða honum bana+ 48 en fundu enga leið til þess því að hann var umkringdur fólki sem hlustaði hugfangið á hann.+

20 Dag einn þegar hann var að kenna fólki í musterinu og boða fagnaðarboðskapinn komu yfirprestarnir og fræðimennirnir ásamt öldungunum 2 og sögðu við hann: „Segðu okkur, hvaða vald hefurðu til að gera þetta? Eða hver gaf þér þetta vald?“+ 3 Hann svaraði: „Ég ætla líka að spyrja ykkur spurningar og þið skuluð svara mér: 4 Var skírn Jóhannesar frá himni eða frá mönnum?“ 5 Þeir ráðfærðu sig þá hver við annan og sögðu: „Ef við segjum: ‚Frá himni,‘ segir hann: ‚Hvers vegna trúðuð þið honum ekki?‘ 6 En ef við segjum: ‚Frá mönnum,‘ þá grýtir allt fólkið okkur því að það er sannfært um að Jóhannes hafi verið spámaður.“+ 7 Þeir sögðust því ekki vita hvaðan hún væri. 8 Þá sagði Jesús: „Ég segi ykkur þá ekki heldur hvaða vald ég hef til að gera þetta.“

9 Síðan sagði hann fólkinu þessa dæmisögu: „Maður plantaði víngarð,+ leigði hann vínyrkjum, fór úr landi og dvaldi erlendis um alllangan tíma.+ 10 Þegar kom að uppskerunni sendi hann þræl til vínyrkjanna til að þeir gæfu honum hluta af uppskeru víngarðsins. En vínyrkjarnir börðu hann og sendu hann burt tómhentan.+ 11 Hann sendi þá annan þræl. Þeir börðu hann einnig, niðurlægðu og sendu burt tómhentan. 12 Hann sendi nú þriðja þrælinn og þeir misþyrmdu honum líka og köstuðu honum út. 13 Þá hugsaði eigandi víngarðsins með sér: ‚Hvað á ég að gera? Ég ætla að senda elskaðan son minn.+ Þeir hljóta að virða hann.‘ 14 Þegar vínyrkjarnir sáu hann báru þeir saman ráð sín og sögðu: ‚Þetta er erfinginn. Drepum hann svo að við getum fengið arfinn.‘ 15 Síðan köstuðu þeir honum út fyrir víngarðinn og drápu hann.+ Hvað gerir eigandi víngarðsins nú við þá? 16 Hann kemur og drepur vínyrkjana og fær öðrum víngarðinn.“

Þegar fólkið heyrði þetta sagði það: „Þetta má aldrei gerast!“ 17 En hann horfði beint á fólkið og sagði: „Hvað merkir þá ritningarstaðurinn þar sem stendur: ‚Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að aðalhornsteini‘?*+ 18 Hver sem fellur á þennan stein tortímist+ og sá sem steinninn fellur á verður sundurkraminn.“

19 Fræðimennirnir og yfirprestarnir vildu nú handsama hann þegar í stað því að þeir skildu að dæmisagan átti við þá en þeir óttuðust fólkið.+ 20 Eftir að hafa fylgst vandlega með honum sendu þeir til hans menn sem þeir höfðu ráðið með leynd. Þeir áttu að þykjast vera einlægir og reyna að hanka hann á orðum hans+ til að þeir gætu framselt hann yfirvöldum og á vald landstjórans. 21 Þeir spurðu hann: „Kennari, við vitum að þú talar og kennir það sem er rétt. Þú ert óhlutdrægur og kennir veg Guðs sannleikanum samkvæmt. 22 Höfum við leyfi til* að greiða keisaranum skatt eða ekki?“ 23 En hann sá í gegnum þá og sagði við þá: 24 „Sýnið mér denar.* Mynd hvers og áletrun er á honum?“ „Keisarans,“ svöruðu þeir. 25 Hann sagði við þá: „Gjaldið þá keisaranum það sem tilheyrir keisaranum+ en Guði það sem tilheyrir Guði.“+ 26 Þeim tókst ekki að fá hann til að tala af sér í áheyrn fólksins en undruðust svar hans og þögðu.

27 Nokkrir saddúkear, þeir sem segja að upprisa sé ekki til,+ komu nú til hans og spurðu:+ 28 „Kennari, Móse skrifaði: ‚Ef maður deyr og lætur eftir sig konu en engin börn skal bróðir hans giftast henni til að hún ali fyrri eiginmanni sínum afkomendur.‘+ 29 Nú voru sjö bræður. Sá fyrsti gifti sig en dó barnlaus. 30 Annar bróðirinn 31 og síðan sá þriðji giftust konunni og eins allir sjö en dóu allir barnlausir. 32 Að lokum dó svo konan. 33 Kona hvers verður hún þá í upprisunni? Allir sjö höfðu átt hana.“

34 Jesús svaraði þeim: „Börn þessa heims* kvænast og giftast 35 en þeir sem eru taldir þess verðir að fá hlutdeild í hinum komandi heimi og upprisunni frá dauðum kvænast hvorki né giftast.+ 36 Þeir geta ekki heldur dáið framar því að þeir eru eins og englar, og þeir eru börn Guðs þar sem þeir eru börn upprisunnar. 37 En jafnvel Móse sýndi fram á í frásögunni af þyrnirunnanum að dauðir rísi upp. Þar kallar hann Jehóva* ‚Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs‘.+ 38 Hann er ekki Guð dauðra heldur þeirra sem lifa því að þeir eru allir lifandi í augum hans.“+ 39 Þá sögðu nokkrir fræðimannanna: „Vel mælt, kennari.“ 40 En þeir þorðu ekki lengur að spyrja hann nokkurs.

41 Hann spurði þá hins vegar: „Hvernig stendur á því að fólk segir að Kristur sé sonur Davíðs?+ 42 Davíð segir sjálfur í Sálmunum: ‚Jehóva* sagði við Drottin minn: „Sittu mér til hægri handar 43 þar til ég legg óvini þína eins og skemil undir fætur þína.“‘+ 44 Davíð kallar hann sem sagt Drottin. Hvernig getur hann þá verið sonur hans?“

45 Jesús sagði síðan við lærisveinana í áheyrn alls fólksins: 46 „Varið ykkur á fræðimönnunum sem vilja ganga um í síðskikkjum og þykir gott að láta heilsa sér á torgunum, sitja í fremstu* sætunum í samkunduhúsum og virðingarsætum í veislum.+ 47 Þeir mergsjúga heimili* ekkna og flytja langar bænir til að sýnast. Þeir munu fá þyngri dóm.“

21 Jesús leit nú upp og sá efnamenn láta gjafir sínar í söfnunarbaukana.*+ 2 Hann sá líka fátæka ekkju leggja þar tvo smápeninga sem voru varla nokkurs virði.*+ 3 Þá sagði hann: „Trúið mér, þessi fátæka ekkja gaf meira en þeir allir+ 4 því að þeir gáfu af allsnægtum sínum en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti til að framfleyta sér.“+

5 Seinna minntust einhverjir á hve musterið væri skreytt fögrum steinum og helgigjöfum.+ 6 Þá sagði Jesús: „Þeir dagar koma að allt sem þið sjáið núna verður rifið niður og ekki stendur steinn yfir steini.“+ 7 Þeir spurðu hann þá: „Kennari, hvenær gerist þetta og hvert verður táknið um að þetta sé að koma fram?“+ 8 Hann svaraði: „Gætið þess að láta ekki blekkjast+ því að margir munu koma í mínu nafni og segja: ‚Ég er hann,‘ og: ‚Tíminn er í nánd.‘ Fylgið þeim ekki.+ 9 Og skelfist ekki þegar þið fréttið af stríðsátökum og ófriði.* Þetta þarf að gerast fyrst en endirinn kemur ekki strax.“+

10 Síðan sagði hann við þá: „Þjóð mun ráðast gegn þjóð+ og ríki gegn ríki.+ 11 Það verða miklir jarðskjálftar, og hungursneyðir og drepsóttir verða á einum stað eftir annan.+ Ógnvekjandi atburðir munu eiga sér stað og mikil tákn verða á himni.

12 En áður en allt þetta gerist mun fólk leggja hendur á ykkur og ofsækja ykkur,+ draga ykkur fyrir samkundur og varpa í fangelsi. Þið verðið leiddir fyrir konunga og landstjóra vegna nafns míns.+ 13 Það gefur ykkur tækifæri til að vitna fyrir þeim. 14 Einsetjið ykkur að æfa ekki fyrir fram hvernig þið ætlið að verja ykkur+ 15 því að ég gef ykkur orð og visku sem allir andstæðingar ykkar samanlagt geta hvorki andmælt né hrakið.+ 16 Jafnvel foreldrar, bræður, ættingjar og vinir munu framselja* ykkur og sumir ykkar verða teknir af lífi.+ 17 Allir munu hata ykkur vegna nafns míns+ 18 en ekki mun týnast eitt einasta hár á höfði ykkar.+ 19 Ef þið eruð þolgóðir varðveitið* þið líf ykkar.+

20 En þegar þið sjáið hersveitir umkringja Jerúsalem+ skuluð þið vita að eyðing hennar er í nánd.+ 21 Þá flýi þeir sem eru í Júdeu til fjalla,+ þeir sem eru inni í borginni yfirgefi hana og þeir sem eru í sveitunum fari ekki inn í hana 22 því að tíminn er þá kominn til að fullnægja réttlætinu* svo að allt rætist sem skrifað er. 23 Þetta verða skelfilegir dagar fyrir barnshafandi konur og þær sem eru með barn á brjósti+ því að mikil neyð verður í landinu og reiði yfir þessari þjóð. 24 Fólk mun falla fyrir sverði og verður flutt nauðugt til allra þjóða,+ og þjóðirnar* munu fótumtroða Jerúsalem þar til tilsettur tími þjóðanna* er á enda.+

25 Einnig verða tákn á sól, tungli og stjörnum,+ og á jörðinni angist þjóða sem eru ráðalausar við drunur og ólgu hafsins. 26 Menn verða máttvana af ótta við það sem þeir búast við að komi yfir heimsbyggðina því að kraftar himnanna nötra. 27 Þá sjá þeir Mannssoninn+ koma í skýi með mætti og mikilli dýrð.+ 28 En þegar þetta fer að gerast skuluð þið rétta úr ykkur og bera höfuðið hátt því að björgun ykkar er skammt undan.“

29 Hann sagði þeim nú líkingu: „Takið eftir fíkjutrénu og öllum hinum trjánum.+ 30 Þegar þau bruma sjáið þið og vitið að sumar er í nánd. 31 Eins skuluð þið vita þegar þið sjáið þetta gerast að ríki Guðs er í nánd. 32 Trúið mér, þessi kynslóð líður alls ekki undir lok fyrr en allt þetta gerist.+ 33 Himinn og jörð líða undir lok en orð mín líða alls ekki undir lok.+

34 Gætið ykkar að íþyngja ekki hjörtum ykkar með ofáti, drykkju+ og áhyggjum lífsins+ svo að dagurinn komi ekki skyndilega yfir ykkur 35 eins og snara.+ En hann kemur yfir alla sem búa á jörðinni. 36 Vakið+ því og biðjið stöðugt+ um að þið komist undan öllu þessu sem á að gerast og standist frammi fyrir Mannssyninum.“+

37 Á daginn kenndi hann í musterinu en fór á kvöldin og gisti á Olíufjallinu sem svo er nefnt. 38 En allt fólkið kom til hans snemma morguns til að hlusta á hann í musterinu.

22 Nú nálgaðist hátíð ósýrðu brauðanna sem er kölluð páskar.+ 2 Yfirprestarnir og fræðimennirnir veltu fyrir sér hvernig best væri að ryðja Jesú úr vegi+ því að þeir óttuðust fólkið.+ 3 Þá fór Satan í Júdas sem var kallaður Ískaríot og var einn þeirra tólf.+ 4 Hann fór og talaði við yfirprestana og varðforingja musterisins um það hvernig hann gæti svikið Jesú í hendur þeirra.+ 5 Þeir glöddust við þetta og komu sér saman um að greiða honum silfurpeninga fyrir.+ 6 Hann féllst á það og fór að leita að hentugu tækifæri til að svíkja hann í hendur þeirra þegar fólkið væri ekki nærri.

7 Nú rann upp dagur ósýrðu brauðanna þegar færa átti páskafórnina.+ 8 Jesús sendi þá Pétur og Jóhannes og sagði: „Farið og undirbúið páskamáltíðina handa okkur.“+ 9 „Hvar viltu að við undirbúum hana?“ spurðu þeir. 10 Hann svaraði þeim: „Þegar þið komið inn í borgina mætir ykkur maður sem ber vatnsker. Fylgið honum inn í húsið þangað sem hann fer+ 11 og segið við húsráðandann: ‚Kennarinn spyr þig: „Hvar er gestaherbergið þar sem ég get borðað páskamáltíðina með lærisveinum mínum?“‘ 12 Maðurinn sýnir ykkur þá stórt herbergi á efri hæð, búið húsgögnum. Undirbúið allt þar fyrir máltíðina.“ 13 Þeir fóru þá og fundu allt eins og hann hafði sagt þeim og undirbjuggu páskamáltíðina.

14 Þegar stundin rann upp lagðist hann til borðs með postulunum.+ 15 Og hann sagði við þá: „Ég hef hlakkað mikið til að borða þessa páskamáltíð með ykkur áður en ég þarf að þjást. 16 Ég segi ykkur að ég mun ekki neyta hennar framar fyrr en allt sem hún merkir uppfyllist í ríki Guðs.“ 17 Honum var réttur bikar og hann fór með þakkarbæn og sagði: „Takið hann og látið ganga á milli ykkar. 18 Ég segi ykkur að héðan í frá drekk ég ekki af ávexti vínviðarins fyrr en ríki Guðs kemur.“

19 Hann tók einnig brauð,+ fór með þakkarbæn, braut það, gaf þeim og sagði: „Þetta táknar líkama minn+ sem verður gefinn í ykkar þágu.+ Gerið þetta til minningar um mig.“+ 20 Eins tók hann bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: „Þessi bikar táknar nýja sáttmálann.+ Hann er fullgiltur með blóði mínu+ sem verður úthellt í ykkar þágu.+

21 En vitið að sá sem svíkur mig er hér við borðið hjá mér.+ 22 Mannssonurinn fer vissulega sína leið eins og ákveðið hefur verið+ en illa fer fyrir þeim sem svíkur hann!“+ 23 Þeir fóru þá að ræða sín á milli hver þeirra gæti fengið sig til að gera slíkt.+

24 Síðan fóru þeir að rífast um hver þeirra væri talinn mestur.+ 25 En Jesús sagði við þá: „Konungar þjóðanna drottna yfir þeim og valdhafar þeirra eru kallaðir velgjörðarmenn.+ 26 Þið megið ekki vera þannig+ heldur á sá sem er mestur á meðal ykkar að vera eins og hann sé yngstur+ og sá sem fer með forystu eins og þjónn. 27 Hvor er meiri, sá sem liggur til borðs eða sá sem þjónar? Er það ekki sá sem liggur til borðs? Samt er ég eins og þjónninn meðal ykkar.+

28 En það eruð þið sem hafið staðið með mér+ í prófraunum mínum.+ 29 Og ég geri sáttmála við ykkur um ríki, eins og faðir minn hefur gert sáttmála við mig,+ 30 til að þið getið borðað og drukkið við borð mitt í ríki mínu+ og setið í hásætum+ og dæmt 12 ættkvíslir Ísraels.+

31 Símon, Símon, Satan hefur krafist þess að fá að sigta ykkur eins og hveiti.+ 32 En ég hef beðið ákaft fyrir þér að trú þín bregðist ekki+ og þegar þú ert snúinn aftur skaltu styrkja bræður þína.“+ 33 Þá svaraði hann: „Drottinn, ég er tilbúinn að fylgja þér bæði í fangelsi og dauða.“+ 34 En Jesús sagði: „Ég segi þér, Pétur, að áður en hani galar í dag verðurðu búinn að neita þrisvar að þú þekkir mig.“+

35 Hann sagði nú við þá: „Skorti ykkur nokkuð þegar ég sendi ykkur út án þess að hafa peningapyngju, nestispoka og sandala meðferðis?“+ „Nei,“ svöruðu þeir. 36 Þá sagði hann: „En nú skal sá sem á pyngju taka hana með sér ásamt nestispoka, og sá sem á ekki sverð selji yfirhöfn sína og kaupi sér sverð. 37 Ég segi ykkur að það sem skrifað er þarf að rætast á mér, það er að segja: ‚Hann var talinn með afbrotamönnum.‘+ Þetta er nú að rætast á mér.“+ 38 Þeir sögðu: „Sjáðu, Drottinn, hér eru tvö sverð.“ „Það nægir,“ svaraði hann.

39 Jesús fór nú til Olíufjallsins eins og hann var vanur og lærisveinarnir fylgdu honum.+ 40 Þegar þeir komu á staðinn sagði hann við þá: „Biðjið svo að þið fallið ekki í freistni.“+ 41 Hann fór steinsnar frá þeim, féll á kné og bað: 42 „Faðir, ef þú vilt, taktu þá þennan bikar frá mér. En verði þó ekki minn vilji heldur þinn.“+ 43 Þá birtist honum engill af himni sem styrkti hann.+ 44 En hann var svo angistarfullur að hann baðst enn heitar fyrir+ og sviti hans varð eins og blóðdropar sem féllu á jörðina. 45 Eftir bænina stóð hann upp, gekk til lærisveinanna og kom að þeim sofandi, örmagna af hryggð.+ 46 Hann sagði við þá: „Hvers vegna sofið þið? Standið upp og biðjið stöðugt svo að þið fallið ekki í freistni.“+

47 Meðan hann var enn að tala kom hópur manna og fremstur var Júdas, einn þeirra tólf. Hann gekk að Jesú til að kyssa hann.+ 48 En Jesús sagði við hann: „Júdas, svíkurðu Mannssoninn með kossi?“ 49 Þegar þeir sem voru með honum sáu hvað var að gerast sögðu þeir: „Drottinn, eigum við að grípa til sverðs?“ 50 Einn þeirra hjó meira að segja til þjóns æðstaprestsins og sneið af honum hægra eyrað.+ 51 Þá sagði Jesús: „Þetta er nóg.“ Síðan snerti hann eyra mannsins og læknaði hann. 52 Jesús sagði þessu næst við yfirprestana, varðforingja musterisins og öldungana sem höfðu komið til að handtaka hann: „Komuð þið vopnaðir sverðum og bareflum eins og ég væri ræningi?+ 53 Ég var hjá ykkur í musterinu dag eftir dag+ og ekki lögðuð þið hendur á mig þá.+ En þetta er ykkar tími og myrkrið hefur völdin.“+

54 Þá tóku þeir hann höndum, leiddu hann burt+ og fóru með hann í hús æðstaprestsins en Pétur fylgdi á eftir í nokkurri fjarlægð.+ 55 Menn kveiktu eld í miðjum húsagarðinum og settust við hann og Pétur sat meðal þeirra.+ 56 Þjónustustúlka virti hann fyrir sér þar sem hann sat í bjarmanum af eldinum og sagði: „Þessi maður var líka með honum.“ 57 En hann neitaði því og sagði: „Kona, ég þekki hann ekki.“ 58 Stuttu síðar kom maður nokkur auga á hann og sagði: „Þú ert líka einn af þeim.“ En Pétur svaraði: „Nei, það er ég ekki.“+ 59 Eftir um það bil klukkustund sagði annar maður ákveðinn í bragði: „Víst var þessi maður með honum enda er hann Galíleumaður.“ 60 Pétur svaraði: „Ég skil ekki hvað þú ert að tala um.“ Áður en hann sleppti orðinu galaði hani. 61 Drottinn sneri sér þá við og horfði beint á Pétur, og Pétur minntist þess sem Drottinn hafði sagt við hann: „Áður en hani galar í dag muntu afneita mér þrisvar.“+ 62 Og hann gekk út og grét beisklega.

63 Mennirnir sem höfðu Jesú í haldi fóru nú að hæðast að honum+ og berja hann,+ 64 og þeir huldu andlit hans og sögðu: „Sýndu að þú sért spámaður! Hver var það sem sló þig?“ 65 Og þeir jusu mörgum öðrum svívirðingum yfir hann.

66 Þegar birti af degi safnaðist öldungaráðið saman, bæði yfirprestar og fræðimenn,+ og lét leiða hann inn í sal Æðstaráðsins. Þeir sögðu: 67 „Ef þú ert Kristur, þá segðu okkur það.“+ Hann svaraði: „Þó að ég segði ykkur það mynduð þið ekki trúa því 68 og ef ég spyrði ykkur einhvers mynduð þið ekki svara. 69 En héðan í frá mun Mannssonurinn+ sitja við máttuga hægri hönd Guðs.“+ 70 Þá spurðu þeir allir: „Ertu þá sonur Guðs?“ Hann svaraði: „Þið segið að ég sé það.“ 71 Þeir sögðu: „Þurfum við nokkuð fleiri vitni? Við höfum heyrt þetta af munni hans sjálfs.“+

23 Allur hópurinn hélt nú af stað og fór með hann til Pílatusar.+ 2 Þar ákærðu þeir hann+ og sögðu: „Við höfum komist að raun um að þessi maður snýr þjóð okkar gegn yfirvöldum, bannar að greiða keisaranum skatt+ og segist sjálfur vera Kristur, konungur.“+ 3 Pílatus spurði hann: „Ertu konungur Gyðinga?“ Hann svaraði: „Þú segir það sjálfur.“+ 4 Pílatus sagði þá við yfirprestana og mannfjöldann: „Ég finn ekkert saknæmt hjá þessum manni.“+ 5 En þeir urðu enn ákafari og sögðu: „Hann æsir upp fólkið með því sem hann kennir um alla Júdeu. Hann byrjaði í Galíleu og er kominn alla leið hingað.“ 6 Þegar Pílatus heyrði þetta spurði hann hvort maðurinn væri frá Galíleu. 7 Eftir að hafa fullvissað sig um að hann væri úr umdæmi Heródesar+ sendi hann hann til Heródesar sem var staddur í Jerúsalem um þetta leyti.

8 Heródes var hinn ánægðasti þegar hann sá Jesú. Hann hafði lengi langað til að hitta hann því að hann hafði heyrt margt um hann+ og vonaðist til að sjá hann gera eitthvert kraftaverk. 9 Hann fór því að spyrja Jesú í þaula en hann svaraði honum ekki.+ 10 En yfirprestarnir og fræðimennirnir stóðu upp í sífellu og ákærðu hann með miklum ofsa. 11 Heródes lítilsvirti hann ásamt hermönnum sínum,+ klæddi hann í skartklæði til að hæðast að honum+ og sendi hann síðan aftur til Pílatusar. 12 Þennan dag urðu Heródes og Pílatus vinir, en áður hafði verið fjandskapur milli þeirra.

13 Pílatus kallaði nú saman yfirprestana, leiðtogana og fólkið 14 og sagði: „Þið komuð með þennan mann til mín og sögðuð að hann æsti fólkið til uppreisnar. Nú hef ég yfirheyrt hann að ykkur viðstöddum en ekki fundið hann sekan um neitt sem þið ákærið hann fyrir.+ 15 Heródes gerði það ekki heldur úr því að hann sendi hann aftur til okkar. Maðurinn hefur greinilega ekki gert neitt til að verðskulda dauðadóm. 16 Ég ætla því að refsa honum+ og láta hann lausan.“ 17* —— 18 En allur mannfjöldinn hrópaði: „Burt með þennan mann og láttu Barabbas lausan!“+ 19 (Honum hafði verið varpað í fangelsi fyrir að æsa til uppreisnar í borginni og fyrir morð.) 20 Pílatus kallaði aftur til þeirra vegna þess að hann vildi láta Jesú lausan.+ 21 Þá æpti fólkið: „Staurfestu hann! Staurfestu hann!“+ 22 Hann sagði þá í þriðja sinn: „Af hverju? Hvað hefur þessi maður brotið af sér? Ég hef ekki fundið neina dauðasök hjá honum. Þess vegna ætla ég að refsa honum og láta hann lausan.“ 23 En fólkið gafst ekki upp heldur æpti enn hærra og heimtaði að hann yrði líflátinn.* Hrópin voru svo hávær+ 24 að Pílatus ákvað að láta undan kröfu fólksins. 25 Hann lét lausan manninn sem fólkið krafðist, manninn sem hafði verið varpað í fangelsi fyrir að æsa til uppreisnar og fyrir morð, en framseldi Jesú til aftöku eins og það vildi.

26 Þegar þeir leiddu hann burt tóku þeir Símon nokkurn frá Kýrene sem var að koma utan úr sveit, lögðu kvalastaurinn* á herðar honum og létu hann bera hann á eftir Jesú.+ 27 Mikill fjöldi fólks fylgdi honum, þar á meðal konur sem börðu sér á brjóst og grétu yfir honum. 28 Jesús sneri sér að konunum og sagði: „Dætur Jerúsalem, grátið ekki yfir mér. Grátið heldur yfir sjálfum ykkur og börnum ykkar+ 29 því að þeir dagar koma að fólk segir: ‚Þær konur eru lánsamar sem eiga ekki börn, þær sem hafa ekki fætt og hafa ekki verið með barn á brjósti.‘+ 30 Þá mun fólk segja við fjöllin: ‚Hrynjið yfir okkur!‘ og við hæðirnar: ‚Hyljið okkur!‘+ 31 Ef þetta gerist meðan tréð er grænt, hvað gerist þá þegar það er visnað?“

32 Tveir afbrotamenn voru einnig færðir til aftöku með honum.+ 33 Þegar komið var á staðinn sem kallast Hauskúpa+ staurfestu hermennirnir hann og afbrotamennina, annan honum til hægri handar og hinn til vinstri.+ 34 En Jesús sagði: „Faðir, fyrirgefðu þeim því að þeir vita ekki hvað þeir eru að gera.“ Þeir vörpuðu síðan hlutkesti til að skipta fötum hans á milli sín.+ 35 Fólkið stóð og horfði á en leiðtogarnir gerðu gys að honum og sögðu: „Öðrum bjargaði hann. Nú ætti hann að bjarga sjálfum sér ef hann er Kristur Guðs, hinn útvaldi.“+ 36 Hermennirnir hæddust jafnvel að honum, komu til hans og buðu honum súrt vín+ 37 og sögðu: „Ef þú ert konungur Gyðinga bjargaðu þá sjálfum þér.“ 38 Og fyrir ofan hann stóð: „Þetta er konungur Gyðinga.“+

39 Annar afbrotamannanna sem voru staurfestir með honum hæddist að honum+ og sagði: „Ertu ekki Kristur? Bjargaðu þá sjálfum þér og okkur líka.“ 40 Hinn ávítaði hann og sagði: „Óttastu Guð ekki neitt, þú sem hefur fengið sama dóm og þessi maður? 41 Við höfum fengið réttlátan dóm og hljótum verðskuldaða refsingu fyrir það sem við gerðum en þessi maður hefur ekkert brotið af sér.“ 42 Síðan sagði hann: „Jesús, mundu eftir mér þegar þú kemur í ríki þitt.“+ 43 Hann svaraði: „Ég lofa þér í dag að þú verður með mér í paradís.“+

44 Nú var komið að sjöttu stund* en samt skall á myrkur í öllu landinu og það stóð fram á níundu stund*+ 45 því að sólin hætti að lýsa. Síðan rifnaði fortjald musterisins+ sundur í miðju.+ 46 Jesús kallaði hárri röddu: „Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn.“+ Að svo mæltu gaf hann upp andann.+ 47 Þegar liðsforinginn sá hvað gerðist lofaði hann Guð og sagði: „Þessi maður var sannarlega réttlátur.“+ 48 Og þegar allir sem höfðu safnast þar saman til að fylgjast með aftökunni sáu hvað gerðist börðu þeir sér á brjóst og sneru heim. 49 Allir sem þekktu hann stóðu í nokkurri fjarlægð og konurnar sem höfðu fylgt honum frá Galíleu voru einnig þar og sáu þessa atburði.+

50 Maður nokkur hét Jósef. Hann sat í Ráðinu og var góður og réttlátur maður.+ 51 (Hann hafði ekki greitt atkvæði með ráðagerð þeirra og verknaði.) Hann var frá Arímaþeu, borg í Júdeu, og vænti ríkis Guðs. 52 Hann gekk nú fyrir Pílatus og bað um lík Jesú. 53 Hann tók það niður,+ vafði það í dúk úr fínu líni og lagði það í gröf, höggna í klett,+ þar sem enginn hafði áður verið lagður. 54 Þetta var undirbúningsdagur+ og hvíldardagurinn+ var að ganga í garð. 55 Konurnar sem höfðu komið með Jesú frá Galíleu fylgdu á eftir til að sjá gröfina og hvernig líkinu var komið fyrir+ 56 og fóru síðan aftur til að hafa til ilmjurtir og ilmolíur. En þær hvíldust auðvitað á hvíldardeginum+ í samræmi við boðorðið.

24 Eldsnemma á fyrsta degi vikunnar komu þær til grafarinnar og höfðu meðferðis ilmjurtirnar sem þær höfðu tekið til.+ 2 Þá sáu þær að steininum hafði verið velt frá gröfinni+ 3 og þegar þær stigu inn fundu þær ekki lík Drottins Jesú.+ 4 Þær vissu ekki hvað þær áttu að halda en skyndilega stóðu hjá þeim tveir menn í skínandi fötum. 5 Konurnar urðu hræddar og lutu höfði til jarðar. Mennirnir sögðu þá við þær: „Hvers vegna leitið þið að hinum lifandi meðal hinna dánu?+ 6 Hann er ekki hér heldur er hann risinn upp. Munið hvað hann sagði ykkur meðan hann var enn í Galíleu. 7 Hann sagði að Mannssonurinn yrði látinn í hendur syndugra manna og staurfestur og myndi rísa upp á þriðja degi.“+ 8 Þá mundu þær hvað hann hafði sagt,+ 9 sneru aftur frá gröfinni og sögðu þeim ellefu og öllum hinum frá þessu.+ 10 Þetta voru þær María Magdalena, Jóhanna og María móðir Jakobs. Hinar konurnar sem voru með þeim sögðu postulunum einnig frá þessu. 11 En þeim fannst þetta fráleitt og trúðu ekki konunum.

12 Pétur stóð þó upp og hljóp til grafarinnar, beygði sig og leit inn fyrir en sá ekkert nema líndúkana. Hann gekk því burt og braut heilann um það sem hafði gerst.

13 Sama dag voru tveir lærisveinar á leið til þorps sem heitir Emmaus og er um 11 kílómetra* frá Jerúsalem. 14 Þeir ræddu sín á milli um allt sem hafði gerst.

15 Meðan þeir voru að tala saman og ræða þetta kom Jesús til þeirra og slóst í för með þeim 16 en þeir gátu ekki þekkt hann.+ 17 Hann sagði við þá: „Um hvað ræðið þið svona ákaft á göngu ykkar?“ Þeir námu staðar, daprir í bragði. 18 Annar þeirra, Kleófas að nafni, svaraði: „Ertu aðkomumaður og dvelurðu einn í Jerúsalem? Veistu ekki* hvað hefur gerst þar undanfarna daga?“ 19 „Hvað eigið þið við?“ spurði hann. Þeir svöruðu: „Hefurðu ekki heyrt um Jesú frá Nasaret+ sem reyndist vera spámaður, máttugur í orði og verki frammi fyrir Guði og öllum mönnum?+ 20 Yfirprestar okkar og leiðtogar fengu hann dæmdan til dauða+ og staurfestu hann. 21 Við vonuðum að það væri þessi maður sem myndi frelsa Ísrael.+ En nú er þriðji dagurinn síðan þetta gerðist. 22 Auk þess hafa nokkrar konur úr hópi okkar valdið okkur mikilli undrun. Þær fóru til grafarinnar snemma í morgun+ 23 en fundu ekki lík hans. Þær komu þá og sögðust hafa séð engla í sýn sem sögðu að hann væri lifandi. 24 Nokkrir okkar fóru þá til grafarinnar+ og fundu allt eins og konurnar höfðu sagt en hann sáu þeir ekki.“

25 Þá sagði hann við þá: „Þið skilningslausu menn, svo tregir í hjarta til að trúa öllu því sem spámennirnir hafa talað. 26 Þurfti ekki Kristur að líða þessar þjáningar+ til að ganga inn í dýrð sína?“+ 27 Hann byrjaði síðan á Móse og öllum spámönnunum+ og skýrði fyrir þeim það sem segir um hann í öllum Ritningunum.

28 Þeir nálguðust nú þorpið sem þeir voru á leið til en hann lét sem hann ætlaði að halda lengra. 29 Þeir hvöttu hann þá til að staldra við og sögðu: „Gistu hjá okkur því að það er framorðið og dagurinn næstum á enda.“ Hann fór þá með þeim. 30 Þegar hann borðaði* með þeim tók hann brauðið, blessaði það, braut það og rétti þeim.+ 31 Þá opnuðust augu þeirra og þeir þekktu hann en hann hvarf sjónum þeirra.+ 32 Þeir sögðu þá hvor við annan: „Brann ekki hjartað í okkur meðan hann talaði við okkur á veginum og skýrði Ritningarnar vandlega fyrir okkur?“ 33 Þeir stóðu tafarlaust á fætur, sneru aftur til Jerúsalem og fundu þar þá ellefu og þá sem voru samankomnir með þeim. 34 Þeir sem voru þar fyrir sögðu: „Drottinn er í alvöru risinn upp og hefur birst Símoni!“+ 35 Tvímenningarnir sögðu þá frá því sem hafði gerst á veginum og hvernig þeir höfðu þekkt hann þegar hann braut brauðið.+

36 Meðan lærisveinarnir voru að tala um þetta stóð hann allt í einu mitt á meðal þeirra og sagði: „Friður sé með ykkur.“+ 37 Þeim brá og þeir urðu hræddir og héldu að þetta væri andi. 38 Hann sagði því við þá: „Hvers vegna eruð þið hræddir og hvers vegna efist þið í hjörtum ykkar? 39 Lítið á hendur mínar og fætur. Þetta er ég. Snertið mig og sjáið. Andi hefur ekki hold og bein eins og þið sjáið að ég hef.“ 40 Um leið og hann sagði þetta sýndi hann þeim hendur sínar og fætur. 41 En þeir voru svo glaðir og undrandi að þeir trúðu ekki sínum eigin augum. Þá sagði hann: „Eigið þið eitthvað að borða?“ 42 Þeir réttu honum þá steiktan fiskbita 43 og hann tók við honum og borðaði meðan þeir horfðu á.

44 Síðan sagði hann: „Munið að meðan ég var enn þá með ykkur sagði ég að allt sem er skrifað um mig í Móselögunum, spámönnunum og sálmunum yrði að rætast.“+ 45 Síðan lauk hann upp huga þeirra þannig að þeir skildu Ritningarnar+ 46 og sagði: „Það stendur skrifað að Kristur muni þjást og rísa upp frá dauðum á þriðja degi,+ 47 að í nafni hans verði boðað meðal allra þjóða+ að iðrandi syndarar geti fengið fyrirgefningu+ og að boðunin skuli hefjast í Jerúsalem.+ 48 Þið eigið að vitna um þetta.+ 49 Ég sendi ykkur það sem faðir minn hefur lofað að gefa ykkur. En verið um kyrrt í borginni þangað til þið íklæðist krafti frá himni.“+

50 Síðan fór hann með þá að Betaníu. Hann lyfti upp höndunum og blessaði þá 51 og meðan hann blessaði þá skildi hann við þá og var tekinn upp til himins.+ 52 Þeir veittu honum lotningu* og sneru aftur til Jerúsalem ákaflega glaðir.+ 53 Og þeir voru stöðugt í musterinu og lofuðu Guð.+

Sjá orðaskýringar.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Eða „frá móðurkviði“.

Sjá viðauka A5.

Það er, Guði.

Eða „snúa hjörtum feðra til barna“.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Eða „ekkert er Guði ofviða“.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Eða „Allt sem í mér býr“. Sjá orðaskýringar.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Eða „máttugan frelsara“. Sjá orðaskýringar, „horn“.

Sjá viðauka A5.

Orðrétt „sterkur í anda“.

Orðrétt „alla heimsbyggðina“.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Orðrétt „Allt karlkyns sem opnar móðurlíf“.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Eða „koma hugsanir margra hjartna“.

Orðrétt „frá því að hún var mey“.

Sjá viðauka A5.

Eða „undirgefinn“.

Það er, Heródes Antípas. Sjá orðaskýringar.

Orðrétt „fjórðungsstjóri; tetrarki“.

Sjá viðauka A5.

Orðrétt „allt hold mun“.

Eða „sjá hvernig Guð frelsar“.

Eða „Sýnið í verki“.

Eða „á aukaföt“.

Eða „Innheimtið“.

Eða „fáið í laun“.

Áhald sem var notað til að skilja hismið frá korninu.

Orðrétt „líkamlegri“.

Sjá viðauka A5.

Eða „brjóstrið; efstu brún“.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Eða „hreinsaður“.

Það er, Galíleuvatn.

Sjá viðauka A5.

Eða „lá til borðs“.

Eða „lamaða“.

Eða „lömuðu“.

Eða „sál“.

Eða „hafna ykkur sem illvirkjum“.

Það er, vaxtalaust.

Eða „Sýknið og þið verðið sýknuð“.

Eða „Lærisveinn“.

Eða „mjúkum“.

Eða „ráð“.

Eða „réttlætist af öllum börnum sínum“.

Eða „lægi til borðs“.

Sjá viðauka B14.

Eða „miklar“.

Eða hugsanl. „hafði lengi haldið honum föngnum“.

Eða „bröttum bakkanum“.

Orðrétt „bjargast“.

Eða „lífskraftur“.

Orðrétt „silfur“.

Orðrétt „tvo kyrtla“.

Það er, Heródes Antípas. Sjá orðaskýringar.

Orðrétt „fjórðungsstjóri; tetrarki“.

Sjá orðaskýringar.

Orðrétt „Nú fullnuðust brátt þeir dagar“.

Orðrétt „hann sneri andlitinu í átt að“.

Eða „heilsið engum með faðmlagi“.

Eða „Hades“, það er, sameiginlega gröf mannkyns. Sjá orðaskýringar.

Sjá viðauka A5.

Sjá orðaskýringar.

Sjá viðauka B14.

Orðrétt „á orð hans“.

Eða „besta“.

Eða „verði upphafið; verði virt sem heilagt“.

Eða „leyfðu ekki að við látum undan freistingu“.

Heiti sem er notað um Satan.

Orðrétt „sonum“.

Eða „mæliker“.

Eða „beinist að einu“. Orðrétt „er einfalt“.

Eða „upplýstur“.

Orðrétt „illt“.

Það er, þvo sér eftir helgisiðareglum Gyðinga.

Eða „gefið miskunnargjafir“. Sjá orðaskýringar.

Eða „öllu öðru grænmeti“.

Eða „bestu“.

Eða „ómerktar grafir“.

Eða „krafin um blóð“.

Orðrétt „hússins“.

Eða „krafin um það“.

Sjá orðaskýringar.

Orðrétt „tvo assaríona“. Sjá viðauka B14.

Eða „yfirsést Guði enginn“.

Eða hugsanl. „fyrir samkundur“.

Eða „ágirnd“.

Eða „í nótt verður sál þín heimtuð af þér“.

Sjá viðauka B14.

Eða „gefið miskunnargjafir“. Sjá orðaskýringar.

Orðrétt „gyrt um lendar ykkar“.

Eða „gyrðir sig belti“.

Frá um kl. 21 til miðnættis.

Frá miðnætti til um kl. 3.

Orðrétt „á hvaða stundu“.

Orðrétt „á stundu sem“.

Eða „hyggni“.

Eða „bústjóri“.

Eða „né fór að vilja hans“.

Orðrétt „síðasta leptoninn“. Sjá viðauka B14.

Eða „kona sem hafði verið haldin sjúkleiksanda“.

Orðrétt „þrjár seur“. Sea jafngilti 7,33 l. Sjá viðauka B14.

Eða „liggja“.

Eða „útilokað“.

Sjá viðauka A5.

Orðrétt „borðar brauð“.

Eða „pör“.

Eða „og hatar ekki“.

Sjá orðaskýringar.

Eða „kveðji“.

Sjá viðauka B14.

Sjá viðauka B14.

Eða „óhófsömu; glæfralegu“.

Orðrétt „féll um háls honum“.

Eða „heill heilsu“.

Eða „bústjóra“.

Eða „böt“. Bat jafngilti 22 l. Sjá viðauka B14.

Eða „Hundrað kór“. Kór jafngilti 220 l. Sjá viðauka B14.

Eða „kænskuna; hyggnina“.

Eða „þessarar aldar“. Sjá orðaskýringar, „heimsskipan“.

Orðrétt „en synir ljóssins“.

Eða „auðæfin í þessum rangláta heimi“.

Eða „Hades“, það er, sameiginlegri gröf mannkyns. Sjá orðaskýringar.

Orðrétt „í faðmi hans“.

Sjá viðauka A3.

Eða „gengur frá mér með barsmíðum sínum“.

Orðrétt „trúna“.

Eða „á hinni komandi öld“. Sjá orðaskýringar, „heimsskipan“.

Eða „kúgað með röngum ákærum“.

Grísk mína vó 340 g og var talin jafngilda 100 drökmum. Sjá viðauka B14.

Eða „konungsríkið“.

Orðrétt „silfrið“.

Orðrétt „silfrið mitt“.

Sjá viðauka A5.

Eða „setjast um þig“.

Orðrétt „skoða“.

Orðrétt „efsta hluta hornsins“.

Eða „Er rétt af okkur“.

Sjá viðauka B14.

Eða „þessarar aldar“. Sjá orðaskýringar, „heimsskipan“.

Sjá viðauka A5.

Sjá viðauka A5.

Eða „bestu“.

Eða „eigur“.

Eða „fjárhirslurnar“.

Orðrétt „tvo leptona“. Sjá viðauka B14.

Eða „óeirðum; uppreisnum“.

Eða „svíkja“.

Eða „ávinnið“.

Eða „því að þetta eru refsingardagar“.

Eða „heiðingjarnir“.

Eða „heiðingjanna“.

Sjá viðauka A3.

Eða „staurfestur“.

Sjá orðaskýringar.

Það er, um kl. 12.

Það er, um kl. 15.

Orðrétt „60 skeiðrúm“. Skeiðrúm var 185 m. Sjá viðauka B14.

Eða hugsanl. „Ertu eini aðkomumaðurinn í Jerúsalem sem veit ekki“.

Eða „lá til borðs“.

Eða „krupu fyrir honum“.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila